Sólin Sólin Rís 02:58 • sest 23:59 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 12:00 • Sest 02:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:25 • Síðdegis: 23:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:15 • Síðdegis: 17:25 í Reykjavík
Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun

Eru líkur á að íslenskan deyi út eins og sum önnur tungumál?

Guðrún Kvaran

Vissulega hafa mörg tungumál dáið út í heiminum og mörg eru í hættu. Það er ekkert nýtt fyrirbæri. Hetítar voru til dæmis voldug indóevrópsk þjóð sem bjó í Litlu-Asíu um það bil 2400 til 1200 f.Kr. Mál þeirra er elsta mál sem heimildir eru um af indóevrópsku málaættinni en íslenska telst einnig til hennar. Sagnir herma að ,,sæþjóðir“ hafi komið og lagt ríkið í rúst um 1200 f.Kr. og víst er að eftir það eru engar heimildir um þá þjóð aðrar en aragrúi leirtaflna með alls kyns textum sem gert hafa mönnum kleift að endurgera málið í fræðilegum tilgangi.

Sama er að segja um mál tokkara, sem einnig voru indóevrópsk þjóð sem bjó í norðvestur Kína, og um gotnesku, mál voldugs germansks þjóðflokks sem lagðist í landvinninga suður um Evrópu en beið lægri hlut fyrir óvinum sínum og blandaðist sigurvegurunum. Við höfum einungis heimildir um tokkarísku og gotnesku af rituðum heimildum sem fundist hafa.Marie Smith Jones tilheyrði frumbyggjaþjóðflokki í Alaska sem kallast Eyak. Í nokkur ár var hún ein eftir af þeim sem lært höfðu eyak-tungumálið í barnæsku. Við fráfall hennar þann 21. janúar 2008 varð eyak-málið útdautt sem móðurmál.

Tungumál, sem töluð eru af fáum, eiga nú, á tímum vaxandi hnattvæðingar, erfitt uppdráttar, einkum ef litlar sem engar ritheimildir eru til á málinu og ef það er í nábýli við annað sterkara mál. Lendi tungumál til dæmis í þeirri stöðu að vera nær eingöngu notað innan veggja heimilisins en á vinnustað, í skólum og í opinberum samskiptum er notað annað mál er hætt við að móðurmálið smám saman bíði lægri hlut.

Virðing þjóðar fyrir tungumáli sínu og rækt hennar við málið skiptir sköpum í varðveislu málsins. Ef móðurmálið er notað á öllum sviðum daglegs lífs, það á bæði vandað rit- og talmál, stendur því engin hætta af utanaðkomandi málum þótt sterk séu. Um leið og gefið er eftir og talað um að ,,léttara“ sé að notast við erlenda tungu vegna samskipta við útlönd getur farið að hrikta í stoðunum. Mikilvægt er að halda þessu tvennu aðgreindu, móðurmálinu og hinu erlenda máli, vanda sig í notkun beggja málanna en láta ekki erlenda málið þröngva sér inn í móðurmálið. Þá er engin hætta á ferðum.

Það er algerlega undir Íslendingum sjálfum komið hver örlög íslenskunnar verða. Hún stendur sterkt nú en vissulega þarf að styðja hana og styrkja gegn utanaðkomandi ágangi.

Sjá einnig svör sama höfundar við spurningunum:

Mynd: Eyak language dies with its last speaker á Alaska Public Radio Network. Sótt 2. 7. 2008.


Í heild hljóðaði spurningin svona:
Ég las það í Lifandi vísindum að mörg tungumál í heiminum væru að deyja út eða væru þegar gleymd. Eru einhverjar líkur á því að íslenska eigi eftir að deyja út og hversu langt væri þá í það?

Höfundur

Guðrún Kvaran

prófessor

Útgáfudagur

2.7.2008

Spyrjandi

Hákon Arnarson

Tilvísun

Guðrún Kvaran. „Eru líkur á að íslenskan deyi út eins og sum önnur tungumál?“ Vísindavefurinn, 2. júlí 2008. Sótt 13. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=47397.

