Sólin Sólin Rís 03:29 • sest 23:24 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 03:35 • Sest 09:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:38 • Síðdegis: 23:07 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:33 • Síðdegis: 16:38 í Reykjavík

Getið þið sagt mér einhverjar þjóðsögur um hrafninn?

Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir

Þjóðsögur af hröfnum í íslenskum þjóðsagnasöfnum og ritum um þjóðlegan fróðleik eru flestar tengdar spásagnargáfu hrafnsins og fjalla um hann sem feigðarboða. Mikil hjátrú er bundin við fuglinn og víðast hvar í heiminum er hann talinn illur fyrirboði, en það er þó ekki algilt.

Mörg grundvallarminni í íslenskum þjóðsögum um hrafninn er þegar finna í rituðum heimildum frá því fyrir Krists burð og á fyrstu öldunum þar á eftir. Má þar nefna goðsögur og sagnfræðileg rit, auk skáldskapar. Í þessum ritum koma meðal annars fyrir minnin um hinn talandi hrafn, hræfuglinn, hrafninn sem illan fyrirboða og sálir í hrafnslíki. Hrafninn sem sendiboði guðanna og leiðsögumaður birtist einnig í mjög gömlum heimildum. Frásögnin í Landnámu um hrafnana þrjá, sem Hrafna-Flóki blótaði til heilla áður en hann lagði upp í leit sína að Íslandi, og hlutur þeirra í fundi Íslands er goðsagnaefni sem minnir á aldagamlar frásagnir um hlut fugla í landafundum.

Mikil hjátrú er bundin við hrafninn og víðast hvar í heiminum er hann talinn illur fyrirboði, en það er þó ekki algilt

Í miðaldakveðskap og íslenskum fornsögum birtist hrafninn fyrst og fremst sem spáfugl og fyrirboði, og er í nánum tengslum við minnið um hræfuglinn. Hræfuglinn er þar einkum fugl vígvallarins, heillafugl vígamannsins á leið til orrustu. Fugl vígvallarins birtist ekki í þjóðsögum og sögnum, enda söguheimur þeirra gjörólíkur sagnaheimi eddukvæða og fornsagna. Hrafninn boðar fólki vissulega feigð í þjóðsögum, en hræfuglinn birtist þar ekki á föllnum vígamönnum, heldur mönnum sem farast af slysförum, svo og skepnum.

Í íslenskum þjóðsögum er dregin upp fremur dökk mynd af hrafninum og er hann fyrst og fremst feigðarboði, en einnig hræfugl og heljarfugl. Í þjóðsögunum blandast saman ýmis minni tengd honum. Hrafnar Óðins skildu mál manna og guða og fluttu Óðni tíðindi, en minnið um fuglamál er ævafornt. Í íslenskum þjóðsögum eru það aftur á móti menn sem skilja hrafnamál. Það er athyglisvert að flestir eru þeir prestar sem sagðir eru framsýnir og forspáir og jafnvel taldir til einstakra galdramanna. Þar koma meðal annarra við sögu þeir séra Eiríkur í Vogsósum og séra Hálfdán á Felli og jafnvel sjálfur Sæmundur í Odda.

Hræfuglinn er augnavargur og kroppar augu úr hræjum í nokkrum þjóðsögum. Hrafninn er þar tengdur helvíti og djöflinum, einkum í sögum af galdramönnum, draugum eða illmennum. Í slíkum sögum koma hrafnar fyrir í líki anda eða djöfla sem menn eiga mök við. Þannig eru hrafnarnir greinilega útsendarar þess vonda sjálfs og sækja að illmennum og galdramönnum og gera tilkall til sálna þeirra. Þá bregður fyrir hröfnum með járnklær og nef í sögunum þótt ekki séu þau dæmi mörg.

Máltækið „guð launar fyrir hrafninn“ er vel þekkt og merkir að sá sem víkur góðu að hröfnum njóti velþóknunar guðs og fái það launað.

Þrátt fyrir að vera fremur illa þokkaður í íslenskum þjóðsögum finnast nokkrar sögur af gæsku hrafnsins. Þær greina frá því að hrafnar launi stúlkum matargjafir með því að bjarga þeim undan skriðum sem granda bæjum með öllum mönnum. Yfir þeim sögum er nokkur helgisagnablær og látið að því liggja að æðri máttarvöld komi við sögu. Þannig er nokkuð gert úr því að stúlkan sé sjálf illa haldin og gefi krumma með sér af því litla sem hún fær. En húsbændum hefnist aftur á móti fyrir óbilgirni sína við lítilmagna og fá makleg málagjöld. Tengsl hrafnsins við guðdóminn eru kunn í fornum frásögnum og trúarbrögðum. Máltækið „guð launar fyrir hrafninn“ er vel þekkt og merkir að sá sem víkur góðu að hröfnum njóti velþóknunar guðs og fái það launað.

