Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Það er rétt sem spyrjandi bendir á að sumum finnast gúrkur mjög vondar. Við þekkjum það öll að smekkur er afar mismunandi og á það við um mat eins og flest annað. Sumir elska sjávarrétti á meðan aðrir geta ekki hugsað sér neitt betra en blóðuga nautasteik. Fyrir þessum skoðunum okkar geta legið ýmsar ástæður og í svari við spurningunni Af hverju er smekkur manna mismunandi? fer Gunnar Harðarson í ýmsar kenningar um ástæður ólíks smekks manna.
Ekki eru allir á eitt sáttir um ágæti agúrkunnar
Það virðist hins vegar að óbeit manna á gúrkum nái oft dýpra en að vera bara einfalt smekksatriði. Flestum finnast agúrkur vera afar bragðlausar og þeir finna líka litla sem enga lykt af þeim. Er þeim oftast lýst sem vatnskenndum með léttu bragði sem svipi til melónu. Aðrir vilja hins vegar meina að þeir finni beiskt og vont bragð af gúrkum og þeir þola illa af þeim lyktina. Höfundur hafði samband við nokkra aðila sem hann vissi að hefðu mikla óbeit á gúrkum. Öll sögðust þau finna beiskt eða "vemmilegt" bragð af gúrkum. Einnig nefndu flestir að þeim fyndist lyktin af gúrkum ógeðfelld.
Skýringin á þessu óbragði er ekki endilega matvendni eða sérstakur smekkur sumra. Líklega má rekja þetta genasamsætu sem veldur því að sumir finna beiskt bragð af gúrkum en aðrir ekki.
Hægt er að benda á að nokkuð sambærilegt á sér stað þegar menn komast í tæri við lífræna efnið fenýlþíókarbamíð (e. phenylthiocarbamide) eða PTC. Tiltekin genasamsæta stýrir því hvort fólk finnur bragð af PTC eða ekki. Rannsóknir benda til þess að það sé ríkjandi einkenni að finna bragð af PTC, en einhver merki eru þó um að það geti verið hálfríkjandi.
Til að útskýra þetta nánar skulum við kalla genið sem stýrir því að við finnum bragð af PTC T og genið sem stýrir því að ekki finnist bragð af PTC t. Allir sem væru með að minnsta kosti eitt T gen myndu þannig finna bragð af PTC, hvort sem genið á hinum litningnum væri T eða t. Þetta þýðir að þeir sem eru TT eða Tt finna bragð af PTC. Þeir sem eru með erfðasamsetninguna tt, eru sem sagt arfhreinir um víkjandi genið, finna hins vegar ekkert bragð af PTC.
Þrívíð mynd af byggingu PTC (fenýlþíókarbamíðs)
Einhverjar rannsóknir benda til þess að í raun sé um hálfríkjandi einkenni að ræða. Þetta þýðir að þeir sem eru TT finna meira bragð af PTC heldur en þeir sem eru arfblendnir um einkennið, sem sagt Tt. Hormónar virðast þó líka hafa áhrif á næmni einstaklinga gagnvart PTC, en hærra hlutfall kvenna en karla virðist geta greint efnið.
Það var efnafræðingur að nafni Arthur Fox sem fyrst uppgötvaði ólíka getu manna til að nema bragð af PTC árið 1931. Síðan þá hefur erfðafræði þessa einkennis verið rannsökuð mikið. Samsætan er hluti af genafjölskyldu sem stýrir næmni manna fyrir beisku bragði. Benda rannsóknir til þess að um afar fornt einkenni sé að ræða sem megi rekja til forvera mannsins í Afríku. Hefur það verið tengt við ýmsar matarvenjur fólks og þykja rannsóknirnar því afar mikilvægar vegna manneldissjónarmiða. Einnig þykir áhugavert hversu ólík tíðni gensins T er á milli stofna manna, en mjög misjafnt er hversu há tíðni einstaklinga sem nema PTC er.
Um gagnsemi þess að nema PTC er lítið vitað. Eiginleiki mannsins til að finna beiskt bragð er þó venjulega hluti af vörnum líkamans gegn eitruðum og óæskilegum efnum. Þetta þýðir þó ekki að maðurinn geti ekki líka fundið beiskt bragð af efnum sem eru í raun skaðlaus.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Drayna, D. 2005. Genetics of individual differences in bitter taste perception: lessons from the PTC gene. Clinical genetics, 67(4):275-280.
Drewnowski, D. og C. Gomez-Carneros. 2000. Bitter taste, phytonutrients and the consumer: a review. The American Journal of Clinical Nutrition, 72(6): 1424-1435.
Reddy, B.M. og D.C. Rao. 1989. Phenylthiocarbamide taste sensitivity revisited: complete sorting test supports residual family resemblance. Genetic Epidemology, 6(3): 413-421.
Margrét Björk Sigurðardóttir. „Af hverju finna bara sumir vont bragð af gúrku?“ Vísindavefurinn, 25. mars 2009, sótt 11. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=52116.
Margrét Björk Sigurðardóttir. (2009, 25. mars). Af hverju finna bara sumir vont bragð af gúrku? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=52116
Margrét Björk Sigurðardóttir. „Af hverju finna bara sumir vont bragð af gúrku?“ Vísindavefurinn. 25. mar. 2009. Vefsíða. 11. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=52116>.