Sólin Sólin Rís 03:48 • sest 23:17 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:45 • Síðdegis: 15:34 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:01 • Síðdegis: 21:55 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:48 • sest 23:17 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:45 • Síðdegis: 15:34 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:01 • Síðdegis: 21:55 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Getið þið sagt mér sögu Volkswagen Bjöllunnar?

Ásgeir Sigurgestsson

Saga Volkswagen Bjöllunnar er einnig saga þýska hugvitsmannsins og hönnuðarins Ferdinands Porsche (1875-1951). Þótt margir hafi vitaskuld lagt hönd á plóg í þróun þessa víðfræga farartækis var Porsche hugmyndasmiðurinn og frumkvöðullinn að gerð þess.

Porsche fæddist í Bæheimi sem nú er hluti Tékklands, hlaut menntun í Vínarborg og starfaði í Austurríki og Þýskalandi. Framan af ævinni starfaði hann hjá ýmsum bílaverksmiðjum, meðal annars Daimler (Benz), og vakti mikla athygli fyrir hugvitsamlegar tæknilausnir og hönnun. Frá 1930 starfrækti hann eigin hönnunarstofu í Stuttgart og á þeim árum þróuðust þær meginhugmyndir sem síðan urðu að veruleika í Bjöllunni.


Bjöllurnar voru litlar, sparneytnar og ódýrar.

Fyrstu tilraunabílarnir, forverar Bjöllunnar, voru hannaðir og smíðaðir af Porsche og starfsmönnum hans á öndverðum fjórða áratugnum. Ýmsum bílaframleiðendum var boðið að fjöldaframleiða bílinn en hvorki gekk né rak fyrr en til sögunnar kom maður sem hafði áhuga á hugmyndinni og verkefninu: Adolf Hitler.

Þegar Hitler komst til valda 1933 voru samgöngur ofarlega á blaði hjá honum. Hann samdi stórhuga áætlanir um hraðbrautir um landið þvert og endilangt til þess að bæta samgöngur fyrir þjóðina (og ekki síður hersveitir hans). Vinur Porsche var í tengslum við Hitler og sagði honum frá hugmyndum Porsche um framleiðslu á litlum, einföldum, hagkvæmum og ódýrum bíl sem almenningur gæti átt kost á að eignast. Þetta féll Hitler vel í geð og mun hann sjálfur hafa tekið þátt í að móta hugmyndirnar frekar; vagninn yrði fjögurra manna fjölskyldubifreið með loftkældri vél með eins lítra sprengirými. Hún átti að nota aðeins sjö lítra af bensíni á hverja hundrað kílómetra og geta náð hundrað kílómetra hraða.

Til að gera langa sögu stutta voru frumgerðir smíðaðar 1935 og 1936 og alls kyns prófanir fóru fram næstu misserin. Á þeim árum var þróuð sú gerð Bjöllunnar sem varð hin eiginlega frumgerð hennar 1938. Í stað þess að fela framleiðsluna bílaverksmiðjum sem voru fyrir í landinu ákvað Hitler að reisa nýja verksmiðju enda markið sett á að minnsta kosti eina milljón bíla á ári. Verksmiðjan var reist í þorpinu Fallersleben sem nefnt var Wolfsburg eftir stríðið. Ekki er að efa að Hitler hafi átt sinn þátt í eða ráðið heiti bílsins, Volkswagen – alþýðuvagn – líkt og hann kom á heitinu Volksradio fyrir þýska útvarpið og notaði hugtakið Volk (þjóð eða alþýða) mikið í hugmyndum sínum og ræðum.

Varla er hægt að rekja sögu Bjöllunnar án þess að segja frá því hvernig fjármagna átti framleiðsluna og hvernig þýskur almúgi átti að fá að eignast slíkan grip. Með greiðslu 5 marka að lágmarki á mánuði fyrir sérstök stimpilmerki átti fólk að safna fyrir bílnum og greiða hann að fullu fyrir afhendingu. Hér til hliðar sést gamalt veggspjald sem auglýsir þetta kostaboð. Verðið var 1150 mörk með tryggingu til tveggja ára en meðallaun voru um þessar mundir 200-300 mörk á mánuði. Engir vextir voru greiddir af framlaginu eða bætur ef menn týndu söfnunarbókum sínum. Samningurinn var óuppsegjanlegur og félli ein greiðsla niður tapaði fólk öllu framlaginu! Þrátt fyrir þetta gerðust um 340 þúsund manns aðilar að áætluninni og lögðu fram 280 milljónir marka.