Þá er í þjóðsagnasöfnum og ritum um þjóðlegan fróðleik fjallað um ýmislegt sem lýtur að hjátrú tengdri hrafninum án þess að því fylgi eiginlegar sögur. Margt í atferli hrafnsins er þar talið hafa forspárgildi um örlög manna, einkum dauða, veðurfar og jafnvel aflabrögð. Í því sambandi er krunk hrafnsins mikilvægt, einnig hvernig hann hagar sér á flugi, úr hvaða átt hann kemur, hvort hann snýr að manni nefi eða stéli og hvernig hann hagar sér í nánd við híbýli manna og skepna. Þar er einnig fjallað um hrafnaþing. Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, frá síðari hluta átjándu aldar, segir að vitsmunir hrafnsins séu alkunnir og að hann sé jafnvel álitinn vitrastur allra fugla. Enn fremur kemur fram að alþýða manna geri sér mjög háar hugmyndir um skynsemi hrafnsins og telji hann bæði vita það sem gerist á fjarlægum stöðum og það sem ókomið er.

Þjóðsögur um hrafninn má finna í ýmsum þjóðsagnasöfnum, meðal annars:

  • Jón Árnason. 1954–1961. Íslenskar þjóðsögur og ævintýri I–VI. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Bókaútgáfan Þjóðsaga, Reykjavík.
  • Ólafur Davíðsson. 1978–1980. Íslenskar þjóðsögur I–IV. Bjarni Vilhjálmsson sá um útgáfuna. Bókaútgáfan Þjóðsaga, Reykjavík.

Myndir

Höfundur

lektor við Kennaraháskóla Íslands

Útgáfudagur

21.11.2006

Spyrjandi

Rúna Jóhannsdóttir, f. 1987

Tilvísun

Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir. „Getið þið sagt mér einhverjar þjóðsögur um hrafninn?“ Vísindavefurinn, 21. nóvember 2006. Sótt 29. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6393.

Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir. (2006, 21. nóvember). Getið þið sagt mér einhverjar þjóðsögur um hrafninn? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6393

Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir. „Getið þið sagt mér einhverjar þjóðsögur um hrafninn?“ Vísindavefurinn. 21. nóv. 2006. Vefsíða. 29. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6393>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Getið þið sagt mér einhverjar þjóðsögur um hrafninn?
Þjóðsögur af hröfnum í íslenskum þjóðsagnasöfnum og ritum um þjóðlegan fróðleik eru flestar tengdar spásagnargáfu hrafnsins og fjalla um hann sem feigðarboða. Mikil hjátrú er bundin við fuglinn og víðast hvar í heiminum er hann talinn illur fyrirboði, en það er þó ekki algilt.

Mörg grundvallarminni í íslenskum þjóðsögum um hrafninn er þegar finna í rituðum heimildum frá því fyrir Krists burð og á fyrstu öldunum þar á eftir. Má þar nefna goðsögur og sagnfræðileg rit, auk skáldskapar. Í þessum ritum koma meðal annars fyrir minnin um hinn talandi hrafn, hræfuglinn, hrafninn sem illan fyrirboða og sálir í hrafnslíki. Hrafninn sem sendiboði guðanna og leiðsögumaður birtist einnig í mjög gömlum heimildum. Frásögnin í Landnámu um hrafnana þrjá, sem Hrafna-Flóki blótaði til heilla áður en hann lagði upp í leit sína að Íslandi, og hlutur þeirra í fundi Íslands er goðsagnaefni sem minnir á aldagamlar frásagnir um hlut fugla í landafundum.

Mikil hjátrú er bundin við hrafninn og víðast hvar í heiminum er hann talinn illur fyrirboði, en það er þó ekki algilt

Í miðaldakveðskap og íslenskum fornsögum birtist hrafninn fyrst og fremst sem spáfugl og fyrirboði, og er í nánum tengslum við minnið um hræfuglinn. Hræfuglinn er þar einkum fugl vígvallarins, heillafugl vígamannsins á leið til orrustu. Fugl vígvallarins birtist ekki í þjóðsögum og sögnum, enda söguheimur þeirra gjörólíkur sagnaheimi eddukvæða og fornsagna. Hrafninn boðar fólki vissulega feigð í þjóðsögum, en hræfuglinn birtist þar ekki á föllnum vígamönnum, heldur mönnum sem farast af slysförum, svo og skepnum.

Í íslenskum þjóðsögum er dregin upp fremur dökk mynd af hrafninum og er hann fyrst og fremst feigðarboði, en einnig hræfugl og heljarfugl. Í þjóðsögunum blandast saman ýmis minni tengd honum. Hrafnar Óðins skildu mál manna og guða og fluttu Óðni tíðindi, en minnið um fuglamál er ævafornt. Í íslenskum þjóðsögum eru það aftur á móti menn sem skilja hrafnamál. Það er athyglisvert að flestir eru þeir prestar sem sagðir eru framsýnir og forspáir og jafnvel taldir til einstakra galdramanna. Þar koma meðal annarra við sögu þeir séra Eiríkur í Vogsósum og séra Hálfdán á Felli og jafnvel sjálfur Sæmundur í Odda.

Hræfuglinn er augnavargur og kroppar augu úr hræjum í nokkrum þjóðsögum. Hrafninn er þar tengdur helvíti og djöflinum, einkum í sögum af galdramönnum, draugum eða illmennum. Í slíkum sögum koma hrafnar fyrir í líki anda eða djöfla sem menn eiga mök við. Þannig eru hrafnarnir greinilega útsendarar þess vonda sjálfs og sækja að illmennum og galdramönnum og gera tilkall til sálna þeirra. Þá bregður fyrir hröfnum með járnklær og nef í sögunum þótt ekki séu þau dæmi mörg.

Máltækið „guð launar fyrir hrafninn“ er vel þekkt og merkir að sá sem víkur góðu að hröfnum njóti velþóknunar guðs og fái það launað.

Þrátt fyrir að vera fremur illa þokkaður í íslenskum þjóðsögum finnast nokkrar sögur af gæsku hrafnsins. Þær greina frá því að hrafnar launi stúlkum matargjafir með því að bjarga þeim undan skriðum sem granda bæjum með öllum mönnum. Yfir þeim sögum er nokkur helgisagnablær og látið að því liggja að æðri máttarvöld komi við sögu. Þannig er nokkuð gert úr því að stúlkan sé sjálf illa haldin og gefi krumma með sér af því litla sem hún fær. En húsbændum hefnist aftur á móti fyrir óbilgirni sína við lítilmagna og fá makleg málagjöld. Tengsl hrafnsins við guðdóminn eru kunn í fornum frásögnum og trúarbrögðum. Máltækið „guð launar fyrir hrafninn“ er vel þekkt og merkir að sá sem víkur góðu að hröfnum njóti velþóknunar guðs og fái það launað.

Þá er í þjóðsagnasöfnum og ritum um þjóðlegan fróðleik fjallað um ýmislegt sem lýtur að hjátrú tengdri hrafninum án þess að því fylgi eiginlegar sögur. Margt í atferli hrafnsins er þar talið hafa forspárgildi um örlög manna, einkum dauða, veðurfar og jafnvel aflabrögð. Í því sambandi er krunk hrafnsins mikilvægt, einnig hvernig hann hagar sér á flugi, úr hvaða átt hann kemur, hvort hann snýr að manni nefi eða stéli og hvernig hann hagar sér í nánd við híbýli manna og skepna. Þar er einnig fjallað um hrafnaþing. Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, frá síðari hluta átjándu aldar, segir að vitsmunir hrafnsins séu alkunnir og að hann sé jafnvel álitinn vitrastur allra fugla. Enn fremur kemur fram að alþýða manna geri sér mjög háar hugmyndir um skynsemi hrafnsins og telji hann bæði vita það sem gerist á fjarlægum stöðum og það sem ókomið er.

Þjóðsögur um hrafninn má finna í ýmsum þjóðsagnasöfnum, meðal annars:

  • Jón Árnason. 1954–1961. Íslenskar þjóðsögur og ævintýri I–VI. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Bókaútgáfan Þjóðsaga, Reykjavík.
  • Ólafur Davíðsson. 1978–1980. Íslenskar þjóðsögur I–IV. Bjarni Vilhjálmsson sá um útgáfuna. Bókaútgáfan Þjóðsaga, Reykjavík.

Myndir

...