Milton Friedman fæddist í Brooklyn í New York árið 1912, við fábrotnar aðstæður. Hann hlaut BA-gráðu í hagfræði og stærðfræði við Rutgers-háskóla 1932, MA-gráðu í hagfræði við Chicago-háskóla 1933 og doktorsgráðu í hagfræði við Colombia-háskóla 1946. Hann starfaði á námsárum sínum við hagrannsóknir, aðallega tölfræðilegar rannsóknir og þróun aðferða á því sviði. Hann starfaði meðal annars hjá hinu opinbera í Washingtonborg í valdatíð Franklins D. Roosevelt, forseta Bandaríkjanna, og hjá Hagrannsóknarstofnun Bandaríkjanna (National Bureau of Economic Research, skammstafað NBER) við verkefni sem tengdust ríkisvaldinu og hernum á stríðsárunum. Hann tók þátt í að þróa aðferðir til neyslugreiningar og kannana og mælinga á neysluhegðun. Hann var einn höfunda breyttrar skattaframkvæmdar á stríðsárunum, faðir kerfis staðgreiðsluskatta. Friedman varð prófessor í hagfræði við Chicago-háskóla 1946 og var jafnframt rannsóknarfélagi við NBER frá 1937 til 1981.
Segja má að Friedman hafi fyrst vakið á sér athygli sem öflugur fræðimaður með útgáfu Tekjur sjálfstætt starfandi sérfræðinga (Income from Independent Professional Practice) árið 1945, en Simon Kuznets prófessor við Columbia-háskóla og rannsóknarfélagi við NBER var meðhöfundur hans.1 Verkið var einnig doktorsritgerð Friedmans og hafði hann lokið við verkið árið 1940, en vegna ágreinings innan NBER frestaðist útgáfa verksins fram yfir stríð. Ein ástæða deilna var sú niðurstaða að löggilding lækna takamarkaði aðgang að störfum og skapaði nokkurs konar einokun á þessu starfssviði og gerði því læknum kleift að auka laun sín hlutfallslega á við aðrar stéttir sem ekki voru lögverndaðar. Í verkinu koma fyrir hugmyndir og hugtök sem skiptu síðar miklu máli, fræðilega séð, en það voru hugtökin um varanlegar og skammærar tekjur. Einnig má segja að verkið sé það fyrsta sem útskýrir fjárfestingar í mannauði.
Hugtökin um varanlegar og skammærar tekjur urðu grunnur að hinu áhrifamikla verki Friedmans Kenningin um neyslufallið (A Theory of the Consumption Function) árið 1957. Þjóðhagfræðikenningar kenndar við John Maynard Keynes (1883-1946) voru á þeim tíma ríkjandi en þar var gert ráð fyrir að einstaklingar og heimili aðlagi útgjöld sín til neyslu að tekjum á hverjum tíma. Friedman sýndi hins vegar fram á að fólk ákvarðaði neyslu sína út frá varanlegum tekjum (e. permanent income), sem hann skilgreindi sem þær meðaltekjur sem fólk væntir nokkur ár fram í tímann. Tímabundnar sveiflur í tekjum, eða skammærar tekjur (e. temporary income), hafa þannig ekki áhrif til breytinga á neyslumynstri, aðeins varanlegar tekjur hafa þau áhrif.
Friedman er þó líklega þekktastur innan fræðanna sem upphafsmaður og leiðtogi peningamagnshyggjunnar. Hugmyndir Keynesverja á eftirstríðsárunum voru að peningamálastefna væri næsta gagnslaus við hagstjórn en fjármálastefna hins opinbera skipti öllu máli. Friedman hafnaði þessari skoðun þegar hann „endurreisti“ peningamagnskenninguna, en sú kenning hafði alltaf verið hluti af klassísku hagfræðinni í einhverri mynd og sjálfur hafði Keynes aðhyllst þá kenningu fram á fjórða áratuginn. Friedman kollvarpaði hugmyndum hagfræðinga og setti fram rök og rannsóknir til endurreisnar peningamagnskenningunni — kenningu sem segir að verðlag velti á peningamagnsframboði og peningamagn sé mikilvægasti áhrifavaldur á hagsveiflur.

