Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Var Hrafna-Flóki til í alvöru?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Í Landnámabók kemur Flóki Vilgerðarson tvisvar við sögu. Fyrst er hann einn af þeim sem sagt er að hafi komið til Íslands áður en varanlegt landnám norrænna manna hófst með Íslandsferð Ingólfs Arnarsonar. Eftir að sagt hefur verið frá ferðum landkönnuðanna Naddodds og Garðars Svavarssonar segir svo frá í Sturlubók Landnámu:
Flóki Vilgerðarson hét maður; hann var víkingur mikill. Hann fór að leita Garðarshólms og sigldi þar út er heitir Flókavarði; þar mætist Hörðaland og Rogaland. Hann fór fyrst til Hjaltlands og lá þar í Flókavogi. Þar týndist Geirhildur dóttir hans í Geirhildarvatni. Með Flóka var á skipi bóndi sá er Þórólfur hét, annar Herjólfur. Faxi hét suðureyskur maður er þar var á skipi. Flóki hafði hrafna þrjá með sér í haf, og er hann lét lausan hinn fyrsta fló sá aftur um stafn. Annar fló í loft upp og aftur til skips. Hinn þriðji fló fram um stafn í þá átt sem þeir fundið landið. Þeir komu austan að Horni og sigldu fyrir sunnan landið. En er þeir sigldu vestur um Reykjanes og upp lauk firðinum svo að þeir sáu Snæfellsnes þá ræddi Faxi um: „Þetta mun vera mikið land er vér höfum fundið, hér eru vatnföll stór.“ Síðan er það kallaður Faxaós. Þeir Flóki sigldu vestur yfir Breiðafjörð og tóku þar land sem heitir Vatnsfjörður við Barðaströnd. Þá var fjörðurinn fullur af veiðiskap, og gáðu þeir eigi fyrir veiðum að fá heyjanna, og dó allt kvikfé þeirra um veturinn. Vor var heldur kalt. Þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt og sá norður yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum. Því kölluðu þeir landið Ísland, sem það hefir síðan heitið. Þeir Flóki ætluðu brott um sumarið og urðu búnir litlu fyrir vetur. Þeim beit eigi fyrir Reykjanes, og sleit frá þeim bátinn og þar á Herjólf. Hann tók þar sem nú heitir Herjólfshöfn. Flóki var um veturinn í Borgarfirði, og fundu þeir Herjólf. Þeir sigldu um sumarið eftir til Noregs. Og er menn spurðu af landinu þá lét Flóki illa yfir en Herjólfur sagði kost og löst af landinu, en Þórólfur sagði drjúpa smjör af hverju strái á landinu, því er þeir höfðu fundið. Því var hann kallaður Þórólfur smjör.

Síðan er sagt frá Íslandsferð fóstbræðranna Ingólfs og Hjörleifs og landnámi Ingólfs í Reykjavík. Svo er haldið áfram þaðan til vesturs og norðurs og landnámum lýst. Þar sem segir frá landnámi í Fljótum í Skagafirði, kemur þetta:
Flóki, son Vilgerðar Hörða-Káradóttur fór til Íslands og nam Flókadal, milli Flókadalsár og Reykjarhóls. Hann bjó á Mói. Flóki átti Gró, systur Þórðar frá Höfða. Þeirra son var Oddleifur stafur er bjó á Stafshóli og deildi við Hjaltasonu. Dóttir Flóka var Þjóðgerður, móðir Koðráns, föður Kárs í Vatnsdal.

Hvergi í Landnámabók, né í öðrum fornritum, segir að þetta hafi verið sami Flókinn Vilgerðarson, en fræðimenn hafa jafnan gert ráð fyrir að svo sé.

Sagan segir að Flóki Vilgerðarson hafi haft vetursetu í Vatnsfirði á Barðaströnd. Hér sést til Vatnsfjarðar af Tröllahálsi.

