Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Joseph A. Schumpeter og hvaða áhrif hafði hann á hagfræðina?

Gylfi Magnússon

Joseph Alois Schumpeter (1883-1950) er einn merkasti hagfræðingur 20. aldar. Hann fæddist í borginni Třešť sem nú er í Tékklandi en tilheyrði þá Austurísk-Ungverska keisaradæminu en foreldrar hans voru Þjóðverjar. Hann nam lögfræði í Vínarháskóla undir leiðsögn Eugen von Böhm-Bawerk og lauk doktorsprófi árið 1906. Hann kenndi við ýmsa háskóla fram að fyrri heimsstyrjöldinni en varð að henni lokinni um stutt skeið fjármálaráðherra Austurríkis. Að því loknu varð hann bankastjóri í nokkur ár. Það endaði illa, bankinn varð gjaldþrota árið 1924 og einnig Schumpeter sjálfur.

Schumpeter sneri sér því aftur að fræðistörfum, nú við háskólann í Bonn. Líkt og svo margir aðrir evrópskir menntamenn flúði hann stjórn nasista á fjórða áratugnum og flutti til Bandaríkjanna, þar sem hann varð prófessor í hagfræði við Harvard-háskóla. Þess má geta að einn nemenda Schumpeters við Harvard var Benjamín H.J. Eiríksson (1910-2000). Meðal annarra nemenda Schumpeters við Harvard má nefna Robert Heilbroner, Hyman Minsky, Alan Greenspan og Robert Solow.

Schumpeter kom víða við í rannsóknum sínum. Hann skrifaði meðal annars um hagsveiflur og sögu hagfræðikenninga. Það rita hans sem vakti einna mesta athygli á sínum tíma nefnist Capitalism, Socialism and Democracy sem kom út árið 1942. Í því kemst hann að þeirri niðurstöðu að fjármagnskerfið (kapitalismi) sé í eðli sínu óstöðugt en færir allt önnur rök fyrir því en Karl Marx hafði áður gert. Ólíkt Marx var Schumpeter hins vegar mikill stuðningsmaður þessa kerfis sem hann taldi feigt. Helsta kost fjármagnskerfisins taldi Schumpeter vera að það ýtti undir nýsköpun. Þetta rit og ýmis önnur verk Schumpeters er að sumu leyti nær stjórnmálafræði en hagfræði.

Þótt enn sé oft vitnað til þessara skrifa Schumpeters þá er hans þó nú oftast minnst fyrir framlag hans til frumkvöðlafræða. Schumpeter fjallaði um frumkvöðla allan sinn feril sem fræðimaður. Í fyrstu lagði hann áherslu á mikilvægi frumkvöðla í að ýta undir hagvöxt og framfarir og bjó þá meðal annars til þýska hugtakið Unternehmergeist sem þýða má sem frumkvöðlaanda. Frumkvöðlaanda þarf til að ryðja nýjungum braut og er hann þannig forsenda hagvaxtar. Síðar á ferlinum lagði Schumpeter einnig nokkra áherslu á hlutverk einkasölu (e. monopoly) í hagþróun. Hann benti meðal annars á að sú mikla hagnaðarvon sem falist getur í einkasölu gæfi frumkvöðlum hvata til að reyna að tryggja sér slíka aðstöðu með því til dæmis að þróa nýjar afurðir eða aðferðir. Að sama skapi reyndu fyrirtæki sem hefðu komist í einkasöluaðstöðu að tryggja sér forskot sitt með framþróun í sífelldu kapphlaupi við hugsanlega keppinauta. Óttinn við að verða úreltur vegna nýsköpunar annarra héldi þeim á tánum.

Athyglisvert er að Schumpeter gerði sér grein fyrir því að nýsköpun felst ekki eingöngu í uppfinningum í hefðbundnum skilningi. Hann taldi ekki síður mikilvægt að þróa nýjar aðferðir við framleiðslu eða dreifingu, nýjar vörur eða markaði eða betri stjórnunarhætti.

