Sólin Sólin Rís 11:13 • sest 15:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:20 • Sest 09:25 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:21 • Síðdegis: 16:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:42 • Síðdegis: 22:57 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:13 • sest 15:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:20 • Sest 09:25 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:21 • Síðdegis: 16:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:42 • Síðdegis: 22:57 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver er munurinn á ríkisreknum fjölmiðli og einkareknum?

Þorbjörn Broddason

Helstu fjölmiðlar nútímans eru dagblöð, hljóðvarp, sjónvarp og veffréttamiðlar. Í okkar heimshluta tíðkast hvorki ríkisrekstur á dagblöðum né veffréttamiðlum (nema sem viðhengi við hefðbundinn útvarpsrekstur). Hér verður því samanburður á ríkisreknum og einkareknum miðlum einskorðaður við hljóðvarp og sjónvarp, sem í lögum er nefnt einu nafni útvarp en gengur oft í daglegu tali undir heitinu ljósvakamiðlar.

Útvarpssendingar til almennings hófust bæði austan hafs og vestan upp úr fyrri heimsstyrjöldinni. Í allri Evrópu var opinber rekstur ríkjandi form fyrstu áratugina. Litið var á útvarp sem starfsemi í almannaþágu, ekki ósvipað og heilbrigðis- eða menntakerfi landanna. Aldrei var þetta þó óumdeilt sjónarhorn og þegar líða tók á öldina og tæknilegar framfarir auðvelduðu mjög fjölgun hljóðvarps- og sjónvarpsrása var horfið frá einokun hins opinbera á ljósvakanum í hverju landinu á fætur öðru. Í umræðum og átökum um þessa stefnubreytingu urðu smám saman til tvær lykilskilgreiningar: almannaútvarp (e. public service broadcasting) og viðskiptaútvarp (e. commercial broadcasting). Hið fyrrtalda vísar til útvarps í opinberum rekstri, sem nýtur ákveðinna hlunninda (sem felast fyrst og fremst í öruggum tekjum úr vösum almennings) og gengst jafnframt undir mjög ríkar skyldur. Hið síðartalda vísar til einkarekins útvarps, sem stendur berskjaldað á markaði framboðs og eftirspurnar, háð auglýsingatekjum og frjálsum áskriftum, og nýtur engra hlunninda en er á hinn bóginn að mestu laust við kvaðir og skyldur.

Svonefnd stillimynd á sjónvarpsskjá.

Ragnar Karlsson, sérfræðingur á Hagstofu Íslands, hefur tekið saman yfirlit um stöðu þessara mála á Íslandi. Niðurstaða hans er sú að eftirfarandi skyldur séu lagðar á Ríkisútvarpið eingöngu: Ríkisútvarpinu ber að halda úti tveim hljóðvarpsrásum og einni sjónvarpsrás sem allar nái til allra landsmanna. Því er gert að skyldu að veita fréttaþjónustu, stunda svæðisútsendingar og reka bæði textavarp og vefþjónustu. Einnig er því skylt að veita táknmálsþjónustu fyrir heyrnarskerta. Dagleg útsending dagskrár má ekki fara niður fyrir ákveðinn klukkustundafjölda og raunar er skylt að hafa hljóðvarpsrás í gangi allan sólarhringinn. Áskilið er að dagskrá sé fjölbreytt, menningarleg og við hæfi allra aldursflokka. Innlent efni má ekki fara niður fyrir ákveðið lágmark og sambærileg regla gildir um magn norræns efnis. Mjög rík áhersla er lögð á óhlutdrægni Ríkisútvarpsins gagnvart mönnum og málefnum.

Einkastöðvarnar eru ekki settar undir þennan aga. Eina meginkvöð leggur löggjafinn að vísu bæði á Ríkisútvarpið og einkareknar stöðvar, en hún er að lýðræðislegar hefðir séu í heiðri haldnar í dagskránni. Einnig er hvorum tveggja skylt að miðla tilkynningum um hættuástand. Auk þess eru settar skorður við lengd auglýsingatíma í öllu útvarpi en þær eru þó strangari gagnvart Ríkisútvarpinu en einkastöðvunum.

Ofangreind lýsing á íslenskum aðstæðum á í öllum meginatriðum einnig við um muninn á opinberu og einkareknu útvarpi í öðrum löndum í okkar heimshluta. Einn mikilvægur þáttur útvarpsreksturs skapar Íslandi þó sérstöðu ef borið er saman við önnur Norðurlönd og raunar ýmis önnur lönd, sem við teljum stundum til fyrirmyndar. Hér er átt við auglýsingar í hljóðvarpi og sjónvarpi. Þær eru ekki tíðkaðar í almannaútvarpi þessara landa og er sú regla talin mjög þýðingarmikil til að afmarka sérstöðu almannaútvarpins andspænis viðskiptaútvarpi.

