Hugmyndin með rafbílunum er að þeir séu umhverfisvænni en eldsneytisbílarnir og hægt verði að keyra bíla í framtíðinni þegar olíulindir hafa tæmst eða of kostnaðarsamt er að ná olíunni þaðan. Rannsókn sem var gerð á rafbílnum Tesla Roadster (sjá mynd til hægri) og bensínbílnum Toyota Corolla styður hugmyndina um að rafbílar séu umhverfisvænni. Rannsóknin sýndi að rafbíllinn mengaði í alla staði minna en bensínbíllinn, þrátt fyrir að Tesla Roadster sé kraftmikill sportbíll en Toyota Corolla aðeins lítill „sparneytinn“ fjölskyldubíll.
Margar ástæður liggja að baki því af hverju rafbílarnir eru ekki vinsælli en bensín- og dísilbílar. Rafbíllinn er enn í hraðri þróun og því er hann dýr í framleiðslu; það er því ódýrara að kaupa bensín- eða dísilbíl. Litlar áhyggjur þarf að hafa af því að bensín- eða dísilbílarnir verði eldsneytislausir úti á miðri götu í þéttbýli því eldsneytisstöðvar eru á öðru hverju götuhorni og það tekur ekki nema fáeinar mínútur að fylla eldsneytistankinn af eldsneyti. Um rafbílana gegnir öðru máli. Það tekur um 8-12 klst að fullhlaða rafhlöðuna í venjulegum rafbílum. Hleðsla á rafbílunum getur því verið vandamál ef hún gleymist. Í Reykjavík eru komin örfá bílastæði sem eru sérstaklega hugsuð fyrir rafbíla; hægt er að hlaða bílana með því að stinga þeim í samband á bílastæðunum.

- Rafmagnsbílar - Skoðað 29.06.10
- Loftslag.is - Skoðað 29.06.10
- Heimasíða Tesla - Skoðað 29.06.10
- Who Keeps Killing the Electric Car? - Skoðað 29.06.10
- Rafmagnsbílar og íslenskur efnahagur - Rafbílar á Íslandi af vefsíðu Orkuveitu Ríkisins - Skoðað 29.06.10
- Vefsíða 2012 - Skoðað 29.06.10
- Tesla Roadster af vefsíðu 2010 - Sótt 29.06.10
- Mini-E af vefsíðu 2010 - Sótt 29.06.10