Verksmiðjur voru reistar 1938-1939, búnar fullkomnum tækjum, meðal annars bandarískum. Framleiða átti 150 þúsund bíla 1940 og fjölga þeim í 1,5 milljón á næstu tveimur árum.

En þýskur almúgi fékk ekki bílinn sinn, né heldur endurgreiðslu, því Hitler hóf síðari heimsstyrjöldina með innrásinni í Pólland 1. september 1939 sem alkunna er. Verksmiðjan í Fallersleben var að mestu nýtt til hergagnaframleiðslu þar til Bandamenn sprengdu stóran hluta hennar í loft upp 1944. Söfnunarsjóðinn sem vonglaðir verkamenn höfðu greitt í fengu Sovétmenn í stríðsskaðabætur að styrjöld lokinni. Þess er þó að geta að nokkur hundruð Bjöllur voru framleiddar á fyrstu árum stríðsins en þær gengu flestar til háttsettra nasistaforingja. Undirvagn Bjöllunnar var nýttur til þess að framleiða í stórum stíl létta herbíla með annars konar yfirbyggingu (svonefndir Kübelwagen). Hann reyndist Þjóðverjum vel í stríðinu og var raunar framleiddur áfram eftir það.

Eftir seinni heimsstyrjöld lenti verksmiðjan mikla á yfirráðasvæði Breta. Breska herstjórnin hófst handa við að gera við hinar miklu skemmdir sem loftárásirnar höfðu valdið, gera við tæki og koma lítils háttar framleiðslu af stað. Á árinu 1946 fór hún að taka við sér af alvöru og Bjalla nr. 10.000 var þá smíðuð í lok ársins þótt erfitt væri um aðdrætti.

Ýmsum ríkjum meðal sigurvegaranna í stríðinu var boðin verksmiðjan sem stríðsskaðabætur en enginn hafði áhuga þegar til kastanna kom. Breska herstjórnin starfrækti hana því áfram allt til 1949 er hún var fengin í hendur Þjóðverjum, það er þýska sambandsríkinu (Vestur-Þýskalandi) undir handleiðslu Neðra-Saxlands. Ráðinn var nýr forstjóri, dr. Heinz Nordhoff sem gerði Volkswagen að stórfyrirtæki á þeim tæpu tveimur áratugum sem hann réði för. Milljónasti bíllinn rann eftir færibandinu í ágúst 1955, sífelldar endurbætur voru gerðar á hönnun hans, nýjar gerðir og ýmiss konar aukabúnaður leit dagsins ljós. Volkswagen-verksmiðjur risu víðar í Þýskalandi og reyndar einnig erlendis, meðal annars í Brasilíu seint á sjötta áratugnum og í ýmsum öðrum löndum. Fimm milljóna markinu var náð 1961 og tíu milljónasta Bjallan var smíðuð fimm árum síðar. Útflutningur jókst stöðugt og vinsældir Bjöllunnar í Bandaríkjunum á sjöunda og áttunda áratugnum urðu ótrúlegar þegar haft er í huga hve mjög hún stakk í stúf við þarlenda bíla.

Síðustu Bjöllunni var ekið af færibandi í Þýskalandi í upphafi árs 1978 og höfðu þá nær tuttugu milljón eintök verið framleidd í heiminum, þar af sextán milljónir í Þýskalandi. Eftir það var bíllinn framleiddur í Mexíkó allt þar til í júlí 2003 og var meðal annars algengur leigubíll þar í landi. Þá höfðu um 21 milljón Bjöllur verið smíðaðar á rúmlega sextíu árum og hefur enginn annar bíll verið framleiddur í slíku magni. Fyrra metið átti Ford T en framleiðslu hans lauk í rúmlega fimmtán milljónum eintaka árið 1927.

