Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Stutta svarið við þessari ágætu spurningu er bæði já og nei, eftir því hvernig hún er skilin. Einkum eru það orðin „vísindi“ og „forsendur“ sem þurfa skoðunar við.
Sterk hefð er fyrir því í vísindum að menn huga að þeirri þekkingu sem fyrir er, áður en þeir setja fram veruleg nýmæli, og sýna það með því að vísa til fyrri rita um efnið. Þetta er gert meðal annars til þess að koma í veg fyrir óþarfar mótsagnir; við viljum helst að vísindin myndi öfluga heild þar sem ekkert stangast á innbyrðis.
Ef nýjar hugmyndir, kenningar eða gögn virðast stangast á við það sem áður er viðtekið á viðkomandi sviði, þá leita vísindamenn leiða til að sætta mótsagnirnar áður en lengra er haldið. Ef það tekst hins vegar ekki þá harka menn af sér og varpa fyrir róða einhverju af því sem áður var talið rétt eða best vitað, þannig að mótsagnirnar hverfi og sem minnst tjón verði af því. Forsendurnar eru því ekki „heilagar“ eða ósnertanlegar heldur geta þær breyst til samræmis við það sem best er vitað á hverjum tíma.
Þetta sem nú hefur verið sagt á við öll vísindi nema stærðfræði nútímans. Þar er algengt að menn velji sér forsendur eða frumsendur (e. axioms, postulates) á tilteknu sviði og rannsaki síðan hvað leiða megi út frá þeim með svonefndri útleiðslu (e. deduction). Vel getur farið svo að forsendurnar gefi af sér ályktanir sem stangast á innbyrðis eða eru á einhvern hátt óvæntar þannig að þær kalli á endurskoðun forsendnanna eða skapi nýjan skilning á þeim.
Fimmta frumhæfing Evklíðs. Samkvæmt rúmfræði Evklíðs frá því um 300 f.Kr. gildir: Ef gefin er lína l og punktur P utan við l, þá er til ein og aðeins ein lína m gegnum P samsíða l.
Þekkt dæmi um stærðfræðikerfi sem var byggt á frumsendum var rúmfræði Forngrikkjans Evklíðs frá því um 300 fyrir Krist. Á 18.-19. öld höfðu menn notað þetta kerfi vandræðalaust í rúmlega tvær þúsaldir en þá kom óvænt í ljós að ein af forsendunum var ekki augljós og að hægt var að byggja upp nýtt, mótsagnalaust kerfi án þessarar forsendu (sjá mynd). Sú uppgötvun hefur haft mikil áhrif allar götur síðan á stærðfræði og til dæmis stærðfræðilega eðlisfræði, ekki síst almennu afstæðiskenninguna, en eitt helsta tæki hennar er einmitt óevklíðsk rúmfræði. En engu að síður er rúmfræði Evklíðs rétt miðað við forsendur sínar og kemur að góðu gagni á ýmsum sviðum þó að hún tæmi ekki viðfangsefni sitt til fulls, miðað við allar gátur sem menn geta þurft að leysa.
Spurningin kann að vera sprottin af því að spyrjanda finnist stundum sem vísindamenn séu fastheldnir á upphaflegar hugmyndir sínar eða „forsendur“ eftir að gagnrýni og andmæli koma fram af hálfu annarra. Það er rétt að þetta kann stundum að koma spánskt fyrir sjónir. Fræðimenn sem velta fyrir sér aðferðum vísinda hafa þó bent á að þessi aðferð fastheldninnar gegni góðum og gildum tilgangi (Lakatos 1984). Þeim sem bera fram róttæk nýmæli beri beinlínis að vera fastir fyrir til þess að láta reyna á nýmælið eins og kostur er, áður en það kann að verða gefið upp á bátinn.
Sumum kann að virðast að vísindin sem heild byggist á einhverjum yfirgrípandi forsendum um eðli vísinda og mannlegrar hugsunar, til dæmis að það sem við köllum yfirnáttúrulegt sé alls ekki til eða að vísindin kunni svör við öllu. Myndin sýnir ímyndaðan draugagang.
Sumum kann einnig að virðast að vísindin sem heild byggist á einhverjum yfirgrípandi forsendum um eðli vísinda og mannlegrar hugsunar, til dæmis að það sem við köllum yfirnáttúrulegt sé alls ekki til eða að vísindin kunni svör við öllu. Svarshöfundi virðist þó að slíkt sé byggt á misskilningi. Yfirnáttúruleg fyrirbæri eru einfaldlega þau sem vísindin gera ekki grein fyrir á hverjum tíma, og þá liggur beint við að þau verða ekki áfram yfirnáttúruleg ef skýring finnst á þeim. Vísindi hvers tíma kunna alls ekki svör við öllu og við gerum ekki ráð fyrir að svo verði einhvern tímann, því að það er alltaf hægt að halda áfram að spyrja.
Gleggsti vitnisburðurinn um þetta er sjálf saga vísindanna því að menn hafa oft haldið að nú væri henni lokið, menn hefðu höndlað allan „sannleikann“, en jafnharðan hefur komið í ljós að svo var ekki.
Heimild og frekara lesefni:
Imre Lakatos. 1984. The Methodology of Scientific Research Programmes. Cambridge: Cambridge University Press.
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Eru vísindi byggð á fyrirfram gefnum forsendum?“ Vísindavefurinn, 3. nóvember 2016, sótt 17. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=24434.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2016, 3. nóvember). Eru vísindi byggð á fyrirfram gefnum forsendum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=24434
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Eru vísindi byggð á fyrirfram gefnum forsendum?“ Vísindavefurinn. 3. nóv. 2016. Vefsíða. 17. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=24434>.