Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað getur þú sagt mér um árið 1918?

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

Aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands
Árið 1918 var viðburðaríkt bæði hér á landi og víða annars staðar í heiminum. Það væri vel hægt að skrifa mörg svör um það sem gerðist á árinu en hér verður látið nægja að segja í stuttu máli frá nokkrum viðburðum. Sagt er frá atburðunum að mestu leyti í tímaröð, fyrst frá því sem gerðist úti í heimi og svo frá innlendum viðburðum. Að mestu leyti er byggt á efni sem til er á Vísindavefnum þannig að lesendur geta glöggvað sig nánar á atburðunum.

Í upphafi árs 1918 varð fyrst vart við mannskæðustu farsótt sem sögur fara af. Hún nefndist spánska veikin og gekk yfir heiminn árin 1918-19. Sóttin gekk í þrem bylgjum og er talin hafa byrjað í bandarísku herstöðinni Camp Funston í Kansas. Þaðan barst hún með bandarískum hermönnum til Evrópu í apríl 1918. Þessi fyrsta bylgja virðist hafa verið tiltölulega saklaus en um sumarið kom banvænna afbrigði fram sem lét verulega kveða að sér í ágúst. Þriðja bylgjan gekk svo yfir heimsbyggðina veturinn 1918-19.

Spánska veikin kostaði um 25 milljón mannslíf. Sumir telja að tala látinna hafi jafnvel verið mun hærri eða allt að 40 milljónir. Á Indlandi einu saman dóu nærri 12,5 milljónir manna. Veikinni fylgdi jafnan lungnabólga og létust menn oft innan tveggja daga eftir að sóttarinnar varð vart. Um þennan faraldur má lesa meira í svari Skúla Sælands við spurningunni Hvað var spánska veikin?

Spánska veikin er skæðasta farsótt sem sögur fara af og kostaði margar milljónir mannslífa. Þessi mynd er frá æfingabúðum bandaríska sjóhersins í Kaliforníu.

Um mitt ár 1918 átti sér stað atburður sem hafði ekki jafn afdrifaríkar afleiðingar og spánska veikin en er engu að síður í minnum hafður enn þann dag í dag. Árið 1917 var gerð bylting í Rússlandi og í kjölfarið afsalaði Nikulás II Rússakeisari sér völdum. Keisarafjölskyldan var hneppt í varðhald til að byrja með en þann 17. júlí 1918 var keisarinn tekinn af lífi ásamt Alexöndru konu sinni og börnum þeirra fimm, Olgu, Tatíönu, Maríu, Anastasíu og Alexei. Lengi vel gengu sögur um að yngsta dóttirin, Anastasia, hefði lifað og komu meðal annars fram nokkrar konur sem sögðust vera hin meinta keisaradóttir. Rannsóknir á líkamsleifum sem fundust árið 1991 og öðrum sem fundust árið 2007 sýna hins vegar að þar eru komnar jarðneskar leifar keisarahjónanna og allra barna þeirra. Um þetta má lesa nánar í svari Sverris Jakobssonar við spurningunni Hvað varð um rússnesku keisarafjölskylduna í októberbyltingunni? Um rússnesku byltinguna er fjallað í svari við spurningunni Getið þið sagt mér eitthvað um rússnesku byltinguna 1917 og hvernig hún byrjaði?

Ársins 1918 er ekki síst minnst í sögunni sem ársins þegar heimsstyrjöldinni fyrri lauk. Stríðið hafði staðið yfir í rúm fjögur ár. Þar áttust við bandamenn, fyrst og fremst Frakkar, Bretar, Rússar og síðar Ítalir og Bandaríkjamenn og hins vegar miðveldin svokölluðu en það voru Þýskaland, Austurríki-Ungverjaland, Búlgaría og Ottómanveldið. Um þetta er fjallað í svari við spurningunni Hverjir tóku þátt í fyrri heimsstyrjöldinni? Stríðinu lauk með uppgjöf Þjóðverja þann 11. nóvember 1918.

Bandarískir hermenn fagna lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar 11. nóvember 1918.