Áhersla Schumpeters á einkasölu var nokkuð óvenjuleg á sínum tíma, þegar aðrir hagfræðingar lögðu meira upp úr kostum fullkominnar samkeppni. Schumpeter leit svo á að sífelld nýsköpun og framþróun skipti meira máli en að tryggja harða samkeppni margra smárra fyrirtækja á hverjum tíma.

Sú hugmynd Schumpeters sem oftast er vitnað til snýst einmitt um það hvernig ný fyrirtæki, aðferðir eða vörur ryðja burt því sem fyrir er og ekki stenst samkeppni. Til að lýsa þessu notaði Schumpeter hugtak sem marxistum hafði verið hugleikið á 19. öld, skapandi eyðilegging (e. creative destruction). Schumpeter áttaði sig á því að þegar nýjungar ryðja sér rúms þá ýta þær einnig oft út því sem fyrir er. Brotthvarf úreltra afurða, framleiðslu- eða dreifingaraðferða var því nauðsynlegt til þess að rýma fyrir nýsköpun. Sköpuninni fylgir þannig óhjákvæmilega sífelld eyðilegging. Um leið og ný störf verða til á einum stað hverfa önnur störf annars staðar. Þessi þróun getur gengið mishratt og hagsveiflur og jafnvel kreppur verða eðlilegur og jafnvel nauðsynlegur fylgifiskur hennar. Það var nokkuð djörf hugmynd seint á fjórða áratug 20. aldar, þegar efnahagslíf heimsins var vart byrjað að rétta úr kútnum eftir heimskreppuna.

Skrif Schumpeters um nýsköpun hafa haft mikil áhrif undanfarna áratugi og ná áhrifin langt út fyrir heim fræðanna. Stuðst hefur verið við hugmyndir hans víða, meðal annars við þróun efnahagsáætlunar Evrópusambandsins, sem oftast er kennd við borgina Lissabon (Lisbon Strategy).

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Höfundur

Gylfi Magnússon

prófessor í hagfræði við HÍ

Útgáfudagur

17.2.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Gylfi Magnússon. „Hver var Joseph A. Schumpeter og hvaða áhrif hafði hann á hagfræðina?“ Vísindavefurinn, 17. febrúar 2011, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=58162.

Gylfi Magnússon. (2011, 17. febrúar). Hver var Joseph A. Schumpeter og hvaða áhrif hafði hann á hagfræðina? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58162

Gylfi Magnússon. „Hver var Joseph A. Schumpeter og hvaða áhrif hafði hann á hagfræðina?“ Vísindavefurinn. 17. feb. 2011. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=58162>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Joseph A. Schumpeter og hvaða áhrif hafði hann á hagfræðina?
Joseph Alois Schumpeter (1883-1950) er einn merkasti hagfræðingur 20. aldar. Hann fæddist í borginni Třešť sem nú er í Tékklandi en tilheyrði þá Austurísk-Ungverska keisaradæminu en foreldrar hans voru Þjóðverjar. Hann nam lögfræði í Vínarháskóla undir leiðsögn Eugen von Böhm-Bawerk og lauk doktorsprófi árið 1906. Hann kenndi við ýmsa háskóla fram að fyrri heimsstyrjöldinni en varð að henni lokinni um stutt skeið fjármálaráðherra Austurríkis. Að því loknu varð hann bankastjóri í nokkur ár. Það endaði illa, bankinn varð gjaldþrota árið 1924 og einnig Schumpeter sjálfur.

Schumpeter sneri sér því aftur að fræðistörfum, nú við háskólann í Bonn. Líkt og svo margir aðrir evrópskir menntamenn flúði hann stjórn nasista á fjórða áratugnum og flutti til Bandaríkjanna, þar sem hann varð prófessor í hagfræði við Harvard-háskóla. Þess má geta að einn nemenda Schumpeters við Harvard var Benjamín H.J. Eiríksson (1910-2000). Meðal annarra nemenda Schumpeters við Harvard má nefna Robert Heilbroner, Hyman Minsky, Alan Greenspan og Robert Solow.

