Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Nel Noddings er fædd 1929 og starfaði sem stærðfræðikennari í grunn- og framhaldsskólum á árunum 1949-1972. Hún lauk doktorsprófi 1975 og hefur starfað við Stanford-háskóla frá árinu 1977 þar sem hún er prófessor í menntaheimspeki. Flest verk Noddings, um 30 bækur og 200 greinar, tengjast því að umhyggja sé grundvallarforsenda mannlífsins og allir óski þess að um þá sé hugsað af alúð og nærgætni (Noddings, 2002).
Í skrifum sínum glímir Noddings meðal annars við spurninguna: Hvað þarf fólk að læra til að lifa hamingjusömu siðuðu vitsmunalífi? Hún telur flest svör sem hingað til hafa verið gefin við spurningunni vera röng eða í besta falli aðeins sönn að hluta. Máli sínu til stuðnings nefnir hún nokkur rakalaus dæmi um fullyrðingar í almennri umræðu um skólamál, til dæmis að börn þurfi meiri akademíska menntun, samfélagið þarfnist tækni- og vísindamanna og menntun dragi úr glæpum og fátækt. (Noddings, 1997a).
Þessar fullyrðingar hrekur hún með eftirfarandi dæmum: Fæstir nota algebru í daglegu lífi. Margt hámenntað tæknifólk er atvinnulaust og ef skólaganga dugir ekki til að skapa fólki atvinnu þá dregur hún ekki úr fátækt. Samfélögum, sem ekki tekst að skapa næg störf fyrir þegna sína, hafa ekki orðið á menntunarleg mistök heldur skapað siðferðileg mistök (Noddings, 1997a).
Noddings er líklega þekktust fyrir greiningu sína á umhyggjusiðferði og hlutverki þess í skólum samtímans og mörg verka hennar, meðal annars The Challenge to Care in Schools frá 1992 fjalla um þessa greiningu. Þar vitnar hún í Migual de Unamuno (1954) með eftirfarandi hætti:
Maðurinn er sagður vera skynsemisvera. Ég veit ekki hvers vegna hann er ekki skilgreindur sem tilfinningavera eða tilfinningadýr. Kannski eru það tilfinningar fremur en skynsemi sem greina hann frá öðrum dýrategundum. (Noddings, 1992)
Noddings nálgast umhyggju út frá því sem hún telur sammannlega reynslu af því að þiggja og veita umhyggju. Í umhyggjukenningu hennar er greint á milli þess að bera umhyggju fyrir einhverju og að sýna öðrum umhyggju. Umhygggja fyrir einhverju er forsenda þess að láta sig varða og sýna umhyggju í verki sem eflir og styrkir mannleg tengsl. Noddings fullyrðir að ef umhyggju af þessu tagi skorti í skóla þá fari engin menntun fram innan þeirra.
Hugtakið umhyggjusiðferði kemur upprunalega frá bandaríska sálfræðingnum og femínistanum Carol Gilligan (1982) eftir rannsóknir hennar á mismunandi siðferðishugmyndum kvenna og karla (ethic of care and ethic of justice). Noddings þróar hugtakið og tengir það við kennslu. Hún veltir upp mikilvægi umhyggjusiðferðis og kvenlegri nálgun á nám og greinir á milli náttúrulegrar umhyggju og siðferðilegrar umhyggju. Náttúruleg umhyggja er sú sem fólk sýnir sínum nánustu. Siðferðileg umhyggja er sú sem kennarar og annað fagfólk sýnir fólkinu sem það vinnur með. Slíkri umhyggju lýsir Noddings sem ákveðinni stöðu og segir meðal annars að staða kennara sé ekki fólgin í kennslu heldur í tengslum við nemendur (Noddings, 2002).
Þótt Noddings (1997a) sé ekki andsnúin hefðbundinni menntun, bókmenntum, sögu, náttúruvísindum, stærðfræði eða öðrum námsgreinum telur hún hættu á að þröngt skilgreint námsefni hefti allt skólastarf. Hún telur mikilvægt að skoða hvaða áhrif það hefur á menntun fólks að siðmenntunarþáttur heimila hafi dregist saman í kjölfar þjóðfélagsbreytinga. Noddings álítur að það þurfi að breyta aðkomu barna að námsefni í skólum, í stað þess eingöngu að tengja námsgreinar við menntun eigi að tengja menntun og siðvit saman og vinna með námsgreinar í framhaldi af því (Noddings 1997a).
Hugmyndir hennar hafa mætt andstöðu margra femínista sem telja kenningar hennar hvetja til hefðbundinna kynhlutverka vegna þess að hún fjalli aðallega um hefðbundnar umönnunarskyldur kvenna en vanræki dyggðir eins og umburðarlyndi fyrir margbreytileika, áherslu á sjálfræði kvenna og jafnrétti kynja. Slík gagnrýni er eðlileg því Noddings beinir sjónum sínum að fjölskyldu- og vinatengslum, vali og ábyrgð, ást og umhyggju, mannréttindum, margbreytileika, samhygð og fleiri dyggðum sem oft eru kenndar við konur en sjálf segist hún vilja láta greina hvers vegna það er talið veikleikamerki hjá konum að leggja lítið upp úr stærðfræði og vísindum meðan það er ekki talið veikleikamerki hjá körlum að þeir standi sig illa í umönnun og sneiði hjá kennslustörfum (Noddings, 1997b).
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Þórdís Þórðardóttir. „Hver er Nel Noddings og hvert er hennar framlag til menntunarfræða?“ Vísindavefurinn, 26. febrúar 2011, sótt 12. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=58524.
Þórdís Þórðardóttir. (2011, 26. febrúar). Hver er Nel Noddings og hvert er hennar framlag til menntunarfræða? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58524
Þórdís Þórðardóttir. „Hver er Nel Noddings og hvert er hennar framlag til menntunarfræða?“ Vísindavefurinn. 26. feb. 2011. Vefsíða. 12. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=58524>.