Fyrri ferð sína til Íslands hefur Flóki átt að fara um eða skömmu fyrir árið 870 samkvæmt Landnámabók. Síðar hefur það ekki verið því í bókinni segir að Ingólfur hafi flust til Íslands árið 874 og Flóki verið á undan honum. Miklu fyrr hefur það ekki verið ef rétt er að sami Flóki hafi numið land norður í Skagafirði. Flóki hefur þá verið uppi á síðari hluta 9. aldar og kannski litlu fyrr og/eða litlu síðar. Varðveittar gerðir Landnámabókar eru skráðar á síðari hluta 13. aldar, og rök eru til að telja að ekki hafi verið sagt frá honum í upphaflegri gerð bókarinnar sem mun hafa verið skráð á fyrri hluta 12. aldar. Flóki er hvergi nefndur í öðrum íslenskum fornritum. Íslendingabók Ara fróða, sem er meira en öld eldri en varðveittar gerðir Landnámu, nefnir hvorki hann né aðra þá norrænu menn sem gistu landið á undan Ingólfi. Hafa því liðið um fjórar aldir milli Flóka og heimilda um hann eða álíka langt og er á milli Tyrkjaránsins og okkar. Það er auðvitað meira en nógu langur tími til að myndast geti alveg tilhæfulausar sögur. Sagan af hröfnunum þremur þykir minna á frásögn Biblíunnar af Nóa sem beitti dúfu til að vísa sér á þurrt land í lok syndaflóðsins. Frásögnina af hirðuleysi Flóka að afla vetrarforða handa búfé sínu má lesa sem kennisögu um að varasamt sé að treysta á sjávarafla sér til framfæris; sá boðskapur var algengur á Íslandi. Ærin rök eru því til að véfengja að Flóki hafi nokkru sinni verið til.

Á hinn bóginn er engin leið að sanna það. Engin alger takmörk eru fyrir því hve lengi sögur af raunverulegu fólki geta varðveist þótt þær séu ekki skráðar. Ari nefnir Flóka ekki, en hann segir að Ingólfur sé sá sem „sannliga er sagt að færi fyrst þaðan [frá Noregi] til Íslands“. Þannig gefur hann í skyn að hann þekki sögur um fyrri ferðir en treysti þeim ekki, enda lítilvægar í þeirri knöppu frásögn sem Ari skrifar af sögu Íslendinga. Þá má nefna að Flóki er nefndur í norskri bók um sögu Noregs frá síðari hluta 12. aldar, sögu á latínu sem er eignuð Theodoricusi munki. Þar segir frá landnámi Ingólfs á Íslandi og bætt við, í íslenskri þýðingu: „Samt sem áður átti áðurnefndur Ingólfur tvo fyrirrennara. Sá fyrri hét Garðar, og landið var fyrst nefnt Garðarshólmur eftir honum. Sá síðari var nefndur Flóki.“ Þetta styttir fjarlægðina milli Flóka og heimilda um hann um hálfa öld og sýnir að saga Flóka var ekki búin til í eitt einasta skipti þegar Landnámabók var endurrituð á 13. öld. Ekkert er heldur því til fyrirstöðu að fleiri en Nói hafi reynt að nota fugla til að vísa sér leið til lands. Sagan af hröfnunum gæti líka verið sprottin af viðurnefni Flóka sem gæti aftur verið af öðrum uppruna. Heyleysissaga Flóka útilokar heldur engan veginn sannleiksgildi sögunnar um landkönnunarferð hans, jafnvel þótt hafi verið hægt að nota hana til að brýna fyrir mönnum að afla nægra heyja. Örnefnin sem eru nefnd í sögunni hvorki sanna neitt né afsanna. Það eina þeirra utan Íslands sem mun þekkt nú er Geirhildarvatn sem menn hafa þóst þekkja í nafninu Loch of Girlsta á Hjaltlandi. En ekkert örnefni er þekkt nú sem virðist líklegt til þess að menn hafi leitt af því nafn Flóka, eins og til dæmis virðist sennilegt að Baugsstaðir í Flóa séu nefndir eftir bug á ströndinni þar sem þeir stóðu fremur en landnámsmanninum Baugi, eins og segir í Landnámu, enda er Baugur annars óþekkt sem mannsnafn.

Stutta svarið við spurningunni er því þetta: Ég veit ekki hvort Hrafna-Flóki var til í alvöru.

