Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Það er af því að einu sinni var uppi maður að nafni Murphy. Hann setti fram lögmál sem við hann er kennt og nefnist lögmál Murphys. Lögmálið er yfirleitt dregið saman í eina setningu:
Allt sem getur farið úrskeiðis gerir það, fyrr eða síðar.
Út frá lögmálinu má meðal annars leiða eftirfarandi reglur:
Bíllinn verður helst bensínlaus þegar okkur liggur á.
Mestar líkur eru á að hitta fyrrverandi kærasta eða kærustur þegar maður lítur út eins og draugur.
Röðin sem þú velur er alltaf sú sem lengstan tíma tekur að afgreiða.
Evran á örugglega eftir að gleypa krónuna og eftir það eigum við ekki krónu.
Vesenið á örugglega eftir að margfaldast þó að ég geti ekki látið mér detta í hug hvernig það gerist.
Margar vefsíður á Veraldarvefnum eru auðvitað tileinkaðar Murphy og lögmálinu hans, en jafnauðvitað er hitt að þær eru flestar eða allar bilaðar eins og lögmálið segir til um. Við tökum því ekki ábyrgð á því ef lesendur vilja prófa þetta sjálfir. Hér eru samt nokkrar:
Murphy varð vitaskuld ekki langlífur maður samkvæmt föstudagsútgáfunni af ævisögu hans, en þar segir að hann hafi dáið af því að stinga sig á nál í heystakki. Hann var þá fimm ára að aldri og nýbúinn að setja fram aðallögmálið sem "sannaðist" þannig um leið og það hafði verið sett fram. Við tökum skýrt fram að við seljum þessa sögu ekki dýrara en við keyptum, enda segir lögmál Murphys að slík viðskipti muni aldrei borga sig fyrir okkur.
Miklar fjölgreinarannsóknir, öðru nafni þverfaglegar rannsóknir, hafa beinst að því að kanna vísindalegt gildi Murphy-lögmálsins. Skemmst er frá því að segja að þær hafa allar mistekist, einkum vegna forfalla og dræmrar þátttöku þeirra sem áttu að svara spurningalistum. Er nú svo komið að vísindasjóðir eru hættir að veita styrki til að rannsaka lögmálið þó að öllum beri saman um að slíkar rannsóknir mundu hafa mikið og óvenjulegt vísindagildi. Ef þær heppnuðust fullkomlega mundi það um leið afsanna lögmálið og leiða til þverstæðu sem gæti valdið fræðimönnum miklu hugarangri.
Annars er líka athyglisvert að skoða spurninguna út frá málfræðilegu sjónarmiði. Má þá raunar segja að svarið við henni blasi við ásamt tengslunum við Murphy. Orðið 'vesen' er tökuorð úr dönsku þar sem þetta heitir 'væsen'. Það orð hefur nokkrar merkingar samkvæmt orðabókinni og ein af þeim er sú sem spyrjandi hefur í huga, 'vafstur, umstang'. Önnur merking er hins vegar 'eðli, gerð'.
Danska orðið er komið af þýska nafnorðinu 'Wesen' sem er aftur tengt sögninni 'wesen' en hún er notuð í hátíðlegu máli um 'að vera'. Þýska orðið merkir 'vera, eðli' svipað og danska orðið, en í því þýska er engin vafstursmerking. Þýskir heimspekingar hafa engu að síður gert mikið vesen út af veseni af því tagi sem þýska orðið lýsir, en í því orði sjálfu er samt ekkert vesen eins og fyrr segir.
Í upphafi svarsins var nefnd ein helsta ástæða vesens en sama fyrirbæri hefur oft fleiri en eina orsök, eða þá að hægt er að lýsa orsökunum á fleiri en einn veg. Málfræðilega skýringin á veseni er þessi:
Vesen þýðir upphaflega eðli og allir hlutir hafa eðli. Forfeður Dana hafa tekið eftir því að öllum hlutum fylgir vesen og lært að telja það eðlilegt. Þessa reynslu sína hafa þeir bundið í nýrri merkingu orðsins, raunar löngu áður en Murphy kom til sögunnar.
Að lokum er rétt að geta þess að þetta er föstudagssvar. Sá sem tekur eitt einasta orð alvarlega í svarinu getur átt á hættu að lenda í enn meira veseni en ella. Því til frekari stuðnings má nefna að það hefur kostað ritstjórn Vísindavefsins óvenju mikið vesen að semja þetta svar, og erum við þó ýmsu vön.
Ritstjórn Vísindavefsins. „Af hverju er allt svona mikið vesen?“ Vísindavefurinn, 28. apríl 2006, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5850.
Ritstjórn Vísindavefsins. (2006, 28. apríl). Af hverju er allt svona mikið vesen? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5850
Ritstjórn Vísindavefsins. „Af hverju er allt svona mikið vesen?“ Vísindavefurinn. 28. apr. 2006. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5850>.