Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Pólski barnalæknirinn, uppeldisfræðingurinn og rithöfundurinn Henryk Goldszmit (1878-1942) er betur þekktur undir rithöfundanafninu Janusz Korczak. Hann var af gyðingaættum og ólst upp við velsæld í samheldinni lögfræðifjölskyldu.
Korczak var einn af þeim barnalæknum, við upphaf 20. aldar, sem beittu sér fyrir samfélagsbreytingum og nýrri hugsun varðandi uppeldi barna. Hugsjónir hans beindust að betri heimi með því að rífa niður það fúna og gamla og byggja hið nýja upp á grundvelli skynsemi og vísinda. Umræðan á þessum tíma snerist mikið um hvaða leiðir væru heppilegastar til að breyta samfélaginu.
Janusz Korczak (1878-1942).
Korczak varð eitt af fórnarlömbum fjöldamorða nasista á gyðingum í Póllandi, en hugmyndafræði og gildi Korczak voru í algeri andstöðu við hugmyndafræði nasismans. Hroki valdsins og fyrirlitning á þeim veika voru í hróplegu ósamræmi við samstöðu og kærleika sem Korczak vildi standa vörð um.
Goðsögnin segir að Korczak hafi verið boðin grið þegar 200 börn og starfsmenn af barnaheimilinu í Varsjá, sem hann veitti forstöðu, voru leidd inn í gasklefana í Treblinka. Hann afþakkaði og lét lífið með þeim börnum sem hann hafði reynt að vernda og skapa betra líf. Þetta gerðist 5. ágúst 1942.
Það eru í raun þrjár ástæður fyrir því að nafn Korczks hefur lifað í sögu uppeldis og menntunar. Þessar ástæður eru helstar:
Hann var frumkvöðull, ásamt mörgum öðrum, í því að berjast fyrir auknum réttindum barna. Líta má á Genfaryfirlýsinguna frá árinu 1923 sem forvera Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en hann var samþykktur af allsherjarþinginu árið 1989. Korczak kom að samningu þessa sáttmála og hafði mótandi áhrif á inntak hans.
Í hugmyndum sínum um menntun og skólamál mótaði hann og aðlagaði hugmyndir framsækniskólans (e. progressive schools), sem þróaðist í Bandaríkjunum, að austurevrópskum aðstæðum.
Í þriðja lagi er hann ákveðin fyrirmynd hvað varðar að bæta stöðu barna í erfiðum aðstæðum stríðsins með því að hafa það sem barni er fyrir bestu að leiðarljósi (Hartman, 2005).
Korczak var einn af þeim mörgu sem lesið höfðu bók Ellen Key Öld barnsins (Barnets århundrad) sem út kom árið 1900. Bæði höfðu áhuga á náttúruvísindum, réttindamálum barna og barnamenningu. Ef til vill á Korczak þó mestu samleið með Pestalozzi (1746-1827) varðandi starf meðal barna, því báðir tóku að sér foreldralaus börn á stríðstímum. Báðir voru húmanistar og sú hugmyndafræði mótaði mjög hugsun þeirra, lífssýn og starf.
Minnisvarði um Korczak í Varsjá, Póllandi.
Eins og margir aðrir framsæknir (e. progressive) uppeldisfrömuðir (sbr. John Dewey), á hans tíma, hafði sú hugmyndafræði mikil áhrif á þær aðferðir sem hann þróaði á barnaheimilinu. Starfið mótaðist og einkenndist af lýðræðislegum starfsháttum, þátttöku barnanna og áherslu á sjálfræði þeirra. Á barnaheimilinu var til dæmis starfræktur jafningjadómstóll sem tók fyrir ýmis brot á reglum og einnig var starfrækt þing þar sem börn og allir starfsmenn fengu tækifæri til að tjá sig um starfið á barnaheimilinu.
Sýn Korczaks á samfélagið mótaðist mjög af þeirri skoðun hans að réttindi barna væru ekki virt í heimi hinna fullorðnu. Hann hélt því fram að samfélagið liti ekki á börn sem fullgildar manneskjur, heldur að börn yrðu fullgild í framtíðinni. Þessari sýn var Korczak mótfallinn. Hann vildi leggja áherslu á lýðræði, frjáls skoðanaskipti við skipulagðar aðstæður og virka þátttöku barnanna í skipulagi starfsins á barnaheimilinu.
Virðing fyrir réttindum barna, aukið réttlæti fyrir öll börn og réttur barna á betri heimi er lykillinn að góðri uppeldisfræði að mati Korczaks og kjarnaatriði í kenningum hans.
Heimildir og myndir:
Hartmann, S. (2005). Det pedagogiska kulturarvet. Stockholm: Natur och Kultur.
Korczak, J. (1992). Hur man älskar ett barn. Stockholm: HLS Förlag.
Korczak, J. (2003). Barnets rätt till respekt. Stockholm: Natur och Kultur.
Mathiasson, L. (2004). (Ritstj.). Janusz Korczak och barnens värld. Lund: Studentlitteratur.
Mathiasson, L. (2004). Janusz Korczak – ett porträtt. Í L. Mathiasson, Janusz Korczak och barnens värld. (bls. 13-24). Lund: Studentlitteratur.
Mynd af Korczak: Culture.pl. Myndin upphaflega komin frá National Digital Archive (NAC). Sótt 23. 5. 2012.
Gunnar E. Finnbogason. „Hvert var framlag Janusz Korczak til uppeldis- og menntamála?“ Vísindavefurinn, 24. maí 2012, sótt 13. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=62659.
Gunnar E. Finnbogason. (2012, 24. maí). Hvert var framlag Janusz Korczak til uppeldis- og menntamála? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=62659
Gunnar E. Finnbogason. „Hvert var framlag Janusz Korczak til uppeldis- og menntamála?“ Vísindavefurinn. 24. maí. 2012. Vefsíða. 13. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=62659>.