Linda Darling-Hammond er nú prófessor í menntavísindum við Stanford-háskóla í Bandaríkjunum. Hún er mikilvirkur rannsakandi, hefur skrifað yfir 300 greinar og fjölda bóka um menntastefnu, framkvæmd hennar, um nám og skólastarf, skipulagsbreytingar og umbótastarf í skólum, kennaramenntun og jafnræði í menntun. Til að auka jafnræði nemenda leggur Darling-Hammond áherslu á að efla kennaramenntun og samstarf við foreldra og það grenndarsamfélag sem skólinn starfar í. Hún leggur áherslu á að vönduð kennaramenntun sé heildstæð og byggi á skýrum hugmyndum um í hverju góð kennsla felst. Út frá þeim hugmyndum skuli skipuleggja kennaramenntun. Öll námskeið þurfa að vera vettvangsmiðuð og sterk áhersla lögð á tengsl kenninga og framkvæmdar. Sagt er að fátt sé eins hagnýtt og góð kenning og að mati hennar er í raun ekkert eins fræðilegt og raunverulegt starf á vettvangi. Hún telur mikilvægt að nýliðar í kennslu vinni undir leiðsögn reyndra kennara sem geta hjálpað þeim að tengja saman kenningu og starf.
Linda Darling-Hammond á sæti í ritstjórnum fjölmargra tímarita, hefur verið forseti bandarísku menntarannsóknasamtakanna og tekur virkan þátt í ráðum og nefndum um menntamál. Hún var um árabil framkvæmdastjóri sérfræðinganefndar, en vinna nefndarinnar setti gildi góðrar kennaramenntunar og gæðakennslu í sviðsljósið og hafði afgerandi áhrif á skólastarf í fjölmörgum fylkjum Bandaríkjanna. Hún var Barack Obama Bandaríkjaforseta til ráðgjafar um menntamál í kosningabaráttu hans um forsetaembættið. Hún hefur þegar hlotið heiðursdoktorsnafnbót við fjölda háskóla og fengið margvíslegar viðurkenningar aðrar. Tímaritið Education Weak hefur lýst því yfir að Linda Darling-Hammond sé einn af tíu áhrifamestu menntafrömuðum síðustu áratuga.

Í nýjustu bók sinni The Flat World and Education: How the America´s Committment to Equality will Determine our Future leggur Darling-Hammond áherslu á að Bandaríkin muni ekki halda sínum hlut í markaðskerfi heimsins nema fé til menntamála sé markvisst nýtt til að auka jöfnuð, ekki síst með því að styrkja fjárhagstöðu þeirra fylkja sem standa höllum fæti og bæta hlut barna frá efnalitlum heimilum. Í bókinni leggur hún áherslu á hve hratt heimurinn breytist og hvernig kennsla og skólastarf almennt skuli taka mið af þessum breytingum. Hún telur að endurskipuleggja þurfi skólastarf með það að markmiði að gera öll samskipti persónulegri og leggja áherslu á sterk tengsl milli nemenda, starfsmanna og foreldra. Hún fjallar um fjölmarga en ólíka þætti menntamála, allt frá stefnumálum almennt til sérhæfðrar umræðu um nám og kennslu og leggur ávallt rannsóknir til grundvallar ályktunum sínum. Á veraldarvefnum má finna margvíslegt efni eftir Lindu Darling- Hammond og heimasíða hennar er góður tengiliður, sjá hér. Myndir:
- Mynd af Darling-Hammond: Stanford University School of Education. Sótt 31. 8. 2011.
- Mynd úr skólastarfi: The left side of the Gorge. Sótt 31. 8. 2011.