Sólin Sólin Rís 11:15 • sest 15:30 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:11 • Síðdegis: 17:36 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:33 • Síðdegis: 23:44 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:15 • sest 15:30 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:11 • Síðdegis: 17:36 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:33 • Síðdegis: 23:44 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða áhrif getur kynferðislegt ofbeldi í æsku haft á kynheilbrigði karla?

Sigrún Sigurðardóttir

Kynferðislegt ofbeldi í æsku getur verið mjög alvarlegt sálrænt áfall sem getur haft víðtækar afleiðingar fyrir heilsu almennt og kynheilbrigði. Við sálrænt áfall bregst líkaminn ýmist við með því að berjast eða flýja (e. flight-or-fight response). Þegar líkaminn getur hvorki flúið né barist, þá „frýs“ hann og gerist slíkt sérstaklega við kynferðislegt ofbeldi. Einstaklingar sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi og „frjósa“ fá oft sektarkennd og fyllast skömm yfir að hafa ekkert gert til að vernda sig með því að berjast á móti eða flýja.1 Slíkar tilfinningar geta fylgt einstaklingnum um ókomin ár og haft mikil áhrif á sjálfsmynd, samskipti og kynheilbrigði.

Sumir hafa lýst því þegar líkaminn „frýs“ eins og þeir fari út úr líkamanum eða aftengist tilfinningalega. Slíkt nefnist „hugrof“ (e. dissociation) og er bjargráð til að „lifa af“ kynferðislega ofbeldið. Ef kynferðislega ofbeldið er alvarlegt og langvarandi er hætta á að þeir sem fyrir því verða, verði síðar ótengdir eigin tilfinningum og líkama sem getur brenglað mjög skynjun þeirra á sjálfum sér og öðrum.2

Þegar fólk verður óttaslegið fara ákveðin líffræðileg ferli af stað í líkamanum sem búa hann undir átök, hvort sem þau felast í flótta eða árás. Þegar hvorki er hægt að flýja né berjast þá getur líkaminn „frosið“.

Kynferðislegt ofbeldi í æsku getur haft mjög niðurbrjótandi áhrif á sjálfsmynd þeirra sem fyrir því verða og þar með kynheilbrigði. Þeir upplifa oft mikla höfnun, eiga í erfiðleikum með að mynda náin tengsl og sambönd þeirra einkennast því oft af miklu markaleysi og stjórnleysi. Ofbeldið er ógn við persónuleg mörk (e. personal boundaries) og tilveru þeirra.3 Þeir geta átt erfitt með að setja sér mörk jafnt gagnvart sjálfum sér og öðrum og tekið upp markalausa hegðun eins og ýmsa áhættuhegðun.

Dæmi um áhættuhegðun sem drengir sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi geta sýnt tengist meðal annars kynlífi og áfengi, þeir geta farið út í að nota kynlíf til að styrkja sjálfsmynd sína, kynlíf án tilfinninga og að stunda áhættusamt kynlíf með mörgum mismunandi einstaklingum.2 Þeir byrja oft að stunda kynlíf mjög ungir, verða mjög kynferðislega virkir mjög ungir, skipta ört um rekkjunauta, nota síður getnaðarvarnir og eru síður á varðbergi gagnvart kynsjúkdómum. Þá eru einnig auknar líkur á þátttöku í hópkynlífi og að leiðast út í vændi sem rekja má til markaleysis þeirra.4 Þeir eru því í meiri hættu á að fá sjúkdóma í og á kynfæri, kynsjúkdóma og alnæmi ásamt því að glíma við ófrjósemi.5,6 Einnig geta þeir verið haldnir hræðslu við samkynhneigð eða hatri út í samkynhneigða, sem tengist því sérstaklega ef þeir hafa verið misnotaðir af karlmönnum.7

Unglingsárin einkennast oft af mjög brotinni sjálfsmynd og sjálfskaðandi hegðun.8,9,10 Dæmi eru um að drengir með slíka sögu hafi ekki stjórn á hægðum þar sem þeir missa hægðir án þess að ráða við nokkuð og getur það gerst hvar og hvenær sem er. Getur slíkt haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir mótun sjálfsmyndar þeirra.2,11

