Sólin Sólin Rís 10:55 • sest 15:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:21 • Sest 14:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:08 • Síðdegis: 24:54 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:43 • Síðdegis: 18:36 í Reykjavík

Hvað getið þið sagt mér um varúlfa?

Símon Jón Jóhannsson

Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:
Hvað getið þið sagt mér um varúlfa? Hver er saga mannúlfsins, hvenær fóru menn að trúa á hann og hvar trúðu menn fyrst á hann?

Samkvæmt ýmis konar þjóðtrú er varúlfur maður, langoftast karlmaður, sem tekur tímabundið á sig gervi úlfs og öðlast á meðan alla eiginleika úlfsins svo sem hraða, styrk og hyggindi. Ýmist breytast menn í þetta ástand af fúsum og frjálsum vilja eða lenda í því á móti vilja sínum fyrir tilstilli álaga eða galdra. Oftast breytast menn í úlfa þegar tungl er fullt eða á ákveðnum árstímum. Varúlfa þyrstir í mannakjöt og nái þeir ekki í lifandi fólk grafa þeir upp lík sér til matar. Á þeim verður ekki unnið nema með því að skjóta þá með silfurkúlum og breytast þeir þá aftur í menn. Sagt er að þeir sem fæddir eru á jólakvöld, fæddir utan hjónabands, eru óvenjulega loðnir á höndunum (og fingralangir) eða eru sambrýndir séu líklegri til að vera varúlfar.

Orðið varúlfur er sett saman úr orðunum var sem er sama orðið og ver og merkir maður (á latínu vir) og úlfur, sem sagt mannúlfur. Varúlfa er ekki getið í íslenskum þjóðsögum, en sögur fara af þeim á meginlandi Evrópu. Á hinum Norðurlöndunum eru líka til sögur af mannbjörnum og í Asíu og Afríku eru til hliðstæðar sögur af mannhlébörðum, manntígrum og mannhýenum.

Í fornsögunum koma mannúlfar, vargúlfar eða fólk sem tekur á sig úlfa- eða bjarnarhami við sögu til dæmis í Völsunga sögu. Í Egilssögu kemur einnig fram að Skallagrímur og Kveldúlfur, faðir og afi Egils Skallagrímssonar, voru líka einkennilega skapi farnir og hatramir ef svo bar undir.

Í írskri þjóðtrú var sagt að varúlfar væru í sérstökum ættum. Guð refsaði þeim sem sýnt höfðu kristniboði heilags Patreks hvað mesta andstöðu með því að leggja á þá og niðja þeirra að þeir yrðu að varúlfum með vissu millibili. Sumir tóku hamskiptum sjöunda hvern vetur, en aðrir voru varúlfar í sjö ár en svo aldrei eftir það næðu þeir að lifa af þann tíma. Í einni sögunni segir að sá sem fyrstur varð fyrir þessum ósköpum hafi verið Laignech Fáelad (Laighneach Fáoilidh) en fáelad merkir úlfhamur. Hann og hans ætt bjó í héraðinu Ossory sem oft kemur við sögu í írskum þjóðsögum.Minnisvarði um varúlfinn frá Gévaudan í Frakklandi

Á síðmiðöldum greina heimildir frá miklum ótta við varúlfa, sérstaklega í Þýskalandi og Frakklandi, og allt fram á 17. öld fer sögum af varúlfaveiðum. Árið 1573 voru sett sérstök lög um útrýmingu varúlfa í héraðinu Franche-Comté í Frakklandi. Fræðimenn hafa einnig bent á að samkvæmt fornum lögum voru þeir sem af einhverjum ástæðum voru útskúfaðir úr samfélaginu reknir burt með þeim orðum að þeir ættu að lifa eins og úlfar, Wargus esto, vertu úlfur. Þetta kemur til dæmis fram í fornum lögum frá Normandí og Lex Salica (frönsk lög frá 8. öld.).

