Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
EuroJackpot er nýlegur lottóleikur sem hleypt var af stokkunum í mars 2012 og er samstarfsverkefni fjórtán Evrópuþjóða, þar á meðal Íslands. Ein lottóröð í EuroJackpot hefur fimm aðaltölur, sem eru einhverjar af tölunum frá 1 til 50, og tvær svokallaðar stjörnutölur, sem eru einhverjar af tölunum frá 1 til 8.
Alls er hægt að velja fimm tölur frá 1 til 50 á ${50 \choose 5} = 2.118.760$ vegu og hægt er að velja tvær tölur frá 1 til 8 á ${8 \choose 2} = 28$ vegu. Hér tákna ${50 \choose 5}$ og ${8 \choose 2}$ tvíliðustuðla, sem lesa má um í svari sama höfundar við spurningunni Hvað er tvíliðustuðullinn C(n,k) og hvers vegna er fjöldi tvíundastrengja af lengd n með k ása einmitt C(n,k)?
Heildarfjöldi möguleika á að velja lottóröð með fimm aðaltölum og tveimur stjörnutölum er þess vegna
\[2.118.760 \cdot 28 = 59.325.280.\]
Ef keypt er ein röð í EuroJackpot eru líkurnar á að hljóta fyrsta vinning sem sagt 1 á móti 59.325.280, eða 0,0000017 prósent.
Þátttakanda í EuroJackpot býðst að kaupa svokallaðan kerfisseðil, þar sem hann velur 6 til 10 aðaltölur og 2 stjörnutölur. Þá kaupir þátttakandinn í raun allar lottóraðir þar sem aðaltölurnar eru einhverjar fimm af þeim 6 til 10 sem hann hefur valið. Ef til dæmis er keyptur kerfisseðill með sex aðaltölum; segjum 1, 2, 3, 4, 5 og 6; og tveimur stjörnutölum; segjum 7 og 8; þá er verið að kaupa eftirfarandi raðir:
Ef keyptur er kerfisseðill með 10 aðaltölum, eins og spyrjandi gerir ráð fyrir, þá eru keyptar allar ${10 \choose 5} = 252$ lottóraðirnar sem hægt er að mynda með því að nota einhverjar fimm tölur af þessum tíu sem aðaltölur. Í eftirfarandi töflu má sjá hversu margar raðir standa að baki hverjum og einum kerfisseðli:
Gerð kerfisseðils
Fjöldi lottóraða sem keyptar eru
$6$ aðaltölur
$\displaystyle {6 \choose 5} = 6$
$7$ aðaltölur
$\displaystyle {7 \choose 5} = 21$
$8$ aðaltölur
$\displaystyle {8 \choose 5} = 56$
$9$ aðaltölur
$\displaystyle {9 \choose 5} = 126$
$10$ aðaltölur
$\displaystyle {10 \choose 5} = 252$
Eins og áður hefur komið fram er alls hægt að mynda 59.325.820 lottóraðir í EuroJackpot og þær eru allar jafn líklegar til að koma upp úr drættinum. Líkindi þess að hljóta fyrsta vinning eru því einungis háð því hversu margar lottóraðir eru keyptar. Ef keyptur er kerfisseðill með 10 aðaltölum eru líkurnar á fyrsta vinningi sem sagt 252 á móti 59.325.280, sem eru nákvæmlega sömu líkur og fást ef keyptar eru 252 raðir af handahófi. Í eftirfarandi töflu má sjá líkurnar á fyrsta vinningi fyrir hverja gerð kerfisseðils:
Fyrsti vinningur í Eurojackpot eru 5 aðaltölur réttar af 50 og 2 stjörnutölur réttar af 8. Hverjar eru líkurnar á að vinna með 10 valdar aðaltölur og 2 valdar stjörnutölur samanborið við 5 valdar aðaltölur og 2 stjörnutölur?
Einar Bjarki Gunnarsson. „Hverjar eru líkurnar á að hljóta fyrsta vinning í EuroJackpot með 10 valdar aðaltölur og 2 valdar stjörnutölur?“ Vísindavefurinn, 28. febrúar 2013, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=64385.
Einar Bjarki Gunnarsson. (2013, 28. febrúar). Hverjar eru líkurnar á að hljóta fyrsta vinning í EuroJackpot með 10 valdar aðaltölur og 2 valdar stjörnutölur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=64385
Einar Bjarki Gunnarsson. „Hverjar eru líkurnar á að hljóta fyrsta vinning í EuroJackpot með 10 valdar aðaltölur og 2 valdar stjörnutölur?“ Vísindavefurinn. 28. feb. 2013. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=64385>.