Sólin Sólin Rís 05:12 • sest 21:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:09 • Síðdegis: 20:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:12 • Síðdegis: 14:14 í Reykjavík

Hefur hár aldur og hægari líkamsstarfsemi áhrif á það hvernig við skynjum hraða tímans?

Pálmi V. Jónsson

Í stuttu máli má segja að skynjun fólks á hraða tímans sé mjög breytileg, bæði eftir aldri, virkni og öðrum aðstæðum. Við vitum til dæmis að til er aldrað fólk sem er ekki síður frískt og nýtur lífsins en þeir sem yngri eru. En hjá hverjum og einum verða þó ákveðnar aldurstengdar breytingar sem hægja á hreyfingum og viðbrögðum.

Þannig nær eldra fólk ekki sömu hámarkstíðni hjartsláttar við áreynslu og yngra fólk. Vöðvasamdráttur verður hægari og stafar það meðal annars af því að fækkun verður á einni af tveimur tegundum vöðvaþráða, snörpu tegundinni. Taugaþræðir eru umvafðir efni, sem kallast myelín. Það sér til þess að hraða flutningi taugaboða. Ef myelín verður fyrir hrörnun, eins og gerist oft með hækkandi aldri, hægir á taugaleiðni.

Af þessu leiðir að aldraðir ganga og hlaupa hægar en yngra fólk. Til að mynda eiga margir aldraðir í vandræðum með að komast yfir götu á grænu ljósi. Síðan eru margir eldri borgarar með sjúkdóma og á lyfjum sem enn hægja á viðbrögðum. Þetta kemur til dæmis fram í því hvernig fólk bregst við byltum. Um sextugt nær fólk að rétta út höndina við byltu og verjast þannig, en þeir sem eru óheppnir brotna á úlnlið. Þeir sem eru 15 árum eldri ná ekki að setja höndina jafnlangt út og geta því brotnað á upphandlegg. Þeir sem eru enn eldri eða meira lasburða ná alls ekki að bera fyrir sig höndina og brotna því eða merjast á mjöðm.

Einnig verða margvíslegar breytingar í miðtaugakerfi aldraðra, þó að þeir séu frískir. Taugafrumum í miðtaugakerfi fækkar og minna verður af ýmsum boðefnum heilans. Við þetta hægir á allri úrvinnslu heilans.

Tímaskynjun þessa fólks getur verið mjög mismunandi.

Aldraðir eru mjög mismunandi. Mjög frískt eldra fólk, sem þjálfar sig líkamlega og viðheldur andlegu atgervi með lestri, tjáningu og hvers konar virkni, getur verið betur á sig komið en margur sá sem yngri er. En jafnvel þetta frískasta eldra fólk hefur þó óumdeilanlega orðið fyrir ýmsum aldurstengdum breytingum sem hægja á tauga- og vöðvaviðbrögðum miðað við það sem þau voru áður hjá sama einstaklingi.

Hvernig skynja menn hraða tímans með hækkandi aldri? Það er mjög misjafnt meðal aldraðra og munurinn vex með hækkandi aldri. Börn upplifa tímann þannig að hann sé lengur að líða en þeir sem fullorðnir eru, en frísku og önnum köfnu fólki á miðjum aldri finnst hann fljúga áfram. Hver tímaeining hjá ungri manneskju er stærra hlutfall af ævinni en sama tímaeining hjá eldra fólki og kann það að skýra upplifunina að nokkru leyti.

Hins vegar kann upplifunin einnig að tengjast þeim verkefnum sem manneskjan tekur sér fyrir hendur. Þegar komið er á eftirlaun setjast sumir í helgan stein í orðsins fyllstu merkingu, en aðrir taka upp margvísleg áhugamál. Þeir sem fylla tíma sinn með viðfangsefnum tjá sig gjarnan um að tíminn líði hratt, en þeir sem sitja í iðjuleysi kvarta oft um það hve tíminn sé lengi að líða. Andleg líðan spilar hér einnig inn í. Þeir sem eru daprir og niðurdregnir upplifa tímann þannig að hann sé lengi að líða, öfugt við þá sem eru virkir eða jafnvel ofvirkir.

Tíminn er afstæður og það er erfitt að skilja hann. Það getur því verið gagnlegt að tala annars vegar um tíma alheimsins frá miklahvelli til okkar daga, stjarnfræðilegan tíma, og hins vegar tímann eins og við upplifum hann sem manneskjur. Samhengi tíma og aldurs hefur verið manneskjunni hugleikið allt frá fyrstu skráðu heimildum. Í austrænum hefðum hafa kenningar um líffræði ellinnar og tímann tengst heimspekilegum kenningum um lífið. Þetta kemur vel fram í taóisma sem leggur áherslu á það að hrumleiki ellinnar sé ekki óumflýjanlegur og sé á ábyrgð einstaklingsins.

Í búddisma, sem þróaðist fyrst á Indlandi og barst síðan til Kína og flestra annarra Asíulanda, eru aðrar hugmyndir ríkjandi um ellina og tímann. Samkvæmt kenningum búddismans er lífið þjáning þar sem ellin, hrumleiki og dauði eru allsráðandi. Til þess að draga úr þjáningum lífsins þarf manneskjan að vera sérstaklega meðvituð eða íhugul í þessu lífi og hinu næsta. Þá mun hún loks komast að því að þjáningin er skynvilla og komast á stig tímalausrar visku sem er ótrufluð af ellinni.

Hippókrates, faðir vestrænnar læknisfræði, talaði um lífið sem fjögur þrep: barnæsku, unglingsár, fullorðinsár og elli. Hvert stig ævinnar svaraði til eins af fjórum líkamsvessum, sem voru um aldir grundvöllur læknisfræðilegrar hugsunar. Samsvörunin við fjórar árstíðir er augljós. Fyrir siðaskiptin er líklegt að lífaldur hafi skipt litlu máli af því að fæstir vissu hversu gamlir þeir voru. Eftir siðaskiptin komu fram ný hugtök og tíminn var eitt slíkt mikilvægt hugtak. Þá var farið að virða tímann sem mikilvæga mannlega eign og það hvernig fólk varði tímanum réði því hvort það teldist lifa góðu og happadrjúgu lífi eða ekki. Jafnframt varð tíminn erkióvinur mannsins og hver klukkustund minnti manninn á að lífið er endanlegt. Kapphlaupið við tímann hófst og er það mikill streituvaldur í nútímasamfélagi.

Nú hefur tekist að lengja líf ávaxtaflugu um 40% með því að breyta erfðavísum sem skrá fyrir virkni afoxunarkerfisins, en það hindrar að vefir hrörni við það að súrefni gengur í samband við þá. Einnig hefur tekist að greina gen í litlum ormi (C. elegans) sem ákveður tímalengd þá sem hann getur legið í dvala, en það er leið ormsins til að verjast óhagstæðum lífsskilyrðum. Með því að hafa áhrif á lengd dvalans má lengja líf ormsins. Ef tækist að greina langlífisgen í mönnum og hafa áhrif á þau til lífslengingar, mundi upplifun mannsins á tímanum enn breytast. Sú upplifun mun samt alltaf vera breytileg milli einstaklinga og eftir æviskeiðum, og tengjast meðal annars andlegri líðan og virkni manna á efstu árum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimild:
  • Hall JW: "The Doctors of Time", Annals of Internal Medicine 2000;132;1;18-24.

Mynd:

Hér er einnig svarað spurningu Kristjáns Jónssonar: Breytist hvernig fólk skynjar tímann með aldrinum? Virðist tíminn líða hraðar þegar fólk eldist?

Höfundur

dósent í læknisfræði við HÍ

Útgáfudagur

3.4.2000

Spyrjandi

Kristján Jónsson

Tilvísun

Pálmi V. Jónsson. „Hefur hár aldur og hægari líkamsstarfsemi áhrif á það hvernig við skynjum hraða tímans?“ Vísindavefurinn, 3. apríl 2000. Sótt 27. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=315.

Pálmi V. Jónsson. (2000, 3. apríl). Hefur hár aldur og hægari líkamsstarfsemi áhrif á það hvernig við skynjum hraða tímans? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=315

Pálmi V. Jónsson. „Hefur hár aldur og hægari líkamsstarfsemi áhrif á það hvernig við skynjum hraða tímans?“ Vísindavefurinn. 3. apr. 2000. Vefsíða. 27. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=315>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hefur hár aldur og hægari líkamsstarfsemi áhrif á það hvernig við skynjum hraða tímans?
Í stuttu máli má segja að skynjun fólks á hraða tímans sé mjög breytileg, bæði eftir aldri, virkni og öðrum aðstæðum. Við vitum til dæmis að til er aldrað fólk sem er ekki síður frískt og nýtur lífsins en þeir sem yngri eru. En hjá hverjum og einum verða þó ákveðnar aldurstengdar breytingar sem hægja á hreyfingum og viðbrögðum.

Þannig nær eldra fólk ekki sömu hámarkstíðni hjartsláttar við áreynslu og yngra fólk. Vöðvasamdráttur verður hægari og stafar það meðal annars af því að fækkun verður á einni af tveimur tegundum vöðvaþráða, snörpu tegundinni. Taugaþræðir eru umvafðir efni, sem kallast myelín. Það sér til þess að hraða flutningi taugaboða. Ef myelín verður fyrir hrörnun, eins og gerist oft með hækkandi aldri, hægir á taugaleiðni.

Af þessu leiðir að aldraðir ganga og hlaupa hægar en yngra fólk. Til að mynda eiga margir aldraðir í vandræðum með að komast yfir götu á grænu ljósi. Síðan eru margir eldri borgarar með sjúkdóma og á lyfjum sem enn hægja á viðbrögðum. Þetta kemur til dæmis fram í því hvernig fólk bregst við byltum. Um sextugt nær fólk að rétta út höndina við byltu og verjast þannig, en þeir sem eru óheppnir brotna á úlnlið. Þeir sem eru 15 árum eldri ná ekki að setja höndina jafnlangt út og geta því brotnað á upphandlegg. Þeir sem eru enn eldri eða meira lasburða ná alls ekki að bera fyrir sig höndina og brotna því eða merjast á mjöðm.

Einnig verða margvíslegar breytingar í miðtaugakerfi aldraðra, þó að þeir séu frískir. Taugafrumum í miðtaugakerfi fækkar og minna verður af ýmsum boðefnum heilans. Við þetta hægir á allri úrvinnslu heilans.

Tímaskynjun þessa fólks getur verið mjög mismunandi.

Aldraðir eru mjög mismunandi. Mjög frískt eldra fólk, sem þjálfar sig líkamlega og viðheldur andlegu atgervi með lestri, tjáningu og hvers konar virkni, getur verið betur á sig komið en margur sá sem yngri er. En jafnvel þetta frískasta eldra fólk hefur þó óumdeilanlega orðið fyrir ýmsum aldurstengdum breytingum sem hægja á tauga- og vöðvaviðbrögðum miðað við það sem þau voru áður hjá sama einstaklingi.

Hvernig skynja menn hraða tímans með hækkandi aldri? Það er mjög misjafnt meðal aldraðra og munurinn vex með hækkandi aldri. Börn upplifa tímann þannig að hann sé lengur að líða en þeir sem fullorðnir eru, en frísku og önnum köfnu fólki á miðjum aldri finnst hann fljúga áfram. Hver tímaeining hjá ungri manneskju er stærra hlutfall af ævinni en sama tímaeining hjá eldra fólki og kann það að skýra upplifunina að nokkru leyti.

Hins vegar kann upplifunin einnig að tengjast þeim verkefnum sem manneskjan tekur sér fyrir hendur. Þegar komið er á eftirlaun setjast sumir í helgan stein í orðsins fyllstu merkingu, en aðrir taka upp margvísleg áhugamál. Þeir sem fylla tíma sinn með viðfangsefnum tjá sig gjarnan um að tíminn líði hratt, en þeir sem sitja í iðjuleysi kvarta oft um það hve tíminn sé lengi að líða. Andleg líðan spilar hér einnig inn í. Þeir sem eru daprir og niðurdregnir upplifa tímann þannig að hann sé lengi að líða, öfugt við þá sem eru virkir eða jafnvel ofvirkir.

Tíminn er afstæður og það er erfitt að skilja hann. Það getur því verið gagnlegt að tala annars vegar um tíma alheimsins frá miklahvelli til okkar daga, stjarnfræðilegan tíma, og hins vegar tímann eins og við upplifum hann sem manneskjur. Samhengi tíma og aldurs hefur verið manneskjunni hugleikið allt frá fyrstu skráðu heimildum. Í austrænum hefðum hafa kenningar um líffræði ellinnar og tímann tengst heimspekilegum kenningum um lífið. Þetta kemur vel fram í taóisma sem leggur áherslu á það að hrumleiki ellinnar sé ekki óumflýjanlegur og sé á ábyrgð einstaklingsins.

Í búddisma, sem þróaðist fyrst á Indlandi og barst síðan til Kína og flestra annarra Asíulanda, eru aðrar hugmyndir ríkjandi um ellina og tímann. Samkvæmt kenningum búddismans er lífið þjáning þar sem ellin, hrumleiki og dauði eru allsráðandi. Til þess að draga úr þjáningum lífsins þarf manneskjan að vera sérstaklega meðvituð eða íhugul í þessu lífi og hinu næsta. Þá mun hún loks komast að því að þjáningin er skynvilla og komast á stig tímalausrar visku sem er ótrufluð af ellinni.

Hippókrates, faðir vestrænnar læknisfræði, talaði um lífið sem fjögur þrep: barnæsku, unglingsár, fullorðinsár og elli. Hvert stig ævinnar svaraði til eins af fjórum líkamsvessum, sem voru um aldir grundvöllur læknisfræðilegrar hugsunar. Samsvörunin við fjórar árstíðir er augljós. Fyrir siðaskiptin er líklegt að lífaldur hafi skipt litlu máli af því að fæstir vissu hversu gamlir þeir voru. Eftir siðaskiptin komu fram ný hugtök og tíminn var eitt slíkt mikilvægt hugtak. Þá var farið að virða tímann sem mikilvæga mannlega eign og það hvernig fólk varði tímanum réði því hvort það teldist lifa góðu og happadrjúgu lífi eða ekki. Jafnframt varð tíminn erkióvinur mannsins og hver klukkustund minnti manninn á að lífið er endanlegt. Kapphlaupið við tímann hófst og er það mikill streituvaldur í nútímasamfélagi.

Nú hefur tekist að lengja líf ávaxtaflugu um 40% með því að breyta erfðavísum sem skrá fyrir virkni afoxunarkerfisins, en það hindrar að vefir hrörni við það að súrefni gengur í samband við þá. Einnig hefur tekist að greina gen í litlum ormi (C. elegans) sem ákveður tímalengd þá sem hann getur legið í dvala, en það er leið ormsins til að verjast óhagstæðum lífsskilyrðum. Með því að hafa áhrif á lengd dvalans má lengja líf ormsins. Ef tækist að greina langlífisgen í mönnum og hafa áhrif á þau til lífslengingar, mundi upplifun mannsins á tímanum enn breytast. Sú upplifun mun samt alltaf vera breytileg milli einstaklinga og eftir æviskeiðum, og tengjast meðal annars andlegri líðan og virkni manna á efstu árum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimild:
  • Hall JW: "The Doctors of Time", Annals of Internal Medicine 2000;132;1;18-24.

Mynd:

Hér er einnig svarað spurningu Kristjáns Jónssonar: Breytist hvernig fólk skynjar tímann með aldrinum? Virðist tíminn líða hraðar þegar fólk eldist?
...