Á fullorðinsárum er sjálfsmynd karlmanna með sögu um kynferðislegt ofbeldi í æsku oft mjög brotin ef þeir hafa ekki unnið úr slíkri reynslu. Þeim finnst þeir oft ekki eiga neitt gott skilið og sætta sig því oftar við að vera í óhamingjusömum og stormasömum samböndum, eins og þeim standi meira á sama um allt og alla. Þeir eru iðulega tilfinningalega aftengdir eftir kynferðislega ofbeldið og ná ekki að tengja sig aftur og læra að treysta. Þeir geta átt í erfiðleikum í samböndum, verið í mörgum misheppnuðum samböndum, burðast oft með leyndarmál sín í mörg ár og geta ekki sagt frá ofbeldinu. Af því leiðir að þeir geta orðið óheiðarlegir gagnvart mökum sínum. Hjá þeim getur kynlíf verið merki um karlmennsku og stundum er um brenglaða kynhegðun að ræða, lauslæti og kæruleysi í kynlífi. Þeir eiga til að fá endurminningar (e. flashback) frá fyrri reynslu af ofbeldinu og getur slíkt haft veruleg áhrif á líf þeirra. Slíkar endurminningar geta til dæmis brotist fram á meðan þeir eru að stunda kynlíf með mökum sínum og getur valdið því að þeir eigi erfitt með að stunda kynlíf.2

Karlmenn sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku eru oft með mjög brotna sjálfsmynd og glíma við ýmiss konar afleiðingar ofbeldisins.

Karlmenn sem hafa verið misnotaðir í æsku fara oft út í óeðlileg sambönd. Þeir geta glímt við mikla reiði, verið óvissir með sjálfan sig og átt í vandræðum í kynlífi.12 Þeir eru líklegri til að giftast alkóhólistum og líklegri til að eiga við vandamál að stríða í hjónabandi.13 Þeir eiga það til að taka of mikla ábyrgð í tilfinningasamböndum og fara í hlutverk ofverndara með brotnum einstaklingum, að fara í hlutverk hetjunnar, að taka að sér einstaklinga sem minna mega sín og bjarga þeim því þar finna þeir mátt sinn. Þeir eiga einnig í erfiðleikum með að halda tryggð við maka sína og leiðast út í framhjáhald þar sem þeir höndla ekki tilfinningalega nánd og ábyrgðina sem henni fylgir.14 Þeir geta verið með efasemdir um eigin karlmennsku, geta verið ringlaðir eða í óvissu í sambandi við kynferðislega vitund sína. Einnig geta þeir átt við kynferðislega vanvirkni að stríða og að finnast þeir einskis nýtir fyrir það.6,15

Karlmenn með sögu um kynferðislegt ofbeldi í æsku eru í aukinni hættu á að brotið verði á þeim á fullorðinsárum. Þeir tilkynna því oftar endurtekið kynferðislegt, líkamlegt og andlegt ofbeldi á fullorðinsárum, sjálfsmynd þeirra er brotin og þeir því berskjaldaðri gagnvart endurteknu ofbeldi. Einnig geta þeir átt við vandamál að stríða tengdum þvag- og kynfærum.4,16

Þeir eru oft þjakaðir af tilfinningum um sjálfsásökun, skömm og sektarkennd sem þeir eru að berjast við dagsdaglega og hefur veruleg áhrif á sjálfsmynd, öll þeirra samskipti og kynheilbrigði. Slíkar tilfinningar tengjast því að í samfélaginu hvílir mikil þöggun þegar kemur að kynferðislegu ofbeldi gegn drengjum og því erfitt fyrir þá að stíga fram og segja frá. Ranghugmyndir, eins og að þetta sé eitthvað sem karlmenn lenda ekki í því þeir eiga að geta varið sig, eru algengar. Einnig sú ranghugmynd að karlmönnum þyki allt slíkt gott þar sem þeim getur risið hold á meðan kynferðislega ofbeldið á sér stað. Það kemur einnig inn ranghugmyndum hjá þeim sjálfum, að þetta hljóti að vera eitthvað sem þeir vilja og sé þeim að kenna því líkaminn svarar því þannig. Oft er þöggunin svo þrúgandi að karlmenn sjá enga leið út nema stytta sér aldur. Mikilvægt er að opna umræðuna um karlmenn sem eru þolendur kynferðislegs ofbeldis til að þeir eigi auðveldara með að stíga fram og segja frá. Það auðveldar þeim að leita sér hjálpar án skammar og vinna úr erfiðri lífsreynslu.

