Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Rússar og Tsjetsjenar hafa löngum eldað grátt silfur saman. Áhrifa Rússa fer að gæta í norðurhluta Kákasus á tímum Péturs mikla um og eftir 1700. Á sléttunum norðan við Tsjetsjeníu á bökkum árinnar Terek réðu ríkjum svonefndir Terekkósakkar, sem komið höfðu þangað úr ýmsum áttum á tvö hundruð árum þar á undan. Hófust skærur milli þeirra og fjallafólksins Tsjetsjena, sem notað höfðu landið sunnan við Terek til vetrarbeitar.
Mannrán til þrælahalds og lausnargjalda hafa verið landlæg í Kákasus ekki síst meðal múslima og stunduðu Tsjetsjenar þessa iðju grimmt. Pétur mikli samdi við kósakka um að gerast rússneskir þegnar og berjast með keisarahernum í skiptum fyrir skattleysi. Kósakkar urðu þar með eins konar málaliðar og hefur það trúlega ýtt undir harðnandi átök við Tsjetsjena á átjándu öld.
Rússar lögðu undir sig Georgíu árið 1801 án vopnavalds, en Georgíumenn höfðu óttast að Persar eða Ottómanar (Tyrkir) legðu landið undir sig og vildu frekar að trúbræður þeirra, rússneskir rétttrúnaðarmenn, yfirtækju landið. Kákasus var á næstu árum að mestu lagt undir tsarinn, en svo nefndust Rússakeisarar frá 1547-1917, en ýmsar fjallaþjóðir veittu þó harða mótspyrnu.
Um 1834 hófst Imam Shamil (um 1797-1871) til forystu í liði Tsjetsjena og fór hann fyrir ákaflega harðri baráttu fyrir sjálfstæði Tsjetsjeníu allt til 1859. Fram að því höfðu Tsjetsjenar játað allhernaðarlegt afbrigði af íslam, en bjuggu sér nú til sérstaka útgáfu af samil-íslam sem predikaði enn grimmúðlegri hernaðarhyggju. Rússar beittu og mjög hrottafengnum aðferðum í baráttunni við skæruliða Shamils. Eftir 1859 komst á friður en Tsjetsjenar stunduðu þó skærur, þjófnaði og mannrán fram undir 1918. Í kjölfar rússnesku byltingarinnar stofnuðu þeir Norðurkákásíska fjallalýðveldið. Þetta lýðveldi var innlimað í Sovétríkin og taldist til Rússneska sambandslýðveldisins (RSFSR).
Á þessu korti sést Tsjetsjenía með gulum lit. Ingúsestía er fyrir vestan Tsjetsjeníu og enn vestar er Ossetía þar sem borgin Beslan er.
Árið 1936 fékk Tsjetsjenía „sjálfstæði“ innan Rússlands og varð ásamt nágranna sínum Ingúsestíu að sjálfstjórnarsvæðinu Tsjetsjeníu-Ingúsestíu. Í heimsstyrjöldinni síðari sökuðu Rússar Tsjetsjena um að vinna með nasistum og lét Stalín flytja þá alla ásamt Ingúsum og fleiri smáþjóðum austur á sléttur Kasakstan í febrúar 1944. Þeir fengu leyfi til að snúa til baka árið 1957, í valdatíð Khrústsjovs, eftir 13 ár í útlegð frá átthögum sínum.
Tsjetsjenar hafa alla tíð þótt afburða hermenn og þjónuðu þeir margir í her tsarins og í Rauða hernum og komust þar til hárra metorða. Þegar Sovétríkin liðuðust í sundur 1991 gerðist það ekki síst vegna þess að lög og stjórnarskrá Sovétsambandsins (SSSR) gerðu ráð fyrir því að lýðveldin fimmtán innan þess gætu tekið sér sjálfstæði að vild. Lög um svipaðan rétt sjálfstjórnarsvæða höfðu verið samþykkt 1990 en um túlkun þeirra urðu deilur. Þann 27. október 1991 var fyrrum herforingi í kjarnorkuherafla Rauða hersins, Djokhar Dudajev, kosinn forseti Tsjetsjeníu. Á grundvelli fyrrnefndra laga lýsti hann yfir sjálfstæði landsins þann 1. nóvember 1991. Ingúsar vildu ekki fara þessa leið og ákváðu í þjóðaratkvæðagreiðslu að vera áfram innan Rússlands.
