Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Peningamagnshyggja (e. monetarism) er kenning sem rökstyður að peningamagn sé mikilvægasti áhrifavaldur á verðlag og hagsveiflur. Á þennan hátt er peningamagnshyggjan í raun náskyld peningamagnskenningunni sem oft er kennd við klassísku hagfræðina. Peningamagnshyggjan og endurreist peningamagnskenning á seinni hluta 20. aldar eru iðulega tengdar nafni Miltons Friedmans (1912-2006). Á tíma þegar peningamál nutu ekki mikillar athygli hagfræðinga færði hann rök fyrir því að stjórn peningamála væri mikilvægasti áhrifavaldur hagsveiflna. Friedman hélt því einnig fram að verðbólga sé alls staðar og alltaf peningalegt fyrirbæri: Að um peninga gildi eins og aðra vöru, að verðið lækki, ef framboðið eykst að óbreyttri eftirspurn. Verðbólga eða þrálát verðlækkun peninga sé með öðrum orðum undantekningarlaust fólgin í offramboði peninganna, og að markmiðum peningamálastefnu sé best náð með því að stjórna vexti peningamagnsins.
Peningamagnshyggjan og rannsóknir henni tengdar skýra að hluta af hverju Friedman er líklega einn umdeildasti en jafnframt áhrifamesti hagfræðingur á síðari hluta 20. aldar. Hún er einnig ein ástæða þess að hann hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 1976 en í tilkynningu Nóbelsnefndarinnar segir að Friedman hljóti þau fyrir framlag sitt á sviði neyslugreiningar, sögu og kenningum peningamála, og skýringum hans á því hversu flókið er að framkvæma hagstjórn sem skapa á aukinn efnahagstöðugleika og jafna hagsveiflur.
Milton Friedman fæddist í Brooklyn í New York árið 1912, við fábrotnar aðstæður. Hann hlaut BA-gráðu í hagfræði og stærðfræði við Rutgers-háskóla 1932, MA-gráðu í hagfræði við Chicago-háskóla 1933 og doktorsgráðu í hagfræði við Colombia-háskóla 1946. Hann starfaði á námsárum sínum við hagrannsóknir, aðallega tölfræðilegar rannsóknir og þróun aðferða á því sviði. Hann starfaði meðal annars hjá hinu opinbera í Washingtonborg í valdatíð Franklins D. Roosevelt, forseta Bandaríkjanna, og hjá Hagrannsóknarstofnun Bandaríkjanna (National Bureau of Economic Research, skammstafað NBER) við verkefni sem tengdust ríkisvaldinu og hernum á stríðsárunum. Hann tók þátt í að þróa aðferðir til neyslugreiningar og kannana og mælinga á neysluhegðun. Hann var einn höfunda breyttrar skattaframkvæmdar á stríðsárunum, faðir kerfis staðgreiðsluskatta. Friedman varð prófessor í hagfræði við Chicago-háskóla 1946 og var jafnframt rannsóknarfélagi við NBER frá 1937 til 1981.
Segja má að Friedman hafi fyrst vakið á sér athygli sem öflugur fræðimaður með útgáfu Tekjur sjálfstætt starfandi sérfræðinga (Income from Independent Professional Practice) árið 1945, en Simon Kuznets prófessor við Columbia-háskóla og rannsóknarfélagi við NBER var meðhöfundur hans.1 Verkið var einnig doktorsritgerð Friedmans og hafði hann lokið við verkið árið 1940, en vegna ágreinings innan NBER frestaðist útgáfa verksins fram yfir stríð. Ein ástæða deilna var sú niðurstaða að löggilding lækna takamarkaði aðgang að störfum og skapaði nokkurs konar einokun á þessu starfssviði og gerði því læknum kleift að auka laun sín hlutfallslega á við aðrar stéttir sem ekki voru lögverndaðar. Í verkinu koma fyrir hugmyndir og hugtök sem skiptu síðar miklu máli, fræðilega séð, en það voru hugtökin um varanlegar og skammærar tekjur. Einnig má segja að verkið sé það fyrsta sem útskýrir fjárfestingar í mannauði.
