Sólin Sólin Rís 11:13 • sest 15:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:20 • Sest 09:25 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:21 • Síðdegis: 16:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:42 • Síðdegis: 22:57 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:13 • sest 15:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:20 • Sest 09:25 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:21 • Síðdegis: 16:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:42 • Síðdegis: 22:57 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver er uppruni kattardýra og hvernig er talið að elsta rándýrið líti út?

Jón Már Halldórsson

Í dag eru þekktar 41 tegund kattardýra og telja vísindamenn að þær séu allar komnar af sameiginlegum forföður sem var uppi fyrir rúmum 10 milljón árum síðan. Þessi forfaðir núlifandi kattardýra kom upphaflega frá Asíu og dreifðist þaðan til allra meginlanda nema Ástralíu og Suðurskautslandsins. Nýlegar rannsóknir benda til þess að 60% af öllum kattartegundum séu í raun yngri en milljón ára. Panthera ættkvíslin er talin vera elsta grein núlifandi kattardýra, til dæmis eru ljón (Panthera leo) talin vera vel yfir milljón ára gömul. Tegundir af Felis ættkvíslinni eru hins vegar taldar vera yngstar.

Margar greinar á ættartré kattardýra hafa dáið út í aldanna rás og má þar nefna til dæmis sverðketti (Machairodus) og hina stórvöxnu risaketti (Dinofelis). Snemma á Eocene skeiðinu, eða fyrir um 30 milljón árum, greindust frumkettir (Proailurus) frá forverum sínum mjásum (Miacidae) í tvær aðskildar greinar. Önnur er ætt núlifandi katta (Felidae) en hin kallast á íslensku „falskir sverðkettir“ (Nimravidae) og er talið að hún hafi dáið út seint á Miocene skeiðinu.

Kunnust hinnar útdauðu ættar Nimravidae eru kattardýr af ættkvíslinni Nimravides. Dýr innan þessarar ættar voru meðalstórir til stórir kettir en þau stærstu voru svipað stór og ljón. Þau voru með geysilega langar og öflugar vígtennur líkt og sverðkettir, en tennur þeirra voru þó töluvert frábrugðnar vígtönnum núlifandi kattardýra (Felidae). Bygging höfuðkúpu þeirra var einnig nokkuð frábrugðin því sem einkennir stórketti (Panthera) nútímans. Í núlifandi stórköttum er svæði í höfuðkúpunni sem kallast auditory bulla skipt í tvö hólf með beini sem kallað er septum. Þetta bein vantar hins vegar í tegundir af ætt Nimravidae.

Flokkunarfræðingar hafa greint Nimravidae ættina í þrjár undirættir. Steingerðar leyfar þessara dýra eru fáar og æði brotakenndar og því er margt á huldu varðandi byggingu og lífshætti þessara dýra. Sennilega hefur líkamsbygging þeirra þó minnt frekar á bjarndýr en kattardýr.

Ein ættkvíslin hefur verið kölluð Dictis. Þetta voru mjóslegnir kettir með stuttar lappir sem lifðu á sléttum Norður-Ameríku fyrir um 40 milljón árum. Önnur ættkvísl hefur verið nefnd Hoplophoneus og var uppi fyrir um 30 milljón árum síðan. Þetta voru kröftug dýr svipuð að stærð og jagúar (Panthera onca). Fyrir um 6 milljón árum síðan hvarf svo ein af síðustu ættkvíslum ættarinnar, Barbourofelis, af sjónarsviðinu. Nafn þeirra mætti þýða sem "slátrarakettir" enda voru þeir ekki árennilegir. Þeir voru á stærð við ljón og gátu orðið allt að 3,5 metrar á lengd og um 350 kg að þyngd. Þeir voru jafnframt með stærstu vígtennur sem fundist hafa meðal ættarinnar, en þær gátu orðið allt að 23 cm á lengd.

Fyrsti eiginlegi sverðkötturinn var af ættkvíslinni Machairodus. Á þessum tíma voru „falskir sverðkettir“ (Nimravidae) við það að deyja út, en þeir hurfu alveg af sjónarsviðinu með Barbourofelis ættkvíslinni seint á plíósen skeiðinu. Machairodus er talinn hafa þróast síðan yfir í stærri og þekktari tegundir sverðkatta eins og Homotherium, sem náði afar mikilli útbreiðslu um alla Evrasíu, Afríku og Norður-Ameríku, og Megantereon sem síðar þróaðist yfir í hina þekktu sverðketti innan Smilodon ættkvíslarinnar.

