Meðal þeirra sem hafa lært einhverja hagfræði er Ricardo sennilega þekktastur fyrir kenninguna um hlutfallslega yfirburði (e. comparative advantage). Hagfræðinemar kynnast henni mjög snemma í námi sínu. Kenningin skýrir ábata af milliríkjaviðskiptum á ákaflega einfaldan og snjallan hátt og hún skýrir líka það hagræði sem einstaklingar geta haft af margvíslegum viðskiptum sín á milli. Þetta skýrði Ricardo með dæmi sem hér verður lýst, ofurlítið breyttu.4
Hugsum okkur að í Englandi og Portúgal fari fram framleiðsla á klæði og víni. Til að framleiða eina einingu af klæði þurfi 50 verkamenn í Englandi og 25 í Portúgal. Til þess að framleiða eina einingu af víni þurfi 200 verkamenn í Englandi en 25 í Portúgal.
| Klæði | Vín | |
| England | 50 verkamenn á einingu | 200 verkamenn á einingu |
| Portúgal | 25 verkamenn á einingu | 25 verkamenn á einingu |
| Fyrir verkaskiptingu | Klæði | Vín |
| England | 1 eining | 1 eining |
| Portúgal | 1 eining | 1 eining |
| Samtals | 2 einingar | 2 einingar |
| Eftir verkaskiptingu | Klæði | Vín |
| England | 3 einingar | 0,5 eining |
| Portúgal | 0 einingar | 2 einingar |
| Samtals | 3 einingar | 2,5 eining |
Því er stundum haldið fram að Ricardo hafi verið fyrstur manna til að greiða rentu eða leigu fyrir jarðnæði. En það gerði hann reyndar ekki, heldur nýtti hann sér í aðalatriðum greiningu vinar síns Malthusar og þróaði áfram.7 Þessari greiningu mætti lýsa svona: Ef til væri óendanlega mikið af jafn góðu landi til ræktunar, væri ekki hægt að krefjast neins gjalds fyrir afnot af því, nema í þeim tilvikum sem staðsetning landsins væri sérstaklega hagkvæm. Það er því aðeins vegna þess að ekki er til óendanlega mikið af landi og það er ekki einsleitt að gæðum, að það myndast renta, sem kölluð hefur verið misgæðarenta á íslensku (e. differential rent). Myndun rentunnar stafar af því, að þegar síðra land er tekið til ræktunar á sama markaði, hækkar afurðaverðið til samræmis við framleiðslukostnað á þessu síðra landi. Vegna þess að markaðurinn er hinn sami verður afurðaverðið einnig hærra fyrir sömu vörur sem framleiddar eru á góða landinu, því landi sem var áður í rækt. En framleiðslukostnaðurinn á því landi eykst ekki. Þar með myndast ákveðinn afgangur, mismunur á framleiðslukostnaði og afurðaverði. Og þessi afgangur rennur í skaut landeigandans sem renta. Ástæðan er sú að bændur sem leigja landið til að framleiða landbúnaðarafurðir keppast um að bjóða í góða landið, það er til að borga rentu fyrir það. Sú keppni endar með því að þeir borga rentu sem nemur mismuninum. Með því að borga rentuna eru þeir jafnsettir, sem rækta á góðu landi og slæmu landi. Ricardo dró sömu ályktun af þessu og Adam Smith hafði áður gert, að renta væri ekki þáttur í vöruverði, og þar með gæti hún ekki verið orsök fyrir háu kornverði. Rentan væri hins vegar afleiðing af háu kornverði.
Ricardo er nafnkunnur í sögu hagfræðinnar fyrir fleira en þetta. Þegar nafn hans ber á góma, er minnst á svonefnda vinnuverðgildiskenningu. En Ricardo taldi að vöruverð réðist að mestu leyti af þeirri vinnu sem þyrfti til að framleiða vörurnar, og að það magn vinnu sem á beinan eða óbeinan hátt þyrfti til að framleiða vörur væri góð leið til að nálga virði þeirra. Það er hins vegar fræðilegt álitamál að hve miklu leyti hann aðhylltist vinnuverðgildiskenningu og þá hvernig.