Sannleikurinn er sá, að heimskreppuna má rekja eins og flest önnur atvinnuleysistímabil til óstjórnar valdsmanna fremur en þess, að markaðsskipulagið sé óstöðugt í eðli sínu. Stjórnarstofnun einni, Bandaríska seðlabankanum, hafði verið falin ábyrgðin á peningamálum. Þessi stofnun fór svo illa með vald sitt á árunum 1930 og 1931, að það, sem hefði ella verið hóflegur samdráttur, varð stórkostleg kreppa.3Bók Friedmans og Schwartz hafði veruleg áhrif á hagfræðina. Hugmyndir Keynes höfðu leitt af sér þá skoðun að við hagstjórn skipti fjármálastjórn ríkisins öllu máli en peningamálastefna seðlabanka engu. Friedman, og aðrir þeir sem fylgdu peningamagnshyggju, höfðu þau áhrif að peningamálastefna varð að aðalatriði og fjármálastefna að aukaatriði hvað hagsveifluna og hagstjórn varðar. Hér er líka rétt að undirstrika þá skoðun Friedmans að efnahagsstefna stjórnvalda ætti að byggja á föstum reglum (e. rules) fremur en að vera valin að vild eða geðþótta (e. discretion) á hverjum tíma. Þessi skoðun hans birtist meðal annars í að seðlabanki ætti að búa við peningamálareglu fremur en peningamálastefnu, þannig að peningamagn myndi aukast í jöfnum vexti fremur en að reynt væri að breyta peningamagni með hliðsjón af gangi hagkerfisins á hverjum tímapunkti. Meginástæða þessarar skoðunar Friedmans byggði á því sem kalla má tímatafir í hagstjórn. Þessar tímatafir snúa að því að tíma tekur að átta sig á hvað er að gerast í hagkerfinu, til dæmis hvort niðursveifla er hafin og af hvaða orsökum hún stafi. Þá eru einnig tafir við að finna út og koma sér saman um hvaða ráðstafana skuli grípa til, svo sem að auka peningamagn eða breyta fjármálastefnu ríkisins. Loks eru síðan tafir af áhrifum efnahagsaðgerðanna sem gripið er til, til dæmis að aukið peningamagn skili sér að fullu út í hagkerfið eða skatta- og útgjaldabreytingar ríkissjóðs komi til framkvæmda. Þessar hagstjórnartafir geta þess vegna valdið miklum vanda við hagstjórn; að efnahagsaðgerðir séu ekki í fullu samræmi við vandann, að þær séu að magni ekki í samræmi við vandann, og að áhrif þeirra skili sér of seint út í hagkerfið, jafnvel eftir að vandinn er horfinn. Hagstjórn með þessum töfum gæti jafnvel gert illt verra, aukið á hagsveiflur í stað þess að jafna þær. Jafnvel þó þekking hagfræðinga hafi aukist frá tímum kreppunnar miklu þá er alltaf fyrir hendi sá möguleiki að hagstjórnarmistök af sama toga geti átt sér stað aftur. Efnahagsstefna sem byggir á föstum reglum, bæði varðandi peningamál og fjármál hins opinbera, er því heppilegri en stefna sem valin er að vild. Slík stefna forðast ekki aðeins hagstjórnartafir heldur skapar hún einnig stöðugleika fyrir væntingar fyrirtækja og einstaklinga við ákvarðanatöku þeirra í hagkerfinu.

- en.wikipedia.org - Milton Friedman. Mynd af Milton Friedman. Sótt 4.8.2011.
- en.wikipedia.org - Milton Friedman. Mynd af Chicago-háskóla. Sótt 4.8.2011.
- Wikimedia Commons. Mynd af fólki í atvinnuleit. Sótt 4.8.2011.
1 Simon Kuznets hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði 1971.
2 Friedman „endurreisti“ ekki aðeins peningamagnskenninguna heldur endurbætti hana einnig. Það gerði hann með því að setja fram kenningu um eftirspurnarhlið peninga, sem tengist einnig kenningu hans um varanlegar tekjur, og með því að rökstyðja og sýna fram á með rannsóknum að eftirspurn peninga væri tiltölulega stöðug (e. stable velocity). Sjá til dæmis grein Friedmans „The Quantity Theory of Money: A Restatement“ sem finna má í Studies in the Quantity Theory of Money, og rit hans The Demand for Money: Some Theoretical and Empirical Results, 1959.
3 Milton Friedman: Frelsi og framtak. Reykjavík: Almenna Bókafélagið og Félag frjálshyggjumanna, 1982, bls. 48.
4 Annar hagfræðingur, Edmund Phelps, sem hlaut Nóbelsverðlaunin árið 2005 og var ekki tengdur peningamagnshyggjunni, kom reyndar einnig fram með gagnrýni á Phillips-ferilinn og taldi að aðeins væri um skammtímafyrirbæri að ræða.
5 Segja má að Robert Lucas, sem hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 1995, hafi rekið seinasta naglann í þá kistu með kenningunni um ræðar vændir (e. rational expectations). Lucas lærði hagfræði við Chicago-háskóla, meðal annars hjá Friedman, en Phelps var einnig áhrifavaldur á kenningu hans. Nálgun Friedmans og Phelps byggði á aðlöguðum væntingum (e. adaptive expectations) fremur en ræðum væntingum Lucasar.