Sólin Sólin Rís 08:54 • sest 18:29 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:18 • Sest 09:37 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:41 • Síðdegis: 19:01 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:33 • Síðdegis: 12:58 í Reykjavík

Er femínismi það sama og kvenfrelsi?

Guðný Gústafsdóttir

Hugtökin femínismi og kvenfrelsi hafa frá upphafi kvennahreyfingarinnar verið tengd hvort öðru. Femínismi er hugsjón um það samfélagslega réttlæti sem felst í jafnrétti kynjanna. Krafan um kvenfrelsi hefur gjarnan verið miðuð við það félagslega frelsi sem karlar hafa yfir að ráða. Hugtökin eru þannig bæði háð því sjónarhorni og félagslega samhengi sem miðað er við. Það er hins vegar engin ein tæmandi skilgreining á femínisma eða því kvenfrelsi sem í honum felst.

Femínismi getur verið bæði fræðilegur og aðgerðastefna. Femínísk fræði rekja uppruna sinn til kvennabaráttunnar þar sem sameiginleg reynsla kvenna var sett í orð sem síðan urðu að þeim hugtökum sem mótuðu baráttumál kvenna og fræði femínista. Fræðilegur femínismi og aðgerðastefna hafa því frá upphafi haldist í hendur með það að markmiði að greina og gagnrýna kynjaða slagsíðu og misrétti á öllum sviðum samfélagsins. Takmarkið er að koma á jafnrétti.

Femínisminn er í stöðugri þróun í takt við félagslegar áherslur, strauma og stefnur samfélagsins. Innan femínisma rúmast ólík sjónarhorn sem eiga sér sömu rætur og eru snertifletir þeirra margir. Sjónarhornin eru ekki fullmótuð og endanleg og er fyrst og fremst litið á þau sem jarðveg fyrir hugmyndir. Tvö sjónarhorn eru þó ráðandi. Femínistar líta almennt svo á að kyn og kyngervi séu undirstöðubreytur félagslegs misréttis og þeir vefengja einnig ríkjandi valdatengsl.

Konur berjast fyrir kosningarétti í New York árið 1915.

Þekkingarsköpun og baráttuaðferðir femínisma eru í stöðugri þróun. Þar má til dæmis finna marxískan, svartan og póstmódernískan femínisma. Póstmódernískir femínistar hafa meðal annars lagt áherslu á afbyggingu valdsins en jafnframt sérstöðu hverrar manneskju á meðan marxískir femínistar líta svo á að samstaða hópa sé lykilatriði í baráttunni gegn undirokun. Þau sem aðhyllast sjónarhorn svarts femínisma beina athyglinni að áhrifum þess hvernig kyn fléttast saman við aðrar breytur líkt og kynþátt, þjóðerni og stétt. Svartur femínismi telur þessa samþættingu mismunarbreytanna marka félagslega stöðu og möguleika manneskju í valdamengi samfélaga.

Femínísk aðgerðastefna hefur snúist um aukin réttindi kvenna á einkasviðinu og hinum opinbera vettvangi. Fyrstu femínistarnir á Vesturlöndum á miðri nítjándu öld börðust fyrir auknu aðgengi kvenna að hinu opinbera sviði í formi borgaralegra réttinda. Kosningaréttur og menntun kvenna var í fyrirrúmi. Þessi fyrsta bylgja skiptist í borgaralegan og frjálslyndan femínisma. Krafan um aukin réttindi kvenna á opinberum vettvangi fól í sér kröfu um aukið sjálfstæði kvenna og frelsi til athafna til jafns við karla. Ekki var greint á milli kvenréttinda- og kvenfrelsisstefnu í þessum fyrstu skrefum femínismans.

Kápa bókarinnar Á rauðum sokkum. Á myndinni sést stytta af Lýsiströtu í kröfugöngu 1. maí 1970.

Sjöundi áratugur tuttugustu aldar einkenndist af pólitísku umróti og ólgu sem kristallaðist í róttækum hreyfingum. Stúdentauppreisnin fór sem eldur í sinu frá Evrópu til Bandaríkjanna og andóf gegn ríkjandi þjóðskipulagi, valdníðslu og almennu misrétti varð háværara með hverju ári. Önnur bylgja femínista varð til í þessu andrúmslofti. Hún tók við af hinni fyrri með því að beita sér áfram fyrir jöfnum rétti og tækifærum kvenna og karla í hinu opinbera rými svo sem launajöfnuði, atvinnutækifærum, menntun og dagvistun barna. Um leið krafðist önnur bylgjan gagngerra breytinga á einkasviðinu sem fólst helst í uppstokkun kjarnafjölskyldunnar og ráðstöfunarrétti kvenna yfir eigin líkama. Réttur til getnaðarvarna og fóstureyðinga spilaði þar lykilhlutverk.

Þriðja bylgja femínista hófst á tíunda áratug tuttugustu aldar og má gróflega skipta henni í tvær meginstefnur. Annars vegar róttækan femínisma sem heldur áfram þar sem frá var horfið og hins vegar það sem stundum er kallaður frjálshyggjufemínismi. Róttækir femínistar leggja áherslu á að jafnréttissjónarmið séu höfð til hliðsjónar við ákvarðanatökur og stefnumótun á öllum sviðum samfélagsins. Þau telja að árangur fyrstu og annarar bylgjunnar hafi skilað sér í aukinni menntun og atvinnuþátttöku kvenna en þykir ljóst að kynjað misrétti sé kerfisbundið og þarfnist því markvissrar upprætingar. Frjálshyggjufemínistar telja hins vegar að í grundvallaratriðum hafi jafnrétti kynjanna verið náð og að lokahnykkurinn skili sér með framtaki stakra kvenna.

Stefnurnar tvær greinir á í afstöðu sinni til áðurnefnds kynfrelsis. Róttækir femínistar telja til að mynda að klám og vændi hefti kynfrelsi kvenna á meðan frjálshyggjufemínistar telja að konur eigi að vera frjálsar til þess að velja hvort þær taki þátt í klámi og vændi. Þessi ágreiningur kom berlega í ljós við gerð Palermó-sáttmálans á Ítalíu árið 2000. Þar tókust á tvö sjónarhorn þeirra sem skilgreindu vændi almennt sem kúgun og brot á mannréttindum kvenna og þeirra sem skilgreindu og studdu vændi sem gilda og lögmæta atvinnu. Frjálshyggjufemínistar vísa til valfrelsis einstaklingsins til þess að marka sín örlög sjálfur. Þeir kjósa því að hefja einstaklinginn upp yfir kerfið sem róttækir femínistar líta á sem margþætta fyrirstöðu, sem skilyrði og hefti raunverulegt frelsi fólks.

Heimildir:Myndir:

Höfundur

Guðný Gústafsdóttir

doktorsnemi í kynjafræði

Útgáfudagur

11.10.2012

Spyrjandi

Jóhanna María Þorvaldsdóttir

Tilvísun

Guðný Gústafsdóttir. „Er femínismi það sama og kvenfrelsi? “ Vísindavefurinn, 11. október 2012. Sótt 24. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=60798.

Guðný Gústafsdóttir. (2012, 11. október). Er femínismi það sama og kvenfrelsi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=60798

Guðný Gústafsdóttir. „Er femínismi það sama og kvenfrelsi? “ Vísindavefurinn. 11. okt. 2012. Vefsíða. 24. feb. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=60798>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er femínismi það sama og kvenfrelsi?
Hugtökin femínismi og kvenfrelsi hafa frá upphafi kvennahreyfingarinnar verið tengd hvort öðru. Femínismi er hugsjón um það samfélagslega réttlæti sem felst í jafnrétti kynjanna. Krafan um kvenfrelsi hefur gjarnan verið miðuð við það félagslega frelsi sem karlar hafa yfir að ráða. Hugtökin eru þannig bæði háð því sjónarhorni og félagslega samhengi sem miðað er við. Það er hins vegar engin ein tæmandi skilgreining á femínisma eða því kvenfrelsi sem í honum felst.

Femínismi getur verið bæði fræðilegur og aðgerðastefna. Femínísk fræði rekja uppruna sinn til kvennabaráttunnar þar sem sameiginleg reynsla kvenna var sett í orð sem síðan urðu að þeim hugtökum sem mótuðu baráttumál kvenna og fræði femínista. Fræðilegur femínismi og aðgerðastefna hafa því frá upphafi haldist í hendur með það að markmiði að greina og gagnrýna kynjaða slagsíðu og misrétti á öllum sviðum samfélagsins. Takmarkið er að koma á jafnrétti.

Femínisminn er í stöðugri þróun í takt við félagslegar áherslur, strauma og stefnur samfélagsins. Innan femínisma rúmast ólík sjónarhorn sem eiga sér sömu rætur og eru snertifletir þeirra margir. Sjónarhornin eru ekki fullmótuð og endanleg og er fyrst og fremst litið á þau sem jarðveg fyrir hugmyndir. Tvö sjónarhorn eru þó ráðandi. Femínistar líta almennt svo á að kyn og kyngervi séu undirstöðubreytur félagslegs misréttis og þeir vefengja einnig ríkjandi valdatengsl.

Konur berjast fyrir kosningarétti í New York árið 1915.

Þekkingarsköpun og baráttuaðferðir femínisma eru í stöðugri þróun. Þar má til dæmis finna marxískan, svartan og póstmódernískan femínisma. Póstmódernískir femínistar hafa meðal annars lagt áherslu á afbyggingu valdsins en jafnframt sérstöðu hverrar manneskju á meðan marxískir femínistar líta svo á að samstaða hópa sé lykilatriði í baráttunni gegn undirokun. Þau sem aðhyllast sjónarhorn svarts femínisma beina athyglinni að áhrifum þess hvernig kyn fléttast saman við aðrar breytur líkt og kynþátt, þjóðerni og stétt. Svartur femínismi telur þessa samþættingu mismunarbreytanna marka félagslega stöðu og möguleika manneskju í valdamengi samfélaga.

Femínísk aðgerðastefna hefur snúist um aukin réttindi kvenna á einkasviðinu og hinum opinbera vettvangi. Fyrstu femínistarnir á Vesturlöndum á miðri nítjándu öld börðust fyrir auknu aðgengi kvenna að hinu opinbera sviði í formi borgaralegra réttinda. Kosningaréttur og menntun kvenna var í fyrirrúmi. Þessi fyrsta bylgja skiptist í borgaralegan og frjálslyndan femínisma. Krafan um aukin réttindi kvenna á opinberum vettvangi fól í sér kröfu um aukið sjálfstæði kvenna og frelsi til athafna til jafns við karla. Ekki var greint á milli kvenréttinda- og kvenfrelsisstefnu í þessum fyrstu skrefum femínismans.

Kápa bókarinnar Á rauðum sokkum. Á myndinni sést stytta af Lýsiströtu í kröfugöngu 1. maí 1970.

Sjöundi áratugur tuttugustu aldar einkenndist af pólitísku umróti og ólgu sem kristallaðist í róttækum hreyfingum. Stúdentauppreisnin fór sem eldur í sinu frá Evrópu til Bandaríkjanna og andóf gegn ríkjandi þjóðskipulagi, valdníðslu og almennu misrétti varð háværara með hverju ári. Önnur bylgja femínista varð til í þessu andrúmslofti. Hún tók við af hinni fyrri með því að beita sér áfram fyrir jöfnum rétti og tækifærum kvenna og karla í hinu opinbera rými svo sem launajöfnuði, atvinnutækifærum, menntun og dagvistun barna. Um leið krafðist önnur bylgjan gagngerra breytinga á einkasviðinu sem fólst helst í uppstokkun kjarnafjölskyldunnar og ráðstöfunarrétti kvenna yfir eigin líkama. Réttur til getnaðarvarna og fóstureyðinga spilaði þar lykilhlutverk.

Þriðja bylgja femínista hófst á tíunda áratug tuttugustu aldar og má gróflega skipta henni í tvær meginstefnur. Annars vegar róttækan femínisma sem heldur áfram þar sem frá var horfið og hins vegar það sem stundum er kallaður frjálshyggjufemínismi. Róttækir femínistar leggja áherslu á að jafnréttissjónarmið séu höfð til hliðsjónar við ákvarðanatökur og stefnumótun á öllum sviðum samfélagsins. Þau telja að árangur fyrstu og annarar bylgjunnar hafi skilað sér í aukinni menntun og atvinnuþátttöku kvenna en þykir ljóst að kynjað misrétti sé kerfisbundið og þarfnist því markvissrar upprætingar. Frjálshyggjufemínistar telja hins vegar að í grundvallaratriðum hafi jafnrétti kynjanna verið náð og að lokahnykkurinn skili sér með framtaki stakra kvenna.

Stefnurnar tvær greinir á í afstöðu sinni til áðurnefnds kynfrelsis. Róttækir femínistar telja til að mynda að klám og vændi hefti kynfrelsi kvenna á meðan frjálshyggjufemínistar telja að konur eigi að vera frjálsar til þess að velja hvort þær taki þátt í klámi og vændi. Þessi ágreiningur kom berlega í ljós við gerð Palermó-sáttmálans á Ítalíu árið 2000. Þar tókust á tvö sjónarhorn þeirra sem skilgreindu vændi almennt sem kúgun og brot á mannréttindum kvenna og þeirra sem skilgreindu og studdu vændi sem gilda og lögmæta atvinnu. Frjálshyggjufemínistar vísa til valfrelsis einstaklingsins til þess að marka sín örlög sjálfur. Þeir kjósa því að hefja einstaklinginn upp yfir kerfið sem róttækir femínistar líta á sem margþætta fyrirstöðu, sem skilyrði og hefti raunverulegt frelsi fólks.

Heimildir:Myndir: