Sólin Sólin Rís 03:49 • sest 23:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 22:41 • Sest 03:14 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:38 • Síðdegis: 18:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:46 • Síðdegis: 24:13 í Reykjavík

Hver er munur á stærð íslenskra jökla í dag og á landnámsöld?

Oddur Sigurðsson

Ljóst er af frásögn fornrita að jöklar hafa sett svip á landslagið þegar við landnám. Landnáma segir að vísu ekki mikið frá jöklum en engu að síður er ljóst af örnefnum, einkum Jökulsám, sem voru víða á landinu, að jöklar voru að mestu á sömu stöðum og þeir eru enn þann dag í dag.

Ýmsar fornsögur svo sem Njáls saga, Grettis saga og Bárðar saga Snæfellsáss segja frá jöklum. Í Konungsskuggsjá, sem rituð var á 13. öld, er sagt frá jöklum á Íslandi og eðli þeirra. Annálar geta um eldgos í jöklum snemma á öldum. Máldagar sýna að jörðin Breiðamörk fór mjög rýrnandi í verði frá söguöld og fram eftir öldum. Engum hefði dottið í hug að setja þar niður bú ef jökullinn hefði staðið nálægt því svo framarlega sem nú er. Blasir því við að Breiðamerkurjökli er um að kenna verðfall jarða, enda gekk hann yfir síðasta bæjarstæðið í sveitinni um aldamótin 1700.

Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá upphafi 18. aldar getur þess á nokkrum stöðum að jöklar sígi fram yfir beitarlönd og jafnvel ræktarlönd manna. Jarðabók Ísleifs Einarssonar frá sama tíma segir frá því að skóglendi á Viðborðsdal í Austur-Skaftafellssýslu hafi horfið undir jökul þótt hann eigi það stundum til að draga sig til baka. Allmargar heimildir frá 19. öld greina frá að sífellt meira land hverfi undir jökla. Ritaðar heimildir fyrri alda bera sem sagt með sér að jöklar hafi færst í aukana meira eða minna jafnt og þétt að minnsta kosti frá því á 14. öld og fram undir aldamótin 1900.

Talið er að rúmlega 10% af þurrlendi Íslands sé hulið jöklum.

Um 1890 náðu jöklar meiri útbreiðslu en nokkru sinni áður síðan ísöld lauk. Því ber lýsing Þorvalds Thoroddsen glöggt vitni, svo og jarðfræðilegar athuganir á 20. öld.

Tuttugasta öldin tók gífurlegan toll af jöklum landsins. Á fjórða og fimmta áratug aldarinnar losnuðu Hafrafell og Breiðamerkurfjall í Öræfum úr viðjum jökuls en heimildir eru fyrir því að hann hafi spennt um þessi fjöll greipar á 17. öld. Þess vegna má ætla að nú séu jöklar svipaðir að stærð og var á 16. öld. Víða má því sjá land koma undan jökli sem ekki hefur sést síðan um siðaskipti og er þess vegna algerlega framandi núlifandi mönnum.

Aldrei hafa jöklar verið taldir mikil eign á Íslandi og fremur hafa þeir þótt illur granni sem ekkert gott leiddi af sér en margt illt. Hvergi á Íslandi eru jöklar jafnnærgöngulir við mannabyggð og í Austur-Skaftafellssýslu. Þar hafa byggðir farið undir jökul. Í Vestur-Skaftafellssýslu fóru menn ekki heldur varhluta af verkum jöklanna. Kötluhlaup fyrri alda eyddu heilum sveitum á Mýrdalssandi. Drangajökull eyddi einnig nokkrum jörðum í nágrenni sínu, sennilega mest með vatnagangi.

Jöklarnir eru stærri nú en þeir voru við landnám en vandi er að áætla í tölum hve miklu munar. Þó má gera ráð fyrir að 10-20% munur sé ekki fjarri lagi.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Mynd:

Höfundur

jarðfræðingur hjá Orkustofnun

Útgáfudagur

24.6.2010

Spyrjandi

Sigurður Örn Gíslason

Tilvísun

Oddur Sigurðsson. „Hver er munur á stærð íslenskra jökla í dag og á landnámsöld?“ Vísindavefurinn, 24. júní 2010. Sótt 22. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=54186.

