Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvað er átt við með þjóðargjaldþroti?

Gylfi Magnússon

Hugtakið þjóðargjaldþrot hefur talsvert verið í umræðunni undanfarna mánuði hérlendis. Sambærileg hugtök eru einnig til í öðrum tungumálum, til dæmis er stundum talað um national bankruptcy á ensku. Hugtakið er þó nokkuð misvísandi því að þjóð getur ekki orðið gjaldþrota. Ekki er hægt að eiga kröfu á þjóð sem slíka. Það er hins vegar hægt að eiga kröfu á ríki og þau geta orðið gjaldþrota eða að minnsta kosti komist í greiðsluþrot. Eðlilegra væri því að tala um gjaldþrot ríkis.

Ýmis dæmi eru um það í mannkynssögunni að ríki hafi ekki getað, eða viljað, standa við skuldbindingar sínar. Oft hefur þetta gerst í kjölfar styrjalda eða byltinga þar sem nýir valdhafar hafa neitað að greiða skuldir sem forverar þeirra stofnuðu til. Sem dæmi má nefna að kommúnistar sem náðu völdum í Rússlandi árið 1917 neituðu að borga miklar skuldir sem keisarastjórnin hafði safnað. Á sama hátt neitaði Bandaríkjastjórn að greiða skuldir sem hin sigruðu Suðurríki höfðu stofnað til þau fjögur ár sem þau lifðu sem sjálfstætt ríki, 1861-1865.

Önnur ríki hafa neitað að greiða skuldir að fullu þótt ekki hafi verið skipt um valdhafa með þessum hætti. Sem dæmi má nefna að Neville Chamberlain, sem þá var fjármálaráðherra, ákvað að hætta að greiða til fulls vexti af miklum skuldum Breta eftir fyrri heimsstyrjöldina. Þessar vaxtagreiðslur íþyngdu breska ríkinu mjög í kreppunni á fjórða áratugnum og árið 1932 ákvað Chamberlain að ríkið myndi ekki greiða umsamda vexti, sem voru 5%, en greiða í þess stað 3,5% vexti.


Neville Chamberlain (1869-1940).

Enn önnur ríki hafa beinlínis komist í þrot, þannig að þau hafa ekki getað staðið í skilum. Sem dæmi má nefna Rússland sem árið 1998 gat ekki staðið að fullu við skuldbindingar sínar og varð að fresta greiðslu afborgana af hluta lána ríkisins. Lánin voru þó greidd síðar.

Eitt af helstu hlutverkum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er að koma ríkjum til aðstoðar sem lenda í vandræðum af þessu tagi. Þá er annars vegar sett upp aðgerðaáætlun sem á að bæta stöðu ríkisins, til dæmis með því að draga úr ríkisútgjöldum, þannig að raunhæft sé að það geti staðið við skuldbindingar sínar þegar fram líða stundir, og hins vegar veitt lán til að bregðast við brýnum skammtímavanda.

Séu skuldbindingar ríkja að því er virðist óviðráðanlegar getur þurft að semja um niðurfellingu hluta þeirra. Sem dæmi um þetta má nefna að árið 1996 settu Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn upp áætlun sem ætlað var að taka á stöðu 33 ríkja sem voru bæði mjög fátæk og skuldug (HIPC, Heavily Indebted Poor Countries). Flest ríkjanna eru í Afríku. Í áætluninni felst meðal annars talsverð niðurfelling skulda þannig að það sem eftir stendur ætti að vera viðráðanlegt fyrir viðkomandi ríki.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:
  • BBC. Sótt 30.12.2008.

Aðrir spyrjendur voru:
Bjarki Már Flosason, Sonja Gunnlaugsdóttir, Jenný Jóakimsdóttir, Jóhannes Karl Hauksson og Sigrún Jónsdóttir

Höfundur

Gylfi Magnússon

prófessor í hagfræði við HÍ

Útgáfudagur

30.12.2009

Spyrjandi

Sumarliði Einar Daðason og fleiri

Tilvísun

Gylfi Magnússon. „Hvað er átt við með þjóðargjaldþroti?“ Vísindavefurinn, 30. desember 2009. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=50762.

Gylfi Magnússon. (2009, 30. desember). Hvað er átt við með þjóðargjaldþroti? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=50762

Gylfi Magnússon. „Hvað er átt við með þjóðargjaldþroti?“ Vísindavefurinn. 30. des. 2009. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=50762>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er átt við með þjóðargjaldþroti?
Hugtakið þjóðargjaldþrot hefur talsvert verið í umræðunni undanfarna mánuði hérlendis. Sambærileg hugtök eru einnig til í öðrum tungumálum, til dæmis er stundum talað um national bankruptcy á ensku. Hugtakið er þó nokkuð misvísandi því að þjóð getur ekki orðið gjaldþrota. Ekki er hægt að eiga kröfu á þjóð sem slíka. Það er hins vegar hægt að eiga kröfu á ríki og þau geta orðið gjaldþrota eða að minnsta kosti komist í greiðsluþrot. Eðlilegra væri því að tala um gjaldþrot ríkis.

Ýmis dæmi eru um það í mannkynssögunni að ríki hafi ekki getað, eða viljað, standa við skuldbindingar sínar. Oft hefur þetta gerst í kjölfar styrjalda eða byltinga þar sem nýir valdhafar hafa neitað að greiða skuldir sem forverar þeirra stofnuðu til. Sem dæmi má nefna að kommúnistar sem náðu völdum í Rússlandi árið 1917 neituðu að borga miklar skuldir sem keisarastjórnin hafði safnað. Á sama hátt neitaði Bandaríkjastjórn að greiða skuldir sem hin sigruðu Suðurríki höfðu stofnað til þau fjögur ár sem þau lifðu sem sjálfstætt ríki, 1861-1865.

Önnur ríki hafa neitað að greiða skuldir að fullu þótt ekki hafi verið skipt um valdhafa með þessum hætti. Sem dæmi má nefna að Neville Chamberlain, sem þá var fjármálaráðherra, ákvað að hætta að greiða til fulls vexti af miklum skuldum Breta eftir fyrri heimsstyrjöldina. Þessar vaxtagreiðslur íþyngdu breska ríkinu mjög í kreppunni á fjórða áratugnum og árið 1932 ákvað Chamberlain að ríkið myndi ekki greiða umsamda vexti, sem voru 5%, en greiða í þess stað 3,5% vexti.


Neville Chamberlain (1869-1940).

Enn önnur ríki hafa beinlínis komist í þrot, þannig að þau hafa ekki getað staðið í skilum. Sem dæmi má nefna Rússland sem árið 1998 gat ekki staðið að fullu við skuldbindingar sínar og varð að fresta greiðslu afborgana af hluta lána ríkisins. Lánin voru þó greidd síðar.

Eitt af helstu hlutverkum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er að koma ríkjum til aðstoðar sem lenda í vandræðum af þessu tagi. Þá er annars vegar sett upp aðgerðaáætlun sem á að bæta stöðu ríkisins, til dæmis með því að draga úr ríkisútgjöldum, þannig að raunhæft sé að það geti staðið við skuldbindingar sínar þegar fram líða stundir, og hins vegar veitt lán til að bregðast við brýnum skammtímavanda.

Séu skuldbindingar ríkja að því er virðist óviðráðanlegar getur þurft að semja um niðurfellingu hluta þeirra. Sem dæmi um þetta má nefna að árið 1996 settu Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn upp áætlun sem ætlað var að taka á stöðu 33 ríkja sem voru bæði mjög fátæk og skuldug (HIPC, Heavily Indebted Poor Countries). Flest ríkjanna eru í Afríku. Í áætluninni felst meðal annars talsverð niðurfelling skulda þannig að það sem eftir stendur ætti að vera viðráðanlegt fyrir viðkomandi ríki.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:
  • BBC. Sótt 30.12.2008.

Aðrir spyrjendur voru:
Bjarki Már Flosason, Sonja Gunnlaugsdóttir, Jenný Jóakimsdóttir, Jóhannes Karl Hauksson og Sigrún Jónsdóttir
...