Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvað er einfeldningsleg hluthyggja?

Finnur Dellsén

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Hvað er einfeldningsleg (naív) hluthyggja?

„Hluthyggja“ er þýðing á enska orðinu „realism“ eins og það er notað víða í heimspeki en greina má í sundur ótalmargar tegundir af hluthyggju. Til dæmis er vísindaleg hluthyggja (e. scientific realism) sú kenning að til séu svokallaðir fræðagripir (eins og atóm, rafsegulsvið og vistkerfi) og að við höfum umtalsverða þekkingu á slíkum hlutum. Að sama skapi er siðferðileg hluthyggja (e. moral realism) sú skoðun að til séu siðferðissannindi og að við höfum þónokkra þekkingu á því hver þau eru. Í þessari grein munum við einbeita okkur að hluthyggju um hinn ytri veruleika sem við teljum okkur geta komist í samband við með skynfærum okkar.

Yfirleitt má greina í sundur tvær staðhæfingar í sérhverri hluthyggju: Önnur er frumspekileg og snýr að því hvort viðkomandi hlutir hafi sjálfstæða tilvist óháð hugum okkar eða hugsunum. Hin staðhæfingin er þekkingarfræðileg og snýr að því hvort við getum öðlast þekkingu á viðkomandi hlutum. Þannig kveður sú hluthyggja sem við ætlum að skoða nánar í þessari grein á um (a) að til sé ytri veruleiki sem sé óháður hugsunum okkar og (b) að við getum öðlast þekkingu á þessum ytri veruleika með skynjunum okkar. Við skulum skoða þessar fullyrðingar hverja í sínu lagi.

Nú á dögum efast fáir um hinn frumspekilega þátt hluthyggju, það er að segja þá staðhæfingu að ytri raunveruleiki sé eins og hann er óháð skynjun nokkurs manns á honum. Þessu hafna reyndar þeir sem halda því fram að raunveruleikinn sé að öllu eða nokkru leyti hugsmíð hvers og eins — að hvert og eitt okkar skapi heiminn eins og hann er. Við getum kallað þetta hughyggju (e. idealism) en mörkin milli hughyggju og annarrar and-hluthyggju eru ekki alltaf skýr. Hughyggja kemur flestum fyrir sjónir sem harla ótrúverðug kenning og við skulum í framhaldinu gera ráð fyrir að ekki sé deilt um hina frumspekilegu staðhæfingu hluthyggjunnar.

Jafnvel þótt gert sé ráð fyrir að hin frumspekilega staðhæfing hluthyggju sé rétt – það er að segja að heimurinn sé eins og hann er óháð skynjun okkar á honum – mætti engu að síður gagnrýna hina þekkingarfræðilegu staðhæfingu hluthyggjunnar. Rifjum nú upp að þekkingarfræðilega staðhæfingin kveður á um að við getum með skynjunum okkar öðlast þekkingu á heiminum eins og hann er í raun og veru. Við getum þá sagt að einfeldingsleg hluthyggja (e. naïve realism) sé sú kenning að skynjanir okkar afhjúpi alltaf hið raunverulega eðli hlutanna og að því sé ekkert misræmi milli skynjana okkar og hins ytri veruleika sem við teljum okkur vera að skynja.

Það er til dæmis skynvilla þegar mér sýnist annað strikið í Müller-Lyer-sjónhverfingunni vera lengra en hitt.

Þessi kenning gæti talist einfeldingsleg af ýmsum ástæðum. Fyrir það fyrsta teljum við okkur vita að til eru bæði skynvillur (e. illusions) og ofskynjanir (e. hallucinations). Í skynvillu virðumst við skynja eitthvað öðruvísi en það raunverulega er. Það er til dæmis skynvilla þegar mér sýnist annað strikið í Müller-Lyer-sjónhverfingunni vera lengra en hitt. Í ofskynjun virðumst við hins vegar skynja eitthvað sem á sér alls enga tilvist. Þannig væri það til dæmis ofskynjun ef ég tel mig sjá risastóran dreka eftir að hafa innbyrt ofskynjunarlyf. Það að til séu bæði skynvillur og ofskynjanir er af mörgum talið sýna fram á að skynjun og raunveruleiki fara ekki endilega saman – að hægt sé að skynja eitthvað sem á sér ekki stoð í raunveruleikanum – en samkvæmt einfeldningslegri hluthyggju væri það ómögulegt.

