Sólin Sólin Rís 09:54 • sest 16:29 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:39 • Sest 07:41 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:44 • Síðdegis: 17:03 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:01 • Síðdegis: 23:18 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:54 • sest 16:29 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:39 • Sest 07:41 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:44 • Síðdegis: 17:03 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:01 • Síðdegis: 23:18 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Mary Wollstonecraft og hvernig barðist hún fyrir réttindum kvenna?

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Enski heimspekingurinn og rithöfundurinn Mary Wollstonecraft var uppi á seinni hluta 18. aldar. Hún aðhylltist upplýsingarhugsjónina um mátt skynseminnar, var lýðræðissinni og barðist fyrir jöfnum réttindum öllum til handa, konum þar meðtöldum. Wollstonecraft fæddist í London 27. apríl 1759, önnur í röð sjö systkina. Faðir hennar var af efnafólki kominn en honum hélst illa á því fé sem hann hafði erft og var fjölskyldan í fjárhagskröggum alla tíð. Dóttirin Mary hlaut óreglubundna og skrykkjótta menntun en var afar fróðleiksfús og sótti sér alla þá fræðslu sem hún gat fundið.

Eftir að Wollstonecraft óx úr grasi lagði hún ríka áherslu á fjárhagslegt sjálfstæði kvenna og sá alltaf fyrir sér sjálf, og á tímabilum fyrir systrum sínum og föður líka, fyrst sem kennslukona en síðar með ritstörfum. Wollstonecraft heillaðist mjög af frönsku byltingunni og dvaldi um skeið í París við ritun sögulegrar greinargerðar um byltinguna sem hún gaf út 1794. 38 ára gömul giftist hún heimspekingnum William Godwin en þau bjuggu áfram í sitt hvorri íbúðinni til að halda sjálfstæði sínu og skrifuðust gjarnan á nokkrum sinnum á dag þar sem þau sátu hvort við sitt skrifborð. Wollstonecraft dó í kjölfar barnsfæðingar hálfu ári síðar, árið 1798. Barnið lifði og var gefið nafn móður sinnar. Þessi dóttir, Mary Wollstonecraft Godwin (1797-1851), giftist síðar skáldinu Percy Shelley (1792-1822) og varð þekkt undir nafninu Mary Shelley fyrir skáldsögu sína Frankenstein. Wollstonecraft átti fyrir aðra dóttur, Fanny Imlay (1794-1816).

Auk ritsins um frönsku byltinguna sem þegar hefur verið nefnt skrifaði Wollstonecraft tvær skáldsögur, rit um menntun stúlkna, ferðasögu frá Norðurlöndum byggða á bréfum sem hún skrifaði barnsföður sínum, Gilbert Imlay (1754-1828), og síðast en ekki síst lýðræðisritin tvö, A Vindication of the Rights of Men og A Vindication of the Rights of Woman, sem komu út 1790 og 1792.

Síðastnefnda ritið varð langþekktasta rit Wollstonecraft, en þar krefst hún aukinna réttinda konum til handa. Wollstonecraft viðrar hugmyndir um stjórnmálaþátttöku kvenna og að konur eigi að njóta sömu tækifæra til menntunar og karlar, hvort tveggja byltingarkenndar hugmyndir á þessum tíma. Einnig leggur hún áherslu á mikilvægi atvinnuþátttöku kvenna, að þær þurfi að fá tækifæri til að geta séð sér og sínum farborða og verið fjárhagslega sjálfstæðar.

Wollstonecraft gagnrýnir þarna tvenns konar skoðanir. Hún andmælir einveldissinnum á borð við Edmund Burke (1729-1797) sem hafði nokkrum árum áður gefið út ritið Reflections on the Revolution in France þar sem hann fer ófögrum orðum um frönsku byltinguna og lofar einveldið. Wollstonecraft hafði reyndar þegar andmælt Burke og hans líkum í ritinu A Vindication of the Rights of Men. Í öðru lagi gagnrýnir Wollstonecraft aðra lýðræðissinna fyrir ósamkvæmni og ber þar gagnrýni hennar á Rousseau hæst. Hún telur að hugmyndir Rousseau um lýðræðið séu í raun hugmyndir um lýðræði karla sem umgangist á jafningjagrundvelli í hinu opinbera lífi en séu svo hver um sig einvaldar í einkalífinu. Rousseau hafni þannig ekki einveldinu nema að hluta til.