Árið 1918 var einnig viðburðaríkt í Íslandssögunni. Árið byrjaði með fimbulkulda, svo miklum að talað er um frostaveturinn mikla 1918. Haustið 1917 var óvenju kalt á landinu, í Reykjavík var það eitt af þremur köldustu haustum frá upphafi mælinga og á Akureyri það kaldasta frá upphafi mælinga. Hins vegar átti enn eftir að kólna þegar nýtt ár gekk í garð og er janúar 1918 kaldasti mánuður á Íslandi á 20. öld. Ekki hefur enn orðið jafnkalt það sem af er þeirri 21. en vitað er um fáeina ámóta eða kaldari mánuði á 19. öld.

Aðalkuldakastið hófst um þrettándann (6. janúar) og stóð tæpar þrjár vikur á Suðurlandi en út mánuðinn fyrir norðan. Framan af var heldur hvassviðrasamt, en um 20. janúar var vindur orðinn hægur og þá urðu mestu kuldarnir á flestum stöðvum. Þann 21. janúar er skráður lægsti hiti sem mælst hefur á Íslandi frá upphafi mælinga, -38 gráður á C á Möðrudal og Grímsstöðum á Fjöllum. Nánar má lesa um frostaveturinn mikla og orsakir þessa mikla kulda í svari Trausta Jónssonar við spurningunni Hvað olli frostavetrinum mikla 1918?

Náttúröflin komu aftur mikið við sögu í október 1918 þegar Katla gaus. Gosið hófst skömmu fyrir kl. 15 þann 12. október og varð það meðal stærstu Kötlugosa síðan land byggðist. Gosinu fylgdi jökulhlaup og færði framburðurinn ströndina sunnan við Hjörleifshöfða fram um meira en þrjá kílómetra þannig að um tíma var Kötlutangi syðsti oddi Íslands í stað Dyrhólaeyjar. Mikið gjóskufall var frá Kötlu fyrstu daga gossins, og flesta daga til loka október féll umtalsverð aska. Meginhluti gjóskunnar barst til norðausturs og olli tjóni í Skaftártungu þaðan sem íbúar flúðu um tíma frá nyrstu bæjum. Gjóskan frá Kötlugosinu 1918 dreifðist yfir meira en helming landsins, um 60.000 km2. Gosinu lauk 4. nóvember. Hægt er að lesa meira um þetta gos í svari Sigurðar Steinþórssonar við spurningunni Hvað getur þú sagt mér um Kötlugosið 1918?

Kötlugosið 1918 er meðal stærstu gosa í Kötlu á sögulegum tíma.

Viku eftir að Katla tók að gjósa barst spánska veikin til Íslands. Talið er að veikin hafi borist hingað til lands með skipunum Botníu frá Kaupmannahöfn og Willemoes frá Bandaríkjunum 19. október 1918. Fljótlega fór fólk að veikjast og í byrjun nóvember var faraldurinn kominn verulega á skrið og fyrsta dauðsfallið skráð. Miðvikudaginn 6. nóvember er talið að þriðjungur Reykvíkinga hafi legið sjúkur. Fimm dögum síðar er talið að tveir þriðju íbúa höfuðborgarinnar hafi verið rúmfastir. Samkvæmt opinberum tölum létust alls 484 Íslendingar úr spönsku veikinni. Veikin kom þyngst niður á Reykjavíkingum en með ströngum sóttvörnum og einangrun manna og hluta sem grunaðir voru um að geta borið smit tókst að verja algerlega Norður- og Austurland. Nánar má lesa í um spönsku veikina í áður nefndu svari Skúla Sælands við spurningunni Hvað var spánska veikin?

Árið 1918 reyndist Íslendingum því á margan hátt erfitt með kulda, eldgosi og farsótt. Þann 1. desember það ár átti sér hins vegar stað mjög merkur viðburður í sögu lands og þjóðar þegar Ísland varð frjálst og fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku. Þá tók gildi sambandslagasáttmáli ríkjanna tveggja en í honum fólst að Danmörk sá um utanríkismál og landhelgisgæslu fyrir Ísland, svo lengi sem Íslendingar ekki tækju við því sjálfir. Að öðru leyti fengu Íslendingar full yfirráð eigin mála í sínar hendur frá og með þessum degi. Þennan dag var íslenski fáninn dreginn að húni í fyrsta skipti sem fullgildur þjóðfáni.

Heimildir:

Myndir:

Höfundur

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

19.11.2013

Síðast uppfært

31.8.2017

Spyrjandi

Júlía Ásgeirsdóttir

Tilvísun

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvað getur þú sagt mér um árið 1918?“ Vísindavefurinn, 19. nóvember 2013, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=64001.

