Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver er munurinn á blossamarki, brunamarki og íkveikjumarki?

Emelía Eiríksdóttir

Blossamark (e. flash point), brunamark (e. fire point) og íkveikjumark (e. ignition tempterature, einnig kallað sjálfsíkveikjumark, e. autoignition temperature) eru allt hugtök sem hafa með bruna efna að gera. Við tölum um bruna þegar efni hvarfast við súrefni þannig að úr verður eldur, það er að segja það myndast ljós og varmi. Til að bruni geti átt sér stað þarf brennanlegt efni, súrefni og hita í réttum hlutföllum; það þarf sem sagt ákveðið mikla orku til að koma efnahvarfinu af stað milli brennanlega efnisins og súrefnis.

Fyrsta skrefið í íkveiku á efni er að hita það að blossamarki þess. Við hitunina losna brennanlegar gastegundir úr efninu. Því meira sem efnið er hitað, þeim mun hraðar losna gastegundirnar frá efninu. Þegar nægilega mikið af þeim hefur losnað er hægt að kveikja í gasinu með varmagjafa, til dæmis loga eða neista; hitastigið sem efnið er við núna kallast blossamark þess. Blossamark efnis er sem sagt lægsta hitastig efnisins þar sem hægt er kveikja í brennanlegu gastegundunum sem losna frá því. Blossamark er afar misjafnt eftir efnum. Annað einkenni blossamarks er að eldurinn kulnar þegar varmagjafinn er fjarlægður. Það er sem sagt ekki vökvinn sjálfur eða fasta efnið sem brennur, heldur brennanlegu gastegundirnar sem losna þaðan. Því lægra sem blossamark efnis er, því auðveldara er að kveikja í því. Blossamark efna er því notað við röðun efna í áhættuflokk, það getur nefnilega verið varhugavert að geyma efni við hitastig nálægt blossamarki efnisins því lítill neisti gæti kveikt í efninu.

Til að bruni geti átt sér stað þarf brennanlegt efni, súrefni og hita í réttum hlutföllum; það þarf sem sagt ákveðið mikla orku til að koma efnahvarfinu af stað milli brennanlega efnisins og súrefnis.

Ef hitastig efnisins er aukið kemur að þeim punkti þar sem uppgufun þessara eldfimu gastegunda er nægilega mikil til að viðhalda brunanum. Þetta hitastig er kallað brunamark efnisins og einkennist af því að eldurinn slokknar ekki þegar varmagjafinn er fjarlægður. Við þetta hitastig losnar nefnilega nægileg orka við brunann, það er að segja við efnahvarfið milli súrefnis og gastegundanna, sem viðheldur uppgufun eldfimu gastegundanna. Eldurinn logar því áfram af sjálfsdáðum þar til uppgufun eldfimu gastegundanna dvínar, súrefnið minnkar verulega (hvort sem það er vegna þess að súrefnið klárast í brunanum eða aðgengi súrefnis er heft, til dæmis með því að breiða eldvarnarteppi yfir eldinn) eða efnið er kælt niður fyrir brunamark efnisins (til dæmis með því að hella vatni á það). Brunamark efnis er yfirleitt bara nokkrum gráðum hærra en blossamark þess.

Íkveikjumark efnis er hitastigið sem efni er við þegar kviknar af sjálfsdáðum í brennanlegum lofttegundum efnisins. Við íkveikjumark efnis þarf sem sagt ekki utanaðkomandi hitagjafa (eins og eld eða neista) til að kveikja í þessum brennanlegu lofttegundum. Íkveikjumark efnis er töluvert hærra en blossamark þess.

Sjálfsíkveikja getur orðið í efnum sem oxast auðveldlega. Ef varminn, sem myndast við efnahvarfið, kemst ekki burt frá efninu hitnar efnið og oxunin gengur hraðar; við þetta myndast enn meiri varmi. Nái efnið að hitna að íkveikjumarki sínu mun kvikna í því. Dæmigerð sjálfsíkveikja er til dæmis þegar kviknar í hlöðum eða olíublautum tuskum.

Flest í kringum okkur er brennanlegt en það þarf mismikinn hita til að kvikni í hlutum. Sem dæmi er blossamark bensíns í kringum -40°C en blossamark jurtaolíu er 327°C. Þetta segir okkur að bensín gefur frá sér nægilega mikið af brennanlegum lofttegundum við -40°C en það þarf að hita matarolíu upp í 327°C til að hægt sé að kveikja í brennanlegum lofttegundum hennar; það er því mun auðveldara að kveikja í bensíni en matarolíu.

Sjálfsíkveikjuhitastig bensíns liggur á bilinu 280°C og 470°C á meðan sjálfsíkveikjumark jurtaolíu er 424°C.

Heimildir og frekara lesefni:

Mynd:

Höfundur

Emelía Eiríksdóttir

efnafræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

25.2.2020

Spyrjandi

Lovísa

Tilvísun

Emelía Eiríksdóttir. „Hver er munurinn á blossamarki, brunamarki og íkveikjumarki?“ Vísindavefurinn, 25. febrúar 2020, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=62229.