Tilvísanir:
  • 1 Levine, P.A. og Frederick, A. (1997). Waking the tiger, healing trauma. California: North Atlantic Books.
  • 2 Sigurdardottir, S., Halldorsdottir, S. og Bender, S.S. (í prentun). The danger of repressed silence: consequences of childhood sexual abuse for men’s health and well-being. Scandinavian Journal of Caring Sciences.
  • 3 Scaer, R.C. (2001). The body bears the burden. New York: The Haworth Medical Press.
  • 4 Steel, J.L. og Herlitz, C.A. (2005). The association between childhood and adolescent sexual abuse and proxies for sexual risk behavior: a random sample of the general population of Sweden. Child Abuse Neglect, 29(10): 1141-53.
  • 5 Holmes, W.C. og Slap, G.B. (1998). Sexual abuse of boys: definition, prevalence, correlates, sequelae and management. Journal of American Medical Association, 280(21): 1855-62.
  • 6 Lisak D. (1994). The psychological impact of sexual abuse: content analysis of interviews with male survivors. Journal of Traumatic Stress, 7(4): 525-48.
  • 7 Dhaliwal, G.K., Gauzas, L., Antonowicz, D.H. og Ross, R.R. (1996). Adult male survivors of childhood sexual abuse: prevalence, sexual abuse characteristics and long-term effects. Clinical Psychological Review, 16(7): 619-39.
  • 8 Feiring, C., Rosenthal, S. og Taska, L. (2000). Stigmatization and the development of friendship and romantic relationship in adolescent victims of sexual abuse. Child Maltreatment, 5(4): 311-22.
  • 9 Ystgaard, M., Hestetun, I., Loeb, M. og Mehlum, L. (2004). Is there a specific relationship between childhood sexual and physical abuse and repeated suicidal behavior? Child Abuse Neglect, 28(8): 863-75.
  • 10 Martin, G., Bergen, H.A., Richardson, A.S., Roeger, L. og Allison S. (2004). Sexual abuse and suicidality: gender differences in a large community sample of adolescents. Child Abuse Neglect, 28(5): 491-503.
  • 11 Morrow, J., Yeager, C.A. og Lewis, D.O. (1997). Encopresis and sexual abuse in a sample of boys in residential treatment. Child Abuse Neglect, 21(1): 11-18.
  • 12 Denow, M. S. (2004). The long-term effect of CSA by female perpetrators. Journal of Interpersonal Violence, 19(10), 1137-1156.
  • 13 Dube, S.R., Anda, R.F., Whitfield, C.L., Brow, D.W., Felitti, V.J., Dong, M. og Giles, W.H. (2005). Long-term consequences of childhood sexual abuse by gender of victim. American Journal of Preventive Medicine, 28(5): 430-8.
  • 14 Whiffen, V.E., Thompson, J.M. og Aube, J.A. (2000). Mediator of the link between childhood sexual abuse and adult depressive symptoms. Journal of Interpersonal Violence, 15(10): 342-51.
  • 15 Najman, J., Dunne, M., Purdie, D., Boyle, F. og Coxeter, P. (2005). Sexual abuse in childhood and sexual dysfunction in Adulthood: An Australian Population-Bsese Study. Archives of Sexual Behavior, 34(5) 517-526.
  • 16 Coxell, A.W., King, M.B., Mezey, G.C. og Kell, P. (2000). Sexual molestation of men: interviews with 224 men attending a genitourinary medicine service. International Journal of STD and AIDS, 11(9): 574-8.

Myndir:


Þetta svar er unnið í námskeiðinu HJÚ 128F Kroppurinn, kynlíf og kynheilsa, haustið 2011 í umsjá Sóleyjar S. Bender prófessors.

Höfundur

þátttakandi í námskeiðinu HJÚ 128F Kroppurinn, kynlíf og kynheilsa

Útgáfudagur

17.7.2012

Spyrjandi

N.N

Tilvísun

Sigrún Sigurðardóttir. „Hvaða áhrif getur kynferðislegt ofbeldi í æsku haft á kynheilbrigði karla?“ Vísindavefurinn, 17. júlí 2012, sótt 14. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=62613.