Hugtökin um varanlegar og skammærar tekjur urðu grunnur að hinu áhrifamikla verki Friedmans Kenningin um neyslufallið (A Theory of the Consumption Function) árið 1957. Þjóðhagfræðikenningar kenndar við John Maynard Keynes (1883-1946) voru á þeim tíma ríkjandi en þar var gert ráð fyrir að einstaklingar og heimili aðlagi útgjöld sín til neyslu að tekjum á hverjum tíma. Friedman sýndi hins vegar fram á að fólk ákvarðaði neyslu sína út frá varanlegum tekjum (e. permanent income), sem hann skilgreindi sem þær meðaltekjur sem fólk væntir nokkur ár fram í tímann. Tímabundnar sveiflur í tekjum, eða skammærar tekjur (e. temporary income), hafa þannig ekki áhrif til breytinga á neyslumynstri, aðeins varanlegar tekjur hafa þau áhrif.
Friedman er þó líklega þekktastur innan fræðanna sem upphafsmaður og leiðtogi peningamagnshyggjunnar. Hugmyndir Keynesverja á eftirstríðsárunum voru að peningamálastefna væri næsta gagnslaus við hagstjórn en fjármálastefna hins opinbera skipti öllu máli. Friedman hafnaði þessari skoðun þegar hann „endurreisti“ peningamagnskenninguna, en sú kenning hafði alltaf verið hluti af klassísku hagfræðinni í einhverri mynd og sjálfur hafði Keynes aðhyllst þá kenningu fram á fjórða áratuginn. Friedman kollvarpaði hugmyndum hagfræðinga og setti fram rök og rannsóknir til endurreisnar peningamagnskenningunni — kenningu sem segir að verðlag velti á peningamagnsframboði og peningamagn sé mikilvægasti áhrifavaldur á hagsveiflur.
Milton Friedman kenndi um árabil við Chicago-háskóla.
Í Rannsóknum á peningamagnskenningunni (Studies in the Quantity Theory of Money), sem gefin var út árið 1956, hélt Friedman því fram að til lengri tíma séð myndi aukinn vöxtur peningamagns í hagkerfinu ekki leiða af sér aukið framleiðslumagn vöru og þjónustu heldur eingöngu hækka almennt verðlag, það er leiða til verðbólgu.2 Til skemmri tíma séð gæti aukið peningaframboð hins vegar aukið atvinnu og framleiðslu og, á sama hátt, minna framboð peninga leitt til minni umsvifa. Til skemmri tíma væri til staðar nokkurs konar peningaglýja (e. money illusion), en þá er átt við að peningalegar breytingar villi um fyrir fólki. Fyrirtæki sjá verð afurða sinna hækka og fólk á atvinnumarkaði sér launin hækka, en erfitt getur verið að átta sig á hvort um raunhækkanir er að ræða eða eingöngu nafnverðshækkanir. Fólk og fyrirtæki þurfa því tíma til að aðlaga væntingar sínar að verðbreytingum og á þeim skamma tíma getur aukning peningamagns haft áhrif á umfang efnahagsstarfseminnar.
Lausn Friedmans á verðbólguvandanum og skammtímasveiflum í atvinnuleysi og hagvexti var svokölluð framboðsregla peninga. Seðlabankinn á að vera bundinn af reglum sem segja honum að auka peningamagn í takt við aukningu þjóðarframleiðslunnar, í sama hlutfalli og eðlilegur hagvöxtur er talinn vera. Þessi regla ætti að skapa verðstöðugleika og þannig draga úr áhrifum peningamagns á hagsveiflur (gengi gjaldmiðils ætti einnig að vera frjálst og ráðast af markaði). Peningamagnshyggja Friedmans birtist svo í fullri mynd árið 1963 þegar hann og Anna Schwartz gáfu út Saga peningamála í Bandaríkjunum 1867-1960 (Monetary History of the United States, 1867–1960), en þar sýna þau fram á að orsakir kreppunnar miklu megi finna í rangri peningamálastefnu bandaríska seðlabankans. Eða eins og Friedman orðaði það á öðrum stað:
Sannleikurinn er sá, að heimskreppuna má rekja eins og flest önnur atvinnuleysistímabil til óstjórnar valdsmanna fremur en þess, að markaðsskipulagið sé óstöðugt í eðli sínu. Stjórnarstofnun einni, Bandaríska seðlabankanum, hafði verið falin ábyrgðin á peningamálum. Þessi stofnun fór svo illa með vald sitt á árunum 1930 og 1931, að það, sem hefði ella verið hóflegur samdráttur, varð stórkostleg kreppa.3
Bók Friedmans og Schwartz hafði veruleg áhrif á hagfræðina. Hugmyndir Keynes höfðu leitt af sér þá skoðun að við hagstjórn skipti fjármálastjórn ríkisins öllu máli en peningamálastefna seðlabanka engu. Friedman, og aðrir þeir sem fylgdu peningamagnshyggju, höfðu þau áhrif að peningamálastefna varð að aðalatriði og fjármálastefna að aukaatriði hvað hagsveifluna og hagstjórn varðar.