Elstu frásögn af varúlfum sem vitað er um skráði Heródótus (484?-425 f. Kr.), faðir sagnfræðinnar. Hann hafði þær eftir Skýþum (íranskur þjóðflokkur sem settist að á sléttunum norður af Svartahafi á 8. öld f.Kr.) og brottfluttum Grikkjum sem bjuggu í Skýþíu og sögðu honum sögur af einhvers konar galdrafólki sem einu sinni á ári breyttist í úlfa í nokkra daga. Heródótus tekur fram að hann trúi ekki þessum sögum þótt heimildarmenn hans haldi því fram að þær séu sannar. Fólk þetta sem Heródótus nefnir átti að búa á því svæði þar sem Pólland og Litháen eru nú.

Í Arkadíu í Forn-Grikklandi var Seifi haldin árleg fórnarhátíð, en þar hafði Seifur auknefnið lykaios sem getur þýtt bæði guð ljóssins og úlfaguð. Lyke merkir ljós en lykos úlfur. Í goðsögum Arkadíubúa segir að Pelasgos hafi verið fyrsti íbúi héraðsins og átt soninn Lykaion. Kekrops, konungur í Aþenu, vildi ekki færa Seifi lifandi fórnir en það gerði Lykaion aftur á móti. Hann fórnaði Seifi nýfæddu barni og lét blóð þess renna yfir altarið sem hann hafði sjálfur reist. Um leið breyttist Lykaios í úlf og þar eftir bjuggu þeir sem færðu Seifi fórnir við þau ósköp að breytast í úlfa. Ætu þeir sem þannig urðu að úlfum ekki mannakjöt í níu ár breyttust þeir aftur í menn. Ýmsar gerðir eru til af þessari goðsögu og telja sumir þjóðfræðingar hana benda til dýrkunar á úlfaguðinum Lykaion og að með því að taka þátt í fórnarmáltíð þar sem mönnum var fórnað hafi menn verið að samsama sig guðinum og orðið með þeim hætti að úlfum í óeiginlegri merkingu. Síðar hafi svo Seifsdýrkun og breytt trúarbrögð haft áhrif á mótun goðsögunnar.

Á suðlægari svæðum Skandinavíu var það trú manna að konur gætu losnað við þær kvalir sem fylgja barnsfæðingum með því að skríða undir hrosshúð eða hest. Þetta skyldu þær gera við sérstakar aðstæður og á ákveðinn hátt, svo sem á fimmtudagskvöldi, undir fullu tungli, naktar og með því að skríða þrisvar undir húðina eða hestinn. Menn stóðu í þeirri trú að hryssur köstuðu án mikilla kvala og með því að hafa í frammi sérstaka tilburði væri hægt að yfirfæra eiginleika hestsins á konuna. Galdurinn kostaði hins vegar sitt. Þær stúlkur sem fæddust með þessu móti urðu mörur, en drengirnir varúlfar.

Til er sjúkdómur sem nefnist lycanthropy og er stundum tengdur varúlfatrúnni og lýsir sér þannig að menn halda að þeir séu dýr, úlfar, hlaupa um naktir og ýlfra en ytra útlit þeirra breytist auðvitað ekki.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

  • Grambo, Ronald. Svart kat over veien. Om varsler, tegn og overto. Oslo 1993.
  • Holbek, Bengt og Piø, Iørn. Fabeldyr og sagnfolk. Kaupmannahöfn 1979.
  • Kulturhistorisk Leksikon for nordisk middelalde. Bind XIX. Reykjavík 1975.
  • Pickering, David: Cassel Dictionary of Superstition. London 1995.
  • Potter, Carole. Encyklopedia of Superstition. London1983.

Myndir:

Höfundur

Símon Jón Jóhannsson

þjóðfræðingur

Útgáfudagur

2.3.2006

Spyrjandi

Stefanía Stefánsdóttir
Árný Stella Gunnarsdóttir

Tilvísun

Símon Jón Jóhannsson. „Hvað getið þið sagt mér um varúlfa?“ Vísindavefurinn, 2. mars 2006. Sótt 5. desember 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=5682.

