Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Belgísk-bandaríski fræðimaðurinn George Sarton (1884-1956) hefur oft verið kallaður faðir vísindasagnfræðinnar, og má það vel til sanns vegar færa.
Sarton fæddist í borginni Ghent í Belgíu. Hann lagði stund á efnafræði og stærðfræði í háskóla og lauk doktorsprófi í Ghent árið 1911. Hann kvæntist enskri konu sama ár. Vegna fyrri heimsstyrjaldarinnar fluttist fjölskyldan til Englands og síðan Bandaríkjanna og settist þar að. Sarton starfaði við Harvard-háskóla lungann úr starfsævinni.
Sarton var afkastamikill rithöfundur og virtur fræðimaður á sinni tíð. Hann ætlaði sér að skrifa níu binda verk um vísindasögu eins og hún leggur sig en náði ekki að skrifa nema þrjú bindi af því verki, um Forngrikki, og um Araba og Evrópumenn á miðöldum fram á fjórtándu öld. Einnig skrifaði hann annað verk í tveimur bindum um vísindi Forngrikkja og síðgríska skeiðið sem svo er kallað (e. hellenistic period), en þá breiddust grísk menningaráhrif meðal annars út um löndin fyrir botni Miðjarðarhafs.
Sarton lagði vísvitandi kapp á að marka vísindasögunni sérstakan bás í heimi fræðanna, meðal annars með mikilvægum tímaritum, til dæmis Isis og Osiris, og félögum sem hann setti á laggirnar.
Viðhorf Sartons til sögunnar einkenndust af mannhyggju (húmanisma) auk þess sem hann kunni yfirleitt nægileg skil á tæknilegum atriðum til þess að geta fjallað um næstum hvaða svið vísinda sem vera skyldi. Hann vildi líta á vísindin sem eina heild enda var slíkt einnig ríkjandi viðhorf í vísindaheimspeki á þeim tíma. Honum var því einnig eðlilegt að skrifa eina vísindasögu um öll vísindi frá öndverðu til okkar daga, en síðar hafa margir vísindasagnfræðingar talið slíkt ókleift.
Frásagnarmáti Sartons og samtíðarmanna hans einkenndist af því að rekja atburði sögunnar sem best, segja frá einstökum greinum og mönnum í tímaröð, hvernig hver tekur við af öðrum, hver var fyrstur til að gera hinar ýmsu uppgötvanir og svo framvegis. Mest áhersla var þá lögð á þær niðurstöður sem standa enn fyrir sínu, og auk þess að nokkru á þær sem höfðu veruleg áhrif fram í tímann.
Þetta skeið í þróun vísindasögunnar er stundum kennt við frásagnir (e. narration) og er þá meðal annars átt við að markið var yfirleitt ekki sett hærra en svo. Það var blátt áfram ekki á dagskrá að svo stöddu að smíða kenningar um innri þróun vísinda, hvað þá að skoða ytri áhrif á þau. Slíkt komst á dagskrá síðar með fræðimönnum eins og Thomasi Kuhn (1922-1996) og Robert K. Merton (1910-2003). Hefur viðhorf þess fyrrnefnda verið kennt við innhverfu (e. internalism) en þess síðarnefnda við úthverfu (sjá nánar í grein svarshöfundar frá 1989, sbr. heimildir í lok svarsins).
Sarton var skemmtilegur sögumaður sem fór ekki í launkofa með skoðanir sínar á umdeildum atriðum og sýndi lesandanum oft inn í hugskot sitt. Skrif hans báru þess merki að grunnmenntun hans var á sviði raunvísinda. Það á ekki við um alla vísindasagnfræðinga; grunnmenntun þeirra er afar breytileg og getur til dæmis verið í heimspeki eða sagnfræði auk vísindagreinanna sem um er fjallað. Þessi munur á grunnmenntun og -þekkingu innan hópsins hefur reynst frjór og gagnlegur fyrir þetta fræðasvið.
Brautryðjandastarf Sartons átti sinn þátt í því að vísindsagan varð að sjálfstæðri fræðigrein í heimi fræðanna. Jafnframt varð ljóst að slík sérhæfing væri afar þörf, rétt eins og í listasögu eða tónlistarsögu og með svipuðum rökum sem eru að minnsta kosti tvenns konar. Annars vegar reynist það oft ofviða almennum sagnfræðingum að fjalla um sögu sérhæfðra fræðigreina. Hins vegar tekur oft ekki betra við þegar starfandi vísindamenn vilja fjalla um sögu fræðigreinar sinnar. Þeim hættir þá til að horfa á fortíðina með gleraugum samtíðarinnar þannig að ekkert skipti máli nema þær niðurstöður sem hafa haldið óskertu gildi. Höfundur þessa svars hefur kallað þetta viðhorf söguskekkju en á ensku er stundum talað um „whig history“.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hver var George Sarton og hvaða áhrif hafði hann á vísindasögu sem fræðigrein?“ Vísindavefurinn, 17. febrúar 2011, sótt 10. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=58599.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2011, 17. febrúar). Hver var George Sarton og hvaða áhrif hafði hann á vísindasögu sem fræðigrein? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58599
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hver var George Sarton og hvaða áhrif hafði hann á vísindasögu sem fræðigrein?“ Vísindavefurinn. 17. feb. 2011. Vefsíða. 10. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=58599>.