Sólin Sólin Rís 10:59 • sest 15:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:50 • Sest 21:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:33 • Síðdegis: 22:04 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:10 • Síðdegis: 16:02 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:59 • sest 15:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:50 • Sest 21:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:33 • Síðdegis: 22:04 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:10 • Síðdegis: 16:02 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað eru fordómar?

Nanna Hlín Halldórsdóttir

Orðið fordómar er nokkuð gagnsætt orð í íslensku. Fordómar eru þeir dómar sem við fellum án þess að hugsunin fái að gerjast eða þegar aðeins ein hlið máls hefur verið skoðuð. Fordómar eru oft skilgreindir sem andstæða gagnrýninnar hugsunar. Oft er talað um fordóma samhliða mismunun en bann við hinu síðarnefnda er gjarnan stjórnarskrárbundið og er þá tengt ákveðnum flokkum á borð við kyn, kynþátt, þjóðerni(sbrot), stétt, trúarbrögð, aldur, fötlun og tungumál. En er hægt að skilgrein viðfang fordóma fyrir fullt og allt? Er hægt að segja: burtu með fordóma? Er þá átt við tiltekna flokka fordóma?

Fulltrúar Íslands í Evróvisjón 2014 syngja um fordóma og hvetja fólk til að virða margbreytileika.

Til þess að svara þessum spurningum er mikilvægt að velta fyrir sér hvernig við öðlumst skilning á heiminum. Tungumálið er okkar helsta tæki til að henda reiður á öllum þeim upplýsingum sem berast okkur. Flæði upplýsinga er hins vegar svo mikið að við þurfum að ýta stærstum hluta upplýsinganna frá okkur. Það sama á við um minningar okkar og skynjun, við geymum það sem okkur þykir hjálplegt í meðvitund en hitt fer einhverja aðra leið.

Í raun mætti segja að tungumál sé flokkunartæki. Við notum til dæmis orðið lauf yfir afar margvísleg grænleit form sem oftast vaxa á trjám. Samt er hvert lauf einstakt. Þetta var þýska heimspekingnum Friedrich Nietzsche einmitt hugleikið í ritgerðinni „Um sannleika og lygi í ósiðrænum skilningi“ sem birst hefur á íslensku í tímaritinu Skírni. Hvernig getum við notað eitt svona einfalt orð til þess að lýsa laufi sem er einstakt að lögun og gerð? Það er aldrei nákvæmlega eins og annað lauf á sama tré, hvað þá eins og lauf sem vex á öðru tré. En við höfum einfaldlega ekki tíma til að hugsa alltaf svona og velta fyrir okkur sérstæði hvers laufs. Orð á borð við lauf er því hentugt til að fanga veruleikann fyrir okkur. Að hugsa er að bera kennsl á hlut sem tilheyrir flokki en eins og í dæminu um laufið þá nær flokkurinn aldrei að fanga hina einstöku eiginleika hvers laufs.

Fordómar gagngvart ólíkum gerðum laufblaða skipta minna máli heldur en fordómar gagnvart ólíkum hópum fólks.

Hins vegar þá skipta fordómar gagnvart ólíkum gerðum laufa minna máli heldur en fordómar gagnvart ólíkum hópum fólks. Þýski heimspekingurinn Hans-Georg Gadamer (1900-2002) benti á í bók sinni Sannleikur og aðferð að fordómar þurfi ekki endilega að vera neikvæðir, þeir eru líka gagnleg leið til þess að henda skjótt reiður á skynjun og upplýsingum og sýna gjarnan hvar við erum staðsett í heiminum. Ef ég sé lítið barn bíða einsamalt við gangbrautarljós eftir græna kallinum þá bíð ég með barninu þó enginn bíll sé í augsýn en hefði annars kannski gengið yfir. Ástæðan er sú að ég er þegar búin að flokka þessa manneskju sem barn sem hefur ekki fullmótuð skilningavit til þess að gera sér grein fyrir hvenær óhætt er að ganga yfir götu. Barnið þarf því að bíða eftir græna kallinum og ég bíð með því til að hvetja það ekki til þess að ganga án leiðsagnar umferðaljósanna.

Þegar fordómum fylgir neikvætt gildismat þarf hins vegar að setja spurningamerki við þá. Ef okkur finnst tölvur frábærar og höfum reynslu af því að „gamalt" fólk kunni ekki að nota þær, þá leiðir jafnvel af því að okkur finnist ungt fólk ósjálfrátt betra en gamalt.