Ricardo er einnig þekktur fyrir sjónarmið sín um vinnulaun alþýðu, sem voru mjög sambærileg og hjá vini hans Thomasi Malthus og skyld sjónarmið og lesa má hjá Adam Smith. Þessi sjónarmið hafa ýmist verið tengd við Ricardo eða Malthus og eru stundum kölluð járnlögmálið um laun. Þau spretta á eðlilegan hátt af fólksfjölgunarkenningu Malthusar. Kenningin er í stuttu máli sú, að vinnulaun hafi tilhneigingu til að vera aðeins nógu há til þess að verkafólkið geti lifað af laununum og komið nægilega mörgum börnum til manns til þess að fjöldi verkafólks verði áfram hæfilegur.
Margt fleira mætti nefna, svo sem sjónarmið hans í peningamálum, enda hefur Ricardo reynst ákaflega áhrifamikill hagfræðingur. Lesa má um Ricardo í flestum bókum sem ætlaðar eru byrjendum í hagfræði og flestöllum bókum sem fjalla um sögu hagfræðinnar og nafns hans er víða getið í öðrum ritum sem um hagfræði fjalla.
Myndir:- Wikispaces - jspivey. David Ricardo. Sótt 12.4.2011.
- Wikipedia.com - Thomas Malthus. Sótt 12.4.2011.
1 Um vináttu Ricardos og Malthusar er til fróðleg ritgerð eftir Robert Dorfman, „Thomas Robert Malthus and David Ricardo“, Journal of Economic Perspectives, 1989, vol. 3, bls. 153-164.
2 Tilvitnunin fengin frá Charles E. Staley, A History of Economic Thought, Oxford, 1989, bls. 66.
3 Í þessu svari er talsvert byggt á ritgerðum í John Eatwell, Murray Milgate og Peter Newman (ritstjórar): The New Palgrave, A Dictionary of Economics. Macmillan Press Limited, London, 1998. Einna mest hefur verið litið til ritgerðarinnar „Ricardo“ eftir G. Vivo í 4. bindi New Palgrave, bls. 183-198. Þá hefur verið höfð hliðsjón af umfjöllun um Ricardo og klassísku hagfræðingana í Mark Blaug: Economic Theory in Retrospect, 5. útg., Cambridge University Press, Cambridge, 1999. Auk þess má nefna bækurnar I. H. Rima: Development of Economic Analysis, 5. útgáfa, Richard D. Irwin Inc., USA, 1991, og Charles E. Staley: A History of Economic Thought: From Aristotle to Arrow, Blackwell Publishers, Oxford, 1989. Handhæg útgáfa af riti Ricardos, The Principles of Political Economy and Taxation, kom út hjá Everyman Library, New York 1969. En fræðileg útgáfa af höfundarverki Ricardos kom út í ritstjórn þeirra Piero Sraffa og Maurice Dobb á árunum 1951-1955 og mun nú vera fáanleg hjá Liberty Fund-bókaútgáfunni.
4 Þessa útgáfu dæmisins má sjá í ritgerðinni „Ricardo“ eftir G. Vivo í 4. bindi New Palgrave, bls. 194.
5 David Ricardo, The Principles of Political Economy and Taxation, Everymans Library, London, 1969, 17. kafli, bls. 160 og áfram.
6 Sjá nánar um þetta efni í „Ricardian equivalence theorem“, eftir Andrew B. Abel, New Palgrave, 4. bindi.
7 Árið 1815 komu út fjögur rit með nokkurn veginn sömu greiningu á rentu. Eitt þeirra var eftir Malthus. Annað eftir Ricardo – en hann fékk hugmyndina hjá vini sínum. Þá kom út sambærileg greining eftir Edward West (1782-1828) og Robert Torrens (1780-1864). Áður hafði Adam Smith fjallað um rentu. Sjá nánar í Mark Blaug, Economic Theory in Retrospect, 5. útg. bls. 75 og áfram. Sjá einnig í ritgerð Dorfmans um Malthus og Ricardo, bls. 157.