Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað eru LIBOR-vextir?

Skammstöfun LIBOR stendur fyrir London Interbank Offered Rate. Hún vísar til þeirra vaxta sem bjóðast á lánum á millibankamarkaði í London. Reiknaðir eru LIBOR-vextir fyrir nokkra af helstu gjaldmiðlum heims. Sem dæmi má nefna að þann 24. febrúar 2005 voru LIBOR-vextir til eins mánaðar í evrum 2,10%, í pundum 4,85% og í dollurum 2,67%. Einnig eru reiknaðir LIBOR-vextir miðað við annan lánstíma, allt frá einum degi til árs. Vextirnir eru gefnir upp á ársgrundvelli. Þótt vextirnir séu reiknaðir út miðað við kjör í London þá er stuðst við þá miklu víðar.

LIBOR-vextirnir gefa til kynna lánskjör í viðskiptum mjög traustra banka en aðrir lántakendur þurfa alla jafna að greiða hærri vexti. Þá er talað um álag á LIBOR. Álagið er reiknað í svokölluðum punktum en hver punktur er einn hundraðasti úr prósentustigi. Þannig gæti til dæmis lítill banki þurft að greiða 20 punkta álag á LIBOR-vexti. Honum stæðu þá til dæmis til boða lán í dollurum með 2,67% + 0,20% eða 2,87% vöxtum til eins mánaðar, á ársgrundvelli. Allra bestu lántakendur geta síðan jafnvel fengið lán með lægri vöxtum en LIBOR.

Á Íslandi eru stundum notaðir hliðstæðir vextir, kallaðir REIBOR. REIBOR stendur fyrir Reykjavík Interbank Offered Rate og táknar millibankavexti í krónum á Íslandi. Þann 24. febrúar 2005 voru REIBOR-vextir til eins mánaðar 8,625%.

Einnig er til viðmiðið REIBID. Það er skammstöfun fyrir Reykjavík Interbank Bid Rate. Munurinn liggur í því að REIBOR eru útlánsvextir en REIBID innlánsvextir. REIBID-vextir eru því alltaf aðeins lægri en REIBOR-vextir. Þennan sama dag voru REIBID-vextir til eins mánaðar 8,475%, það er 15 punktum (0,15%) lægri en REIBOR. Hliðstæða REIBID í London er LIBID.

Frekara lesefni um vexti á Vísindavefnum:

Útgáfudagur

9.3.2005

Spyrjandi

Halldór H. Eydal

Höfundur

Gylfi Magnússon

dósent í hagfræði við HÍ

Tilvísun

Gylfi Magnússon. „Hvað eru LIBOR-vextir? “ Vísindavefurinn, 9. mars 2005. Sótt 14. desember 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=4823.

Gylfi Magnússon. (2005, 9. mars). Hvað eru LIBOR-vextir? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4823

Gylfi Magnússon. „Hvað eru LIBOR-vextir? “ Vísindavefurinn. 9. mar. 2005. Vefsíða. 14. des. 2019. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4823>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Ólöf Guðný Geirsdóttir

1968

Ólöf Guðný Geirsdóttir er dósent í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild HÍ. Meginviðfangsefni hennar eru næringarástand aldraðra ásamt rannsóknum á áhrifum næringar á farsæla öldrun.