Schumpeter kom víða við í rannsóknum sínum. Hann skrifaði meðal annars um hagsveiflur og sögu hagfræðikenninga. Það rita hans sem vakti einna mesta athygli á sínum tíma nefnist Capitalism, Socialism and Democracy sem kom út árið 1942. Í því kemst hann að þeirri niðurstöðu að fjármagnskerfið (kapitalismi) sé í eðli sínu óstöðugt en færir allt önnur rök fyrir því en Karl Marx hafði áður gert. Ólíkt Marx var Schumpeter hins vegar mikill stuðningsmaður þessa kerfis sem hann taldi feigt. Helsta kost fjármagnskerfisins taldi Schumpeter vera að það ýtti undir nýsköpun. Þetta rit og ýmis önnur verk Schumpeters er að sumu leyti nær stjórnmálafræði en hagfræði.

Þótt enn sé oft vitnað til þessara skrifa Schumpeters þá er hans þó nú oftast minnst fyrir framlag hans til frumkvöðlafræða. Schumpeter fjallaði um frumkvöðla allan sinn feril sem fræðimaður. Í fyrstu lagði hann áherslu á mikilvægi frumkvöðla í að ýta undir hagvöxt og framfarir og bjó þá meðal annars til þýska hugtakið Unternehmergeist sem þýða má sem frumkvöðlaanda. Frumkvöðlaanda þarf til að ryðja nýjungum braut og er hann þannig forsenda hagvaxtar. Síðar á ferlinum lagði Schumpeter einnig nokkra áherslu á hlutverk einkasölu (e. monopoly) í hagþróun. Hann benti meðal annars á að sú mikla hagnaðarvon sem falist getur í einkasölu gæfi frumkvöðlum hvata til að reyna að tryggja sér slíka aðstöðu með því til dæmis að þróa nýjar afurðir eða aðferðir. Að sama skapi reyndu fyrirtæki sem hefðu komist í einkasöluaðstöðu að tryggja sér forskot sitt með framþróun í sífelldu kapphlaupi við hugsanlega keppinauta. Óttinn við að verða úreltur vegna nýsköpunar annarra héldi þeim á tánum.

Athyglisvert er að Schumpeter gerði sér grein fyrir því að nýsköpun felst ekki eingöngu í uppfinningum í hefðbundnum skilningi. Hann taldi ekki síður mikilvægt að þróa nýjar aðferðir við framleiðslu eða dreifingu, nýjar vörur eða markaði eða betri stjórnunarhætti.

Áhersla Schumpeters á einkasölu var nokkuð óvenjuleg á sínum tíma, þegar aðrir hagfræðingar lögðu meira upp úr kostum fullkominnar samkeppni. Schumpeter leit svo á að sífelld nýsköpun og framþróun skipti meira máli en að tryggja harða samkeppni margra smárra fyrirtækja á hverjum tíma.

Sú hugmynd Schumpeters sem oftast er vitnað til snýst einmitt um það hvernig ný fyrirtæki, aðferðir eða vörur ryðja burt því sem fyrir er og ekki stenst samkeppni. Til að lýsa þessu notaði Schumpeter hugtak sem marxistum hafði verið hugleikið á 19. öld, skapandi eyðilegging (e. creative destruction). Schumpeter áttaði sig á því að þegar nýjungar ryðja sér rúms þá ýta þær einnig oft út því sem fyrir er. Brotthvarf úreltra afurða, framleiðslu- eða dreifingaraðferða var því nauðsynlegt til þess að rýma fyrir nýsköpun. Sköpuninni fylgir þannig óhjákvæmilega sífelld eyðilegging. Um leið og ný störf verða til á einum stað hverfa önnur störf annars staðar. Þessi þróun getur gengið mishratt og hagsveiflur og jafnvel kreppur verða eðlilegur og jafnvel nauðsynlegur fylgifiskur hennar. Það var nokkuð djörf hugmynd seint á fjórða áratug 20. aldar, þegar efnahagslíf heimsins var vart byrjað að rétta úr kútnum eftir heimskreppuna.

Skrif Schumpeters um nýsköpun hafa haft mikil áhrif undanfarna áratugi og ná áhrifin langt út fyrir heim fræðanna. Stuðst hefur verið við hugmyndir hans víða, meðal annars við þróun efnahagsáætlunar Evrópusambandsins, sem oftast er kennd við borgina Lissabon (Lisbon Strategy).

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:...