
Til eru tvær gerðir af Huntingtonssjúkdómi eftir því hvort hann kemur fram á fullorðinsaldri eða fyrr á ævinni. Fyrri gerðin er algengari og koma sjúkdómseinkenni oftast fram milli þrítugs og fimmtugs, sem sagt eftir að viðkomandi hafa eignast börn í mörgum tilfellum. Snemmkomna gerðin birtist í bernsku eða á unglingsárum. Einkennin líkjast einkennum Parkinsonsveiki með stirðleika, hægum hreyfingum og skjálfta. Ef einstaklingur á foreldri með Huntingtonssjúkdóminn eru 50% líkur á að viðkomandi erfi gallaða genið sem veldur honum. Ef gallaða genið er til staðar mun sjúkdómurinn koma fram einhvern tímann á ævinni og hætta er á að börn viðkomandi fái sjúkdóminn líka. Ef gallaða genið erfist ekki fær viðkomandi vitanlega ekki sjúkdóminn og ekki börn hans heldur.

Einkenni eru margvísleg. Hegðunarbreytingar eins og andfélagsleg hegðun, ofskynjanir, pirringur, skapsveiflur, eirðarleysi, ofsóknaræði eða geðveiki geta komið fram áður en áhrif á hreyfigetu birtast. Óeðlilegar og óvenjulegar hreyfingar geta verið höfuðhreyfingar til að breyta sjónsviði, grettur og fleiri andlitshreyfingar, hægar stjórnlausar hreyfingar, skyndilegir og stundum öfgafullir kippir í útlimum, andliti og fleiri líkamshlutum og óöruggt göngulag. Heilabilun vex hægt og sígandi með minnistapi, dómgreindarleysi, breytingum á tali, persónuleikabreytingum og ruglingi. Önnur einkenni geta fylgt sjúkdómnum svo sem kvíði, streita eða spenna, kyngingarerfiðleikar og málstol. Huntingtonssjúkdómur er greindur af lækni með viðtali um ættarsögu og einkenni. Einnig er hægt að gera taugafræðileg próf og taka sneiðmynd eða segulómunarmynd af heilanum. Því miður er ekki til lækning við Huntingtonssjúkdómnum. Meðferð felst í að draga úr einkennum og hægja á þróun hans og bæta lífsgæði sjúklinga eins og hægt er. Heimildir og mynd:
- Huntington's disease á PubMed Health.
- Huntington's disease á MedlinePlus.
- Huntington's disease á Mayo Clinic.
- Mynd af heila: AP Biology.
- Mynd af erfðamynstri: Huntingtons Disease á Ms Torres Biology Class Wiki.
Margir hafa spurt Vísindavefinn um Huntingtonssjúkdóm. Aðrir spyrjendur eru:
Þórður Sigurbjartsson, Kristín Áskelsdóttir, Ísak Hilmarsson, Birgir Hauksson, Ásdís Sigurjónsdóttir, Þóra Þ. og Ásta Soffía Þorgeirsdóttir.