Símon Jón Jóhannsson. (2006, 2. mars). Hvað getið þið sagt mér um varúlfa? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5682

Símon Jón Jóhannsson. „Hvað getið þið sagt mér um varúlfa?“ Vísindavefurinn. 2. mar. 2006. Vefsíða. 5. des. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5682>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um varúlfa?
Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:

Hvað getið þið sagt mér um varúlfa? Hver er saga mannúlfsins, hvenær fóru menn að trúa á hann og hvar trúðu menn fyrst á hann?

Samkvæmt ýmis konar þjóðtrú er varúlfur maður, langoftast karlmaður, sem tekur tímabundið á sig gervi úlfs og öðlast á meðan alla eiginleika úlfsins svo sem hraða, styrk og hyggindi. Ýmist breytast menn í þetta ástand af fúsum og frjálsum vilja eða lenda í því á móti vilja sínum fyrir tilstilli álaga eða galdra. Oftast breytast menn í úlfa þegar tungl er fullt eða á ákveðnum árstímum. Varúlfa þyrstir í mannakjöt og nái þeir ekki í lifandi fólk grafa þeir upp lík sér til matar. Á þeim verður ekki unnið nema með því að skjóta þá með silfurkúlum og breytast þeir þá aftur í menn. Sagt er að þeir sem fæddir eru á jólakvöld, fæddir utan hjónabands, eru óvenjulega loðnir á höndunum (og fingralangir) eða eru sambrýndir séu líklegri til að vera varúlfar.

Orðið varúlfur er sett saman úr orðunum var sem er sama orðið og ver og merkir maður (á latínu vir) og úlfur, sem sagt mannúlfur. Varúlfa er ekki getið í íslenskum þjóðsögum, en sögur fara af þeim á meginlandi Evrópu. Á hinum Norðurlöndunum eru líka til sögur af mannbjörnum og í Asíu og Afríku eru til hliðstæðar sögur af mannhlébörðum, manntígrum og mannhýenum.

Í fornsögunum koma mannúlfar, vargúlfar eða fólk sem tekur á sig úlfa- eða bjarnarhami við sögu til dæmis í Völsunga sögu. Í Egilssögu kemur einnig fram að Skallagrímur og Kveldúlfur, faðir og afi Egils Skallagrímssonar, voru líka einkennilega skapi farnir og hatramir ef svo bar undir.

Í írskri þjóðtrú var sagt að varúlfar væru í sérstökum ættum. Guð refsaði þeim sem sýnt höfðu kristniboði heilags Patreks hvað mesta andstöðu með því að leggja á þá og niðja þeirra að þeir yrðu að varúlfum með vissu millibili. Sumir tóku hamskiptum sjöunda hvern vetur, en aðrir voru varúlfar í sjö ár en svo aldrei eftir það næðu þeir að lifa af þann tíma. Í einni sögunni segir að sá sem fyrstur varð fyrir þessum ósköpum hafi verið Laignech Fáelad (Laighneach Fáoilidh) en fáelad merkir úlfhamur. Hann og hans ætt bjó í héraðinu Ossory sem oft kemur við sögu í írskum þjóðsögum.Minnisvarði um varúlfinn frá Gévaudan í Frakklandi

Á síðmiðöldum greina heimildir frá miklum ótta við varúlfa, sérstaklega í Þýskalandi og Frakklandi, og allt fram á 17. öld fer sögum af varúlfaveiðum. Árið 1573 voru sett sérstök lög um útrýmingu varúlfa í héraðinu Franche-Comté í Frakklandi. Fræðimenn hafa einnig bent á að samkvæmt fornum lögum voru þeir sem af einhverjum ástæðum voru útskúfaðir úr samfélaginu reknir burt með þeim orðum að þeir ættu að lifa eins og úlfar, Wargus esto, vertu úlfur. Þetta kemur til dæmis fram í fornum lögum frá Normandí og Lex Salica (frönsk lög frá 8. öld.).