Nú hófust skærur og mannrán og stóðu óslitið þar til nýársdag 1994, að Rússar réðust með mikinn herafla á Grosný til að „skakka leikinn“ að eigin sögn. Þá hófst fyrra stríðið sem kallað hefur verið stríð Jeltsíns og það endaði ekki fyrr en 1996, þegar Alexander Lebed fyrrum hershöfðingi, öryggismálastjóri Jeltsíns, samdi um frið við Tsjetsjena, sem fengu þá sjálfstæði að mestu leyti. Mikil óöld hófst þá í landinu, ættflokkaátök blossuðu upp og rán og gíslatökur fóru vaxandi í Suður-Rússlandi. Fjöldi gísla var kominn yfir 2000, þegar skæruliðasveitir undir stjórn Shamil Basajev og líbanska skæruliðans Kattab réðust á rússneska sjálfstjórnarsvæðið Dagestan 1999, en wahabítar, sem er íslamskur strangtrúarflokkur súnníta, höfðu þá náð nokkrum þorpum á sitt vald í Dagestan. Jafnframt höfðu íbúðablokkir í Moskvu og Volgodonsk verið sprengdar í loft upp, en flestir telja það hafa verið verk Tsjetsjena, þó svo Rússar segi það ekki öruggt.
Rússar lýstu þá yfir stríði á hendur múslimskum skæruliðum í Tsjetsjeniu og sögðu friðarsamningana frá 1996 ógilda og hófst þá það stríð sem enn stendur og er stundum kallað stríð Pútíns. Gíslatökur eru sem fyrr fastur liður í þessu stríði samanber atburðina í Dubrovkaleikhúsinu í Moskvu, en við hafa bæst sjálfsmorðsárásir sem múslimar hafa líka tíðkað annars staðar. Sjálfstæði Tsjetsjeníu eða því sem næst dugði ekki til þess að stilla til friðar 1996, og óljóst er hvað gæti orðið til þess að friður komist á. Kröfur skæruliða snúast mjög um að stofna allsherjar múslimskt ríki í öllu Kákásus þar sem sharía-lög Kóransins gildi. Sjálfstæði Tsjetsjeníu er því ekki aðalkrafa þeirra.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Evangelista, Matthew, The Chechen Wars. Will Russia Go the Way of the Soviet Union?, Brooking Institution Press, Washington 2002.
Faurby, Ib, „Den tjetjenska tragedie“ í Korsvej og minefelt. Kultur og konflikt i Kaukasus (ritstj. Ib Faurby og Märta-Lisa Magnusson), Systime, Århus 2003.
Garrett, Thomas M., At the Edge of the Empire. The Terek Cossacks and the North Caucasus Frontier 1700-1860, Westview Press, Oxford 1999.
Lieven, Anatol, Chechnya. A Tombstone of Russian Power, Yale University Press, New Haven 1998.
Í greinasafninu Korsvej og minefelt er góð lýsing á þróuninni i Kákasus eftir 1918 en bók Thomas Garrett er ágætur vegvísur um ástandið á 18. öldinni og fram yfir miðja nítjándu öld. Bók Lieven fjallar um aðdraganda fyrra stríðsins en er nokkuð hliðholl Tsjetsjenum. Í bókinni The Chechen Wars er ágætlega sagt frá báðum stríðunum og er hún ekki eins hlutdræg og bók Lieven. Kenningar evangelista um lausnir og eðli Rússlands eru þó varla óumdeildar.
Guðmundur Ólafsson. „Hvernig og hvers vegna hófst stríðið milli Tsjetsjena og Rússa?“ Vísindavefurinn, 27. september 2004, sótt 9. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4531.
Guðmundur Ólafsson. (2004, 27. september). Hvernig og hvers vegna hófst stríðið milli Tsjetsjena og Rússa? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4531
Guðmundur Ólafsson. „Hvernig og hvers vegna hófst stríðið milli Tsjetsjena og Rússa?“ Vísindavefurinn. 27. sep. 2004. Vefsíða. 9. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4531>.