Sverðkettir af Smilodon ættkvíslinni breyddust út um alla Norður-Ameríku og ein tegund, Smilodon populator, komst yfir til Suður-Ameríku. Ætt sverðkatta (Machairodontinae) dó út að öllum líkindum við lok síðasta jökulskeiðs og telja vísindamenn að Smilodon fatalis hafi verið síðasti eftirlifandi fulltrúi sverðkatta og hafi sú tegund dáið út fyrir um 10 þúsund árum.

Önnur ættkvísl innan Machairodontinae sem vert er að minnast á er Dinofelis ættkvíslin. Þetta voru afar öflug kattadýr sem lifðu á steppum og graslendi Evrasíu, Norður-Ameríku og Afríku. Dinofelis voru á um 12ö - 140 kg á þyngd og einhvers staðar á milli hlébarða og ljóna á stærð. Tennur ættkvíslarinnar voru um það bil mitt á milli þess sem var hjá sverðköttum (Machairodus) og núlifandi stórköttum (Panthera).

Eiginlegir kettir þróuðust útfrá Pseudaelurus eins og áður segir. Tegundamyndunin leiddi til þróunar tegunda sem flokkaðar eru innan fjögurra ættkvísla. Þrjár þeirra eru enn við líði; Felis eða smákettir, Panthera eða stórkettir og Acinonyx sem telur aðeins eina tegund, blettatígurinn (Acinonyx jubatus). Sú ættkvísl sem er útdauð, Miracinonyx, er náskyldust ættkvísl blettatígra.

Micracinonyx, eða hinir amerísku blettatígrar, voru nokkuð stærri en hinir eiginlegu blettatígrar og lifðu á sléttum miðsvæðis í Bandaríkjunum. Þessir blettatígrar voru afar sprettharðir, eins og hinir núlifandi afrísku frændur þeirra. Þeir eru einkum taldir hafa lifað á gafalhjörtum (Pronghorn) og er talið að þetta afrán blettatígranna hafi stuðlað að þeirri þróun að gafalhirtir eru bæði úthaldsgóðir og sprettharðir. Amerísku blettatígrarnir eru taldir hafa dáið út fyrir um 12 þúsund árum.

Mjásar, fyrstu rándýrin?

Vísindamenn hafa lengi talið tegundir ættarinnar Miacidae vera forfeður allra núlifandi rándýra. Á íslensku hefur ættin verið nefnd hinu skemmtilega nafni, mjási. Talið er að þessi ætt hafi komið fram í jarðsögunni fyrir um 60 milljón árum.

Helstu rökin fyrir því að mjásar séu forfeður rándýra nútímans eru þau að þeir höfðu svokallaða ránjaxla, en slíka jaxla er í dag aðeina að finna meðal rándýra. Þessar tennur eru afar öflugur og gera rándýrum kleyft að skera í sundur kjöt og skinn og jafnvel bryðja bein. Mjásar voru á stærð við núlifandi mongúsa (Herpestidae) og lifðu í fornskógum paleocene tímans. Þeir veiddu sennilega smávaxin spendýr, fuglsunga og skordýr, líkt og rándýr af þessum stærðarflokki gera í dag.

Mjásar greindust svo í tvær greinar og er oft talað um að þá hafi átt sér stað aðskilnaðurinn mikli meðal rándýra. Annars vegar skiptust þau í ætt Miacea, sem seinna þróaðist í Caniformia eða hundleg dýr, og hins vegar í Viverridae, sem seinna þróaðist í Feliformia eða kattleg dýr.

Á Vísindavefnum er til mjög mikið lesefni um kattardýr, til dæmis þessi svör eftir sama höfund:

Heimildir:
  • http://tigerhomes.org/wild-cats/wc-evolution-wild-cats.cfm
  • Kitts, David B. 1958. Nimravides, a New Genus of Felidae from the Pliocene of California, Texas and Oklahoma. Journal of Mammalogy, Vol. 39(3): 368-375.
  • Turner, Alan. 1997. The Big Cats and their fossil relatives. Columbia University Press, New York.

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

8.10.2008

Spyrjandi

Elínborg Önundardóttir

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hver er uppruni kattardýra og hvernig er talið að elsta rándýrið líti út?“ Vísindavefurinn, 8. október 2008, sótt 13. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=30917.