Elstu frásögn af varúlfum sem vitað er um skráði Heródótus (484?-425 f. Kr.), faðir sagnfræðinnar. Hann hafði þær eftir Skýþum (íranskur þjóðflokkur sem settist að á sléttunum norður af Svartahafi á 8. öld f.Kr.) og brottfluttum Grikkjum sem bjuggu í Skýþíu og sögðu honum sögur af einhvers konar galdrafólki sem einu sinni á ári breyttist í úlfa í nokkra daga. Heródótus tekur fram að hann trúi ekki þessum sögum þótt heimildarmenn hans haldi því fram að þær séu sannar. Fólk þetta sem Heródótus nefnir átti að búa á því svæði þar sem Pólland og Litháen eru nú.

Í Arkadíu í Forn-Grikklandi var Seifi haldin árleg fórnarhátíð, en þar hafði Seifur auknefnið lykaios sem getur þýtt bæði guð ljóssins og úlfaguð. Lyke merkir ljós en lykos úlfur. Í goðsögum Arkadíubúa segir að Pelasgos hafi verið fyrsti íbúi héraðsins og átt soninn Lykaion. Kekrops, konungur í Aþenu, vildi ekki færa Seifi lifandi fórnir en það gerði Lykaion aftur á móti. Hann fórnaði Seifi nýfæddu barni og lét blóð þess renna yfir altarið sem hann hafði sjálfur reist. Um leið breyttist Lykaios í úlf og þar eftir bjuggu þeir sem færðu Seifi fórnir við þau ósköp að breytast í úlfa. Ætu þeir sem þannig urðu að úlfum ekki mannakjöt í níu ár breyttust þeir aftur í menn. Ýmsar gerðir eru til af þessari goðsögu og telja sumir þjóðfræðingar hana benda til dýrkunar á úlfaguðinum Lykaion og að með því að taka þátt í fórnarmáltíð þar sem mönnum var fórnað hafi menn verið að samsama sig guðinum og orðið með þeim hætti að úlfum í óeiginlegri merkingu. Síðar hafi svo Seifsdýrkun og breytt trúarbrögð haft áhrif á mótun goðsögunnar.

Á suðlægari svæðum Skandinavíu var það trú manna að konur gætu losnað við þær kvalir sem fylgja barnsfæðingum með því að skríða undir hrosshúð eða hest. Þetta skyldu þær gera við sérstakar aðstæður og á ákveðinn hátt, svo sem á fimmtudagskvöldi, undir fullu tungli, naktar og með því að skríða þrisvar undir húðina eða hestinn. Menn stóðu í þeirri trú að hryssur köstuðu án mikilla kvala og með því að hafa í frammi sérstaka tilburði væri hægt að yfirfæra eiginleika hestsins á konuna. Galdurinn kostaði hins vegar sitt. Þær stúlkur sem fæddust með þessu móti urðu mörur, en drengirnir varúlfar.

Til er sjúkdómur sem nefnist lycanthropy og er stundum tengdur varúlfatrúnni og lýsir sér þannig að menn halda að þeir séu dýr, úlfar, hlaupa um naktir og ýlfra en ytra útlit þeirra breytist auðvitað ekki.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

  • Grambo, Ronald. Svart kat over veien. Om varsler, tegn og overto. Oslo 1993.
  • Holbek, Bengt og Piø, Iørn. Fabeldyr og sagnfolk. Kaupmannahöfn 1979.
  • Kulturhistorisk Leksikon for nordisk middelalde. Bind XIX. Reykjavík 1975.
  • Pickering, David: Cassel Dictionary of Superstition. London 1995.
  • Potter, Carole. Encyklopedia of Superstition. London1983.

Myndir:

...