Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvað eru lyfjaónæmir sýklar?

Þórdís Kristinsdóttir

Helsta einkenni lyfjaónæmra sýkla er að þeir bregðast ekki við sýklalyfjum. Ónæmi baktería er ýmist náttúrlegt eða áunnið. Sýkill sem er ónæmur fyrir tveimur eða fleiri lyfjum er sagður vera fjölónæmur.

Lyfjaónæmi er vaxandi vandamál.

Á rannsóknarstofum er hægt að beita ýmsum aðferðum við að mæla næmi baktería fyrir ákveðnum lyfjum en hafa verður í huga að ekki er öruggt að næmið sé það sama þegar sýkingin er af náttúrlegum orsökum. Með þessum aðferðum má sjá hvort baktería hefur gott næmi (e. sensitive), lélegt næmi (e. intermediate) eða ónæmi (e. resistant) fyrir því lyfi eða þeim lyfjum sem athuguð eru. Örvera telst vera næm ef virkni sýklalyfs er næg til þess að lækna sýkinguna en ónæm ef virkni sýklalyfsins er ófullnægjandi til þess að ráða niðurlögum hennar. Ef virkni lyfsins er á mörkum þess að lækna sýkingu er bakterían sögð vera millinæm (e. intermediate), en þá er lyfið oft fullnægjandi ef það er gefið þannig að það nái nógu hárri þéttni á sýkingarstað.

Sýklar eru þannig gerðir frá náttúrunnar hendi að þeir bæði fjölga sér og dreifa sér hratt og örugglega. Það er því í eðli þeirra að komast hjá hvers kyns hindrunum og aðlagast hratt nýjum aðstæðum. Ef eitthvað á borð við sýklalyf hindrar þá í að geta vaxið og fjölgað sér geta erfðabreytingar átt sér stað sem gera þeim kleift að komast hjá verkun lyfsins sem ætlað var að ráða niðurlögum þeirra. Þetta getur gerst eftir nokkrum leiðum.

Flestir sýklar skipta sér á nokkurra klukkustunda fresti svo þeir geta lagað sig hratt að breytingum í umhverfinu. Þegar lífverur skipta sér eru alltaf einhverjar líkur á stökkbreytingu og eru þessar líkur meiri í bakteríum en í heilkjarnafrumum vegna ólíkra leiða og tóla við fjölgun. Einnig eru auknar líkur á stökkbreytingu vegna þess hve bakteríur skipta sér ört. Stökkbreyting (ein eða fleiri) getur orðið til þess að sýkillinn öðlast lyfjaónæmi. Til dæmis getur stökkbreyting leitt til breytingar á yfirborðsprótíni bakteríu sem verður til þess að lyf getur ekki bundist henni. Annað dæmi er að stökkbreyting getur gert bakteríuna óháða þeim frumuferlum sem lyfið er gert til að trufla.

Gen sem að veita lyfjaónæmi geta færst á milli baktería.

Gen sem að veita lyfjaónæmi geta einnig færst á milli baktería lárétt á milli skyldra tegunda með umleiðslu (einnig kallað veiruleiðsla, e. transduction) eða ummyndun (e. transformation) og jafnvel milli ólíkari tegunda með samokun (einnig kallað tengiæxlun, e. conjugation). Margar bakteríur eru hluti eðlilegrar örveruflóru líkamans og valda ekki sýkingum við eðlilegar kringumstæður. Þessar bakteríur eru mjög oft útsettar fyrir ýmsum sýklalyfjum og hafa þróað með sér ónæmi gegn þeim. Þau gen sem flytja ónæmi geta flust frá bakteríum sem ekki valda sjúkdómi til sjúkdómsvaldandi baktería til dæmis á formi plasmíða sem flytjast milli frumna með samokun og þannig veitt þeim sjúkdómsvaldandi lyfjaónæmi.

Af þessum sökum ætti aðeins að nota sýklalyf gegn bakteríum með þekkt næmi og aldrei við veirusýkingum, því röng notkun leiðir til fjölgunar ónæmra stofna sjúkdómsvaldandi baktería sem eru nú síaukið vandamál í heiminum. Á veraldarvefnum eru til uppfærðar skrár yfir lyfjaónæmi helstu baktería og mismunandi ónæmi ólíkra stofna sem læknar geta stuðst við til þess að velja besta lyfið við hverri sýkingu.

Myndir:

Höfundur

nemi í læknisfræði við HÍ

Útgáfudagur

11.4.2013

Spyrjandi

Maja

Tilvísun

Þórdís Kristinsdóttir. „Hvað eru lyfjaónæmir sýklar?“ Vísindavefurinn, 11. apríl 2013. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=61885.