Sigrún Sigurðardóttir. (2012, 17. júlí). Hvaða áhrif getur kynferðislegt ofbeldi í æsku haft á kynheilbrigði karla? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=62613

Sigrún Sigurðardóttir. „Hvaða áhrif getur kynferðislegt ofbeldi í æsku haft á kynheilbrigði karla?“ Vísindavefurinn. 17. júl. 2012. Vefsíða. 14. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=62613>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða áhrif getur kynferðislegt ofbeldi í æsku haft á kynheilbrigði karla?
Kynferðislegt ofbeldi í æsku getur verið mjög alvarlegt sálrænt áfall sem getur haft víðtækar afleiðingar fyrir heilsu almennt og kynheilbrigði. Við sálrænt áfall bregst líkaminn ýmist við með því að berjast eða flýja (e. flight-or-fight response). Þegar líkaminn getur hvorki flúið né barist, þá „frýs“ hann og gerist slíkt sérstaklega við kynferðislegt ofbeldi. Einstaklingar sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi og „frjósa“ fá oft sektarkennd og fyllast skömm yfir að hafa ekkert gert til að vernda sig með því að berjast á móti eða flýja.1 Slíkar tilfinningar geta fylgt einstaklingnum um ókomin ár og haft mikil áhrif á sjálfsmynd, samskipti og kynheilbrigði.

Sumir hafa lýst því þegar líkaminn „frýs“ eins og þeir fari út úr líkamanum eða aftengist tilfinningalega. Slíkt nefnist „hugrof“ (e. dissociation) og er bjargráð til að „lifa af“ kynferðislega ofbeldið. Ef kynferðislega ofbeldið er alvarlegt og langvarandi er hætta á að þeir sem fyrir því verða, verði síðar ótengdir eigin tilfinningum og líkama sem getur brenglað mjög skynjun þeirra á sjálfum sér og öðrum.2

Þegar fólk verður óttaslegið fara ákveðin líffræðileg ferli af stað í líkamanum sem búa hann undir átök, hvort sem þau felast í flótta eða árás. Þegar hvorki er hægt að flýja né berjast þá getur líkaminn „frosið“.

Kynferðislegt ofbeldi í æsku getur haft mjög niðurbrjótandi áhrif á sjálfsmynd þeirra sem fyrir því verða og þar með kynheilbrigði. Þeir upplifa oft mikla höfnun, eiga í erfiðleikum með að mynda náin tengsl og sambönd þeirra einkennast því oft af miklu markaleysi og stjórnleysi. Ofbeldið er ógn við persónuleg mörk (e. personal boundaries) og tilveru þeirra.3 Þeir geta átt erfitt með að setja sér mörk jafnt gagnvart sjálfum sér og öðrum og tekið upp markalausa hegðun eins og ýmsa áhættuhegðun.

Dæmi um áhættuhegðun sem drengir sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi geta sýnt tengist meðal annars kynlífi og áfengi, þeir geta farið út í að nota kynlíf til að styrkja sjálfsmynd sína, kynlíf án tilfinninga og að stunda áhættusamt kynlíf með mörgum mismunandi einstaklingum.2 Þeir byrja oft að stunda kynlíf mjög ungir, verða mjög kynferðislega virkir mjög ungir, skipta ört um rekkjunauta, nota síður getnaðarvarnir og eru síður á varðbergi gagnvart kynsjúkdómum. Þá eru einnig auknar líkur á þátttöku í hópkynlífi og að leiðast út í vændi sem rekja má til markaleysis þeirra.4 Þeir eru því í meiri hættu á að fá sjúkdóma í og á kynfæri, kynsjúkdóma og alnæmi ásamt því að glíma við ófrjósemi.5,6 Einnig geta þeir verið haldnir hræðslu við samkynhneigð eða hatri út í samkynhneigða, sem tengist því sérstaklega ef þeir hafa verið misnotaðir af karlmönnum.7