Þótt fáir myndu segjast aðhyllast einfeldningslega hluthyggju hefur náskyld kenning, bein hluthyggja (e. direct realism), öðlast nokkra hylli á undanförnum áratugum. Samkvæmt beinni hluthyggju er enginn milliliður í skynjunum okkar á heimurinn – við skynjum efnislega hluti beint en ekki í gegnum einhvern millilið í hugum okkar. Forvígisfólk beinnar hluthyggju svara rökunum hér að ofan með því að hafna því að skynvillur og ofskynjanir séu skynjanir yfirleitt. Samkvæmt þessari kenningu eru skynvillur og ofskynjanir af allt öðru tagi en venjulegar skynjanir og verðskulda því ekki að vera kallaðar skynjanir. Helsti vandinn við þessa afstöðu er að útskýra hvers vegna skynvillur og ofskynjanir virðast vera af sama tagi og venjulegar skynjanir ef eðli þeirra er jafn ólíkt og bein hluthyggja kveður á um. Hvað sem því líður má segja að einfeldningsleg hluthyggja eigi sér sína formælendur í formi þeirra sem aðhyllast beina hluthyggju.

Heimildir og frekara lesefni

  • Laurence BonJour (2007), „Epistemological Problems of Perception“. Sótt 30.04.2014 frá Edward N. Zalta (ritstj.), The Stanford Encyclopedia of Philosophy (Spring 2013 Edition).
  • Tim Crane (2011), „The Problem of Perception“. Sótt 30.04.2014 frá Edward N. Zalta (ritstj.), The Stanford Encyclopedia of Philosophy (Spring 2011 Edition).
  • William Fish (2010), Philosophy of Perception: A Contemporary Introduction. New York: Routledge.
  • Daniel O’Brien (2007), „Objects of Perception“. Sótt 30.04.2014 frá James Fieser og Bradley Dowden (ritstj.), The Internet Encyclopedia of Philosophy.

Mynd:

Höfundur

Finnur Dellsén

dósent í heimspeki

Útgáfudagur

6.8.2014

Spyrjandi

Hulda Sveins

Tilvísun

Finnur Dellsén. „Hvað er einfeldningsleg hluthyggja? “ Vísindavefurinn, 6. ágúst 2014. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=31372.

Finnur Dellsén. (2014, 6. ágúst). Hvað er einfeldningsleg hluthyggja? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=31372

Finnur Dellsén. „Hvað er einfeldningsleg hluthyggja? “ Vísindavefurinn. 6. ágú. 2014. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=31372>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er einfeldningsleg hluthyggja?
Upprunalega spurningin hljóðaði svona:

Hvað er einfeldningsleg (naív) hluthyggja?

„Hluthyggja“ er þýðing á enska orðinu „realism“ eins og það er notað víða í heimspeki en greina má í sundur ótalmargar tegundir af hluthyggju. Til dæmis er vísindaleg hluthyggja (e. scientific realism) sú kenning að til séu svokallaðir fræðagripir (eins og atóm, rafsegulsvið og vistkerfi) og að við höfum umtalsverða þekkingu á slíkum hlutum. Að sama skapi er siðferðileg hluthyggja (e. moral realism) sú skoðun að til séu siðferðissannindi og að við höfum þónokkra þekkingu á því hver þau eru. Í þessari grein munum við einbeita okkur að hluthyggju um hinn ytri veruleika sem við teljum okkur geta komist í samband við með skynfærum okkar.

Yfirleitt má greina í sundur tvær staðhæfingar í sérhverri hluthyggju: Önnur er frumspekileg og snýr að því hvort viðkomandi hlutir hafi sjálfstæða tilvist óháð hugum okkar eða hugsunum. Hin staðhæfingin er þekkingarfræðileg og snýr að því hvort við getum öðlast þekkingu á viðkomandi hlutum. Þannig kveður sú hluthyggja sem við ætlum að skoða nánar í þessari grein á um (a) að til sé ytri veruleiki sem sé óháður hugsunum okkar og (b) að við getum öðlast þekkingu á þessum ytri veruleika með skynjunum okkar. Við skulum skoða þessar fullyrðingar hverja í sínu lagi.

