Það er alkunna að húsfreyjur á mannmörgum heimilum í íslenskum sveitum nýttu tíma sinn til hins ítrasta og létu enga stund fara til spillis. Því héldu þær gjarnan á prjónunum sínum er þær gáðu til kinda eða skruppu bæjarleið og gengu prjónandi. Í landi Hvamms í Dýrafirði er Prjónalág, sögð berjalaut á Prjónalágarholti. Engin skýring á nafninu er í örnefnaskrá, en ekki er ólíklegt að það eigi uppruna sinn að rekja til vinnusemi húsmæðra eða annarra kvenna.
Djúpt gil, nefnt Jókugil, klýfur hamrabelti fjallsins Bjólfs í Seyðisfirði. Munnmæli eru um að smalastúlka, er Jóka var nefnd, gætti fjár í Bjólfinum. „Það var venja hennar að ganga prjónandi upp og ofan gil þetta. Gil þetta er afar slæmt umferðar, svo að telja má, að Jóka hafi verið sérstaklega fótviss og vinnugefin“ (örnefnaskrá Fjarðar).
Prjónaskapur getur birst í örnefnum á fleiri vegu. Í landi Vogs í Hraunhreppi á Mýrum er keilumyndað holt eða hóll og heitir Prjónhúfa, „trúlega dregið af lögun hólsins, en efst á honum er há þúfa, líkt og prjónhúfa í laginu“ (örnefnaskrá Vogs). Sama örnefni er í Hrísdal í Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi. Þar er hár keilumyndaður hóll, sem heitir Prjónhúfa; eru raunar tvær, Stóra- og Litla-Prjónhúfa, við Prjónhúfulæk (örnefnaskrá Hrísdals).
Frekara lesefni á Vísindavefnum:- Hvenær lærðu Íslendingar að prjóna og af hverjum? eftir Vigdísi Stefánsdóttur
- Hvenær kemur orðið prjón og sögnin að prjóna fyrst fyrir í íslensku máli eða riti? eftir Guðrúnu Kvaran
- Knitting sheaths & belts á Old & Interesting. Sótt 2. 12. 2010.
Þetta svar er fengið af vef Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og birt með góðfúslegu leyfi. Ef lesendur kannast við fleiri örnefni þar sem prjón kemur við sögu má gjarnan senda póst um það á ritstjórn.
