Sólin Sólin Rís 09:54 • sest 16:29 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:39 • Sest 07:41 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:44 • Síðdegis: 17:03 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:01 • Síðdegis: 23:18 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:54 • sest 16:29 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:39 • Sest 07:41 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:44 • Síðdegis: 17:03 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:01 • Síðdegis: 23:18 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers vegna hverfur lyktarskynið?

Magnús Jóhannsson



Lyktar- og bragðskyn eru nátengd. Bragðlaukarnir sem skynja bragð eru á tungunni og lyktarsvæðið sem skynjar lykt er efst í nefholi. Bragð eins og súrt eða sætt getum við skynjað án lyktarskyns en flóknari tegundir bragðs getum við aðeins skynjað rétt með samspili bragðs og lyktar. Lykt og bragð veitir okkur ýmiss konar ánægju en þjónar þar að auki mikilvægu hlutverki við að verja okkur gegn skemmdum mat og ýmis konar eiturefnum.

Það virðist því miður fylgja ellinni í mörgum tilvikum að missa smám saman bragð- og lyktarskyn. Til er rannsókn sem bar saman heilbrigða öldunga og yngra fólk og þá kom í ljós að þeir öldruðu höfðu mun daufara bragðskyn en þeir sem yngri voru. Munurinn var þrefaldur fyrir sætt bragð, ellefufaldur fyrir salt, fjórfaldur fyrir súrt og sjöfaldur fyrir beiskt bragð. Það gildir um þetta eins og flest sem fylgir ellinni að við því er engin lækning.

Fólk getur misst lyktar- og bragðskyn af fleiri ástæðum en að eldast. Tvær algengustu ástæðurnar eru annars vegar ofnæmiskvef og ofnæmissepar í nefholi og hins vegar afleiðingar veirusýkingar í nefi, koki og munni (í efri hluta öndunarfæra). Þessi kvilli verður algengari með hækkandi aldri. Algengast er að lyktarskyn dofni en hverfi ekki alveg og stundum fylgir dofnun eða hvarf á bragðskyni. Einstaka sinnum breytist lyktar- og bragðskyn þannig að lykt og bragð hverfur ekki en verður ankannalegt eða óþægilegt. Ef ástæðan er ofnæmi er algengast að lyktarskyn (og bragðskyn) dofni smám saman á löngum tíma. Við þessu eru til lyf sem verka vel og stundum þarf að fjarlægja sepa með lítilli aðgerð.

Engin viðurkennd meðferð er hins vegar til við missi lyktar- og bragðskyns vegna veirusýkingar. Stundum lagast þetta af sjálfu sér en það getur tekið langan tíma (marga mánuði) og gerist því miður ekki alltaf. Sumir reyna að meðhöndla þennan kvilla með vítamínum og zinktöflum en rannsóknir hafa ekki sýnt árangur af slíkri meðferð. Það er hins vegar örugglega til bóta að tyggja matinn vel, neyta fjölbreyttrar fæðu og sumum finnst gott að krydda matinn með bragðaukandi efnum (til dæmis natríumglútamati).

Truflanir á lyktar- og bragðskyni hjá eldra fólki eru töluvert algengar og má áætla að 1-2 þúsund manns þjáist af þeim hér á landi. Slíkar skyntruflanir geta verið merki um byrjandi eða leyndan (undirliggjandi) sjúkdóm og má þar nefna MS (mænu- og heilasigg), andlitslömun, höfuðáverka, sykursýki, nýrna- og lifrarsjúkdóma og háan blóðþrýsting. Einnig er þekkt samband við Alzheimer-sjúkdóm, tóbaksreykingar, vissar skurðaðgerðir, krabbameinsmeðferð með lyfjum eða geislum, sýkingar í munni (tönnum og tannholdi) og heilaæxli. Sumt af því sem fólk gerir til að bæta sér upp dauft bragðskyn getur gert hlutina verri. Má þar nefna mikið salt, sem getur gert háan blóðþrýsting verri, og mikinn sykur, sem getur gert sykursýki verri.

Skoðið einnig önnur svör um lykt á Vísindavefnum:



Mynd: American Academy of Family Physicians - Smell and Taste Disorders: A Primary Care Approach

Höfundur

Magnús Jóhannsson

prófessor emeritus í líflyfjafræði við HÍ

Útgáfudagur

25.7.2002

Spyrjandi

Ritstjórn

Efnisorð

Tilvísun

Magnús Jóhannsson. „Hvers vegna hverfur lyktarskynið?“ Vísindavefurinn, 25. júlí 2002, sótt 14. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2609.

