
Orðið þjóðtrú er notað um trúarviðhorf af ýmsu tagi sem falla að jafnaði utan viðurkenndra trúarbragða en eru þó bundin menningu, siðum og venjum fólks. Oft er þetta trú á yfirnáttúrleg fyrirbæri sem birtist í sambandi við ýmislega reynslu sem fólk skýrir fyrir sér með tilvísun til trúarinnar. Orðið “þjóð” í þjóðtrú vísar til fólks en ekki hugmynda um þjóðir og þjóðríki. Þjóðtrú Íslendinga er því ekki mjög ólík þjóðtrú annarra “þjóða” heldur saman sett úr hugmyndum sem bárust hingað á landnámsöld, bæði frá Norðurlöndum og Bretlandseyjum, í bland við nýsköpun og aðlögun sem hér hefur átt sér stað. Helst má segja að útilegumannatrúin hafi séríslensk einkenni og margt í álfa- og huldufólkstrúnni ber fremur keim af gelískri þjóðtrú meðal Íra og Skota en því sem þekkist meðal Norðmanna. Þessi menningarblanda er í ágætu samræmi við það sem ritheimildir segja um uppruna landsmanna og fellur vel að þeim erfðarannsóknum sem sýna að hér hefur blandast fólk af ólíku þjóðerni frá öndverðu. Hin síðari ár hefur nokkuð verið deilt um einlægni fólks í sambandi við þjóðtrú. Árni Björnsson hefur sett fram þá hugmynd að fólk hafi alla tíð fyrst og fremst sagt þjóðtrúarsögur sér til skemmtunar á meðan tiltölulega fáir hafi lagt raunverulegan trúnað á þær. Á móti því hefur Valdimar Hafstein skrifað að margt bendi einmitt til að að þjóðtrúin sé einlæg og hafi beinlínis áhrif á gjörðir fólks. Yfirlit um þjóðtrú má fá í kafla Jóns Hnefils Aðalsteinssonar í 5. bindi Íslenskrar þjóðmenningar (1988) og um gelísku tengslin hefur Bo Almqvist skrifað ritgerðina „Gaelic/Norse folklore contacts: Some reflections on their scope and character.“ Irland und Europa im Früheren Mittelalter (1996), 139-172. Þá fjalla bækur Símonar Jóns Jóhannssonar um þjóðtrú eða „hjátrú“ Íslendinga: Sjö, níu, þrettán (1993) og Stóra hjátrúarbókin (1999). Grein Árna Björnssonar „Hvað merkir þjóðtrú?“ birtist í Skírni vorið 1996 og Valdimar Tr. Hafstein svaraði honum meðal annars með greininni „Respekt fyrir steinum: Álfatrú og náttúrusýn“ í Rannsóknum í félagsvísindum 2 (1998). Sjá einnig svar höfundar við spurningunni Dvöldu útilegumennirnir einir á fjöllum eða héldu þér til í hópum? Var fólk almennt hrætt við þá? og svar Valdimars Tr. Hafstein við spurningunni Eru álfar til?
Ítarefni: Mynd: Listasafn Íslands - Vefsýning verka Jóns Stefánssonar (1881-1962)