Hjónin Marie Curie (1867 - 1934) og Pierre Curie (1859-1906) uppgötvuðu pólon árið 1898 við rannsóknir á bikblendi og er frumefnið kennt við Pólland, heimaland Marie.
Í kjölfar frétta af dauða fyrrum starfsmanns rússnesku leyniþjónustunnar (KGB og FSB), Alexanders Litvinenko (1967-2006), hefur samsætan pólon-210 (Po-210) verið mikið til umræðu. Sú samsæta hefur 84 róteindir og 126 nifteindir og þess vegna massatöluna 210. Helmingunartími Po-210 er tæpir 140 dagar, en það þýðir að á 140 dögum hefur helmingur Po-210 gefið frá sér alfa-geislun og umbreyst í Pb-206 sem er stöðug blýsamsæta.
Alfa-geislun, eins og pólon gefur frá sér, er afar skammdræg og því ekki hættuleg lífi og limum nema að geislavirku efnin berist inn í líkamann. Berist alfa-geislandi efni hins vegar í líkama getur það haft afar skaðvænleg áhrif sem fara þó að nokkru eftir ýmsum aðstæðum. Í fyrsta lagi skiptir máli hve mikið af efninu berst inn í líkamann; í öðru lagi skiptir máli hve geislavirkt efnið er; í þriðja lagi getur skipt máli hvar í líkamanum efnið safnast fyrir og í fjórða lagi skiptir máli hve þaulsætið efnið er í líkamanum. Líkaminn hreinsar ólík efni mishratt frá sér og er talað um líffræðilegan helmingunartíma sem mælikvarða á hraða þeirrar hreinsunar. Líffræðilegur helmingunartími efnis er því sá tími sem það tekur líkamann að losa sig við helming tiltekins efnis sem fyrir er í honum.

Alfa-bygging pólons.
- Hvað er geislun og hvað eru til margar gerðir af henni? eftir Kritstján Leósson og Þorstein Vilhjálmsson
- Hversu lengi er geislavirkni frá kjarnorkuúrgangi að helmingast? eftir Ágúst Valfells
- Breytist helmingunartími geislavirkra efna eftir hitastigi? eftir Ágúst Kvaran
- Í hvað er kjarnorka aðallega notuð? eftir Ágúst Valfells
- Hver urðu eftirköst Tsjernobyl-slyssins? eftir Örn Helgason
- Af hverju deyr maður út af geislavirkni? eftir ÞV