Samkvæmt Rousseau byggir einveldi á því að handahófsvalinn aðili stjórni öðrum og slíkt telur hann rangt. Wollstonecraft bendir á að það hljóti að vera jafnrangt í einkalífinu og í opinberu lífi, þannig feli það í sér ósamkvæmni að aðhyllast lýðræði í opinberu lífi en einveldi innan veggja heimilisins. Til að rökstyðja það að einveldi karla innan heimilisins sé vald handahófsvalins aðila fremur en vald hæfasta aðilans þarf Wollstonecraft svo að færa rök fyrir því að konur standi körlum jafnfætis hvað varðar þá þætti sem grundvalla lýðræðið: skynsemi, sjálfstæði og dygð. Af þessum sökum er gerð ítarleg grein fyrir því hvað það er sem hindrar konur í að vera eins skynsamar og þær ættu að geta orðið. Wollstonecraft andmælir ekki viðtekinni skoðun þess tíma, að konur upp til hópa séu síður en svo skynsamar. Hins vegar gefur hún á því þá skýringu að sú hæfni sem þær hafi til skynsemi til jafns á við karla sé oft eyðilögð með lítilli eða rangri menntun sem og annars konar slæmri innrætingu. Með öðrum orðum heldur hún því fram að kynin séu jöfn að upplagi en að umhverfisþættir hafi spillandi áhrif á konurnar og raunar á marga karla líka.

Skynsemin er í hávegum höfð í ritum Wollstonecraft, enda þar á ferðinni upplýsingarkona fram í fingurgóma. Þetta þýðir þó ekki að Wollstonecraft hafni mikilvægi tilfinninga. Hún skiptir afstöðu til tilfinninga annars vegar í það sem fallið gæti undir tilfinninganæmni og hins vegar það sem við mundum kalla tilfinningasemi. Ákveðin tilfinninganæmni er í raun hluti af skynseminni, tilfinningarnar auðga upplifun okkar og gera okkur kleift að leggja mat á hluti og taka skynsamlegar ákvarðanir, og ekki síst að öðlast skilning á ýmsum háfleygum viðfangsefnum. Ræktun þessarar tilfinninganæmni er þannig í raun hluti af því að rækta skynsemina. Hins vegar er Wollstonecraft afar gagnrýnin á það sem hún kallar „sensibility“, ýkta tilfinningasemi sem felur í sér duttlungasemi og óstöðuga skapgerð, áherslu á prjál og hégóma og að velta sér upp úr smáatriðum. Á meðan tilfinninganæmnin er nauðsynlegur þáttur í skynseminni og nauðsynleg hverjum heilsteyptum einstaklingi er tilfinningasemin óvinur skynseminnar.

Fordæming Wollstonecraft er fordæming á ákveðinni kvengerð eða ímynd, hefðarkonuímyndinni, konunum sem hún kallar „ladies“ fremur en „women“. Hún gagnrýnir svo millistéttarkonur fyrir að keppast við að reyna að líkjast hefðarkonunum en tekur fram í formála bókarinnar að hún beini máli sínu fyrst og fremst til millistéttarfólks.

