Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Óhætt er að segja að hrafninn (Corvus corax) sé einn af einkennisfuglum íslenskrar náttúru. Hann er algengur um allt land og er mjög áberandi í byggð yfir veturinn þegar jarðbönn eru. Hann er staðfugl hér og duglegur að bjarga sér þegar hart er í ári.
Flestir hafa líklega séð krumma á flugi og óþarfi er að lýsa útliti hans í smáatriðum, en hann er þó um 62-73 cm á lengd og getur orðið um 1,5-1,8 kg á þyngd. Hrafninn er svartur á lit en þegar sólargeislarnir endurkastast af honum við ákveðnar aðstæður má sjá fjólubláan blæ á honum.
Hrafninn (Corvus corax) er einn af einkennisfuglum íslenskrar náttúru.
Flokkunarfræðilega er hrafninn spörfugl og langstærstur íslenskra spörfugla, ennfremur af ætt hröfnunga (Corvidea) og ættkvíslinni Corvus ásamt nokkrum tegundum kráka. Hjúskap hrafnsins er þannig háttað að hann er alger einkvænisfugl og heldur tryggð við maka sinn. Þegar maki fellur frá, fyllir annar fljótt í skarðið. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að hrafnar geta orðið gamlir í villtri náttúru og er hæsti staðfesti aldurinn 20 ár og fjórir mánuðir. Í haldi manna er talið að elsti hrafninn hafi orðið 69 ára gamall.
Hérlendis fara hrafnar að undirbúa varp snemma á vorin og verpa þeir 4-6 eggjum í hreiðrið, sem oftast er kallað laupur (einnig bálkur). Undanfarin ár hafa fyrstu ungarnir komið úr eggjum í maí en núna, þegar veðurfar fer hlýnandi á norðurhjaranum, kann að vera að þeir fari fyrr af stað á vorin, líkt og merki eru um að ungar annarra fugla gera. Á vorin tekur hrafninn mikið af eggjum og ungum annarra fugla. En þegar fæðuhættir hans eru skoðaðir yfir allt árið kemur í ljós að hann er alæta. Hrafninn étur mikið af berjum á haustin, er afræningi og hrææta, eða með öðrum orðum étur allt það sem hann kemst í, enda er það eina leiðin fyrir fugl sem þarf að draga fram lífið allt árið um kring hér á norðurhjara.
Erlendis eru til sögur um að hrafninn sé fyrstur á vettvang eftir orustur og leggist á fallna hermenn. Þá byrji hann á því að kroppa augun úr líkunum. Aðrar sögur frá Rússlandi segja að hrafnar þar fylgi úlfahópum og vonist til að fá að kroppa í leifarnar eftir að úlfarnir hafa fellt bráð. Á haustin og veturna breytist atferli hrafnsins nokkuð. Þá sækja hrafnar oft í byggð í von um að finna eitthvað matarkyns yfir köldustu mánuðina. Þegar dimma tekur safnast þeir tugum eða hundruðum saman á náttstaði. Kunnir náttstaðir suðvestan lands eru hlíðar Esjunnar og Ingólfsfjall.
Margvísleg þjóðtrú er tengd hrafninum. Vel þekkt er að flug hrafna boði annað hvort feigð eða fararheill, eftir því í hvaða átt þeir fljúga yfir mann.
Mikið er drepið af hröfnum hér á landi og telja fuglafræðingar að þeim hafi fækkað eitthvað á nokkrum svæðum, svo sem á Norðurlandi, en stofninn sé í jafnvægi á öðrum. Stofnstærðin er álitin rúmlega 2.500 pör og að hausti er fjöldi hrafna um 12 þúsund fuglar. Fálkinn (Falco rusticolus) er sennilega helsti óvinur hrafnsins hér við land og er óhætt að segja að þessum fuglum sé illa hvor við annan. Hljótast oft af miklir loftbardagar þegar þessir skemmtilegu fuglar takast á. Oftast hefur fálkinn betur. Fálkar hafa það fyrir venju að ræna hrafninn hreiðurstæði og sitja sem fastast á laupnum enda er fálkinn ekki mikið fyrir hreiðurgerð og dyttir í mesta lagi að laupnum að vori.
Margar þjóðsögur og frásagnir af hröfnum eru kunnar í íslenskum heimildum, svo ekki sé minnst á fjölda vísna, ljóða og söngtexta um þennan skemmtilega fugl sem öðrum fremur mætti kalla þjóðarfugl Íslendinga.
Margvísleg þjóðtrú er tengd hrafninum. Sumir segja að þeir sem skilji hrafnamál séu gáfaðri en aðrir. Aðrir segja að ef hrafn hoppi hingað og þangað uppi á húsum, skipti um hljóð og krunki upp í loftið, hristi vængina og yppti fiðrinu, boði það að einhver maður sé að drukkna. Vel þekkt er að flug hrafna boði annað hvort feigð eða fararheill, eftir því í hvaða átt þeir fljúga yfir mann.
Sennilega er frægasta vísa sem samin hefur verið um fugl á íslenskri tungu eftirfarandi vísa:
Krummi krunkar úti kallar á nafna sinn: „Ég fann höfuð af hrúti hrygg og gæruskinn. Komdu nú og kroppaðu með mér krummi nafni minn. Komdu nú og kroppaðu með mér krummi nafni minn.“
Þó svo að krummi þreyi þorrann með okkur landsmönnum, og hafi gert það síðan byggð hófst hér á landi, höfum við ofsótt hann og hann verið talinn réttdræpur hvar sem hann finnst. Margir hafa amast við ungadrápi og grimmd krumma en til að komast af í harðbýlli íslenskri náttúru verður hver skepna að taka það sem gefst. Hrafninn hefur verið ofsóttur víða og jafnvel verið útrýmt af mörgum svæðum í Bandaríkjunum en undanfarna áratugi hefur hann numið aftur gömul svæði vestan og austan hafs, svo sem í Mið-Evrópu.
Heimildir og myndir:
Glutz von Blotzheim, U.N. & K.M. Bauer (1993): Handbuch der Vögel Mitteleuropas - Passeriformes, Teil 4, S. 1947 - 2022, Wiesbaden
Chadwick, D.H. (1999): Ravens - Legendary Bird Brains. National Geographic, January 1999, s.100-115
Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um vistfræði hrafnsins á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 30. apríl 2003, sótt 13. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3375.
Jón Már Halldórsson. (2003, 30. apríl). Hvað getið þið sagt mér um vistfræði hrafnsins á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3375
Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um vistfræði hrafnsins á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 30. apr. 2003. Vefsíða. 13. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3375>.