Þórdís Kristinsdóttir. (2013, 11. apríl). Hvað eru lyfjaónæmir sýklar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=61885

Þórdís Kristinsdóttir. „Hvað eru lyfjaónæmir sýklar?“ Vísindavefurinn. 11. apr. 2013. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=61885>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað eru lyfjaónæmir sýklar?
Helsta einkenni lyfjaónæmra sýkla er að þeir bregðast ekki við sýklalyfjum. Ónæmi baktería er ýmist náttúrlegt eða áunnið. Sýkill sem er ónæmur fyrir tveimur eða fleiri lyfjum er sagður vera fjölónæmur.

Lyfjaónæmi er vaxandi vandamál.

Á rannsóknarstofum er hægt að beita ýmsum aðferðum við að mæla næmi baktería fyrir ákveðnum lyfjum en hafa verður í huga að ekki er öruggt að næmið sé það sama þegar sýkingin er af náttúrlegum orsökum. Með þessum aðferðum má sjá hvort baktería hefur gott næmi (e. sensitive), lélegt næmi (e. intermediate) eða ónæmi (e. resistant) fyrir því lyfi eða þeim lyfjum sem athuguð eru. Örvera telst vera næm ef virkni sýklalyfs er næg til þess að lækna sýkinguna en ónæm ef virkni sýklalyfsins er ófullnægjandi til þess að ráða niðurlögum hennar. Ef virkni lyfsins er á mörkum þess að lækna sýkingu er bakterían sögð vera millinæm (e. intermediate), en þá er lyfið oft fullnægjandi ef það er gefið þannig að það nái nógu hárri þéttni á sýkingarstað.

Sýklar eru þannig gerðir frá náttúrunnar hendi að þeir bæði fjölga sér og dreifa sér hratt og örugglega. Það er því í eðli þeirra að komast hjá hvers kyns hindrunum og aðlagast hratt nýjum aðstæðum. Ef eitthvað á borð við sýklalyf hindrar þá í að geta vaxið og fjölgað sér geta erfðabreytingar átt sér stað sem gera þeim kleift að komast hjá verkun lyfsins sem ætlað var að ráða niðurlögum þeirra. Þetta getur gerst eftir nokkrum leiðum.

Flestir sýklar skipta sér á nokkurra klukkustunda fresti svo þeir geta lagað sig hratt að breytingum í umhverfinu. Þegar lífverur skipta sér eru alltaf einhverjar líkur á stökkbreytingu og eru þessar líkur meiri í bakteríum en í heilkjarnafrumum vegna ólíkra leiða og tóla við fjölgun. Einnig eru auknar líkur á stökkbreytingu vegna þess hve bakteríur skipta sér ört. Stökkbreyting (ein eða fleiri) getur orðið til þess að sýkillinn öðlast lyfjaónæmi. Til dæmis getur stökkbreyting leitt til breytingar á yfirborðsprótíni bakteríu sem verður til þess að lyf getur ekki bundist henni. Annað dæmi er að stökkbreyting getur gert bakteríuna óháða þeim frumuferlum sem lyfið er gert til að trufla.

Gen sem að veita lyfjaónæmi geta færst á milli baktería.

Gen sem að veita lyfjaónæmi geta einnig færst á milli baktería lárétt á milli skyldra tegunda með umleiðslu (einnig kallað veiruleiðsla, e. transduction) eða ummyndun (e. transformation) og jafnvel milli ólíkari tegunda með samokun (einnig kallað tengiæxlun, e. conjugation). Margar bakteríur eru hluti eðlilegrar örveruflóru líkamans og valda ekki sýkingum við eðlilegar kringumstæður. Þessar bakteríur eru mjög oft útsettar fyrir ýmsum sýklalyfjum og hafa þróað með sér ónæmi gegn þeim. Þau gen sem flytja ónæmi geta flust frá bakteríum sem ekki valda sjúkdómi til sjúkdómsvaldandi baktería til dæmis á formi plasmíða sem flytjast milli frumna með samokun og þannig veitt þeim sjúkdómsvaldandi lyfjaónæmi.

Af þessum sökum ætti aðeins að nota sýklalyf gegn bakteríum með þekkt næmi og aldrei við veirusýkingum, því röng notkun leiðir til fjölgunar ónæmra stofna sjúkdómsvaldandi baktería sem eru nú síaukið vandamál í heiminum. Á veraldarvefnum eru til uppfærðar skrár yfir lyfjaónæmi helstu baktería og mismunandi ónæmi ólíkra stofna sem læknar geta stuðst við til þess að velja besta lyfið við hverri sýkingu.

Myndir:

...