Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig get ég lært taugavísindi og orðið taugavísindamaður á Íslandi?

Í háskólum á Íslandi er sem stendur engin sérstök taugavísindadeild. Vilji menn stunda framhaldsnám í greininni verða þeir að gera það utan Íslands. Sem betur fer eru taugavísindi mjög þverfagleg og taugavísindamenn hafa gjarnan bakgrunn í öðrum greinum.

Taugavísindum má gróflega skipta í tvennt eftir aðferðafræði. Í öðrum flokknum eru þær undirgreinar sem fást við eiginleika taugafrumnanna sjálfra, svo sem sameindataugavísindi (e. molecular neuroscience) og frumutaugavísindi (e. cellular neuroscience). Góður undirbúningur fyrir slíkt nám gæti fengist með því að taka áfanga í líffræði, efnafræði, lífefnafræði, og ef til vill lyfjafræði, svo eitthvað sé nefnt.

Hægt er að skipta taugavísindum í tvennt eftir aðferðafræði. Í öðrum flokknum eru undirgreinar sem fást við eiginleika taugafrumnanna en í hinum eru undirgreinar sem rannsaka hvernig taugafrumur vinna saman.

Í hinum flokknum eru undirgreinar sem leggja meiri áherslu á að rannsaka hvernig taugafrumur vinna saman. Í þennan flokk falla til dæmis kerfistaugavísindi (e. systems neuroscience) og hugræn taugavísindi (e. cognitive neuroscience). Hentugur undirbúningur gæti fengist með því að stunda nám í sálfræði, líffræði, eðlisfræði, stærðfræði, tölvunarfræði, verkfræði og mögulega læknisfræði.

Einnig má nefna að hægt er að leggja stund á rannsóknir á taugakerfinu án þess að stunda framhaldsnám í eiginlegum taugavísindum. Sem dæmi er hægt að sérhæfa sig í taugasálfræði (e. neuropsychology), taugalækningum (e. neurology), eða hugfræði (e. cognitive science).

Taugavísindamenn starfa bæði innan og utan íslenskra háskóla. Í háskólum á Íslandi starfa taugavísindamenn til dæmis innan líffræði, sálfræði, verkfræði og læknisfræði. Þeir starfa einnig við ýmsar stofnanir, svo sem spítala, og í einkafyrirtækjum.

Mynd:

Útgáfudagur

22.3.2012

Spyrjandi

Bjarki

Höfundur

Heiða María Sigurðardóttir

doktor í taugavísindum

Tilvísun

Heiða María Sigurðardóttir. „Hvernig get ég lært taugavísindi og orðið taugavísindamaður á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 22. mars 2012. Sótt 23. janúar 2020. http://visindavefur.is/svar.php?id=61753.

Heiða María Sigurðardóttir. (2012, 22. mars). Hvernig get ég lært taugavísindi og orðið taugavísindamaður á Íslandi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=61753

Heiða María Sigurðardóttir. „Hvernig get ég lært taugavísindi og orðið taugavísindamaður á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 22. mar. 2012. Vefsíða. 23. jan. 2020. <http://visindavefur.is/svar.php?id=61753>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Valdimar Sigurðsson

1978

Valdimar Sigurðsson er prófessor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík og forstöðumaður Rannsóknarseturs HR í markaðsfræði og neytendasálfræði. Rannsóknir Valdimars hafa einkum beinst að neytendahegðun og markaðssetningu á stafrænum miðlum og í verslunarumhverfi tengt matvælum og hollustu.