Sögulegar ástæður, sem ekki verða raktar hér, ollu því að Ríkisútvarpið hóf að drýgja tekjur sínar með því að flytja auglýsingar frá fyritækjum strax á fyrstu árum starfsemi sinnar í upphafi fjórða áratugar síðustu aldar. Þegar sjónvarpið kom til sögunnar á síðari hluta sjöunda áratugarins hóf það sömuleiðis birtingu auglýsinga. Þessi háttsemi var tiltölulega óumdeild, jafnvel þótt hún styngi mjög í stúf við það sem talið var við hæfi í almannaútvarpi grannlandanna. Eftir að viðskiptaútvarp hóf göngu sína á Íslandi í krafti nýrrar útvarpslöggjafar árið 1986 lenti þessi sérstaða Ríkisútvarpsins meira í sviðsljósinu og nú á allra síðustu misserum virðist loks komin á hreyfing í þá átt að draga úr umsvifum þess á auglýsingamarkaði. Vitað er að á meðal fréttafólks Ríkisútvarpsins er metnaður í þá átt að útrýma auglýsingum úr dagskránni. Þessi afstaða byggist á þeim einföldu sannindum að menn geti ekki fyllilega um frjálst höfuð strokið á meðan þeir eru háðir tekjum frá utanaðkomandi sérhagsmunaaðilum. Í raun er ekki ofmælt að segja að viðskiptaauglýsingar í útvarpi séu í mótsögn við hugmyndina um útvarp í almannaþágu.

Heimildir:

  • Davíð Roach Gunnarsson (2014) Hljómur hins opinbera. Óbirt ritgerð til meistaraprófs í blaða- og fréttamennsku. Háskóli Íslands, félagsvísindasvið.
  • Lög um Ríkisútvarpið, nr. 23/2013.
  • McQuail, Denis (2010) McQuail‘s Mass Communication Theory. London: Sage Publications.
  • Skýrsla nefndar menntamálaráðherra um íslenska fjölmiðla. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.
  • Lög um fjölmiðla, nr. 38/2011.
  • Þorbjörn Broddason (2005) Ritlist, prentlist, dægurmiðlar. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Mynd:

Höfundur

Þorbjörn Broddason

prófessor emeritus í félagsfræði við HÍ

Útgáfudagur

3.9.2014

Spyrjandi

Ásta Lára

Tilvísun

Þorbjörn Broddason. „Hver er munurinn á ríkisreknum fjölmiðli og einkareknum?“ Vísindavefurinn, 3. september 2014, sótt 13. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=62455.

Þorbjörn Broddason. (2014, 3. september). Hver er munurinn á ríkisreknum fjölmiðli og einkareknum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=62455

Þorbjörn Broddason. „Hver er munurinn á ríkisreknum fjölmiðli og einkareknum?“ Vísindavefurinn. 3. sep. 2014. Vefsíða. 13. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=62455>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver er munurinn á ríkisreknum fjölmiðli og einkareknum?
Helstu fjölmiðlar nútímans eru dagblöð, hljóðvarp, sjónvarp og veffréttamiðlar. Í okkar heimshluta tíðkast hvorki ríkisrekstur á dagblöðum né veffréttamiðlum (nema sem viðhengi við hefðbundinn útvarpsrekstur). Hér verður því samanburður á ríkisreknum og einkareknum miðlum einskorðaður við hljóðvarp og sjónvarp, sem í lögum er nefnt einu nafni útvarp en gengur oft í daglegu tali undir heitinu ljósvakamiðlar.

Útvarpssendingar til almennings hófust bæði austan hafs og vestan upp úr fyrri heimsstyrjöldinni. Í allri Evrópu var opinber rekstur ríkjandi form fyrstu áratugina. Litið var á útvarp sem starfsemi í almannaþágu, ekki ósvipað og heilbrigðis- eða menntakerfi landanna. Aldrei var þetta þó óumdeilt sjónarhorn og þegar líða tók á öldina og tæknilegar framfarir auðvelduðu mjög fjölgun hljóðvarps- og sjónvarpsrása var horfið frá einokun hins opinbera á ljósvakanum í hverju landinu á fætur öðru. Í umræðum og átökum um þessa stefnubreytingu urðu smám saman til tvær lykilskilgreiningar: almannaútvarp (e. public service broadcasting) og viðskiptaútvarp (e. commercial broadcasting). Hið fyrrtalda vísar til útvarps í opinberum rekstri, sem nýtur ákveðinna hlunninda (sem felast fyrst og fremst í öruggum tekjum úr vösum almennings) og gengst jafnframt undir mjög ríkar skyldur. Hið síðartalda vísar til einkarekins útvarps, sem stendur berskjaldað á markaði framboðs og eftirspurnar, háð auglýsingatekjum og frjálsum áskriftum, og nýtur engra hlunninda en er á hinn bóginn að mestu laust við kvaðir og skyldur.

