Sólin Sólin Rís 06:57 • sest 19:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:50 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:40 • Síðdegis: 17:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:49 • Síðdegis: 24:15 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:57 • sest 19:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:50 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:40 • Síðdegis: 17:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:49 • Síðdegis: 24:15 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig hljómar eiðurinn sem læknar sverja?

Stefán B. Sigurðsson

Hippókrates, sem nefndur hefur verið faðir læknisfræðinnar, var uppi frá um 460 til um 375 fyrir Krist og er kenndur er við grísku eyjuna Kos þar sem hann starfaði. Hann var menntaður sem læknir og er sennilega ein þekktasta persónan í sögu læknisfræðinnar. Hippókrates hafnaði hjátrú, hindurvitnum og galdralækningum og er talinn hafa lagt grundvöllinn að læknisfræði sem vísindagrein.

Flestar sögulegar heimildir benda til þess að Hippókrates eða einhver af stúdentum hans hafi skrifað hinn svokallaða Hippókratesareið sem nefnist á ensku "The Hippocratic Oath". Eiðurinn var í mörg hundruð ár einungis notaður í þröngum hópi lækna. Það var ekki fyrr en um og eftir 1750 sem eiðurinn og efnislegt innihald hans komst aftur inn almenna umræðu.

Hippókratesareiðurinn eða læknaeiðurinn hefur tekið breytingum í áranna rás; sum atriði hafa horfið og önnur verið endurorðuð. Fyrir þessu eru þjóðfélagslegar, trúarlegar og pólitískar ástæður. Eiðurinn er því orðinn nokkuð mismunandi eftir löndum og jafnvel milli læknaskóla. Flestir læknaskólar láta þó nemendur sína skrifa undir einhverja útgáfu hans.

Íslenska útgáfan af eiðnum var útfærð árið 1932 og rituð í sérstaka bók. Undir þau heitorð hafa nær allir læknar sem hafa útskrifast úr læknadeild Háskóla Íslands ritað nöfn sín.

Íslenska útgáfan af heitorði lækna hljómar svo:
Ég sem rita nafn mitt hér undir, lofa því og legg við drengskap minn

að beita kunnáttu minni með fullri alúð og samviskusemi

að láta mér ávallt annt um sjúklinga mína án manngreinarálits

að gera mér far um að auka kunnáttu mína í læknafræðum

að kynna mér og halda vandlega öll lög og fyrirmæli er lúta að störfum lækna

Margar aðrar yfirlýsingar sem eiga rætur sínar í þeirri hugsun sem kemur fram í eið Hippókratesar eru í notkun. Ein sú þekktasta er Helsinki-yfirlýsingin sem hægt er að finna í enskri útgáfu á vef Alþjóðafélags lækna (The World Medical Association). Með því að smella hér má svo sjá nútímaútgáfa af eiðnum sem er notuð víða í bandarískum háskólum. Þessi útgáfa var færð í letur árið 1964 af Louis Lasagna sem var deildarforseti læknaskólans við Tuft University í Massachusetts.

Einnig er mjög áhugavert í þessu sambandi að skoða siðareglur íslenskra lækna, “Codex Ethicus”, sem eru á vef Læknafélags Íslands.

Upprunaleg útgáfa Hippókratesareiðsins er lítið notuð nú á dögum; þar er meðal annars höfðað til grískra guða og gert ráð fyrir að læknisfræði tilheyri körlum en ekki konum. Einnig eru læknar hvattir til andstöðu gegn fóstureyðingum, líknardauða og dauðarefsingum, málefni sem öll eru mjög umdeild í nútímasamfélögum. Eiðurinn var skrifaður á grísku en er hér að neðan í íslenskri þýðingu Kristínar Ólafsdóttur. Textinn birtist upphaflega í bókinni Undur veraldar (1945) sem tekin var saman af H. Shapley, S. Rapport og H. Wright. Textinn er án greinaskila í bókinni en þau hafa verið sett inn hér til að gera hann læsilegri.