Guðrún Kvaran. (2008, 2. júlí). Eru líkur á að íslenskan deyi út eins og sum önnur tungumál? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=47397

Guðrún Kvaran. „Eru líkur á að íslenskan deyi út eins og sum önnur tungumál?“ Vísindavefurinn. 2. júl. 2008. Vefsíða. 13. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=47397>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Eru líkur á að íslenskan deyi út eins og sum önnur tungumál?
Vissulega hafa mörg tungumál dáið út í heiminum og mörg eru í hættu. Það er ekkert nýtt fyrirbæri. Hetítar voru til dæmis voldug indóevrópsk þjóð sem bjó í Litlu-Asíu um það bil 2400 til 1200 f.Kr. Mál þeirra er elsta mál sem heimildir eru um af indóevrópsku málaættinni en íslenska telst einnig til hennar. Sagnir herma að ,,sæþjóðir“ hafi komið og lagt ríkið í rúst um 1200 f.Kr. og víst er að eftir það eru engar heimildir um þá þjóð aðrar en aragrúi leirtaflna með alls kyns textum sem gert hafa mönnum kleift að endurgera málið í fræðilegum tilgangi.

Sama er að segja um mál tokkara, sem einnig voru indóevrópsk þjóð sem bjó í norðvestur Kína, og um gotnesku, mál voldugs germansks þjóðflokks sem lagðist í landvinninga suður um Evrópu en beið lægri hlut fyrir óvinum sínum og blandaðist sigurvegurunum. Við höfum einungis heimildir um tokkarísku og gotnesku af rituðum heimildum sem fundist hafa.Marie Smith Jones tilheyrði frumbyggjaþjóðflokki í Alaska sem kallast Eyak. Í nokkur ár var hún ein eftir af þeim sem lært höfðu eyak-tungumálið í barnæsku. Við fráfall hennar þann 21. janúar 2008 varð eyak-málið útdautt sem móðurmál.

Tungumál, sem töluð eru af fáum, eiga nú, á tímum vaxandi hnattvæðingar, erfitt uppdráttar, einkum ef litlar sem engar ritheimildir eru til á málinu og ef það er í nábýli við annað sterkara mál. Lendi tungumál til dæmis í þeirri stöðu að vera nær eingöngu notað innan veggja heimilisins en á vinnustað, í skólum og í opinberum samskiptum er notað annað mál er hætt við að móðurmálið smám saman bíði lægri hlut.

Virðing þjóðar fyrir tungumáli sínu og rækt hennar við málið skiptir sköpum í varðveislu málsins. Ef móðurmálið er notað á öllum sviðum daglegs lífs, það á bæði vandað rit- og talmál, stendur því engin hætta af utanaðkomandi málum þótt sterk séu. Um leið og gefið er eftir og talað um að ,,léttara“ sé að notast við erlenda tungu vegna samskipta við útlönd getur farið að hrikta í stoðunum. Mikilvægt er að halda þessu tvennu aðgreindu, móðurmálinu og hinu erlenda máli, vanda sig í notkun beggja málanna en láta ekki erlenda málið þröngva sér inn í móðurmálið. Þá er engin hætta á ferðum.

Það er algerlega undir Íslendingum sjálfum komið hver örlög íslenskunnar verða. Hún stendur sterkt nú en vissulega þarf að styðja hana og styrkja gegn utanaðkomandi ágangi.

Sjá einnig svör sama höfundar við spurningunum:

Mynd: Eyak language dies with its last speaker á Alaska Public Radio Network. Sótt 2. 7. 2008.


Í heild hljóðaði spurningin svona:
Ég las það í Lifandi vísindum að mörg tungumál í heiminum væru að deyja út eða væru þegar gleymd. Eru einhverjar líkur á því að íslenska eigi eftir að deyja út og hversu langt væri þá í það?
...