Svonefnd stillimynd á sjónvarpsskjá.

Ragnar Karlsson, sérfræðingur á Hagstofu Íslands, hefur tekið saman yfirlit um stöðu þessara mála á Íslandi. Niðurstaða hans er sú að eftirfarandi skyldur séu lagðar á Ríkisútvarpið eingöngu: Ríkisútvarpinu ber að halda úti tveim hljóðvarpsrásum og einni sjónvarpsrás sem allar nái til allra landsmanna. Því er gert að skyldu að veita fréttaþjónustu, stunda svæðisútsendingar og reka bæði textavarp og vefþjónustu. Einnig er því skylt að veita táknmálsþjónustu fyrir heyrnarskerta. Dagleg útsending dagskrár má ekki fara niður fyrir ákveðinn klukkustundafjölda og raunar er skylt að hafa hljóðvarpsrás í gangi allan sólarhringinn. Áskilið er að dagskrá sé fjölbreytt, menningarleg og við hæfi allra aldursflokka. Innlent efni má ekki fara niður fyrir ákveðið lágmark og sambærileg regla gildir um magn norræns efnis. Mjög rík áhersla er lögð á óhlutdrægni Ríkisútvarpsins gagnvart mönnum og málefnum.

Einkastöðvarnar eru ekki settar undir þennan aga. Eina meginkvöð leggur löggjafinn að vísu bæði á Ríkisútvarpið og einkareknar stöðvar, en hún er að lýðræðislegar hefðir séu í heiðri haldnar í dagskránni. Einnig er hvorum tveggja skylt að miðla tilkynningum um hættuástand. Auk þess eru settar skorður við lengd auglýsingatíma í öllu útvarpi en þær eru þó strangari gagnvart Ríkisútvarpinu en einkastöðvunum.

Ofangreind lýsing á íslenskum aðstæðum á í öllum meginatriðum einnig við um muninn á opinberu og einkareknu útvarpi í öðrum löndum í okkar heimshluta. Einn mikilvægur þáttur útvarpsreksturs skapar Íslandi þó sérstöðu ef borið er saman við önnur Norðurlönd og raunar ýmis önnur lönd, sem við teljum stundum til fyrirmyndar. Hér er átt við auglýsingar í hljóðvarpi og sjónvarpi. Þær eru ekki tíðkaðar í almannaútvarpi þessara landa og er sú regla talin mjög þýðingarmikil til að afmarka sérstöðu almannaútvarpins andspænis viðskiptaútvarpi.

Sögulegar ástæður, sem ekki verða raktar hér, ollu því að Ríkisútvarpið hóf að drýgja tekjur sínar með því að flytja auglýsingar frá fyritækjum strax á fyrstu árum starfsemi sinnar í upphafi fjórða áratugar síðustu aldar. Þegar sjónvarpið kom til sögunnar á síðari hluta sjöunda áratugarins hóf það sömuleiðis birtingu auglýsinga. Þessi háttsemi var tiltölulega óumdeild, jafnvel þótt hún styngi mjög í stúf við það sem talið var við hæfi í almannaútvarpi grannlandanna. Eftir að viðskiptaútvarp hóf göngu sína á Íslandi í krafti nýrrar útvarpslöggjafar árið 1986 lenti þessi sérstaða Ríkisútvarpsins meira í sviðsljósinu og nú á allra síðustu misserum virðist loks komin á hreyfing í þá átt að draga úr umsvifum þess á auglýsingamarkaði. Vitað er að á meðal fréttafólks Ríkisútvarpsins er metnaður í þá átt að útrýma auglýsingum úr dagskránni. Þessi afstaða byggist á þeim einföldu sannindum að menn geti ekki fyllilega um frjálst höfuð strokið á meðan þeir eru háðir tekjum frá utanaðkomandi sérhagsmunaaðilum. Í raun er ekki ofmælt að segja að viðskiptaauglýsingar í útvarpi séu í mótsögn við hugmyndina um útvarp í almannaþágu.

Heimildir:

  • Davíð Roach Gunnarsson (2014) Hljómur hins opinbera. Óbirt ritgerð til meistaraprófs í blaða- og fréttamennsku. Háskóli Íslands, félagsvísindasvið.
  • Lög um Ríkisútvarpið, nr. 23/2013.
  • McQuail, Denis (2010) McQuail‘s Mass Communication Theory. London: Sage Publications.
  • Skýrsla nefndar menntamálaráðherra um íslenska fjölmiðla. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.
  • Lög um fjölmiðla, nr. 38/2011.
  • Þorbjörn Broddason (2005) Ritlist, prentlist, dægurmiðlar. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Mynd:

...