Unglingsárin einkennast oft af mjög brotinni sjálfsmynd og sjálfskaðandi hegðun.8,9,10 Dæmi eru um að drengir með slíka sögu hafi ekki stjórn á hægðum þar sem þeir missa hægðir án þess að ráða við nokkuð og getur það gerst hvar og hvenær sem er. Getur slíkt haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir mótun sjálfsmyndar þeirra.2,11

Á fullorðinsárum er sjálfsmynd karlmanna með sögu um kynferðislegt ofbeldi í æsku oft mjög brotin ef þeir hafa ekki unnið úr slíkri reynslu. Þeim finnst þeir oft ekki eiga neitt gott skilið og sætta sig því oftar við að vera í óhamingjusömum og stormasömum samböndum, eins og þeim standi meira á sama um allt og alla. Þeir eru iðulega tilfinningalega aftengdir eftir kynferðislega ofbeldið og ná ekki að tengja sig aftur og læra að treysta. Þeir geta átt í erfiðleikum í samböndum, verið í mörgum misheppnuðum samböndum, burðast oft með leyndarmál sín í mörg ár og geta ekki sagt frá ofbeldinu. Af því leiðir að þeir geta orðið óheiðarlegir gagnvart mökum sínum. Hjá þeim getur kynlíf verið merki um karlmennsku og stundum er um brenglaða kynhegðun að ræða, lauslæti og kæruleysi í kynlífi. Þeir eiga til að fá endurminningar (e. flashback) frá fyrri reynslu af ofbeldinu og getur slíkt haft veruleg áhrif á líf þeirra. Slíkar endurminningar geta til dæmis brotist fram á meðan þeir eru að stunda kynlíf með mökum sínum og getur valdið því að þeir eigi erfitt með að stunda kynlíf.2

Karlmenn sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku eru oft með mjög brotna sjálfsmynd og glíma við ýmiss konar afleiðingar ofbeldisins.

Karlmenn sem hafa verið misnotaðir í æsku fara oft út í óeðlileg sambönd. Þeir geta glímt við mikla reiði, verið óvissir með sjálfan sig og átt í vandræðum í kynlífi.12 Þeir eru líklegri til að giftast alkóhólistum og líklegri til að eiga við vandamál að stríða í hjónabandi.13 Þeir eiga það til að taka of mikla ábyrgð í tilfinningasamböndum og fara í hlutverk ofverndara með brotnum einstaklingum, að fara í hlutverk hetjunnar, að taka að sér einstaklinga sem minna mega sín og bjarga þeim því þar finna þeir mátt sinn. Þeir eiga einnig í erfiðleikum með að halda tryggð við maka sína og leiðast út í framhjáhald þar sem þeir höndla ekki tilfinningalega nánd og ábyrgðina sem henni fylgir.14 Þeir geta verið með efasemdir um eigin karlmennsku, geta verið ringlaðir eða í óvissu í sambandi við kynferðislega vitund sína. Einnig geta þeir átt við kynferðislega vanvirkni að stríða og að finnast þeir einskis nýtir fyrir það.6,15

Karlmenn með sögu um kynferðislegt ofbeldi í æsku eru í aukinni hættu á að brotið verði á þeim á fullorðinsárum. Þeir tilkynna því oftar endurtekið kynferðislegt, líkamlegt og andlegt ofbeldi á fullorðinsárum, sjálfsmynd þeirra er brotin og þeir því berskjaldaðri gagnvart endurteknu ofbeldi. Einnig geta þeir átt við vandamál að stríða tengdum þvag- og kynfærum.4,16

Þeir eru oft þjakaðir af tilfinningum um sjálfsásökun, skömm og sektarkennd sem þeir eru að berjast við dagsdaglega og hefur veruleg áhrif á sjálfsmynd, öll þeirra samskipti og kynheilbrigði. Slíkar tilfinningar tengjast því að í samfélaginu hvílir mikil þöggun þegar kemur að kynferðislegu ofbeldi gegn drengjum og því erfitt fyrir þá að stíga fram og segja frá. Ranghugmyndir, eins og að þetta sé eitthvað sem karlmenn lenda ekki í því þeir eiga að geta varið sig, eru algengar. Einnig sú ranghugmynd að karlmönnum þyki allt slíkt gott þar sem þeim getur risið hold á meðan kynferðislega ofbeldið á sér stað. Það kemur einnig inn ranghugmyndum hjá þeim sjálfum, að þetta hljóti að vera eitthvað sem þeir vilja og sé þeim að kenna því líkaminn svarar því þannig. Oft er þöggunin svo þrúgandi að karlmenn sjá enga leið út nema stytta sér aldur. Mikilvægt er að opna umræðuna um karlmenn sem eru þolendur kynferðislegs ofbeldis til að þeir eigi auðveldara með að stíga fram og segja frá. Það auðveldar þeim að leita sér hjálpar án skammar og vinna úr erfiðri lífsreynslu.

