Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Segja má að Steingrímur Jónsson sé „stóri maðurinn“ í rafvæðingarsögu Íslands á tuttugustu öld. Hann kom til sögunnar um það leyti sem Íslendingar voru að stíga sín fyrstu meiri háttar skref við virkjun náttúruaflanna, vatnsorkunnar og jarðvarmans, en undir hans forystu voru stigin risaskref sem miðuðu að því að koma Íslandi í röð iðnvæddra ríkja.
Steingrímur fæddist í Gaulverjabæ í Árnessýslu árið 1890. Frændi hans var Hjörtur Þórðarson, vestur-íslenskur uppfinningamaður sem kallaði sig Chester Thordarson og var einn kunnasti rafmagnsfræðingur sinnar tíðar vestan hafs. Löngu síðar átti Steingrímur eftir að skrifa ævisögu þessa frænda síns, sem starfaði meðal annars með Thomas Edison (1847-1931) og hlaut frægð og verðlaun fyrir uppfinningar sínar á heimssýningum.
Eflaust hafa afrek frændans átt sinn þátt í að Steingrímur ákvað að helga sig rafmagnsfræðum að stúdentsprófi loknu. Hann lauk prófi í rafmagnsverkfræði frá Kaupmannahöfn fyrstur Íslendinga árið 1917.
Skömmu síðar tóku stjórnendur Reykjavíkurbæjar ákvörðun um að stofna rafmagnsveitu og ráðast í virkjun Elliðaánna. Var það langstærsta verkefni Íslendinga við beislun rafmagns, en fram að því var Seyðisfjörður eini bær landsins sem teljast mátti rafvæddur.
Steingrímur var ráðinn til að stýra þessu óskabarni Reykvíkinga. Rafmagnsveitan tók formlega til starfa um leið og Elliðaárstöðin árið 1921 og Steingrímur gegndi stöðu rafmagnsstjóra (forstöðumanns Rafmagnsveitunnar ) til sjötugs. Á þeim tíma urðu miklar breytingar á orkumálum Reykvíkinga. Elliðaárstöðin var stækkuð og kannað var hvort virkja mætti jarðvarmann í Þvottalaugunum til raforkuframleiðslu. Boranir í Laugunum hófust undir stjórn Steingríms, en síðar varð úr að nýta heita vatnið beint til húshitunar með því að koma upp hitaveitu í Reykjavík.
Í stað gufuorkunnar horfðu Reykvíkingar nú austur fyrir fjall. Sogið, afrennsli Þingvallavatns, var virkjað með þremur stjórvirkjunum á fjórða, fimmta og sjötta áratugnum. Ljósafossvirkjun kom fyrst, gangsett 1937. Írafossvirkjun var reist skömmu eftir síðari heimsstyrjöldina og sú þriðja, Efra-Sog, var tekin í notkun árið 1960. Hlaut hún nafnið Steingrímsstöð til heiðurs forstjóranum, sem þá var við lok starfsferils síns.
Ljósafossvirkjun í Soginu var gangsett árið 1937.
Auk þess að gegna starfi Rafmagnsstjóra og forstjóra Sogsvirkjunar, félagsins sem stofnað var um virkjanirnar í Bláskógabyggðinni – og sem síðar varð hluti Landsvirkjunar, gegndi Steingrímur Jónsson margvíslegum störfum innan orkugeirans. Hann var um árabil formaður Sambands íslenskra rafveitna, sem var faglegur samráðsvettvangur stjórnenda raforkufyrirtækjanna. Segja má að á þeim vettvangi hafi stefna Íslendinga í orkumálum verið mótuð miklu fremur en á Alþingi eða innan ríkisstjórna.
Þá var Steingrímur einn helsti forystumaður Verkfræðingafélags Íslands. Á þeim vettvangi beitti hann sér til dæmis mjög á sviði málræktar og nýyrðasmíðar. Ekki var vanþörf á, enda fylgdu nýjum tæknikerfum á borð við rafmagnsgeirann aragrúi nýrra fyrirbæra og hugtaka sem finna þurfti nothæf íslensk heiti á.
Enn er eftir að geta þess sem fæstir Reykvíkingar hafa hugmynd um, en það er þáttur Steingríms Jónssonar í að móta umhverfi borgarinnar. Að hans frumkvæði hóf Rafmagnsveitan árið 1951 að planta trjám í Elliðaárdalnum, sem fram að því hafði verið gróðurlítill melur. Skógurinn í Elliðaárdal, þessari útivistarperlu Reykvíkinga, er að miklu leyti sprottinn af þessu fræi.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Stefán Pálsson. „Hver var þáttur Steingríms Jónssonar í rafmagnssögu Íslands?“ Vísindavefurinn, 7. janúar 2011, sótt 14. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=58125.
Stefán Pálsson. (2011, 7. janúar). Hver var þáttur Steingríms Jónssonar í rafmagnssögu Íslands? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58125
Stefán Pálsson. „Hver var þáttur Steingríms Jónssonar í rafmagnssögu Íslands?“ Vísindavefurinn. 7. jan. 2011. Vefsíða. 14. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=58125>.