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2013, 19. nóvember). Hvað getur þú sagt mér um árið 1918? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=64001

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvað getur þú sagt mér um árið 1918?“ Vísindavefurinn. 19. nóv. 2013. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=64001>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað getur þú sagt mér um árið 1918?
Árið 1918 var viðburðaríkt bæði hér á landi og víða annars staðar í heiminum. Það væri vel hægt að skrifa mörg svör um það sem gerðist á árinu en hér verður látið nægja að segja í stuttu máli frá nokkrum viðburðum. Sagt er frá atburðunum að mestu leyti í tímaröð, fyrst frá því sem gerðist úti í heimi og svo frá innlendum viðburðum. Að mestu leyti er byggt á efni sem til er á Vísindavefnum þannig að lesendur geta glöggvað sig nánar á atburðunum.

Í upphafi árs 1918 varð fyrst vart við mannskæðustu farsótt sem sögur fara af. Hún nefndist spánska veikin og gekk yfir heiminn árin 1918-19. Sóttin gekk í þrem bylgjum og er talin hafa byrjað í bandarísku herstöðinni Camp Funston í Kansas. Þaðan barst hún með bandarískum hermönnum til Evrópu í apríl 1918. Þessi fyrsta bylgja virðist hafa verið tiltölulega saklaus en um sumarið kom banvænna afbrigði fram sem lét verulega kveða að sér í ágúst. Þriðja bylgjan gekk svo yfir heimsbyggðina veturinn 1918-19.

Spánska veikin kostaði um 25 milljón mannslíf. Sumir telja að tala látinna hafi jafnvel verið mun hærri eða allt að 40 milljónir. Á Indlandi einu saman dóu nærri 12,5 milljónir manna. Veikinni fylgdi jafnan lungnabólga og létust menn oft innan tveggja daga eftir að sóttarinnar varð vart. Um þennan faraldur má lesa meira í svari Skúla Sælands við spurningunni Hvað var spánska veikin?

Spánska veikin er skæðasta farsótt sem sögur fara af og kostaði margar milljónir mannslífa. Þessi mynd er frá æfingabúðum bandaríska sjóhersins í Kaliforníu.

Um mitt ár 1918 átti sér stað atburður sem hafði ekki jafn afdrifaríkar afleiðingar og spánska veikin en er engu að síður í minnum hafður enn þann dag í dag. Árið 1917 var gerð bylting í Rússlandi og í kjölfarið afsalaði Nikulás II Rússakeisari sér völdum. Keisarafjölskyldan var hneppt í varðhald til að byrja með en þann 17. júlí 1918 var keisarinn tekinn af lífi ásamt Alexöndru konu sinni og börnum þeirra fimm, Olgu, Tatíönu, Maríu, Anastasíu og Alexei. Lengi vel gengu sögur um að yngsta dóttirin, Anastasia, hefði lifað og komu meðal annars fram nokkrar konur sem sögðust vera hin meinta keisaradóttir. Rannsóknir á líkamsleifum sem fundust árið 1991 og öðrum sem fundust árið 2007 sýna hins vegar að þar eru komnar jarðneskar leifar keisarahjónanna og allra barna þeirra. Um þetta má lesa nánar í svari Sverris Jakobssonar við spurningunni Hvað varð um rússnesku keisarafjölskylduna í októberbyltingunni? Um rússnesku byltinguna er fjallað í svari við spurningunni Getið þið sagt mér eitthvað um rússnesku byltinguna 1917 og hvernig hún byrjaði?

Ársins 1918 er ekki síst minnst í sögunni sem ársins þegar heimsstyrjöldinni fyrri lauk. Stríðið hafði staðið yfir í rúm fjögur ár. Þar áttust við bandamenn, fyrst og fremst Frakkar, Bretar, Rússar og síðar Ítalir og Bandaríkjamenn og hins vegar miðveldin svokölluðu en það voru Þýskaland, Austurríki-Ungverjaland, Búlgaría og Ottómanveldið. Um þetta er fjallað í svari við spurningunni Hverjir tóku þátt í fyrri heimsstyrjöldinni? Stríðinu lauk með uppgjöf Þjóðverja þann 11. nóvember 1918.

Bandarískir hermenn fagna lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar 11. nóvember 1918.

Árið 1918 var einnig viðburðaríkt í Íslandssögunni. Árið byrjaði með fimbulkulda, svo miklum að talað er um frostaveturinn mikla 1918. Haustið 1917 var óvenju kalt á landinu, í Reykjavík var það eitt af þremur köldustu haustum frá upphafi mælinga og á Akureyri það kaldasta frá upphafi mælinga. Hins vegar átti enn eftir að kólna þegar nýtt ár gekk í garð og er janúar 1918 kaldasti mánuður á Íslandi á 20. öld. Ekki hefur enn orðið jafnkalt það sem af er þeirri 21. en vitað er um fáeina ámóta eða kaldari mánuði á 19. öld.

Aðalkuldakastið hófst um þrettándann (6. janúar) og stóð tæpar þrjár vikur á Suðurlandi en út mánuðinn fyrir norðan. Framan af var heldur hvassviðrasamt, en um 20. janúar var vindur orðinn hægur og þá urðu mestu kuldarnir á flestum stöðvum. Þann 21. janúar er skráður lægsti hiti sem mælst hefur á Íslandi frá upphafi mælinga, -38 gráður á C á Möðrudal og Grímsstöðum á Fjöllum. Nánar má lesa um frostaveturinn mikla og orsakir þessa mikla kulda í svari Trausta Jónssonar við spurningunni Hvað olli frostavetrinum mikla 1918?

Náttúröflin komu aftur mikið við sögu í október 1918 þegar Katla gaus. Gosið hófst skömmu fyrir kl. 15 þann 12. október og varð það meðal stærstu Kötlugosa síðan land byggðist. Gosinu fylgdi jökulhlaup og færði framburðurinn ströndina sunnan við Hjörleifshöfða fram um meira en þrjá kílómetra þannig að um tíma var Kötlutangi syðsti oddi Íslands í stað Dyrhólaeyjar. Mikið gjóskufall var frá Kötlu fyrstu daga gossins, og flesta daga til loka október féll umtalsverð aska. Meginhluti gjóskunnar barst til norðausturs og olli tjóni í Skaftártungu þaðan sem íbúar flúðu um tíma frá nyrstu bæjum. Gjóskan frá Kötlugosinu 1918 dreifðist yfir meira en helming landsins, um 60.000 km2. Gosinu lauk 4. nóvember. Hægt er að lesa meira um þetta gos í svari Sigurðar Steinþórssonar við spurningunni Hvað getur þú sagt mér um Kötlugosið 1918?

Kötlugosið 1918 er meðal stærstu gosa í Kötlu á sögulegum tíma.

Viku eftir að Katla tók að gjósa barst spánska veikin til Íslands. Talið er að veikin hafi borist hingað til lands með skipunum Botníu frá Kaupmannahöfn og Willemoes frá Bandaríkjunum 19. október 1918. Fljótlega fór fólk að veikjast og í byrjun nóvember var faraldurinn kominn verulega á skrið og fyrsta dauðsfallið skráð. Miðvikudaginn 6. nóvember er talið að þriðjungur Reykvíkinga hafi legið sjúkur. Fimm dögum síðar er talið að tveir þriðju íbúa höfuðborgarinnar hafi verið rúmfastir. Samkvæmt opinberum tölum létust alls 484 Íslendingar úr spönsku veikinni. Veikin kom þyngst niður á Reykjavíkingum en með ströngum sóttvörnum og einangrun manna og hluta sem grunaðir voru um að geta borið smit tókst að verja algerlega Norður- og Austurland. Nánar má lesa í um spönsku veikina í áður nefndu svari Skúla Sælands við spurningunni Hvað var spánska veikin?

Árið 1918 reyndist Íslendingum því á margan hátt erfitt með kulda, eldgosi og farsótt. Þann 1. desember það ár átti sér hins vegar stað mjög merkur viðburður í sögu lands og þjóðar þegar Ísland varð frjálst og fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku. Þá tók gildi sambandslagasáttmáli ríkjanna tveggja en í honum fólst að Danmörk sá um utanríkismál og landhelgisgæslu fyrir Ísland, svo lengi sem Íslendingar ekki tækju við því sjálfir. Að öðru leyti fengu Íslendingar full yfirráð eigin mála í sínar hendur frá og með þessum degi. Þennan dag var íslenski fáninn dreginn að húni í fyrsta skipti sem fullgildur þjóðfáni.

Heimildir:

Myndir:

...