Tilvísanir:
  • 1 Levine, P.A. og Frederick, A. (1997). Waking the tiger, healing trauma. California: North Atlantic Books.
  • 2 Sigurdardottir, S., Halldorsdottir, S. og Bender, S.S. (í prentun). The danger of repressed silence: consequences of childhood sexual abuse for men’s health and well-being. Scandinavian Journal of Caring Sciences.
  • 3 Scaer, R.C. (2001). The body bears the burden. New York: The Haworth Medical Press.
  • 4 Steel, J.L. og Herlitz, C.A. (2005). The association between childhood and adolescent sexual abuse and proxies for sexual risk behavior: a random sample of the general population of Sweden. Child Abuse Neglect, 29(10): 1141-53.
  • 5 Holmes, W.C. og Slap, G.B. (1998). Sexual abuse of boys: definition, prevalence, correlates, sequelae and management. Journal of American Medical Association, 280(21): 1855-62.
  • 6 Lisak D. (1994). The psychological impact of sexual abuse: content analysis of interviews with male survivors. Journal of Traumatic Stress, 7(4): 525-48.
  • 7 Dhaliwal, G.K., Gauzas, L., Antonowicz, D.H. og Ross, R.R. (1996). Adult male survivors of childhood sexual abuse: prevalence, sexual abuse characteristics and long-term effects. Clinical Psychological Review, 16(7): 619-39.
  • 8 Feiring, C., Rosenthal, S. og Taska, L. (2000). Stigmatization and the development of friendship and romantic relationship in adolescent victims of sexual abuse. Child Maltreatment, 5(4): 311-22.
  • 9 Ystgaard, M., Hestetun, I., Loeb, M. og Mehlum, L. (2004). Is there a specific relationship between childhood sexual and physical abuse and repeated suicidal behavior? Child Abuse Neglect, 28(8): 863-75.
  • 10 Martin, G., Bergen, H.A., Richardson, A.S., Roeger, L. og Allison S. (2004). Sexual abuse and suicidality: gender differences in a large community sample of adolescents. Child Abuse Neglect, 28(5): 491-503.
  • 11 Morrow, J., Yeager, C.A. og Lewis, D.O. (1997). Encopresis and sexual abuse in a sample of boys in residential treatment. Child Abuse Neglect, 21(1): 11-18.
  • 12 Denow, M. S. (2004). The long-term effect of CSA by female perpetrators. Journal of Interpersonal Violence, 19(10), 1137-1156.
  • 13 Dube, S.R., Anda, R.F., Whitfield, C.L., Brow, D.W., Felitti, V.J., Dong, M. og Giles, W.H. (2005). Long-term consequences of childhood sexual abuse by gender of victim. American Journal of Preventive Medicine, 28(5): 430-8.
  • 14 Whiffen, V.E., Thompson, J.M. og Aube, J.A. (2000). Mediator of the link between childhood sexual abuse and adult depressive symptoms. Journal of Interpersonal Violence, 15(10): 342-51.
  • 15 Najman, J., Dunne, M., Purdie, D., Boyle, F. og Coxeter, P. (2005). Sexual abuse in childhood and sexual dysfunction in Adulthood: An Australian Population-Bsese Study. Archives of Sexual Behavior, 34(5) 517-526.
  • 16 Coxell, A.W., King, M.B., Mezey, G.C. og Kell, P. (2000). Sexual molestation of men: interviews with 224 men attending a genitourinary medicine service. International Journal of STD and AIDS, 11(9): 574-8.

Myndir:


Þetta svar er unnið í námskeiðinu HJÚ 128F Kroppurinn, kynlíf og kynheilsa, haustið 2011 í umsjá Sóleyjar S. Bender prófessors....