Wollstonecraft var þekkt meðal bresks menntafólks fyrir skrif sín meðan hún var uppi og höfðu hugmyndir hennar þá töluverð áhrif. Eftir að hún dó skrifaði eiginmaður hennar ævisögu hennar þar sem ýmislegt kom fram um líferni hennar sem ekki þótti siðsamlegt á þeim tíma, svo sem að hún hefði verið frjálslynd í ástamálum og átt barn í lausaleik. Þetta hafði þau áhrif að margir kusu að sneiða hjá verkum hennar, eða höfðu í það minnsta ekki hátt um lestur sinn á þeim. Til dæmis má það teljast athyglisvert að John Stuart Mill (1806-1873) skuli ekki nefna Wollstonecraft í kvenréttindariti sínu, Kúgun kvenna. Afar líklegt má þó teljast að Mill hafi lesið verk hennar. Eins er það ljóst að margar af súffragettunum, sem börðust fyrir kosningarétti kvenna beggja megin Atlantshafs í lok nítjándu aldar og byrjun þeirrar tuttugustu, hafi þekkt verk Wollstonecraft og verið undir umtalsverðum áhrifum af þeim.

Eins og Wollstonecraft greinir sjálf frá í inngangi A Vindication of the Rights of Woman lítur hún á óvægna gagnrýni sem virðingarvott. Viðeigandi er að enda á þeim orðum hennar hér:
Ég vona að kynsystur mínar afsaki mig fyrir að koma fram við þær sem skynsemisverur í stað þess að skjalla þær fyrir hrífandi töfra og líta á þær sem fastar í eilífri bernsku, ófærar um að standa sjálfar. Það er einlæg ósk mín að mér takist að draga fram í hverju sönn reisn og mannleg hamingja felst. Ég vil fá konur til að reyna að öðlast styrk, jafnt andlegan sem líkamlegan, og sannfæra þær um að mjúkir frasar, eftirgefanleiki hjartans, viðkvæmni tilfinninganna og fágun smekksins séu nánast samheiti skammaryrða yfir veikleika, og að þær verur sem aðeins kalla yfir sig vorkunn og þá gerð ástar sem kölluð hefur verið systir vorkunnseminnar muni brátt kalla yfir sig fyrirlitningu.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Höfundur

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Útgáfudagur

1.2.2011

Síðast uppfært

22.5.2019

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hver var Mary Wollstonecraft og hvernig barðist hún fyrir réttindum kvenna?“ Vísindavefurinn, 1. febrúar 2011, sótt 14. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=58337.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2011, 1. febrúar). Hver var Mary Wollstonecraft og hvernig barðist hún fyrir réttindum kvenna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58337

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hver var Mary Wollstonecraft og hvernig barðist hún fyrir réttindum kvenna?“ Vísindavefurinn. 1. feb. 2011. Vefsíða. 14. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=58337>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Mary Wollstonecraft og hvernig barðist hún fyrir réttindum kvenna?
Enski heimspekingurinn og rithöfundurinn Mary Wollstonecraft var uppi á seinni hluta 18. aldar. Hún aðhylltist upplýsingarhugsjónina um mátt skynseminnar, var lýðræðissinni og barðist fyrir jöfnum réttindum öllum til handa, konum þar meðtöldum. Wollstonecraft fæddist í London 27. apríl 1759, önnur í röð sjö systkina. Faðir hennar var af efnafólki kominn en honum hélst illa á því fé sem hann hafði erft og var fjölskyldan í fjárhagskröggum alla tíð. Dóttirin Mary hlaut óreglubundna og skrykkjótta menntun en var afar fróðleiksfús og sótti sér alla þá fræðslu sem hún gat fundið.

Eftir að Wollstonecraft óx úr grasi lagði hún ríka áherslu á fjárhagslegt sjálfstæði kvenna og sá alltaf fyrir sér sjálf, og á tímabilum fyrir systrum sínum og föður líka, fyrst sem kennslukona en síðar með ritstörfum. Wollstonecraft heillaðist mjög af frönsku byltingunni og dvaldi um skeið í París við ritun sögulegrar greinargerðar um byltinguna sem hún gaf út 1794. 38 ára gömul giftist hún heimspekingnum William Godwin en þau bjuggu áfram í sitt hvorri íbúðinni til að halda sjálfstæði sínu og skrifuðust gjarnan á nokkrum sinnum á dag þar sem þau sátu hvort við sitt skrifborð. Wollstonecraft dó í kjölfar barnsfæðingar hálfu ári síðar, árið 1798. Barnið lifði og var gefið nafn móður sinnar. Þessi dóttir, Mary Wollstonecraft Godwin (1797-1851), giftist síðar skáldinu Percy Shelley (1792-1822) og varð þekkt undir nafninu Mary Shelley fyrir skáldsögu sína Frankenstein. Wollstonecraft átti fyrir aðra dóttur, Fanny Imlay (1794-1816).