Oddur Sigurðsson. (2010, 24. júní). Hver er munur á stærð íslenskra jökla í dag og á landnámsöld? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=54186

Oddur Sigurðsson. „Hver er munur á stærð íslenskra jökla í dag og á landnámsöld?“ Vísindavefurinn. 24. jún. 2010. Vefsíða. 22. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=54186>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er munur á stærð íslenskra jökla í dag og á landnámsöld?
Ljóst er af frásögn fornrita að jöklar hafa sett svip á landslagið þegar við landnám. Landnáma segir að vísu ekki mikið frá jöklum en engu að síður er ljóst af örnefnum, einkum Jökulsám, sem voru víða á landinu, að jöklar voru að mestu á sömu stöðum og þeir eru enn þann dag í dag.

Ýmsar fornsögur svo sem Njáls saga, Grettis saga og Bárðar saga Snæfellsáss segja frá jöklum. Í Konungsskuggsjá, sem rituð var á 13. öld, er sagt frá jöklum á Íslandi og eðli þeirra. Annálar geta um eldgos í jöklum snemma á öldum. Máldagar sýna að jörðin Breiðamörk fór mjög rýrnandi í verði frá söguöld og fram eftir öldum. Engum hefði dottið í hug að setja þar niður bú ef jökullinn hefði staðið nálægt því svo framarlega sem nú er. Blasir því við að Breiðamerkurjökli er um að kenna verðfall jarða, enda gekk hann yfir síðasta bæjarstæðið í sveitinni um aldamótin 1700.

Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá upphafi 18. aldar getur þess á nokkrum stöðum að jöklar sígi fram yfir beitarlönd og jafnvel ræktarlönd manna. Jarðabók Ísleifs Einarssonar frá sama tíma segir frá því að skóglendi á Viðborðsdal í Austur-Skaftafellssýslu hafi horfið undir jökul þótt hann eigi það stundum til að draga sig til baka. Allmargar heimildir frá 19. öld greina frá að sífellt meira land hverfi undir jökla. Ritaðar heimildir fyrri alda bera sem sagt með sér að jöklar hafi færst í aukana meira eða minna jafnt og þétt að minnsta kosti frá því á 14. öld og fram undir aldamótin 1900.

Talið er að rúmlega 10% af þurrlendi Íslands sé hulið jöklum.

Um 1890 náðu jöklar meiri útbreiðslu en nokkru sinni áður síðan ísöld lauk. Því ber lýsing Þorvalds Thoroddsen glöggt vitni, svo og jarðfræðilegar athuganir á 20. öld.

Tuttugasta öldin tók gífurlegan toll af jöklum landsins. Á fjórða og fimmta áratug aldarinnar losnuðu Hafrafell og Breiðamerkurfjall í Öræfum úr viðjum jökuls en heimildir eru fyrir því að hann hafi spennt um þessi fjöll greipar á 17. öld. Þess vegna má ætla að nú séu jöklar svipaðir að stærð og var á 16. öld. Víða má því sjá land koma undan jökli sem ekki hefur sést síðan um siðaskipti og er þess vegna algerlega framandi núlifandi mönnum.

Aldrei hafa jöklar verið taldir mikil eign á Íslandi og fremur hafa þeir þótt illur granni sem ekkert gott leiddi af sér en margt illt. Hvergi á Íslandi eru jöklar jafnnærgöngulir við mannabyggð og í Austur-Skaftafellssýslu. Þar hafa byggðir farið undir jökul. Í Vestur-Skaftafellssýslu fóru menn ekki heldur varhluta af verkum jöklanna. Kötluhlaup fyrri alda eyddu heilum sveitum á Mýrdalssandi. Drangajökull eyddi einnig nokkrum jörðum í nágrenni sínu, sennilega mest með vatnagangi.

Jöklarnir eru stærri nú en þeir voru við landnám en vandi er að áætla í tölum hve miklu munar. Þó má gera ráð fyrir að 10-20% munur sé ekki fjarri lagi.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Mynd:...