Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:26 • Sest 25:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:34 • Síðdegis: 24:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:26 • Sest 25:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:34 • Síðdegis: 24:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Nær maður að taka inn eitthvað af steinefnum eftir hálftíma bað í steinefnabættu vatni?

Atli Jósefsson

Húð landspendýra eins og mannsins virkar sem varnarmúr og kemur í veg fyrir að of mikið af vatni og lífsnauðsynlegum steinefnum tapist út í umhverfið. Húðin er samsett úr tveimur lögum; leðri (dermis) og yfirhúð (epidermis). Yfirhúðin er lagskipt en ysta lagið, hornlag (stratum corneum) er langsamlega þéttast og á mestan þátt í að gera húðina ógegndræpa. Hornlagið er samsett úr mörgum lögum af samanpressuðum hornfrumum sem eru umluktar fitu. Flestar sameindir og jónir eiga því ekki greiða leið í gegnum húðina nema ef hornlagið verður fyrir skemmdum, til dæmis við bruna eða alvarlega húðsjúkdóma.1,2

Þéttleiki húðarinnar er samt sem áður ekki fullkominn og á hverjum degi tapast örlítið vatn í gegnum húðina og sýnt hefur verið fram á það með tilraunum að jónir geta sveimað í gegnum húðina í afar litlum mæli.3 Í einni tilraun frá miðri síðustu öld var vökvi með geislavirku salti látinn liggja á húð hægri handar manns en hálftíma síðar mældist örlítil geislavirkni frá vinstri hendi hans sem sýndi fram á að brot af jónum í vatnslausn getur farið yfir húðina og út í blóðrásina.4 Líklegast er talið að þessi litla upptaka jóna eigi sér stað í gegnum kirtla og/eða hársekki því samkvæmt núverandi kenningum í líffræði er hornlagið að miklu leyti ógegndræpt fyrir hlöðnum eindum eins og jónum.5 Almennt séð geta þættir eins og vötnun húðarinnar, stærð og hleðsla sameinda, hitastig, sýrustig, aldur og fleira haft áhrif á gegndræpi húðarinnar. Gegndræpið er minnst þar sem húðin er þykkust, svo sem á lófum en meira þar sem húðin er þynnst, eins og á pung (scrotum).6

Baðsölt geta verið góð fyrir húð og sál, en steinefni er líklega best að fá úr fæðu. Húðin er ekki þróuð sem frásogslíffæri eins og meltingarvegurinn í okkur.

Á síðustu áratugum hafa ekki verið gerðar margar rannsóknir á gegndræpi húðarinnar fyrir steinefnum (sem eru á formi jóna þegar þau leysast upp í vatni). Áhugi vísindamanna hefur í meira mæli beinst að því að kanna hversu vel sum eiturefni komast í gegnum húðina (frásogast) og ekki síður hvernig hægt er að koma ákveðnum lyfjum í gegnum húð (e. transdermal absorption).7 Sumar litlar fituleysanlegar og tvígæfar sameindir geta sveimað án mikilla vandræða yfir húðina og hefur það gert læknavísindunum kleift að þróa lyfjaplástra og lyfjagel sem meðal annars eru notuð til flytja lyf eins og kynhormón, nikótín og ferðaveikilyf í gegnum húðina. Slíkt lyfjaform hentar vel þegar koma þarf lyfjum inn í líkamann í litlum mæli yfir langan tíma, þar sem þessi lyf frásogast margfalt hægar í gegnum húð en í gegnum frumuþekju meltingarvegarins.8

Ekki er talið líklegt að steinefni sem leyst eru upp í baðvatni séu tekin upp í það miklum mæli að þau hafi áhrif á heildarstyrk steinefna í utanfrumuvökva líkamans. Þess ber þó að geta að ekki hafa verið gerðar beinar tilraunir á steinefnaupptöku í heitu baðvatni eins og spurt er um hér. Gegndræpi húðarinnar fyrir flestum efnum eykst þegar við liggjum í heitu vatni en ef það væri umtalsvert væri hætt við að við lentum í vandræðum vegna taps á mikilvægum steinefnum í hvert skipti sem við böðum okkur í tæru vatni.

Á nokkrum vefsíðum er því haldið fram af framleiðendum og sölumönnum baðsalta sem innihalda magnesínsúlfat að magnesín geti auðveldlega flætt í gegnum húðina úr baðvatni og aukið þar með styrk efnisins í líkamanum. Í því samhengi er gjarnan vitnað í litla rannsókn9 sem gerð var við Háskólann í Birmingham árið 1994 og á að sýna að blóðstyrkur magnesíns hafi aukist hjá fólki sem sat í 12 mínútur í 50-55°C heitu baðvatni sem innihélt svokallað Epsom-salt (magnesínsúlfat-heptahýdrat). Þessi rannsókn sem aldrei fékkst birt í vísindatímaritum uppfyllir ekki skilyrði vísindalegra vinnubragða. Svo heitt baðvatn mundi valda þriðja stigs bruna húðarinnar á örfáum mínútum svo setja verður stórt spurningamerki við niðurstöðurnar.10

Ef notuð er þekkt nálgun á sveimi efna yfir himnur, svokallað lögmál Ficks má áætla hversu mikið styrkur magnesíns í utanfrumuvökvanum mundi hækka ef einstaklingur lægi í eina klukkustund í baði (60 l) sem búið væri að leysa upp í eitt kíló af Epsom-salti. (Þar sem gegndræpisstuðull magnesíns fyrir mannshúð er ekki þekktur verður að notast við gegndræpisstuðul nikkeljónarinnar sem einnig er tvígild).7,11 Við þessar aðstæður mundi magnesínstyrkur utanfrumuvökvans aukast úr um það bil 1,0 mól/l í 1,0043 mól/l eða um 0,43%. Þótt þetta séu grófir útreikningar sem taka ekki tillit til allra aðstæðna verður að teljast afar ólíklegt að hægt sé að hafa teljandi áhrif á steinefnastyrk líkamans með því að liggja í steinefnabaði.

Rétt er að geta þess að nokkrar rannsóknir sem gerðar hafa verið benda til þess að bað í magnesínsúlfatlausn geti haft heilsusamleg áhrif á húðina að öðru leyti.12,13

Hafi einhver rökstuddan grun um að hann skorti steinefni er baðferð því líklega ekki vænleg til árangurs. Þó að yfirborð húðarinnar sé næstum tveir fermetrar í fullorðnum einstaklingi er húðin ekki þróuð sem frásogslíffæri eins og meltingarvegurinn. Í smáþörmunum fer fram virk upptaka nauðsynlegra steinefna yfir einfalt frumulag sem er um 300 fermetrar að flatarmáli eða um 150 sinnum stærra en flatarmál húðarinnar.

Tilvísanir:

  • 1 Ramos-e-Silva, M. and C. Jacques, Epidermal barrier function and systemic diseases. Clin Dermatol, 2012. 30(3): 277-9.
  • 2 Proksch, E., J.M. Brandner, and J.M. Jensen, The skin: an indispensable barrier. Exp Dermatol, 2008. 17(12): 1063-72.
  • 3 Kalia, Y.N., et al., Ion mobility across human stratum corneum in vivo. J Pharm Sci, 1998. 87(12): 1508-11.
  • 4 Johnston, G.W. and C.O. Lee, A radioactive method of testing absorption from ointmen base. J. Amer. Pharm. Ass., Sci., 1943. 32(278).
  • 5 Grimnes, S., Pathways of Ionic Flow Through Human Skin in vivo. Acta Derm Venereol, 1984. 64(2): 93-98.
  • 6 Brisson, P., Percutaneous absorption. Can Med Assoc J, 1974. 110(10): 1182-5.
  • 7 Tanojo, H., et al., In vitro permeation of nickel salts through human stratum corneum. Acta Derm Venereol Suppl (Stockh), 2001(212): 19-23.
  • 8 Alexander, A., et al., Approaches for breaking the barriers of drug permeation through transdermal drug delivery. J Control Release, 2012. 164(1): 26-40.
  • 9 Waring, R.H., Report on Absorption of magnesium sulfate (Epsom salts) across the skin. 2004.
  • 10 Moritz, A.R. and F.C. Henriques, Studies of Thermal Injury: II. The Relative Importance of Time and Surface Temperature in the Causation of Cutaneous Burns. Am J Pathol, 1947. 23(5): 695-720.
  • 11 Tregear, R.T., The permeability of mammalian skin to ions. J Invest Dermatol, 1966. 46(1): 16-23.
  • 12 Proksch, E., et al., Bathing in a magnesium-rich Dead Sea salt solution improves skin barrier function, enhances skin hydration, and reduces inflammation in atopic dry skin. Int J Dermatol, 2005. 44(2): 151-7.
  • 13 Ma'or, Z., et al., Dead Sea mineral-based cosmetics--facts and illusions. Isr J Med Sci, 1996. 32 Suppl: S28-35.

Mynd:

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Hversu mikil er inntaka steinefna í gegnum húð? Ef þú liggur í hálftíma í steinefnabættu vatni sem dæmi?

Höfundur

Atli Jósefsson

aðjunkt í lífeðlisfræði

Útgáfudagur

28.1.2013

Spyrjandi

Snædís Ylfa Sveinsdóttir

Tilvísun

Atli Jósefsson. „Nær maður að taka inn eitthvað af steinefnum eftir hálftíma bað í steinefnabættu vatni?“ Vísindavefurinn, 28. janúar 2013, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=63730.

Atli Jósefsson. (2013, 28. janúar). Nær maður að taka inn eitthvað af steinefnum eftir hálftíma bað í steinefnabættu vatni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=63730

Atli Jósefsson. „Nær maður að taka inn eitthvað af steinefnum eftir hálftíma bað í steinefnabættu vatni?“ Vísindavefurinn. 28. jan. 2013. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=63730>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Nær maður að taka inn eitthvað af steinefnum eftir hálftíma bað í steinefnabættu vatni?
Húð landspendýra eins og mannsins virkar sem varnarmúr og kemur í veg fyrir að of mikið af vatni og lífsnauðsynlegum steinefnum tapist út í umhverfið. Húðin er samsett úr tveimur lögum; leðri (dermis) og yfirhúð (epidermis). Yfirhúðin er lagskipt en ysta lagið, hornlag (stratum corneum) er langsamlega þéttast og á mestan þátt í að gera húðina ógegndræpa. Hornlagið er samsett úr mörgum lögum af samanpressuðum hornfrumum sem eru umluktar fitu. Flestar sameindir og jónir eiga því ekki greiða leið í gegnum húðina nema ef hornlagið verður fyrir skemmdum, til dæmis við bruna eða alvarlega húðsjúkdóma.1,2

Þéttleiki húðarinnar er samt sem áður ekki fullkominn og á hverjum degi tapast örlítið vatn í gegnum húðina og sýnt hefur verið fram á það með tilraunum að jónir geta sveimað í gegnum húðina í afar litlum mæli.3 Í einni tilraun frá miðri síðustu öld var vökvi með geislavirku salti látinn liggja á húð hægri handar manns en hálftíma síðar mældist örlítil geislavirkni frá vinstri hendi hans sem sýndi fram á að brot af jónum í vatnslausn getur farið yfir húðina og út í blóðrásina.4 Líklegast er talið að þessi litla upptaka jóna eigi sér stað í gegnum kirtla og/eða hársekki því samkvæmt núverandi kenningum í líffræði er hornlagið að miklu leyti ógegndræpt fyrir hlöðnum eindum eins og jónum.5 Almennt séð geta þættir eins og vötnun húðarinnar, stærð og hleðsla sameinda, hitastig, sýrustig, aldur og fleira haft áhrif á gegndræpi húðarinnar. Gegndræpið er minnst þar sem húðin er þykkust, svo sem á lófum en meira þar sem húðin er þynnst, eins og á pung (scrotum).6

Baðsölt geta verið góð fyrir húð og sál, en steinefni er líklega best að fá úr fæðu. Húðin er ekki þróuð sem frásogslíffæri eins og meltingarvegurinn í okkur.

Á síðustu áratugum hafa ekki verið gerðar margar rannsóknir á gegndræpi húðarinnar fyrir steinefnum (sem eru á formi jóna þegar þau leysast upp í vatni). Áhugi vísindamanna hefur í meira mæli beinst að því að kanna hversu vel sum eiturefni komast í gegnum húðina (frásogast) og ekki síður hvernig hægt er að koma ákveðnum lyfjum í gegnum húð (e. transdermal absorption).7 Sumar litlar fituleysanlegar og tvígæfar sameindir geta sveimað án mikilla vandræða yfir húðina og hefur það gert læknavísindunum kleift að þróa lyfjaplástra og lyfjagel sem meðal annars eru notuð til flytja lyf eins og kynhormón, nikótín og ferðaveikilyf í gegnum húðina. Slíkt lyfjaform hentar vel þegar koma þarf lyfjum inn í líkamann í litlum mæli yfir langan tíma, þar sem þessi lyf frásogast margfalt hægar í gegnum húð en í gegnum frumuþekju meltingarvegarins.8

Ekki er talið líklegt að steinefni sem leyst eru upp í baðvatni séu tekin upp í það miklum mæli að þau hafi áhrif á heildarstyrk steinefna í utanfrumuvökva líkamans. Þess ber þó að geta að ekki hafa verið gerðar beinar tilraunir á steinefnaupptöku í heitu baðvatni eins og spurt er um hér. Gegndræpi húðarinnar fyrir flestum efnum eykst þegar við liggjum í heitu vatni en ef það væri umtalsvert væri hætt við að við lentum í vandræðum vegna taps á mikilvægum steinefnum í hvert skipti sem við böðum okkur í tæru vatni.

Á nokkrum vefsíðum er því haldið fram af framleiðendum og sölumönnum baðsalta sem innihalda magnesínsúlfat að magnesín geti auðveldlega flætt í gegnum húðina úr baðvatni og aukið þar með styrk efnisins í líkamanum. Í því samhengi er gjarnan vitnað í litla rannsókn9 sem gerð var við Háskólann í Birmingham árið 1994 og á að sýna að blóðstyrkur magnesíns hafi aukist hjá fólki sem sat í 12 mínútur í 50-55°C heitu baðvatni sem innihélt svokallað Epsom-salt (magnesínsúlfat-heptahýdrat). Þessi rannsókn sem aldrei fékkst birt í vísindatímaritum uppfyllir ekki skilyrði vísindalegra vinnubragða. Svo heitt baðvatn mundi valda þriðja stigs bruna húðarinnar á örfáum mínútum svo setja verður stórt spurningamerki við niðurstöðurnar.10

Ef notuð er þekkt nálgun á sveimi efna yfir himnur, svokallað lögmál Ficks má áætla hversu mikið styrkur magnesíns í utanfrumuvökvanum mundi hækka ef einstaklingur lægi í eina klukkustund í baði (60 l) sem búið væri að leysa upp í eitt kíló af Epsom-salti. (Þar sem gegndræpisstuðull magnesíns fyrir mannshúð er ekki þekktur verður að notast við gegndræpisstuðul nikkeljónarinnar sem einnig er tvígild).7,11 Við þessar aðstæður mundi magnesínstyrkur utanfrumuvökvans aukast úr um það bil 1,0 mól/l í 1,0043 mól/l eða um 0,43%. Þótt þetta séu grófir útreikningar sem taka ekki tillit til allra aðstæðna verður að teljast afar ólíklegt að hægt sé að hafa teljandi áhrif á steinefnastyrk líkamans með því að liggja í steinefnabaði.

Rétt er að geta þess að nokkrar rannsóknir sem gerðar hafa verið benda til þess að bað í magnesínsúlfatlausn geti haft heilsusamleg áhrif á húðina að öðru leyti.12,13

Hafi einhver rökstuddan grun um að hann skorti steinefni er baðferð því líklega ekki vænleg til árangurs. Þó að yfirborð húðarinnar sé næstum tveir fermetrar í fullorðnum einstaklingi er húðin ekki þróuð sem frásogslíffæri eins og meltingarvegurinn. Í smáþörmunum fer fram virk upptaka nauðsynlegra steinefna yfir einfalt frumulag sem er um 300 fermetrar að flatarmáli eða um 150 sinnum stærra en flatarmál húðarinnar.

Tilvísanir:

  • 1 Ramos-e-Silva, M. and C. Jacques, Epidermal barrier function and systemic diseases. Clin Dermatol, 2012. 30(3): 277-9.
  • 2 Proksch, E., J.M. Brandner, and J.M. Jensen, The skin: an indispensable barrier. Exp Dermatol, 2008. 17(12): 1063-72.
  • 3 Kalia, Y.N., et al., Ion mobility across human stratum corneum in vivo. J Pharm Sci, 1998. 87(12): 1508-11.
  • 4 Johnston, G.W. and C.O. Lee, A radioactive method of testing absorption from ointmen base. J. Amer. Pharm. Ass., Sci., 1943. 32(278).
  • 5 Grimnes, S., Pathways of Ionic Flow Through Human Skin in vivo. Acta Derm Venereol, 1984. 64(2): 93-98.
  • 6 Brisson, P., Percutaneous absorption. Can Med Assoc J, 1974. 110(10): 1182-5.
  • 7 Tanojo, H., et al., In vitro permeation of nickel salts through human stratum corneum. Acta Derm Venereol Suppl (Stockh), 2001(212): 19-23.
  • 8 Alexander, A., et al., Approaches for breaking the barriers of drug permeation through transdermal drug delivery. J Control Release, 2012. 164(1): 26-40.
  • 9 Waring, R.H., Report on Absorption of magnesium sulfate (Epsom salts) across the skin. 2004.
  • 10 Moritz, A.R. and F.C. Henriques, Studies of Thermal Injury: II. The Relative Importance of Time and Surface Temperature in the Causation of Cutaneous Burns. Am J Pathol, 1947. 23(5): 695-720.
  • 11 Tregear, R.T., The permeability of mammalian skin to ions. J Invest Dermatol, 1966. 46(1): 16-23.
  • 12 Proksch, E., et al., Bathing in a magnesium-rich Dead Sea salt solution improves skin barrier function, enhances skin hydration, and reduces inflammation in atopic dry skin. Int J Dermatol, 2005. 44(2): 151-7.
  • 13 Ma'or, Z., et al., Dead Sea mineral-based cosmetics--facts and illusions. Isr J Med Sci, 1996. 32 Suppl: S28-35.

Mynd:

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Hversu mikil er inntaka steinefna í gegnum húð? Ef þú liggur í hálftíma í steinefnabættu vatni sem dæmi?

...