Emelía Eiríksdóttir. (2020, 25. febrúar). Hver er munurinn á blossamarki, brunamarki og íkveikjumarki? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=62229

Emelía Eiríksdóttir. „Hver er munurinn á blossamarki, brunamarki og íkveikjumarki?“ Vísindavefurinn. 25. feb. 2020. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=62229>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver er munurinn á blossamarki, brunamarki og íkveikjumarki?
Blossamark (e. flash point), brunamark (e. fire point) og íkveikjumark (e. ignition tempterature, einnig kallað sjálfsíkveikjumark, e. autoignition temperature) eru allt hugtök sem hafa með bruna efna að gera. Við tölum um bruna þegar efni hvarfast við súrefni þannig að úr verður eldur, það er að segja það myndast ljós og varmi. Til að bruni geti átt sér stað þarf brennanlegt efni, súrefni og hita í réttum hlutföllum; það þarf sem sagt ákveðið mikla orku til að koma efnahvarfinu af stað milli brennanlega efnisins og súrefnis.

Fyrsta skrefið í íkveiku á efni er að hita það að blossamarki þess. Við hitunina losna brennanlegar gastegundir úr efninu. Því meira sem efnið er hitað, þeim mun hraðar losna gastegundirnar frá efninu. Þegar nægilega mikið af þeim hefur losnað er hægt að kveikja í gasinu með varmagjafa, til dæmis loga eða neista; hitastigið sem efnið er við núna kallast blossamark þess. Blossamark efnis er sem sagt lægsta hitastig efnisins þar sem hægt er kveikja í brennanlegu gastegundunum sem losna frá því. Blossamark er afar misjafnt eftir efnum. Annað einkenni blossamarks er að eldurinn kulnar þegar varmagjafinn er fjarlægður. Það er sem sagt ekki vökvinn sjálfur eða fasta efnið sem brennur, heldur brennanlegu gastegundirnar sem losna þaðan. Því lægra sem blossamark efnis er, því auðveldara er að kveikja í því. Blossamark efna er því notað við röðun efna í áhættuflokk, það getur nefnilega verið varhugavert að geyma efni við hitastig nálægt blossamarki efnisins því lítill neisti gæti kveikt í efninu.

Til að bruni geti átt sér stað þarf brennanlegt efni, súrefni og hita í réttum hlutföllum; það þarf sem sagt ákveðið mikla orku til að koma efnahvarfinu af stað milli brennanlega efnisins og súrefnis.

Ef hitastig efnisins er aukið kemur að þeim punkti þar sem uppgufun þessara eldfimu gastegunda er nægilega mikil til að viðhalda brunanum. Þetta hitastig er kallað brunamark efnisins og einkennist af því að eldurinn slokknar ekki þegar varmagjafinn er fjarlægður. Við þetta hitastig losnar nefnilega nægileg orka við brunann, það er að segja við efnahvarfið milli súrefnis og gastegundanna, sem viðheldur uppgufun eldfimu gastegundanna. Eldurinn logar því áfram af sjálfsdáðum þar til uppgufun eldfimu gastegundanna dvínar, súrefnið minnkar verulega (hvort sem það er vegna þess að súrefnið klárast í brunanum eða aðgengi súrefnis er heft, til dæmis með því að breiða eldvarnarteppi yfir eldinn) eða efnið er kælt niður fyrir brunamark efnisins (til dæmis með því að hella vatni á það). Brunamark efnis er yfirleitt bara nokkrum gráðum hærra en blossamark þess.

Íkveikjumark efnis er hitastigið sem efni er við þegar kviknar af sjálfsdáðum í brennanlegum lofttegundum efnisins. Við íkveikjumark efnis þarf sem sagt ekki utanaðkomandi hitagjafa (eins og eld eða neista) til að kveikja í þessum brennanlegu lofttegundum. Íkveikjumark efnis er töluvert hærra en blossamark þess.

Sjálfsíkveikja getur orðið í efnum sem oxast auðveldlega. Ef varminn, sem myndast við efnahvarfið, kemst ekki burt frá efninu hitnar efnið og oxunin gengur hraðar; við þetta myndast enn meiri varmi. Nái efnið að hitna að íkveikjumarki sínu mun kvikna í því. Dæmigerð sjálfsíkveikja er til dæmis þegar kviknar í hlöðum eða olíublautum tuskum.

Flest í kringum okkur er brennanlegt en það þarf mismikinn hita til að kvikni í hlutum. Sem dæmi er blossamark bensíns í kringum -40°C en blossamark jurtaolíu er 327°C. Þetta segir okkur að bensín gefur frá sér nægilega mikið af brennanlegum lofttegundum við -40°C en það þarf að hita matarolíu upp í 327°C til að hægt sé að kveikja í brennanlegum lofttegundum hennar; það er því mun auðveldara að kveikja í bensíni en matarolíu.

Sjálfsíkveikjuhitastig bensíns liggur á bilinu 280°C og 470°C á meðan sjálfsíkveikjumark jurtaolíu er 424°C.

Heimildir og frekara lesefni:

Mynd:...