Auk ritsins um frönsku byltinguna sem þegar hefur verið nefnt skrifaði Wollstonecraft tvær skáldsögur, rit um menntun stúlkna, ferðasögu frá Norðurlöndum byggða á bréfum sem hún skrifaði barnsföður sínum, Gilbert Imlay (1754-1828), og síðast en ekki síst lýðræðisritin tvö, A Vindication of the Rights of Men og A Vindication of the Rights of Woman, sem komu út 1790 og 1792.

Síðastnefnda ritið varð langþekktasta rit Wollstonecraft, en þar krefst hún aukinna réttinda konum til handa. Wollstonecraft viðrar hugmyndir um stjórnmálaþátttöku kvenna og að konur eigi að njóta sömu tækifæra til menntunar og karlar, hvort tveggja byltingarkenndar hugmyndir á þessum tíma. Einnig leggur hún áherslu á mikilvægi atvinnuþátttöku kvenna, að þær þurfi að fá tækifæri til að geta séð sér og sínum farborða og verið fjárhagslega sjálfstæðar.

Wollstonecraft gagnrýnir þarna tvenns konar skoðanir. Hún andmælir einveldissinnum á borð við Edmund Burke (1729-1797) sem hafði nokkrum árum áður gefið út ritið Reflections on the Revolution in France þar sem hann fer ófögrum orðum um frönsku byltinguna og lofar einveldið. Wollstonecraft hafði reyndar þegar andmælt Burke og hans líkum í ritinu A Vindication of the Rights of Men. Í öðru lagi gagnrýnir Wollstonecraft aðra lýðræðissinna fyrir ósamkvæmni og ber þar gagnrýni hennar á Rousseau hæst. Hún telur að hugmyndir Rousseau um lýðræðið séu í raun hugmyndir um lýðræði karla sem umgangist á jafningjagrundvelli í hinu opinbera lífi en séu svo hver um sig einvaldar í einkalífinu. Rousseau hafni þannig ekki einveldinu nema að hluta til.

Samkvæmt Rousseau byggir einveldi á því að handahófsvalinn aðili stjórni öðrum og slíkt telur hann rangt. Wollstonecraft bendir á að það hljóti að vera jafnrangt í einkalífinu og í opinberu lífi, þannig feli það í sér ósamkvæmni að aðhyllast lýðræði í opinberu lífi en einveldi innan veggja heimilisins. Til að rökstyðja það að einveldi karla innan heimilisins sé vald handahófsvalins aðila fremur en vald hæfasta aðilans þarf Wollstonecraft svo að færa rök fyrir því að konur standi körlum jafnfætis hvað varðar þá þætti sem grundvalla lýðræðið: skynsemi, sjálfstæði og dygð. Af þessum sökum er gerð ítarleg grein fyrir því hvað það er sem hindrar konur í að vera eins skynsamar og þær ættu að geta orðið. Wollstonecraft andmælir ekki viðtekinni skoðun þess tíma, að konur upp til hópa séu síður en svo skynsamar. Hins vegar gefur hún á því þá skýringu að sú hæfni sem þær hafi til skynsemi til jafns á við karla sé oft eyðilögð með lítilli eða rangri menntun sem og annars konar slæmri innrætingu. Með öðrum orðum heldur hún því fram að kynin séu jöfn að upplagi en að umhverfisþættir hafi spillandi áhrif á konurnar og raunar á marga karla líka.

Skynsemin er í hávegum höfð í ritum Wollstonecraft, enda þar á ferðinni upplýsingarkona fram í fingurgóma. Þetta þýðir þó ekki að Wollstonecraft hafni mikilvægi tilfinninga. Hún skiptir afstöðu til tilfinninga annars vegar í það sem fallið gæti undir tilfinninganæmni og hins vegar það sem við mundum kalla tilfinningasemi. Ákveðin tilfinninganæmni er í raun hluti af skynseminni, tilfinningarnar auðga upplifun okkar og gera okkur kleift að leggja mat á hluti og taka skynsamlegar ákvarðanir, og ekki síst að öðlast skilning á ýmsum háfleygum viðfangsefnum. Ræktun þessarar tilfinninganæmni er þannig í raun hluti af því að rækta skynsemina. Hins vegar er Wollstonecraft afar gagnrýnin á það sem hún kallar „sensibility“, ýkta tilfinningasemi sem felur í sér duttlungasemi og óstöðuga skapgerð, áherslu á prjál og hégóma og að velta sér upp úr smáatriðum. Á meðan tilfinninganæmnin er nauðsynlegur þáttur í skynseminni og nauðsynleg hverjum heilsteyptum einstaklingi er tilfinningasemin óvinur skynseminnar.

Fordæming Wollstonecraft er fordæming á ákveðinni kvengerð eða ímynd, hefðarkonuímyndinni, konunum sem hún kallar „ladies“ fremur en „women“. Hún gagnrýnir svo millistéttarkonur fyrir að keppast við að reyna að líkjast hefðarkonunum en tekur fram í formála bókarinnar að hún beini máli sínu fyrst og fremst til millistéttarfólks.

Wollstonecraft var þekkt meðal bresks menntafólks fyrir skrif sín meðan hún var uppi og höfðu hugmyndir hennar þá töluverð áhrif. Eftir að hún dó skrifaði eiginmaður hennar ævisögu hennar þar sem ýmislegt kom fram um líferni hennar sem ekki þótti siðsamlegt á þeim tíma, svo sem að hún hefði verið frjálslynd í ástamálum og átt barn í lausaleik. Þetta hafði þau áhrif að margir kusu að sneiða hjá verkum hennar, eða höfðu í það minnsta ekki hátt um lestur sinn á þeim. Til dæmis má það teljast athyglisvert að John Stuart Mill (1806-1873) skuli ekki nefna Wollstonecraft í kvenréttindariti sínu, Kúgun kvenna. Afar líklegt má þó teljast að Mill hafi lesið verk hennar. Eins er það ljóst að margar af súffragettunum, sem börðust fyrir kosningarétti kvenna beggja megin Atlantshafs í lok nítjándu aldar og byrjun þeirrar tuttugustu, hafi þekkt verk Wollstonecraft og verið undir umtalsverðum áhrifum af þeim.

Eins og Wollstonecraft greinir sjálf frá í inngangi A Vindication of the Rights of Woman lítur hún á óvægna gagnrýni sem virðingarvott. Viðeigandi er að enda á þeim orðum hennar hér:
Ég vona að kynsystur mínar afsaki mig fyrir að koma fram við þær sem skynsemisverur í stað þess að skjalla þær fyrir hrífandi töfra og líta á þær sem fastar í eilífri bernsku, ófærar um að standa sjálfar. Það er einlæg ósk mín að mér takist að draga fram í hverju sönn reisn og mannleg hamingja felst. Ég vil fá konur til að reyna að öðlast styrk, jafnt andlegan sem líkamlegan, og sannfæra þær um að mjúkir frasar, eftirgefanleiki hjartans, viðkvæmni tilfinninganna og fágun smekksins séu nánast samheiti skammaryrða yfir veikleika, og að þær verur sem aðeins kalla yfir sig vorkunn og þá gerð ástar sem kölluð hefur verið systir vorkunnseminnar muni brátt kalla yfir sig fyrirlitningu.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd: