Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þessi spurning snýst bæði um siðferðislega og efnahagslega þætti en stjórnmál ganga einmitt út á samspil þeirra. Stjórnmál fjalla að miklu leyti um samband okkar við aðra og það kerfi sem stýrir þeim samskiptum. Hins vegar er hér verið að spyrja um hvort ákvörðun einstaklings um kaup á tiltekinni vöru séu réttmæt. Fyrstu viðbrögð marga kunna því að vera að þau komi aðeins buddu einstaklingsins við.
Sé spurningin skoðuð í því ljósi mætti vel draga réttmæti slíkra kaupa í efa, sér í lagi ef við höfum í huga hversu stór hluti meðaltekna á Íslandi færi í kaupin. Þá værum við hins vegar að svara spurningunni fyrst og fremst út frá einhvers konar skynsemisforsendum en ekki forsendum siðferðis eða siðfræðinnar.
Siðferði er fólgið í þeim reglum (í víðum skilningi orðsins) er varða lifnaðarhætti okkar, breytni og samskipti við annað fólk, dýr og jafnvel umhverfið líka – með öðrum orðum þeim kröfum sem gerðar eru til okkar um hegðun og breytni – einkum að svo miklu leyti sem þessu verður lýst sem góðu eða slæmu, réttu eða röngu.
Með þessa skilgreiningu í huga væri hægt að rökstyðja siðferðislegt réttmæti þess að kaupa Iphone5 á 190.000 krónur. Slík kaup eru alla jafna samþykkt á Íslandi, svo framarlega sem einstaklingur hefur efni á símanum. En þótt eitthvað sé siðferðislega réttmætt á einum tímapunkti þá þarf það ekki að þýða að svo muni alltaf verða. Við erum ekki alltaf sátt við ríkjandi siðferði í okkar samfélagi og siðfræðin gengur einmitt út á að huga að því hvaða hugsjónir við höfum um siðferðislega rétta breytni. Ein slík hugsjón gæti gengið út á að viðhalda ekki kerfi sem gangi út á einhvers konar ójöfnuð eða valdi, og jafnvel viðhaldi, þjáningu sumra.
Út frá þessu væri áhugavert að spyrja sig aftur að því hvort að kaup á vöru eins og Iphone komi einhverjum öðrum við en bara okkur og okkar buddu. Til þess að svara þessu er hægt að líta til hugmyndar Karls Marx um svonefnt blætiseðli vörunnar. Hana er að finna í ritinu Auðmagnið. Hugmyndin gengur ekki beint út á aðdráttarafl söluvörunnar sjálfrar eins og svo margir halda; hvað það er sem fær okkur til þess að neyta varnings í því magni sem við gerum. Blætiseðli vörunnar varpar ljósi á hvernig að söluvörur og peningar öðlast sjálfstæða tilvist í hugum okkar. Vegna blætiseðlisins er eins og iPhone-inn og kreditkortið okkar eigi í samskiptum, frekar en við sjálf og það fólk sem býr til og selur vöruna.
Þannig hylur blætiseðli vörunnar þá staðreynd að þegar við kaupum hluti þá erum við í raun í samskiptum við fólk víðsvegar á jörðinni. Í tilfelli iPhone-símans eigum við meðal annars í samskiptum við sölufólk Apple-fyrirtækisins, þá sem búa til iPhone, þá sem forrita hugbúnað símans og þá sem vinna að frumframleiðslu vörunnar.
Og þá getum við spurt okkur: Hvert fara 190.000 krónurnar sem við borgum fyrir símann? Fara þær jafnt til allra þeirra sem koma að vinnslu símans? Eða skiptist upphæðin eftir einhverju öðru kerfi til einstaklinganna.
Um það leyti sem að Iphone5 var settur á markað árið 2012, runnu mjög fáar af þeim 190.000 íslensku krónum í vasa frumframleiðanda vörunnar. Frumframleiðendur tæknivarnings búa oftast í Asíu, aðallega í Kína. Verðlag er oftar en ekki allt annað í Kína og þeim Asíulöndum sem framleiða tæknivörur en á Íslandi. Þar er mun ódýrara að lifa en engu að síður er kaupmáttur launa þar mun minni. Að venju eru vinnudagarnir þar tólf klukkustundir og unnið sex daga í viku.
Tæknivörur vestrænna fyrirtækja eru oft framleiddar í kínverskum verksmiðjum.
Vegna efnahagslega kerfisbreytinga sem áttu upptök sín í svonefndum efnahagslegum umbótum Deng Xiaoping undir nafninu „Sósíalískt markaðshagkerfi“ frá 1978 hefur þróunin verið sú að fátækt hefur farið vaxandi í sveitahéruðum Kína. Það hefur leitt til gríðarlegra fólksflutninga og þéttbýlismyndunar stórborga. Í verksmiðjum Foxconn, sem er verktakafyrirtæki sem býr til tæknivörur ýmissa vestrænna fyrirtækja, þar á meðal Apple, starfa margir sem hafa flúið fátækt sveitahéraða Kína. Verkamennirnir búa oft á stórum heimavistum og senda fé til fátækra ættingja í sveitum. Ef meðalmanneskja á Íslandi á erfitt með að kaupa slíka tæknivöru á þessu verði þá er það nánast ógerningur fyrir það fólk sem framleiðir vöruna.
Með því að kaupa flestallan tæknivarning erum við í það minnsta að taka þátt í ójafnri dreifingu auðæfa um hnöttinn, ef ekki beinlínis að valda þjáningu annars staðar á hnettinum. Ef við drögum siðferðislega réttlætingu þess að kaupa iPhone5 í efa á þessum forsendum þá verðum við einnig að draga siðferðislega réttlætingu þess að kaupa nánast allan tæknivarning í efa, því flestöll fjölþjóða stórfyrirtæki hafa svipað skipulag og Apple. Mörg slík stórfyrirtæki hafa unnið að því að bæta aðstæður verkafólks og þá sérstaklega þegar hneykslismál um vinnukjör þeirra koma upp. En jafnvel þegar lágmarkslaun í löndum á borð við Kína eru tryggð þá er misskipting auðs á hnattræna vísu mikil.
Þessi spurning leiðir í raun af sér eftirfarandi spurningu: Er siðferðislega réttlætanlegt að taka þátt í kerfi sem að viðheldur ójafnri dreifingu auðs og ójöfnu hlutskipti manneskja? Í það minnsta væri að öllum líkindum siðferðislega réttmætara að borga helmingi meira fyrir iPhone5, eða aðrar tæknivörur af sama tagi, ef það myndi tryggja efnahagslega velferð frumframleiðenda vörunnar.
Heimildir:
Harvey, David, Brief History of Neoliberalism, Oxford Univeristy Press, Oxford 2005.
Nanna Hlín Halldórsdóttir. „Er siðferðilega réttlætanlegt að eyða 190.000 kr. í iPhone 5?“ Vísindavefurinn, 27. september 2013, sótt 7. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=63459.
Nanna Hlín Halldórsdóttir. (2013, 27. september). Er siðferðilega réttlætanlegt að eyða 190.000 kr. í iPhone 5? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=63459
Nanna Hlín Halldórsdóttir. „Er siðferðilega réttlætanlegt að eyða 190.000 kr. í iPhone 5?“ Vísindavefurinn. 27. sep. 2013. Vefsíða. 7. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=63459>.