Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaHugvísindiMálvísindi: íslenskHvers vegna eru tíðir eins og skildagatíð, atburðaþátíð og lýsingaþátíð ekki kenndar í íslenskri málfræði, myndi það ekki gagnast okkur við annað tungumálanám?
Hvers vegna eru tíðir eins og skildagatíð, atburðaþátíð og lýsingaþátíð ekki kenndar í íslenskri málfræði, myndi það ekki gagnast okkur við annað tungumálanám?
Það er rétt að traust og góð kunnátta í móðurmáli getur gagnast fólki við að læra önnur tungumál. Í framhaldsskólum er reynt að treysta þekkingu nemenda í íslensku. Markmið móðurmálsnáms eru margþætt. Móðurmálsnám stuðlar að því að nemendur verði öruggari og betri málnotendur, geti betur komið skoðunum sínum á framfæri og verið meðvitaðir um einkenni móðurmáls síns, íslensku.
Um nokkurt skeið hefur sú leið verið farin í móðurmálskennslu að skipta náminu ekki niður í ólíka þætti eins og til dæmis ljóð, málfræði, lestur og ritun, heldur nálgast tungumálið heildstætt. Að baki þeirri nálgun býr sú hugmynd að allir þessir þættir spili saman og stuðli að því að gera fólk meðvitað um gildi, eiginleika og möguleika móðurmálsins. Þegar vel tekst til geta nemendur nýtt sér þekkingu sína í móðurmálinu til að átta sig á eiginleikum annarra mála. Það á til dæmis við um tíðir sagna í íslensku og öðrum málum.
Lengi vel voru tíðir í íslensku taldar átta en nú telja málfræðingar tíðirnar aðeins tvær, nútíð og þátíð.
Lengi var talað um að í íslensku væru tíðirnar sex eða átta. Þá sniðu menn íslenska beygingarlýsingu að því sem þeir þekktu vel, latneskri málfræði, en í latínu hafa sagnorð sex ólíkar myndir sem tákna mismunandi tíðir.
Í íslensku er þessu hins vegar á annan veg farið. Hver íslensk sögn er aðeins til í tveimur tíðum, nútíð og þátíð. Tímaskyn manna nær þó líka í einhverjum skilningi til tíma sem ekki er enn kominn, framtíðar. Til að tákna framtíð getum við hins vegar notað nútíðarform sagna.
1.
a) Ég les bók (núna) (nt.)
b) Ég las bók (í gær) (þt.)
c) Ég les bók (á morgun) (frt.)
Eins og sést í dæmum 1 a)-c) eru aðeins tvær myndir sagnarinnar að lesa, les og las, en tíminn sem þær tákna er þrenns konar; nútíð (eitthvað sem gerist núna), þátíð (eitthvað sem hefur gerst) og framtíð (eitthvað sem á eftir að gerast).
Auðvitað getum við gert annars konar grein fyrir tíma í íslensku. Það gerum við til dæmis með því að nota hjálparsagnir, sem eru ýmist í nútíð eða þátíð, auk aðalsagnar sem getur staðið í ýmsum háttum (nafnhætti, lýsingarhætti og svo framvegis).
2.
a) Ég hef lesið bók (nt. + lh. þt.)
b) Ég hafði lesið bók (þt. + lh. þt.)
c) Ég mun lesa bók (nt. + nh.)
Eins og sést eru hjálparsagnirnar ýmist í nútíð (hef, mun) eða þátíð (hafði). Aðalsagnirnar eru hins vegar í lýsingarhætti þátíðar (lesið) í dæmum 2 a)-b) en í nafnhætti í dæmi 2 c). Þetta er það sem kallað hefur verið núliðin tíð (2a), þáliðin tíð (2b) og framtíð (2c).
Nú má spyrja hvort það þjóni einhverjum tilgangi að „þvinga“ íslensku að kerfi annarra mála, eins og til dæmis latínu, og hvort það auki skilning okkar og þekkingu á eiginleikum hennar. Ef nemendur eru meðvitaðir um að íslenskar sagnir hafi einungis tvær ólíkar tíðir, en að annars konar tímaskynjun sé táknuð með öðru móti, ættu þeir að geta nýtt sér þá þekkingu þegar þeir leggja stund á annað tungumálanám.
Fyrir áhugasama má benda á tvær greinar eftir Höskuld Þráinsson:
Höskuldur Þráinsson. Hvað eru margar tíðir í íslensku og hvernig vitum við það? (í Íslensku máli 1999: 181-224).
Höskuldur Þráinsson. Um nafngiftir hjálparsagnasambanda (í Íslensku máli 2001: 229-252).
Annað sem tengist efninu:
Guðrún Kvaran. Íslensk tunga II (2005).
Björn Guðfinnsson. Íslensk málfræði (til dæmis 5. útgáfa frá 1958).
Hvers vegna er ekki kennd meiri málfræði í íslensku við framhaldsskóla? Þá á ég við til dæmis skildagatíð, atburðaþátíð, lýsingaþátíð og fleira. Myndi það ekki gagnast fólki sem hyggst læra önnur mál, til dæmis spænsku eða frönsku?
Halldóra Björt Ewen. „Hvers vegna eru tíðir eins og skildagatíð, atburðaþátíð og lýsingaþátíð ekki kenndar í íslenskri málfræði, myndi það ekki gagnast okkur við annað tungumálanám?“ Vísindavefurinn, 26. apríl 2012, sótt 9. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=62231.
Halldóra Björt Ewen. (2012, 26. apríl). Hvers vegna eru tíðir eins og skildagatíð, atburðaþátíð og lýsingaþátíð ekki kenndar í íslenskri málfræði, myndi það ekki gagnast okkur við annað tungumálanám? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=62231
Halldóra Björt Ewen. „Hvers vegna eru tíðir eins og skildagatíð, atburðaþátíð og lýsingaþátíð ekki kenndar í íslenskri málfræði, myndi það ekki gagnast okkur við annað tungumálanám?“ Vísindavefurinn. 26. apr. 2012. Vefsíða. 9. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=62231>.