Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hverjar eru kenningar Eriks H. Eriksons í uppeldis- og sálfræði?

Erik H. Erikson fæddist árið 1902 og dó rúmlega níræður árið 1994. Hann setti fram kenningu um þroska fólks frá vöggu til grafar. Samkvæmt kenningu hans þarf fólk að takast á við ákveðin verkefni á hverju þroskaskeiði. Því betur sem það leysir verkefnin þeim mun betur gengur á næsta þroskaskeiði á eftir. Á hverju skeiði eykst einnig styrkleiki fólks. Þótt ekki takist vel til á einu æviskeiði getur fólk þó náð upp þeim styrkleika sem skeiðið býður upp á, jafnvel þótt síðar verði. Þetta er þó alltaf auðveldast á þeim tíma sem aldursskeiðið segir til um. Þroskaskeiðin eru þessi:

Aldur Það sem verið er að tileinka sér Styrkleiki
Fæðing – 1 árs Traust eða vantraust Von
1-3 ára Sjálfstæði eða efi, skömm Viljastyrkur
3-5 ára Frumkvæði eða sektarkennd Markmiðssókn
6-11 (að kynþroska) Dugnaður eða minnimáttarkennd Geta
12-18 ára Sjálfsmynd eða sjálfsmyndarruglingur Tryggð
18-35 ára Nánd eða einangrun Kærleikur
35-55 ára Sköpun eða stöðnun Umönnun
55 ára og eldri Heilsteypt sjálf eða örvænting Viska

Á fyrsta árinu eru börn algjörlega háð umönnunaraðilum sínum og eru þá eðlilega að læra að treysta því að þau fái þá næringu og umönnun sem þau þurfa. Á öðru og þriðja ári eykst getan og börn geta farið að gera hlutina sjálf, ganga, klæða sig og halda á hlutum. Börn eru stolt af þessari hæfni og vilja gera eins mikið sjálf og hægt er. Þá er spurningin hvort þeim sé gert það kleift að spreyta sig.

Á aldrinum 3-5 ára eykst færni barna enn og þau vilja taka frumkvæði í málum sem þeim finnast mikilvæg. Ef þetta er að staðaldri bannað getur það leitt til langvarandi sektarkenndar. Á grunnskólaaldrinum er svo farið að leggja æ meiri áherslu á það sem barnið þarf að kunna og geta, og það er mikilvægt fyrir þroska þess að því finnist það hæft og duglegt.


Unglingar prófa gjarnan að leika hin ýmsu hlutverk. Finni þeir sig ekki í neinu þeirra geta þeir lent í hálfgerðri tilvistarkreppu. Myndin er birt með góðfúslegu leyfi Laurie Thompson hjá Imagination Studio.

Á unglingsárunum kemur að því að sjálfsmyndin fer að þroskast. Þá myndast hæfileikinn til að sjá sig í mismunandi aðstæðum og hlutverkum og unglingar fara að prófa sig áfram með mismunandi sjálfsmyndir. Í upphafi þessa tímabils lítur fólk á sig sem nokkurs konar framhald fjölskyldunnar, en smátt og smátt þarf það að þroska eigin hugmyndir um lífið og tilveruna og samsama sjálft sig þeim hugmyndum. Á meðan þetta tímabil stendur yfir getur oft reynt á þolinmæði foreldra og annarra umönnunaraðila, sérstaklega ef þeir átta sig ekki á því að þetta er eðlilegur gangur lífsins.

Verkefnið á næsta skeiði er að finna nánd við aðra manneskju án þess að týna alveg eigin sjálfsmynd. Takist þetta ekki er hætta á að fólk einangrist. Á fullorðinsárum finnur fólk hjá sér þörf til að miðla því sem það hefur lært um ævina. Þetta er hægt að gera á ýmsan hátt, til dæmis með því að kenna öðrum, stunda listir eða bæta samfélagið.

Það er síðan á elliárunum sem það kemur endanlega í ljós hvernig til hefur tekist. Hafi fólk farið í gegnum öll þroskaskeið eins og best gerist verður það að heilsteyptum og ánægðum gamalmennum, en á þessum aldri getur það líka fyllst biturleika yfir því að ekki hafi gengið eins vel og vonast var eftir.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Útgáfudagur

6.2.2006

Spyrjandi

Þóra Gísladóttir

Höfundur

lektor í uppeldis- og menntunarfræði við HÍ

Tilvísun

Sigurlína Davíðsdóttir. „Hverjar eru kenningar Eriks H. Eriksons í uppeldis- og sálfræði?“ Vísindavefurinn, 6. febrúar 2006. Sótt 25. ágúst 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=5621.

Sigurlína Davíðsdóttir. (2006, 6. febrúar). Hverjar eru kenningar Eriks H. Eriksons í uppeldis- og sálfræði? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5621

Sigurlína Davíðsdóttir. „Hverjar eru kenningar Eriks H. Eriksons í uppeldis- og sálfræði?“ Vísindavefurinn. 6. feb. 2006. Vefsíða. 25. ágú. 2019. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5621>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Jónas R. Viðarsson

1971

Jónas R. Viðarsson er faglegur leiðtogi á sviði Rannsókna og Nýsköpunar hjá Matís ohf. þar sem hann fer fyrir faghóp er kallast „örugg virðiskeðja matvæla“. Rannsóknir Jónasar eru af ýmsum toga og snúa meðal annars að fiskveiðistjórnun, sjálfbærni, úrbótum í virðiskeðjum sjávarafurða og rekjanleika, svo fátt eitt sé talið.