Jón Már Halldórsson. (2008, 8. október). Hver er uppruni kattardýra og hvernig er talið að elsta rándýrið líti út? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=30917

Jón Már Halldórsson. „Hver er uppruni kattardýra og hvernig er talið að elsta rándýrið líti út?“ Vísindavefurinn. 8. okt. 2008. Vefsíða. 13. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=30917>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver er uppruni kattardýra og hvernig er talið að elsta rándýrið líti út?
Í dag eru þekktar 41 tegund kattardýra og telja vísindamenn að þær séu allar komnar af sameiginlegum forföður sem var uppi fyrir rúmum 10 milljón árum síðan. Þessi forfaðir núlifandi kattardýra kom upphaflega frá Asíu og dreifðist þaðan til allra meginlanda nema Ástralíu og Suðurskautslandsins. Nýlegar rannsóknir benda til þess að 60% af öllum kattartegundum séu í raun yngri en milljón ára. Panthera ættkvíslin er talin vera elsta grein núlifandi kattardýra, til dæmis eru ljón (Panthera leo) talin vera vel yfir milljón ára gömul. Tegundir af Felis ættkvíslinni eru hins vegar taldar vera yngstar.

Margar greinar á ættartré kattardýra hafa dáið út í aldanna rás og má þar nefna til dæmis sverðketti (Machairodus) og hina stórvöxnu risaketti (Dinofelis). Snemma á Eocene skeiðinu, eða fyrir um 30 milljón árum, greindust frumkettir (Proailurus) frá forverum sínum mjásum (Miacidae) í tvær aðskildar greinar. Önnur er ætt núlifandi katta (Felidae) en hin kallast á íslensku „falskir sverðkettir“ (Nimravidae) og er talið að hún hafi dáið út seint á Miocene skeiðinu.

Kunnust hinnar útdauðu ættar Nimravidae eru kattardýr af ættkvíslinni Nimravides. Dýr innan þessarar ættar voru meðalstórir til stórir kettir en þau stærstu voru svipað stór og ljón. Þau voru með geysilega langar og öflugar vígtennur líkt og sverðkettir, en tennur þeirra voru þó töluvert frábrugðnar vígtönnum núlifandi kattardýra (Felidae). Bygging höfuðkúpu þeirra var einnig nokkuð frábrugðin því sem einkennir stórketti (Panthera) nútímans. Í núlifandi stórköttum er svæði í höfuðkúpunni sem kallast auditory bulla skipt í tvö hólf með beini sem kallað er septum. Þetta bein vantar hins vegar í tegundir af ætt Nimravidae.

Flokkunarfræðingar hafa greint Nimravidae ættina í þrjár undirættir. Steingerðar leyfar þessara dýra eru fáar og æði brotakenndar og því er margt á huldu varðandi byggingu og lífshætti þessara dýra. Sennilega hefur líkamsbygging þeirra þó minnt frekar á bjarndýr en kattardýr.

Ein ættkvíslin hefur verið kölluð Dictis. Þetta voru mjóslegnir kettir með stuttar lappir sem lifðu á sléttum Norður-Ameríku fyrir um 40 milljón árum. Önnur ættkvísl hefur verið nefnd Hoplophoneus og var uppi fyrir um 30 milljón árum síðan. Þetta voru kröftug dýr svipuð að stærð og jagúar (Panthera onca). Fyrir um 6 milljón árum síðan hvarf svo ein af síðustu ættkvíslum ættarinnar, Barbourofelis, af sjónarsviðinu. Nafn þeirra mætti þýða sem "slátrarakettir" enda voru þeir ekki árennilegir. Þeir voru á stærð við ljón og gátu orðið allt að 3,5 metrar á lengd og um 350 kg að þyngd. Þeir voru jafnframt með stærstu vígtennur sem fundist hafa meðal ættarinnar, en þær gátu orðið allt að 23 cm á lengd.

Fyrsti eiginlegi sverðkötturinn var af ættkvíslinni Machairodus. Á þessum tíma voru „falskir sverðkettir“ (Nimravidae) við það að deyja út, en þeir hurfu alveg af sjónarsviðinu með Barbourofelis ættkvíslinni seint á plíósen skeiðinu. Machairodus er talinn hafa þróast síðan yfir í stærri og þekktari tegundir sverðkatta eins og Homotherium, sem náði afar mikilli útbreiðslu um alla Evrasíu, Afríku og Norður-Ameríku, og Megantereon sem síðar þróaðist yfir í hina þekktu sverðketti innan Smilodon ættkvíslarinnar.