Magnús Jóhannsson. (2002, 25. júlí). Hvers vegna hverfur lyktarskynið? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2609

Magnús Jóhannsson. „Hvers vegna hverfur lyktarskynið?“ Vísindavefurinn. 25. júl. 2002. Vefsíða. 14. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2609>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna hverfur lyktarskynið?


Lyktar- og bragðskyn eru nátengd. Bragðlaukarnir sem skynja bragð eru á tungunni og lyktarsvæðið sem skynjar lykt er efst í nefholi. Bragð eins og súrt eða sætt getum við skynjað án lyktarskyns en flóknari tegundir bragðs getum við aðeins skynjað rétt með samspili bragðs og lyktar. Lykt og bragð veitir okkur ýmiss konar ánægju en þjónar þar að auki mikilvægu hlutverki við að verja okkur gegn skemmdum mat og ýmis konar eiturefnum.

Það virðist því miður fylgja ellinni í mörgum tilvikum að missa smám saman bragð- og lyktarskyn. Til er rannsókn sem bar saman heilbrigða öldunga og yngra fólk og þá kom í ljós að þeir öldruðu höfðu mun daufara bragðskyn en þeir sem yngri voru. Munurinn var þrefaldur fyrir sætt bragð, ellefufaldur fyrir salt, fjórfaldur fyrir súrt og sjöfaldur fyrir beiskt bragð. Það gildir um þetta eins og flest sem fylgir ellinni að við því er engin lækning.

Fólk getur misst lyktar- og bragðskyn af fleiri ástæðum en að eldast. Tvær algengustu ástæðurnar eru annars vegar ofnæmiskvef og ofnæmissepar í nefholi og hins vegar afleiðingar veirusýkingar í nefi, koki og munni (í efri hluta öndunarfæra). Þessi kvilli verður algengari með hækkandi aldri. Algengast er að lyktarskyn dofni en hverfi ekki alveg og stundum fylgir dofnun eða hvarf á bragðskyni. Einstaka sinnum breytist lyktar- og bragðskyn þannig að lykt og bragð hverfur ekki en verður ankannalegt eða óþægilegt. Ef ástæðan er ofnæmi er algengast að lyktarskyn (og bragðskyn) dofni smám saman á löngum tíma. Við þessu eru til lyf sem verka vel og stundum þarf að fjarlægja sepa með lítilli aðgerð.

Engin viðurkennd meðferð er hins vegar til við missi lyktar- og bragðskyns vegna veirusýkingar. Stundum lagast þetta af sjálfu sér en það getur tekið langan tíma (marga mánuði) og gerist því miður ekki alltaf. Sumir reyna að meðhöndla þennan kvilla með vítamínum og zinktöflum en rannsóknir hafa ekki sýnt árangur af slíkri meðferð. Það er hins vegar örugglega til bóta að tyggja matinn vel, neyta fjölbreyttrar fæðu og sumum finnst gott að krydda matinn með bragðaukandi efnum (til dæmis natríumglútamati).

Truflanir á lyktar- og bragðskyni hjá eldra fólki eru töluvert algengar og má áætla að 1-2 þúsund manns þjáist af þeim hér á landi. Slíkar skyntruflanir geta verið merki um byrjandi eða leyndan (undirliggjandi) sjúkdóm og má þar nefna MS (mænu- og heilasigg), andlitslömun, höfuðáverka, sykursýki, nýrna- og lifrarsjúkdóma og háan blóðþrýsting. Einnig er þekkt samband við Alzheimer-sjúkdóm, tóbaksreykingar, vissar skurðaðgerðir, krabbameinsmeðferð með lyfjum eða geislum, sýkingar í munni (tönnum og tannholdi) og heilaæxli. Sumt af því sem fólk gerir til að bæta sér upp dauft bragðskyn getur gert hlutina verri. Má þar nefna mikið salt, sem getur gert háan blóðþrýsting verri, og mikinn sykur, sem getur gert sykursýki verri.

Skoðið einnig önnur svör um lykt á Vísindavefnum:



Mynd: American Academy of Family Physicians - Smell and Taste Disorders: A Primary Care Approach...