Ég sver við Apolló lækni, við Eskuláp, við heilbrigðina, við Panakea og alla guði og gyðjur, er séu mér vitni, að ég mun kappkosta að halda þennan eið og skuldbindingu, eftir því sem mér endast hæfileikar og dómgreind til:

Kennara minn í þessum fræðum gengst ég undir að virða til jafns við foreldra mína; deila með honum brauði mínu og fé, ef hann er í fjárþröng; líta á venslamenn hans sem bræður mína og kenna þeim fræði mín endurgjaldslaust, ef þeir óska að nema þau; láta forskrifir, munnlegar leiðbeiningar og hvers konar tilsögn aðeins í té sonum mínum, sonum kennara míns og samningsbundnum nemendum, er unnið hafa lækniseið, og engum öðrum.

Ég heiti því að beita læknisaðgerðum til líknar sjúkum, eftir því sem ég hef vit á og getu til, en aldrei í því skyni að valda miska eða tjóni.

Ekki mun ég heldur byrla neinum eitur, þó að þess sé farið á leit við mig, né blása mönnum í brjóst að fremja slíkar misgerðir.

Sömuleiðis mun ég forðast að fá konu í hendur nokkur þau tæki, er valdið gætu fósturláti.

Ég vil vera hreinn og vammlaus í líferni mínu og starfi.

Ég mun ekki beita hnífi við steinsóttarsjúklinga, heldur láta það eftir kunnáttumönnum í þeirri grein.

Hvar, sem mig ber að garði, mun ég kosta kapps um að líkna sjúkum og varast að valda mönnum viljandi óheillum eða tjóni og sérstaklega forðast að misbjóða líkömum karla eða kvenna, hvort heldur eru frjálsborin eða ánauðug.

Að hverju svo sem ég kann að verða sjónar- eða heyrnarvottur í starfi mínu eða utan þess í viðskiptum mínum við menn og ekki má verða heyrum kunnugt, þá mun ég aldrei ljóstra því upp, heldur gæta fyllstu þagmælsku og trúnaðar.

Ef ég held þennan eið trúlega og rýf hann aldrei, megi ég þá ævinlega öðlast góðan orðstír og njóta almennrar virðingar vegna lífernis míns og listar minnar, en gerist ég eiðrofi og griðníðingur, megi þá hið gagnstæða verða hlutskipti mitt.

Mynd:

Höfundur

prófessor í lífeðlisfræði við HÍ

Útgáfudagur

24.3.2006

Spyrjandi

Elísa Jóhannsdóttir, Davíð Þór Jónsson

Tilvísun

Stefán B. Sigurðsson. „Hvernig hljómar eiðurinn sem læknar sverja?“ Vísindavefurinn, 24. mars 2006, sótt 17. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5731.

Stefán B. Sigurðsson. (2006, 24. mars). Hvernig hljómar eiðurinn sem læknar sverja? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5731

Stefán B. Sigurðsson. „Hvernig hljómar eiðurinn sem læknar sverja?“ Vísindavefurinn. 24. mar. 2006. Vefsíða. 17. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5731>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig hljómar eiðurinn sem læknar sverja?
Hippókrates, sem nefndur hefur verið faðir læknisfræðinnar, var uppi frá um 460 til um 375 fyrir Krist og er kenndur er við grísku eyjuna Kos þar sem hann starfaði. Hann var menntaður sem læknir og er sennilega ein þekktasta persónan í sögu læknisfræðinnar. Hippókrates hafnaði hjátrú, hindurvitnum og galdralækningum og er talinn hafa lagt grundvöllinn að læknisfræði sem vísindagrein.

Flestar sögulegar heimildir benda til þess að Hippókrates eða einhver af stúdentum hans hafi skrifað hinn svokallaða Hippókratesareið sem nefnist á ensku "The Hippocratic Oath". Eiðurinn var í mörg hundruð ár einungis notaður í þröngum hópi lækna. Það var ekki fyrr en um og eftir 1750 sem eiðurinn og efnislegt innihald hans komst aftur inn almenna umræðu.

Hippókratesareiðurinn eða læknaeiðurinn hefur tekið breytingum í áranna rás; sum atriði hafa horfið og önnur verið endurorðuð. Fyrir þessu eru þjóðfélagslegar, trúarlegar og pólitískar ástæður. Eiðurinn er því orðinn nokkuð mismunandi eftir löndum og jafnvel milli læknaskóla. Flestir læknaskólar láta þó nemendur sína skrifa undir einhverja útgáfu hans.

Íslenska útgáfan af eiðnum var útfærð árið 1932 og rituð í sérstaka bók. Undir þau heitorð hafa nær allir læknar sem hafa útskrifast úr læknadeild Háskóla Íslands ritað nöfn sín.