Fordómar gagnvart fólki varpa ljósi á tengsl okkar við aðra. Þegar aðrir virðast betri en við á allan hátt getur okkur liðið illa með okkur sjálf. Til þess að skapa okkar eigin sjálfsmynd berum við okkur gjarnan saman við aðra og oftar en ekki líður okkur betur ef við fáum viðurkenningu frá öðrum, til dæmis í formi hróss. Það fylgir því oft einnig vellíðunartilfinning að tilheyra hópi, sérstaklega ef sá hópur er nýbúinn að vinna leik í handbolta, þá kannski gleðjumst við yfir því að vera „betri“ en hinn hópurinn og lítum jafnvel niður á hann. Þannig sköpum við gjarnan okkar eigin sjálfsmynd út frá samanburði við aðra; út frá því að við séum betri eða verri en aðrir.

Það er ekki óalgengt að hugsa svona; að flokka fólk á þennan hátt en þessi gerð flokkunnar mætti kalla stigveldishugsun. Vandamálið við þessa hugsun er að það er aðeins ein eða einn sem getur trónað á toppnum. Stigveldishugsun má leysa af hólmi með margbreytileikahugsun. Í staðinn fyrir að láta alltaf jákvætt eða neikvætt gildismat fylgja öllum eiginleikum þá gengur margbreytileikahugsun út á að þótt fólk sé ólíkt þá þýði það ekki að einhver sé endilega betri eða verri en önnur.

Það er kannski erfitt að segja: burtu með fordóma því við fellum eflaust for-dóma á hverri klukkustund til þess að auðvelda hugsun okkar í daglegu lífi. En það er hins vegar vel hægt að reyna að verða meðvituð/meðvitaður um neikvæða fordóma gagnvart fólki, dýrum og vistkerfum og minnka samanburðar- eða stigveldishugsun. Það er líka hægt að losa sig að miklu leyti við ákveðna flokka fordóma eins og flokk líkamsgerðar (grannur/feitur). En sífellt spretta upp nýir hópar af fólki þar sem bæði við og heimurinn erum á sífelldri hreyfingu. Þess vegna er hollt að velta því stöðugt fyrir sér hvort við búum yfir neikvæðum fordómum þegar við hittum eitthvað nýtt og framandi fyrir. Því fordómar munu eflaust aldrei alveg hverfa.

Myndir:

Höfundur

Nanna Hlín Halldórsdóttir

doktor í heimspeki

Útgáfudagur

9.5.2014

Spyrjandi

Kristinn Ingólfsson

Tilvísun

Nanna Hlín Halldórsdóttir. „Hvað eru fordómar?“ Vísindavefurinn, 9. maí 2014, sótt 6. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=61524.

Nanna Hlín Halldórsdóttir. (2014, 9. maí). Hvað eru fordómar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=61524

Nanna Hlín Halldórsdóttir. „Hvað eru fordómar?“ Vísindavefurinn. 9. maí. 2014. Vefsíða. 6. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=61524>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað eru fordómar?
Orðið fordómar er nokkuð gagnsætt orð í íslensku. Fordómar eru þeir dómar sem við fellum án þess að hugsunin fái að gerjast eða þegar aðeins ein hlið máls hefur verið skoðuð. Fordómar eru oft skilgreindir sem andstæða gagnrýninnar hugsunar. Oft er talað um fordóma samhliða mismunun en bann við hinu síðarnefnda er gjarnan stjórnarskrárbundið og er þá tengt ákveðnum flokkum á borð við kyn, kynþátt, þjóðerni(sbrot), stétt, trúarbrögð, aldur, fötlun og tungumál. En er hægt að skilgrein viðfang fordóma fyrir fullt og allt? Er hægt að segja: burtu með fordóma? Er þá átt við tiltekna flokka fordóma?

Fulltrúar Íslands í Evróvisjón 2014 syngja um fordóma og hvetja fólk til að virða margbreytileika.

Til þess að svara þessum spurningum er mikilvægt að velta fyrir sér hvernig við öðlumst skilning á heiminum. Tungumálið er okkar helsta tæki til að henda reiður á öllum þeim upplýsingum sem berast okkur. Flæði upplýsinga er hins vegar svo mikið að við þurfum að ýta stærstum hluta upplýsinganna frá okkur. Það sama á við um minningar okkar og skynjun, við geymum það sem okkur þykir hjálplegt í meðvitund en hitt fer einhverja aðra leið.