Hér er líka rétt að undirstrika þá skoðun Friedmans að efnahagsstefna stjórnvalda ætti að byggja á föstum reglum (e. rules) fremur en að vera valin að vild eða geðþótta (e. discretion) á hverjum tíma. Þessi skoðun hans birtist meðal annars í að seðlabanki ætti að búa við peningamálareglu fremur en peningamálastefnu, þannig að peningamagn myndi aukast í jöfnum vexti fremur en að reynt væri að breyta peningamagni með hliðsjón af gangi hagkerfisins á hverjum tímapunkti. Meginástæða þessarar skoðunar Friedmans byggði á því sem kalla má tímatafir í hagstjórn. Þessar tímatafir snúa að því að tíma tekur að átta sig á hvað er að gerast í hagkerfinu, til dæmis hvort niðursveifla er hafin og af hvaða orsökum hún stafi. Þá eru einnig tafir við að finna út og koma sér saman um hvaða ráðstafana skuli grípa til, svo sem að auka peningamagn eða breyta fjármálastefnu ríkisins. Loks eru síðan tafir af áhrifum efnahagsaðgerðanna sem gripið er til, til dæmis að aukið peningamagn skili sér að fullu út í hagkerfið eða skatta- og útgjaldabreytingar ríkissjóðs komi til framkvæmda. Þessar hagstjórnartafir geta þess vegna valdið miklum vanda við hagstjórn; að efnahagsaðgerðir séu ekki í fullu samræmi við vandann, að þær séu að magni ekki í samræmi við vandann, og að áhrif þeirra skili sér of seint út í hagkerfið, jafnvel eftir að vandinn er horfinn.
Hagstjórn með þessum töfum gæti jafnvel gert illt verra, aukið á hagsveiflur í stað þess að jafna þær. Jafnvel þó þekking hagfræðinga hafi aukist frá tímum kreppunnar miklu þá er alltaf fyrir hendi sá möguleiki að hagstjórnarmistök af sama toga geti átt sér stað aftur. Efnahagsstefna sem byggir á föstum reglum, bæði varðandi peningamál og fjármál hins opinbera, er því heppilegri en stefna sem valin er að vild. Slík stefna forðast ekki aðeins hagstjórnartafir heldur skapar hún einnig stöðugleika fyrir væntingar fyrirtækja og einstaklinga við ákvarðanatöku þeirra í hagkerfinu.
Milton Friedman taldi að ekki væri samspil á milli atvinnuleysis og verðbólgu líkt og almennt var talið.
Keynesverjar og meginþorri þjóðhagfræðinga voru á þeirri skoðun við upphaf sjöunda áratugs 20. aldar, að við hagstjórnina hefði ríkisvaldið val milli atvinnuleysis og verðbólgu, en þessi skoðun byggði á svokölluðum Phillips-ferli. Með öðrum orðum þá þótti Phillips-ferillinn sýna að atvinnuleysi og verðbólga breytist með gagnstæðum formerkjum, þannig að allar ráðstafanir í þá átt að stöðva verðbólgu skapi hættu á auknu atvinnuleysi og öfugt. Ríkisvaldið gat aukið eftirspurn vöru og þjónustu og dregið úr atvinnuleysi varanlega, en þurfti í staðinn að sætta sig við hærri verðbólgu.