Sverðkettir af Smilodon ættkvíslinni breyddust út um alla Norður-Ameríku og ein tegund, Smilodon populator, komst yfir til Suður-Ameríku. Ætt sverðkatta (Machairodontinae) dó út að öllum líkindum við lok síðasta jökulskeiðs og telja vísindamenn að Smilodon fatalis hafi verið síðasti eftirlifandi fulltrúi sverðkatta og hafi sú tegund dáið út fyrir um 10 þúsund árum.

Önnur ættkvísl innan Machairodontinae sem vert er að minnast á er Dinofelis ættkvíslin. Þetta voru afar öflug kattadýr sem lifðu á steppum og graslendi Evrasíu, Norður-Ameríku og Afríku. Dinofelis voru á um 12ö - 140 kg á þyngd og einhvers staðar á milli hlébarða og ljóna á stærð. Tennur ættkvíslarinnar voru um það bil mitt á milli þess sem var hjá sverðköttum (Machairodus) og núlifandi stórköttum (Panthera).

Eiginlegir kettir þróuðust útfrá Pseudaelurus eins og áður segir. Tegundamyndunin leiddi til þróunar tegunda sem flokkaðar eru innan fjögurra ættkvísla. Þrjár þeirra eru enn við líði; Felis eða smákettir, Panthera eða stórkettir og Acinonyx sem telur aðeins eina tegund, blettatígurinn (Acinonyx jubatus). Sú ættkvísl sem er útdauð, Miracinonyx, er náskyldust ættkvísl blettatígra.

Micracinonyx, eða hinir amerísku blettatígrar, voru nokkuð stærri en hinir eiginlegu blettatígrar og lifðu á sléttum miðsvæðis í Bandaríkjunum. Þessir blettatígrar voru afar sprettharðir, eins og hinir núlifandi afrísku frændur þeirra. Þeir eru einkum taldir hafa lifað á gafalhjörtum (Pronghorn) og er talið að þetta afrán blettatígranna hafi stuðlað að þeirri þróun að gafalhirtir eru bæði úthaldsgóðir og sprettharðir. Amerísku blettatígrarnir eru taldir hafa dáið út fyrir um 12 þúsund árum.

Mjásar, fyrstu rándýrin?

Vísindamenn hafa lengi talið tegundir ættarinnar Miacidae vera forfeður allra núlifandi rándýra. Á íslensku hefur ættin verið nefnd hinu skemmtilega nafni, mjási. Talið er að þessi ætt hafi komið fram í jarðsögunni fyrir um 60 milljón árum.

Helstu rökin fyrir því að mjásar séu forfeður rándýra nútímans eru þau að þeir höfðu svokallaða ránjaxla, en slíka jaxla er í dag aðeina að finna meðal rándýra. Þessar tennur eru afar öflugur og gera rándýrum kleyft að skera í sundur kjöt og skinn og jafnvel bryðja bein. Mjásar voru á stærð við núlifandi mongúsa (Herpestidae) og lifðu í fornskógum paleocene tímans. Þeir veiddu sennilega smávaxin spendýr, fuglsunga og skordýr, líkt og rándýr af þessum stærðarflokki gera í dag.

Mjásar greindust svo í tvær greinar og er oft talað um að þá hafi átt sér stað aðskilnaðurinn mikli meðal rándýra. Annars vegar skiptust þau í ætt Miacea, sem seinna þróaðist í Caniformia eða hundleg dýr, og hins vegar í Viverridae, sem seinna þróaðist í Feliformia eða kattleg dýr.

Á Vísindavefnum er til mjög mikið lesefni um kattardýr, til dæmis þessi svör eftir sama höfund:

Heimildir:
  • http://tigerhomes.org/wild-cats/wc-evolution-wild-cats.cfm
  • Kitts, David B. 1958. Nimravides, a New Genus of Felidae from the Pliocene of California, Texas and Oklahoma. Journal of Mammalogy, Vol. 39(3): 368-375.
  • Turner, Alan. 1997. The Big Cats and their fossil relatives. Columbia University Press, New York.
...