Nú á dögum efast fáir um hinn frumspekilega þátt hluthyggju, það er að segja þá staðhæfingu að ytri raunveruleiki sé eins og hann er óháð skynjun nokkurs manns á honum. Þessu hafna reyndar þeir sem halda því fram að raunveruleikinn sé að öllu eða nokkru leyti hugsmíð hvers og eins — að hvert og eitt okkar skapi heiminn eins og hann er. Við getum kallað þetta hughyggju (e. idealism) en mörkin milli hughyggju og annarrar and-hluthyggju eru ekki alltaf skýr. Hughyggja kemur flestum fyrir sjónir sem harla ótrúverðug kenning og við skulum í framhaldinu gera ráð fyrir að ekki sé deilt um hina frumspekilegu staðhæfingu hluthyggjunnar.

Jafnvel þótt gert sé ráð fyrir að hin frumspekilega staðhæfing hluthyggju sé rétt – það er að segja að heimurinn sé eins og hann er óháð skynjun okkar á honum – mætti engu að síður gagnrýna hina þekkingarfræðilegu staðhæfingu hluthyggjunnar. Rifjum nú upp að þekkingarfræðilega staðhæfingin kveður á um að við getum með skynjunum okkar öðlast þekkingu á heiminum eins og hann er í raun og veru. Við getum þá sagt að einfeldingsleg hluthyggja (e. naïve realism) sé sú kenning að skynjanir okkar afhjúpi alltaf hið raunverulega eðli hlutanna og að því sé ekkert misræmi milli skynjana okkar og hins ytri veruleika sem við teljum okkur vera að skynja.

Það er til dæmis skynvilla þegar mér sýnist annað strikið í Müller-Lyer-sjónhverfingunni vera lengra en hitt.

Þessi kenning gæti talist einfeldingsleg af ýmsum ástæðum. Fyrir það fyrsta teljum við okkur vita að til eru bæði skynvillur (e. illusions) og ofskynjanir (e. hallucinations). Í skynvillu virðumst við skynja eitthvað öðruvísi en það raunverulega er. Það er til dæmis skynvilla þegar mér sýnist annað strikið í Müller-Lyer-sjónhverfingunni vera lengra en hitt. Í ofskynjun virðumst við hins vegar skynja eitthvað sem á sér alls enga tilvist. Þannig væri það til dæmis ofskynjun ef ég tel mig sjá risastóran dreka eftir að hafa innbyrt ofskynjunarlyf. Það að til séu bæði skynvillur og ofskynjanir er af mörgum talið sýna fram á að skynjun og raunveruleiki fara ekki endilega saman – að hægt sé að skynja eitthvað sem á sér ekki stoð í raunveruleikanum – en samkvæmt einfeldningslegri hluthyggju væri það ómögulegt.

Þótt fáir myndu segjast aðhyllast einfeldningslega hluthyggju hefur náskyld kenning, bein hluthyggja (e. direct realism), öðlast nokkra hylli á undanförnum áratugum. Samkvæmt beinni hluthyggju er enginn milliliður í skynjunum okkar á heimurinn – við skynjum efnislega hluti beint en ekki í gegnum einhvern millilið í hugum okkar. Forvígisfólk beinnar hluthyggju svara rökunum hér að ofan með því að hafna því að skynvillur og ofskynjanir séu skynjanir yfirleitt. Samkvæmt þessari kenningu eru skynvillur og ofskynjanir af allt öðru tagi en venjulegar skynjanir og verðskulda því ekki að vera kallaðar skynjanir. Helsti vandinn við þessa afstöðu er að útskýra hvers vegna skynvillur og ofskynjanir virðast vera af sama tagi og venjulegar skynjanir ef eðli þeirra er jafn ólíkt og bein hluthyggja kveður á um. Hvað sem því líður má segja að einfeldningsleg hluthyggja eigi sér sína formælendur í formi þeirra sem aðhyllast beina hluthyggju.

Heimildir og frekara lesefni

  • Laurence BonJour (2007), „Epistemological Problems of Perception“. Sótt 30.04.2014 frá Edward N. Zalta (ritstj.), The Stanford Encyclopedia of Philosophy (Spring 2013 Edition).
  • Tim Crane (2011), „The Problem of Perception“. Sótt 30.04.2014 frá Edward N. Zalta (ritstj.), The Stanford Encyclopedia of Philosophy (Spring 2011 Edition).
  • William Fish (2010), Philosophy of Perception: A Contemporary Introduction. New York: Routledge.
  • Daniel O’Brien (2007), „Objects of Perception“. Sótt 30.04.2014 frá James Fieser og Bradley Dowden (ritstj.), The Internet Encyclopedia of Philosophy.

Mynd: