Joseph Goebbels (1897-1945) var einn nánasti samstarfsmaður Adolfs Hitlers á tímum þriðja ríkisins. Goebbels óx úr grasi ásamt fjórum systkinum við frekar kröpp kjör. Honum var þó gert kleift að ganga menntaveginn og að loknu stúdentsprófi árið 1917 lagði hann stund á heimspeki, sögu, þýsku og fornfræði við ýmsa þýska háskóla og lauk doktorsprófi frá háskólanum í Bonn árið 1921. Í fyrri heimsstyrjöld (1914-1918) hafði hann raunar boðið sig fram til herþjónustu en var hafnað sökum meinsemdar á fæti.
Goebbels fékkst talsvert við ritstörf að loknu háskólanámi og reyndi meðal annars fyrir sér í blaðamennsku, en hafði ekki árangur sem erfiði. Formleg tengsl hans við nasismann má rekja til ársins 1924 þegar hann stofnaði þjóðernissósíalísk samtök í borginni Mönchengladbach. Athygli vekur að á tiltölulega skömmum tíma komst hann til metorða innan nasistaflokksins (Nationalsozialistische Deutsche Arbeiterpartei) á svæðinu. Sumir segja að það sé jafnvel tilviljun að hann hafi gengið nasismanum á hönd. Til marks um það er til dæmis að leiðbeinandi hans við doktorsritgerðina var gyðingur og þeir kennarar sem hann hélt mest upp á í menntaskóla voru af gyðingaættum. Einnig má geta þess að í nokkur ár var hann í tygjum við stúlku sem var að hálfu gyðingur en því sambandi lauk ekki fyrr en 1926. Rétt er þó að hafa hugfast að Goebbels var frá upphafi bæði ákafur þjóðernissinni og andsnúinn kapítalisma. Hann tilheyrði því vinstri armi nasistaflokksins og átti meðal annars í nánu samstarfi við bræðurna Georg og Otto Strasser. Strasser-bræður voru mikilvirkir leiðtogar vinstri armsins og gagnrýndu Hitler til að mynda fyrir að vilja auka miðstýringu innan flokksins.
Á flokksþingi snemma árs 1926 sneri Goebbels skyndilega baki við vinstri vængnum og gerðist handgenginn Hitler. Ef til vill er þetta til merkis um að Goebbels hafi verið tækifærissinni. Allavega var aukinna metorða hans innan flokksins ekki langt að bíða og gerði Hitler hann til að mynda að svæðisstjóra (Gauleiter) flokksins í Berlín og Brandenburg síðar þetta sama ár. Flokkurinn var þá fremur veikburða á þessu svæði sem sést best á því að félagsmenn í höfuðborginni Berlín voru aðeins um 500. Í nýju starfi stóð Goebbels fyrir hatrömmum áróðri gegn gyðingum og vinstrisinnuðum stjórnmálamönnum, meðal annars í blaðinu Árásinni (Der Angriff) sem hann stofnaði árið 1927. Einnig stjórnaði hann stormsveitum (eða SA-sveitum) nasista sem hann beitti gegn jafnaðarmönnum og kommúnistum. Goebbels var kjörinn á þýska þingið (Reichstag) 1928 og tveimur árum síðar var honum falið að stjórna áróðursmaskínu flokksins á landsvísu (Reichspropagandaleiter), en aðalverkefni hans fólst í að skipuleggja áróðurinn fyrir þingkosningarnar 1930 og 1932.
Frá sjónarhóli nasista stóð Goebbels sig einstaklega vel sem áróðursmeistari: Nasistaflokkurinn varð stærsti flokkurinn á þingi í kosningunum 1932 þegar þeir hlutu rétt rúman þriðjung þingsæta. Það dugði þeim til að komast í ríkisstjórn með íhaldsmönnum snemma árs 1933. Hitler varð kanslari Þýskalands og nasistar réðu nánast því sem þeir ráða vildu. Vegur Goebbels hélt áfram að vaxa og í mars 1933 gerði Hitler hann að upplýsinga- og áróðursmálaráðherra (Reichsminister fuer Volksaufklaerung und Propaganda) í ríkisstjórn sinni. Goebbels var einnig gerður að yfirmanni menningarmála (Reichskulturkammer) þar sem hann lagði einkum áherslu á útvarp og framleiðslu kvikmynda, meðal annars andgyðinglegra hatursmynda.

Hér sést Joseph Goebbels hvetja Þjóðverja til að sniðganga fyrirtæki í eigu gyðinga.
- Hvað er fasismi? eftir Hrafnkel Tjörva Stefánsson.
- Hver er saga nasistamerkisins eða hakakrossins? eftir Sverri Jakobsson.
- Hvernig töpuðu Þjóðverjar seinni heimsstyrjöldinni? eftir Skúla Sæland.
- Hvers vegna hafa Gyðingar verið ofsóttir í gegnum aldirnar? eftir Gísla Gunnarsson.
- Skilar stjórnmálaáróður árangri og hvers vegna þá? eftir Anton Örn Karlsson.
- Image:Josef Goebbels.jpg. Wikipedia: The Free Encyclopedia. Sótt 10.8.2006.
- Image:Joseph Goebbels in Berlin Lustgarten.jpg. Wikimedia Commons. Sótt 10.8.2006.