Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvað er kertaloginn heitur? Er alls staðar sami hiti í honum?

Emelía Eiríksdóttir

Kerti eru búin til úr kertavaxi, sem er orkugjafinn, og kveikiþræði, sem er í miðju kertisins og sér til þess að brennsla sé stöðug. Þegar við kveikjum á kerti berum við eld að kveiknum. Kertavaxið næst kveiknum bráðnar vegna hitans frá eldinum, kertavaxið ferðast upp kveikinn (kveikurinn dregur í sig bráðið kertavaxið á sama hátt og þegar tuska dregur í sig vatn) og byrjar að gufa upp vegna hitans frá eldinum á eldspýtunni eða kveikjaranum. Vegna orkunnar (hitans) í eldinum getur kertavaxgufan gengið í efnasamband við súrefnið í loftinu; við tölum um að kertavaxgufan brenni, hvarfist eða oxist. Við þetta rofna tengin í súrefninu og sameindum kertavaxins í kertavaxgufunni og önnur efnasambönd myndast.

Heildarniðurstaða þessara efnahvarfa er sú að orka losnar úr læðingi sem hiti og ljós. Þessi hiti getur brætt meira kertavax sem gufar upp og brennur. Nú er bruni kertavaxins orðinn sjálfbær, það er hann heldur áfram þar til kertavaxið klárast, kveikurinn klárast, súrefnið klárast eða slökkt er á kertinu, til dæmis með því að blása á það.

Kertalogi er 800°C - 1400°C heitur. Hitastigið fer eftir aðgengi súrefnis og þar með framvindu brunans.

Loginn á kertinu skiptist í nokkur svæði. Yst í loganum er blátt svæði (neðst) og hvítt svæði (efst) sem kallast aðalhvarfsvæði (e. primary reaction zone). Þar er mest aðgengi að súrefni og er bruninn á kertavaxinu nánast hreinn; vatn (H2O) myndast, sem og koltvíildi (CO2), CH, OH og C2. Þetta er heitasta svæðið, í kringum 1400°C.

Beint fyrir ofan kveikinn er autt svæði (e. dead space) en þar fer enginn bruni fram og telst hann því ekki til logans enda á ekkert ljós eða hiti upphaf sitt þar. Þetta svæði er um 600°C heitt.

Þar fyrir ofan er dökkt svæði (e. dark zone) en það ber nafn sitt af því að það er áberandi dekkra en önnur svæði logans. Þetta er kaldasta svæði logans, um 800°C. Aðgengi súrefnis er af skornum skammti og vaxgufa safnast upp. Hitasundrun (e. pyrolysis) hefst.

Næst kemur upphafshvarfsvæði, um 1000°C heitt. Myndun sóts hefst, það er kolefnisagna.

Að endingu kemur ljómunarsvæðið (e. luminous zone), næstheitasta svæðið, um 1200°C. Þar eykst hitasundrunin. Bruni kertavaxins er frekar ófullkominn vegna skorts á súrefni og hita sem hefur í för með sér að heilmikið sót myndast.

Efst í loganum, á mörkum aðalhvarfsvæðis og ljómunarsvæðis brennur sótið ef hitinn á loganum er yfir 1000°C.

Liturinn á kertaloganum er háður sameindunum sem myndast en myndun þeirra er svo aftur háð súrefnisflæðinu kringum kertið. Bláa ljósið myndast við hvarfljómun (e. chemiluminescence) þegar orkurík sameindabrot (aðallega CH, OH og C2) fara í orkuminna ástand. Gula, rauða og appelsínugula ljósið er hins vegar ljós frá svokölluðum svarthluti (e. black body), það er í samræmi við hitastig. Sótagnirnar glóa og senda þannig frá sér mismunandi ljósbylgjur eftir því hversu heitar þær eru. Þar sem gult ljós er orkumeira en appelsínugult sem er orkumeira en rautt getum við sagt fyrir um að guli hluti kertalogans ætti að vera heitastur af þessum þremur og að rauði hlutinn ætti að vera kaldastur.

Við bendum þeim sem vilja fræðast meira um eld á myndbandið hér fyrir neðan.

Heimildir:

Mynd og myndband:

Eftirfarandi spurningu var einnig svarað:
  • Af hverju skín eldur?

Höfundur

Emelía Eiríksdóttir

efnafræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

5.12.2013

Spyrjandi

Magnfreð Ingi Ottesen, Iðunn Rún Angeles Hrannarsdóttir

Tilvísun

Emelía Eiríksdóttir. „Hvað er kertaloginn heitur? Er alls staðar sami hiti í honum?“ Vísindavefurinn, 5. desember 2013. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=30213.

Emelía Eiríksdóttir. (2013, 5. desember). Hvað er kertaloginn heitur? Er alls staðar sami hiti í honum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=30213

Emelía Eiríksdóttir. „Hvað er kertaloginn heitur? Er alls staðar sami hiti í honum?“ Vísindavefurinn. 5. des. 2013. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=30213>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er kertaloginn heitur? Er alls staðar sami hiti í honum?
Kerti eru búin til úr kertavaxi, sem er orkugjafinn, og kveikiþræði, sem er í miðju kertisins og sér til þess að brennsla sé stöðug. Þegar við kveikjum á kerti berum við eld að kveiknum. Kertavaxið næst kveiknum bráðnar vegna hitans frá eldinum, kertavaxið ferðast upp kveikinn (kveikurinn dregur í sig bráðið kertavaxið á sama hátt og þegar tuska dregur í sig vatn) og byrjar að gufa upp vegna hitans frá eldinum á eldspýtunni eða kveikjaranum. Vegna orkunnar (hitans) í eldinum getur kertavaxgufan gengið í efnasamband við súrefnið í loftinu; við tölum um að kertavaxgufan brenni, hvarfist eða oxist. Við þetta rofna tengin í súrefninu og sameindum kertavaxins í kertavaxgufunni og önnur efnasambönd myndast.

Heildarniðurstaða þessara efnahvarfa er sú að orka losnar úr læðingi sem hiti og ljós. Þessi hiti getur brætt meira kertavax sem gufar upp og brennur. Nú er bruni kertavaxins orðinn sjálfbær, það er hann heldur áfram þar til kertavaxið klárast, kveikurinn klárast, súrefnið klárast eða slökkt er á kertinu, til dæmis með því að blása á það.

Kertalogi er 800°C - 1400°C heitur. Hitastigið fer eftir aðgengi súrefnis og þar með framvindu brunans.

Loginn á kertinu skiptist í nokkur svæði. Yst í loganum er blátt svæði (neðst) og hvítt svæði (efst) sem kallast aðalhvarfsvæði (e. primary reaction zone). Þar er mest aðgengi að súrefni og er bruninn á kertavaxinu nánast hreinn; vatn (H2O) myndast, sem og koltvíildi (CO2), CH, OH og C2. Þetta er heitasta svæðið, í kringum 1400°C.

Beint fyrir ofan kveikinn er autt svæði (e. dead space) en þar fer enginn bruni fram og telst hann því ekki til logans enda á ekkert ljós eða hiti upphaf sitt þar. Þetta svæði er um 600°C heitt.

Þar fyrir ofan er dökkt svæði (e. dark zone) en það ber nafn sitt af því að það er áberandi dekkra en önnur svæði logans. Þetta er kaldasta svæði logans, um 800°C. Aðgengi súrefnis er af skornum skammti og vaxgufa safnast upp. Hitasundrun (e. pyrolysis) hefst.

Næst kemur upphafshvarfsvæði, um 1000°C heitt. Myndun sóts hefst, það er kolefnisagna.

Að endingu kemur ljómunarsvæðið (e. luminous zone), næstheitasta svæðið, um 1200°C. Þar eykst hitasundrunin. Bruni kertavaxins er frekar ófullkominn vegna skorts á súrefni og hita sem hefur í för með sér að heilmikið sót myndast.

Efst í loganum, á mörkum aðalhvarfsvæðis og ljómunarsvæðis brennur sótið ef hitinn á loganum er yfir 1000°C.

Liturinn á kertaloganum er háður sameindunum sem myndast en myndun þeirra er svo aftur háð súrefnisflæðinu kringum kertið. Bláa ljósið myndast við hvarfljómun (e. chemiluminescence) þegar orkurík sameindabrot (aðallega CH, OH og C2) fara í orkuminna ástand. Gula, rauða og appelsínugula ljósið er hins vegar ljós frá svokölluðum svarthluti (e. black body), það er í samræmi við hitastig. Sótagnirnar glóa og senda þannig frá sér mismunandi ljósbylgjur eftir því hversu heitar þær eru. Þar sem gult ljós er orkumeira en appelsínugult sem er orkumeira en rautt getum við sagt fyrir um að guli hluti kertalogans ætti að vera heitastur af þessum þremur og að rauði hlutinn ætti að vera kaldastur.

Við bendum þeim sem vilja fræðast meira um eld á myndbandið hér fyrir neðan.

Heimildir:

Mynd og myndband:

Eftirfarandi spurningu var einnig svarað:
  • Af hverju skín eldur?

...