Í raun mætti segja að tungumál sé flokkunartæki. Við notum til dæmis orðið lauf yfir afar margvísleg grænleit form sem oftast vaxa á trjám. Samt er hvert lauf einstakt. Þetta var þýska heimspekingnum Friedrich Nietzsche einmitt hugleikið í ritgerðinni „Um sannleika og lygi í ósiðrænum skilningi“ sem birst hefur á íslensku í tímaritinu Skírni. Hvernig getum við notað eitt svona einfalt orð til þess að lýsa laufi sem er einstakt að lögun og gerð? Það er aldrei nákvæmlega eins og annað lauf á sama tré, hvað þá eins og lauf sem vex á öðru tré. En við höfum einfaldlega ekki tíma til að hugsa alltaf svona og velta fyrir okkur sérstæði hvers laufs. Orð á borð við lauf er því hentugt til að fanga veruleikann fyrir okkur. Að hugsa er að bera kennsl á hlut sem tilheyrir flokki en eins og í dæminu um laufið þá nær flokkurinn aldrei að fanga hina einstöku eiginleika hvers laufs.

Fordómar gagngvart ólíkum gerðum laufblaða skipta minna máli heldur en fordómar gagnvart ólíkum hópum fólks.

Hins vegar þá skipta fordómar gagnvart ólíkum gerðum laufa minna máli heldur en fordómar gagnvart ólíkum hópum fólks. Þýski heimspekingurinn Hans-Georg Gadamer (1900-2002) benti á í bók sinni Sannleikur og aðferð að fordómar þurfi ekki endilega að vera neikvæðir, þeir eru líka gagnleg leið til þess að henda skjótt reiður á skynjun og upplýsingum og sýna gjarnan hvar við erum staðsett í heiminum. Ef ég sé lítið barn bíða einsamalt við gangbrautarljós eftir græna kallinum þá bíð ég með barninu þó enginn bíll sé í augsýn en hefði annars kannski gengið yfir. Ástæðan er sú að ég er þegar búin að flokka þessa manneskju sem barn sem hefur ekki fullmótuð skilningavit til þess að gera sér grein fyrir hvenær óhætt er að ganga yfir götu. Barnið þarf því að bíða eftir græna kallinum og ég bíð með því til að hvetja það ekki til þess að ganga án leiðsagnar umferðaljósanna.

Þegar fordómum fylgir neikvætt gildismat þarf hins vegar að setja spurningamerki við þá. Ef okkur finnst tölvur frábærar og höfum reynslu af því að „gamalt" fólk kunni ekki að nota þær, þá leiðir jafnvel af því að okkur finnist ungt fólk ósjálfrátt betra en gamalt.

Fordómar gagnvart fólki varpa ljósi á tengsl okkar við aðra. Þegar aðrir virðast betri en við á allan hátt getur okkur liðið illa með okkur sjálf. Til þess að skapa okkar eigin sjálfsmynd berum við okkur gjarnan saman við aðra og oftar en ekki líður okkur betur ef við fáum viðurkenningu frá öðrum, til dæmis í formi hróss. Það fylgir því oft einnig vellíðunartilfinning að tilheyra hópi, sérstaklega ef sá hópur er nýbúinn að vinna leik í handbolta, þá kannski gleðjumst við yfir því að vera „betri“ en hinn hópurinn og lítum jafnvel niður á hann. Þannig sköpum við gjarnan okkar eigin sjálfsmynd út frá samanburði við aðra; út frá því að við séum betri eða verri en aðrir.

Það er ekki óalgengt að hugsa svona; að flokka fólk á þennan hátt en þessi gerð flokkunnar mætti kalla stigveldishugsun. Vandamálið við þessa hugsun er að það er aðeins ein eða einn sem getur trónað á toppnum. Stigveldishugsun má leysa af hólmi með margbreytileikahugsun. Í staðinn fyrir að láta alltaf jákvætt eða neikvætt gildismat fylgja öllum eiginleikum þá gengur margbreytileikahugsun út á að þótt fólk sé ólíkt þá þýði það ekki að einhver sé endilega betri eða verri en önnur.

Það er kannski erfitt að segja: burtu með fordóma því við fellum eflaust for-dóma á hverri klukkustund til þess að auðvelda hugsun okkar í daglegu lífi. En það er hins vegar vel hægt að reyna að verða meðvituð/meðvitaður um neikvæða fordóma gagnvart fólki, dýrum og vistkerfum og minnka samanburðar- eða stigveldishugsun. Það er líka hægt að losa sig að miklu leyti við ákveðna flokka fordóma eins og flokk líkamsgerðar (grannur/feitur). En sífellt spretta upp nýir hópar af fólki þar sem bæði við og heimurinn erum á sífelldri hreyfingu. Þess vegna er hollt að velta því stöðugt fyrir sér hvort við búum yfir neikvæðum fordómum þegar við hittum eitthvað nýtt og framandi fyrir. Því fordómar munu eflaust aldrei alveg hverfa.

Myndir:

...