Hekla hf. fékk umboð fyrir Volkswagen hér á landi árið 1952. Innflutningurinn fór hægt af stað enda háður opinberum leyfum á þeim árum. En Bjallan öðlaðist miklar vinsældir hér á landi enda að mörgu leyti hentug fyrir íslenskar aðstæður. Sléttur botninn og þunginn á afturhjólunum vegna þess að vélin var yfir þeim fleytti bílnum til dæmis yfir marga snjóskafla þar sem aðrir sátu fastir. Hekla flutti inn um fjórtán þúsund Bjöllur á árunum 1953-1978, þorra þeirra eftir að bílainnflutningur var gefinn frjáls 1961.


Árið 1998 hóf Volkswagen framleiðslu á nýrri gerð Bjöllu. Hér sést hún í forgrunni, en eldri bíllinn fyrir aftan.

En hvað um höfundinn – guðföðurinn – Ferdinand Porsche? Hann átti lítinn sem engan þátt í endurreisn verksmiðjunnar og varð fyrir þeim örlögum að vera vændur um stuðning við Hitler og stjórn hans að styrjöldinni lokinni. Það var meðal annars vegna þess að verksmiðjurnar höfðu framleitt ýmis hergögn fyrir þýska herinn á stríðsárunum. Að þeim loknum sat Porsche því í fangelsi í tvö ár og heilsu hans hrakaði. Hann var að lokum sýknaður af öllum ákærum og litið svo á að hann hefði neyðst til að vinna með nasistum. Hann fékk tækifæri til þess að skoða Volkswagen-verksmiðjurnar í Wolfsburg með Nordhoff forstjóra 1950. Sagan segir að á heimleið úr þeirri heimsókn hafi Porsche tárast þegar hann sá hraðbrautir Þýskalands fullar af Bjöllum, bílnum sem hann hafði barist svo lengi við að hanna og smíða. Hann lést árið eftir.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir

Höfundur

sálfræðingur og MPA-nemi

Útgáfudagur

26.4.2006

Spyrjandi

Hallur Sigurðarson, f. 1993

Tilvísun

Ásgeir Sigurgestsson. „Getið þið sagt mér sögu Volkswagen Bjöllunnar?“ Vísindavefurinn, 26. apríl 2006, sótt 17. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5841.

Ásgeir Sigurgestsson. (2006, 26. apríl). Getið þið sagt mér sögu Volkswagen Bjöllunnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5841

Ásgeir Sigurgestsson. „Getið þið sagt mér sögu Volkswagen Bjöllunnar?“ Vísindavefurinn. 26. apr. 2006. Vefsíða. 17. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5841>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Getið þið sagt mér sögu Volkswagen Bjöllunnar?
Saga Volkswagen Bjöllunnar er einnig saga þýska hugvitsmannsins og hönnuðarins Ferdinands Porsche (1875-1951). Þótt margir hafi vitaskuld lagt hönd á plóg í þróun þessa víðfræga farartækis var Porsche hugmyndasmiðurinn og frumkvöðullinn að gerð þess.

Porsche fæddist í Bæheimi sem nú er hluti Tékklands, hlaut menntun í Vínarborg og starfaði í Austurríki og Þýskalandi. Framan af ævinni starfaði hann hjá ýmsum bílaverksmiðjum, meðal annars Daimler (Benz), og vakti mikla athygli fyrir hugvitsamlegar tæknilausnir og hönnun. Frá 1930 starfrækti hann eigin hönnunarstofu í Stuttgart og á þeim árum þróuðust þær meginhugmyndir sem síðan urðu að veruleika í Bjöllunni.


Bjöllurnar voru litlar, sparneytnar og ódýrar.

Fyrstu tilraunabílarnir, forverar Bjöllunnar, voru hannaðir og smíðaðir af Porsche og starfsmönnum hans á öndverðum fjórða áratugnum. Ýmsum bílaframleiðendum var boðið að fjöldaframleiða bílinn en hvorki gekk né rak fyrr en til sögunnar kom maður sem hafði áhuga á hugmyndinni og verkefninu: Adolf Hitler.

Þegar Hitler komst til valda 1933 voru samgöngur ofarlega á blaði hjá honum. Hann samdi stórhuga áætlanir um hraðbrautir um landið þvert og endilangt til þess að bæta samgöngur fyrir þjóðina (og ekki síður hersveitir hans). Vinur Porsche var í tengslum við Hitler og sagði honum frá hugmyndum Porsche um framleiðslu á litlum, einföldum, hagkvæmum og ódýrum bíl sem almenningur gæti átt kost á að eignast. Þetta féll Hitler vel í geð og mun hann sjálfur hafa tekið þátt í að móta hugmyndirnar frekar; vagninn yrði fjögurra manna fjölskyldubifreið með loftkældri vél með eins lítra sprengirými. Hún átti að nota aðeins sjö lítra af bensíni á hverja hundrað kílómetra og geta náð hundrað kílómetra hraða.

Til að gera langa sögu stutta voru frumgerðir smíðaðar 1935 og 1936 og alls kyns prófanir fóru fram næstu misserin. Á þeim árum var þróuð sú gerð Bjöllunnar sem varð hin eiginlega frumgerð hennar 1938. Í stað þess að fela framleiðsluna bílaverksmiðjum sem voru fyrir í landinu ákvað Hitler að reisa nýja verksmiðju enda markið sett á að minnsta kosti eina milljón bíla á ári. Verksmiðjan var reist í þorpinu Fallersleben sem nefnt var Wolfsburg eftir stríðið. Ekki er að efa að Hitler hafi átt sinn þátt í eða ráðið heiti bílsins, Volkswagen – alþýðuvagn – líkt og hann kom á heitinu Volksradio fyrir þýska útvarpið og notaði hugtakið Volk (þjóð eða alþýða) mikið í hugmyndum sínum og ræðum.

Varla er hægt að rekja sögu Bjöllunnar án þess að segja frá því hvernig fjármagna átti framleiðsluna og hvernig þýskur almúgi átti að fá að eignast slíkan grip. Með greiðslu 5 marka að lágmarki á mánuði fyrir sérstök stimpilmerki átti fólk að safna fyrir bílnum og greiða hann að fullu fyrir afhendingu. Hér til hliðar sést gamalt veggspjald sem auglýsir þetta kostaboð. Verðið var 1150 mörk með tryggingu til tveggja ára en meðallaun voru um þessar mundir 200-300 mörk á mánuði. Engir vextir voru greiddir af framlaginu eða bætur ef menn týndu söfnunarbókum sínum. Samningurinn var óuppsegjanlegur og félli ein greiðsla niður tapaði fólk öllu framlaginu! Þrátt fyrir þetta gerðust um 340 þúsund manns aðilar að áætluninni og lögðu fram 280 milljónir marka.

Verksmiðjur voru reistar 1938-1939, búnar fullkomnum tækjum, meðal annars bandarískum. Framleiða átti 150 þúsund bíla 1940 og fjölga þeim í 1,5 milljón á næstu tveimur árum.

En þýskur almúgi fékk ekki bílinn sinn, né heldur endurgreiðslu, því Hitler hóf síðari heimsstyrjöldina með innrásinni í Pólland 1. september 1939 sem alkunna er. Verksmiðjan í Fallersleben var að mestu nýtt til hergagnaframleiðslu þar til Bandamenn sprengdu stóran hluta hennar í loft upp 1944. Söfnunarsjóðinn sem vonglaðir verkamenn höfðu greitt í fengu Sovétmenn í stríðsskaðabætur að styrjöld lokinni. Þess er þó að geta að nokkur hundruð Bjöllur voru framleiddar á fyrstu árum stríðsins en þær gengu flestar til háttsettra nasistaforingja. Undirvagn Bjöllunnar var nýttur til þess að framleiða í stórum stíl létta herbíla með annars konar yfirbyggingu (svonefndir Kübelwagen). Hann reyndist Þjóðverjum vel í stríðinu og var raunar framleiddur áfram eftir það.

Eftir seinni heimsstyrjöld lenti verksmiðjan mikla á yfirráðasvæði Breta. Breska herstjórnin hófst handa við að gera við hinar miklu skemmdir sem loftárásirnar höfðu valdið, gera við tæki og koma lítils háttar framleiðslu af stað. Á árinu 1946 fór hún að taka við sér af alvöru og Bjalla nr. 10.000 var þá smíðuð í lok ársins þótt erfitt væri um aðdrætti.

Ýmsum ríkjum meðal sigurvegaranna í stríðinu var boðin verksmiðjan sem stríðsskaðabætur en enginn hafði áhuga þegar til kastanna kom. Breska herstjórnin starfrækti hana því áfram allt til 1949 er hún var fengin í hendur Þjóðverjum, það er þýska sambandsríkinu (Vestur-Þýskalandi) undir handleiðslu Neðra-Saxlands. Ráðinn var nýr forstjóri, dr. Heinz Nordhoff sem gerði Volkswagen að stórfyrirtæki á þeim tæpu tveimur áratugum sem hann réði för. Milljónasti bíllinn rann eftir færibandinu í ágúst 1955, sífelldar endurbætur voru gerðar á hönnun hans, nýjar gerðir og ýmiss konar aukabúnaður leit dagsins ljós. Volkswagen-verksmiðjur risu víðar í Þýskalandi og reyndar einnig erlendis, meðal annars í Brasilíu seint á sjötta áratugnum og í ýmsum öðrum löndum. Fimm milljóna markinu var náð 1961 og tíu milljónasta Bjallan var smíðuð fimm árum síðar. Útflutningur jókst stöðugt og vinsældir Bjöllunnar í Bandaríkjunum á sjöunda og áttunda áratugnum urðu ótrúlegar þegar haft er í huga hve mjög hún stakk í stúf við þarlenda bíla.

Síðustu Bjöllunni var ekið af færibandi í Þýskalandi í upphafi árs 1978 og höfðu þá nær tuttugu milljón eintök verið framleidd í heiminum, þar af sextán milljónir í Þýskalandi. Eftir það var bíllinn framleiddur í Mexíkó allt þar til í júlí 2003 og var meðal annars algengur leigubíll þar í landi. Þá höfðu um 21 milljón Bjöllur verið smíðaðar á rúmlega sextíu árum og hefur enginn annar bíll verið framleiddur í slíku magni. Fyrra metið átti Ford T en framleiðslu hans lauk í rúmlega fimmtán milljónum eintaka árið 1927.

Hekla hf. fékk umboð fyrir Volkswagen hér á landi árið 1952. Innflutningurinn fór hægt af stað enda háður opinberum leyfum á þeim árum. En Bjallan öðlaðist miklar vinsældir hér á landi enda að mörgu leyti hentug fyrir íslenskar aðstæður. Sléttur botninn og þunginn á afturhjólunum vegna þess að vélin var yfir þeim fleytti bílnum til dæmis yfir marga snjóskafla þar sem aðrir sátu fastir. Hekla flutti inn um fjórtán þúsund Bjöllur á árunum 1953-1978, þorra þeirra eftir að bílainnflutningur var gefinn frjáls 1961.


Árið 1998 hóf Volkswagen framleiðslu á nýrri gerð Bjöllu. Hér sést hún í forgrunni, en eldri bíllinn fyrir aftan.

En hvað um höfundinn – guðföðurinn – Ferdinand Porsche? Hann átti lítinn sem engan þátt í endurreisn verksmiðjunnar og varð fyrir þeim örlögum að vera vændur um stuðning við Hitler og stjórn hans að styrjöldinni lokinni. Það var meðal annars vegna þess að verksmiðjurnar höfðu framleitt ýmis hergögn fyrir þýska herinn á stríðsárunum. Að þeim loknum sat Porsche því í fangelsi í tvö ár og heilsu hans hrakaði. Hann var að lokum sýknaður af öllum ákærum og litið svo á að hann hefði neyðst til að vinna með nasistum. Hann fékk tækifæri til þess að skoða Volkswagen-verksmiðjurnar í Wolfsburg með Nordhoff forstjóra 1950. Sagan segir að á heimleið úr þeirri heimsókn hafi Porsche tárast þegar hann sá hraðbrautir Þýskalands fullar af Bjöllum, bílnum sem hann hafði barist svo lengi við að hanna og smíða. Hann lést árið eftir.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir

...