Íslenska útgáfan af heitorði lækna hljómar svo:
Ég sem rita nafn mitt hér undir, lofa því og legg við drengskap minn

að beita kunnáttu minni með fullri alúð og samviskusemi

að láta mér ávallt annt um sjúklinga mína án manngreinarálits

að gera mér far um að auka kunnáttu mína í læknafræðum

að kynna mér og halda vandlega öll lög og fyrirmæli er lúta að störfum lækna

Margar aðrar yfirlýsingar sem eiga rætur sínar í þeirri hugsun sem kemur fram í eið Hippókratesar eru í notkun. Ein sú þekktasta er Helsinki-yfirlýsingin sem hægt er að finna í enskri útgáfu á vef Alþjóðafélags lækna (The World Medical Association). Með því að smella hér má svo sjá nútímaútgáfa af eiðnum sem er notuð víða í bandarískum háskólum. Þessi útgáfa var færð í letur árið 1964 af Louis Lasagna sem var deildarforseti læknaskólans við Tuft University í Massachusetts.

Einnig er mjög áhugavert í þessu sambandi að skoða siðareglur íslenskra lækna, “Codex Ethicus”, sem eru á vef Læknafélags Íslands.

Upprunaleg útgáfa Hippókratesareiðsins er lítið notuð nú á dögum; þar er meðal annars höfðað til grískra guða og gert ráð fyrir að læknisfræði tilheyri körlum en ekki konum. Einnig eru læknar hvattir til andstöðu gegn fóstureyðingum, líknardauða og dauðarefsingum, málefni sem öll eru mjög umdeild í nútímasamfélögum. Eiðurinn var skrifaður á grísku en er hér að neðan í íslenskri þýðingu Kristínar Ólafsdóttur. Textinn birtist upphaflega í bókinni Undur veraldar (1945) sem tekin var saman af H. Shapley, S. Rapport og H. Wright. Textinn er án greinaskila í bókinni en þau hafa verið sett inn hér til að gera hann læsilegri.

Ég sver við Apolló lækni, við Eskuláp, við heilbrigðina, við Panakea og alla guði og gyðjur, er séu mér vitni, að ég mun kappkosta að halda þennan eið og skuldbindingu, eftir því sem mér endast hæfileikar og dómgreind til:

Kennara minn í þessum fræðum gengst ég undir að virða til jafns við foreldra mína; deila með honum brauði mínu og fé, ef hann er í fjárþröng; líta á venslamenn hans sem bræður mína og kenna þeim fræði mín endurgjaldslaust, ef þeir óska að nema þau; láta forskrifir, munnlegar leiðbeiningar og hvers konar tilsögn aðeins í té sonum mínum, sonum kennara míns og samningsbundnum nemendum, er unnið hafa lækniseið, og engum öðrum.

Ég heiti því að beita læknisaðgerðum til líknar sjúkum, eftir því sem ég hef vit á og getu til, en aldrei í því skyni að valda miska eða tjóni.

Ekki mun ég heldur byrla neinum eitur, þó að þess sé farið á leit við mig, né blása mönnum í brjóst að fremja slíkar misgerðir.

Sömuleiðis mun ég forðast að fá konu í hendur nokkur þau tæki, er valdið gætu fósturláti.

Ég vil vera hreinn og vammlaus í líferni mínu og starfi.

Ég mun ekki beita hnífi við steinsóttarsjúklinga, heldur láta það eftir kunnáttumönnum í þeirri grein.

Hvar, sem mig ber að garði, mun ég kosta kapps um að líkna sjúkum og varast að valda mönnum viljandi óheillum eða tjóni og sérstaklega forðast að misbjóða líkömum karla eða kvenna, hvort heldur eru frjálsborin eða ánauðug.

Að hverju svo sem ég kann að verða sjónar- eða heyrnarvottur í starfi mínu eða utan þess í viðskiptum mínum við menn og ekki má verða heyrum kunnugt, þá mun ég aldrei ljóstra því upp, heldur gæta fyllstu þagmælsku og trúnaðar.

Ef ég held þennan eið trúlega og rýf hann aldrei, megi ég þá ævinlega öðlast góðan orðstír og njóta almennrar virðingar vegna lífernis míns og listar minnar, en gerist ég eiðrofi og griðníðingur, megi þá hið gagnstæða verða hlutskipti mitt.

Mynd:...