Milton Friedman, í forsetaávarpi sínu á ársþingi bandarískra hagfræðinga (American Economics Association) árið 1967, benti á að þetta væri rangt, ekki væri um neitt slíkt varanlegt eða lengri tíma samspil að ræða. Friedman hafði reyndar bent á þetta áður þegar hann setti fram tilgátu um náttúrlegt atvinnustig (e. natural rate of employment).4 Aukning peningamagns, og verðbólgan í kjölfarið, minnkar atvinnuleysi aðeins tímabundið, rétt meðan fólk er að átta sig á að aðeins er um nafnlaunahækkun að ræða en ekki raunlaunahækkun. Um leið og fólk hefði áttað sig á þessu og aðlagað sínar verðbólguvæntingar færi atvinnuleysi aftur í fyrra horf. Ef ríkisvaldið reyndi að ná niður atvinnuleysi varanlega með auknu peningaframboði, þá myndi það ekki aðeins þýða hærri verðbólgu heldur miklu frekar stöðugt hækkandi verðbólgu. Friedman hélt því fram, að með slíkri stefnu yrði afleiðingin ekki aðeins hærri verðbólga heldur einnig, og samtímis, aukið atvinnuleysi. Þetta var einmitt það sem birtist mönnum á áttunda áratug 20. aldar, verðbólgukreppa (e. stagflation), og sannfærði margan Keynesverjann um að taka mark á gagnrýninni. Skoðanir hagfræðinga á Phillips-ferlinum urðu aldrei samar eftir þetta.5
Reyndar má taka dýpra í árinni; hugmyndir Keynesverja eins og þær höfðu birst á tímum kreppunar miklu og fram á áttunda áratuginn biðu skipbrot. Kenningar og líkön frá þeim tíma sem eru kennd við Keynes (e. new Keynesian models) byggja að minnsta kosti að jafn miklu leyti á hugmyndum og gagnrýni Friedmans og annarra Chicago-hagfræðinga eins og þau byggja á Keynes; jafnvel enn meira.
Friedman settist ekki í helgan stein eftir að hann lauk starfskyldum sínum eftir 30 ára starf við Chicago-háskóla árið 1977, þá 65 ára að aldri. Hann gerðist það ár rannsóknarfélagi við hina virtu Hoover-vísindastofnun við Stanford-háskóla í Kaliforníu og var þar félagi fram til 16. nóvember 2006, er hann lést 94 ára að aldri.
Myndir:
1 Simon Kuznets hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði 1971. 2 Friedman „endurreisti“ ekki aðeins peningamagnskenninguna heldur endurbætti hana einnig. Það gerði hann með því að setja fram kenningu um eftirspurnarhlið peninga, sem tengist einnig kenningu hans um varanlegar tekjur, og með því að rökstyðja og sýna fram á með rannsóknum að eftirspurn peninga væri tiltölulega stöðug (e. stable velocity). Sjá til dæmis grein Friedmans „The Quantity Theory of Money: A Restatement“ sem finna má í Studies in the Quantity Theory of Money, og rit hans The Demand for Money: Some Theoretical and Empirical Results, 1959. 3 Milton Friedman: Frelsi og framtak. Reykjavík: Almenna Bókafélagið og Félag frjálshyggjumanna, 1982, bls. 48. 4 Annar hagfræðingur, Edmund Phelps, sem hlaut Nóbelsverðlaunin árið 2005 og var ekki tengdur peningamagnshyggjunni, kom reyndar einnig fram með gagnrýni á Phillips-ferilinn og taldi að aðeins væri um skammtímafyrirbæri að ræða. 5 Segja má að Robert Lucas, sem hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 1995, hafi rekið seinasta naglann í þá kistu með kenningunni um ræðar vændir (e. rational expectations). Lucas lærði hagfræði við Chicago-háskóla, meðal annars hjá Friedman, en Phelps var einnig áhrifavaldur á kenningu hans. Nálgun Friedmans og Phelps byggði á aðlöguðum væntingum (e. adaptive expectations) fremur en ræðum væntingum Lucasar.
Birgir Þór Runólfsson. „Hver var Milton Friedman og hvert var hans framlag til hagfræðinnar?“ Vísindavefurinn, 5. ágúst 2011, sótt 16. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=60392.
Birgir Þór Runólfsson. (2011, 5. ágúst). Hver var Milton Friedman og hvert var hans framlag til hagfræðinnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=60392
Birgir Þór Runólfsson. „Hver var Milton Friedman og hvert var hans framlag til hagfræðinnar?“ Vísindavefurinn. 5. ágú. 2011. Vefsíða. 16. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=60392>.