Heimildir og mynd:
  • Íslenzk fornrit I. Íslendingabók. Landnámabók. Jakob Benediktsson gaf út. Reykjavík, Fornritafélag, 1968.
  • Jón Jóhannesson: Gerðir Landnámabókar. Reykjavík, Bókmenntafélag, 1941.
  • Theodoricus monachus: Historia de antiquitate regum Norwagiensium. An Account of the Ancient History of the Norwegian Kings. Translated and annotated by David and Ian McDougall, with an Introduction by Peter Foote. London, Viking Society for Northern Research, 1998.
  • Þórhallur Vilmundarson: „Safn til íslenzkrar örnefnabókar I.“ Grímnir I (1980), 57–143.
  • Mynd: Umfar · Breiðaskarð. (Sótt 2. 9. 2013).

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

16.9.2013

Spyrjandi

Gabríel Temitayo Fayomi

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Var Hrafna-Flóki til í alvöru?“ Vísindavefurinn, 16. september 2013. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=65235.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2013, 16. september). Var Hrafna-Flóki til í alvöru? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=65235

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Var Hrafna-Flóki til í alvöru?“ Vísindavefurinn. 16. sep. 2013. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=65235>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Var Hrafna-Flóki til í alvöru?
Í Landnámabók kemur Flóki Vilgerðarson tvisvar við sögu. Fyrst er hann einn af þeim sem sagt er að hafi komið til Íslands áður en varanlegt landnám norrænna manna hófst með Íslandsferð Ingólfs Arnarsonar. Eftir að sagt hefur verið frá ferðum landkönnuðanna Naddodds og Garðars Svavarssonar segir svo frá í Sturlubók Landnámu:

Flóki Vilgerðarson hét maður; hann var víkingur mikill. Hann fór að leita Garðarshólms og sigldi þar út er heitir Flókavarði; þar mætist Hörðaland og Rogaland. Hann fór fyrst til Hjaltlands og lá þar í Flókavogi. Þar týndist Geirhildur dóttir hans í Geirhildarvatni. Með Flóka var á skipi bóndi sá er Þórólfur hét, annar Herjólfur. Faxi hét suðureyskur maður er þar var á skipi. Flóki hafði hrafna þrjá með sér í haf, og er hann lét lausan hinn fyrsta fló sá aftur um stafn. Annar fló í loft upp og aftur til skips. Hinn þriðji fló fram um stafn í þá átt sem þeir fundið landið. Þeir komu austan að Horni og sigldu fyrir sunnan landið. En er þeir sigldu vestur um Reykjanes og upp lauk firðinum svo að þeir sáu Snæfellsnes þá ræddi Faxi um: „Þetta mun vera mikið land er vér höfum fundið, hér eru vatnföll stór.“ Síðan er það kallaður Faxaós. Þeir Flóki sigldu vestur yfir Breiðafjörð og tóku þar land sem heitir Vatnsfjörður við Barðaströnd. Þá var fjörðurinn fullur af veiðiskap, og gáðu þeir eigi fyrir veiðum að fá heyjanna, og dó allt kvikfé þeirra um veturinn. Vor var heldur kalt. Þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt og sá norður yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum. Því kölluðu þeir landið Ísland, sem það hefir síðan heitið. Þeir Flóki ætluðu brott um sumarið og urðu búnir litlu fyrir vetur. Þeim beit eigi fyrir Reykjanes, og sleit frá þeim bátinn og þar á Herjólf. Hann tók þar sem nú heitir Herjólfshöfn. Flóki var um veturinn í Borgarfirði, og fundu þeir Herjólf. Þeir sigldu um sumarið eftir til Noregs. Og er menn spurðu af landinu þá lét Flóki illa yfir en Herjólfur sagði kost og löst af landinu, en Þórólfur sagði drjúpa smjör af hverju strái á landinu, því er þeir höfðu fundið. Því var hann kallaður Þórólfur smjör.

Síðan er sagt frá Íslandsferð fóstbræðranna Ingólfs og Hjörleifs og landnámi Ingólfs í Reykjavík. Svo er haldið áfram þaðan til vesturs og norðurs og landnámum lýst. Þar sem segir frá landnámi í Fljótum í Skagafirði, kemur þetta:
Flóki, son Vilgerðar Hörða-Káradóttur fór til Íslands og nam Flókadal, milli Flókadalsár og Reykjarhóls. Hann bjó á Mói. Flóki átti Gró, systur Þórðar frá Höfða. Þeirra son var Oddleifur stafur er bjó á Stafshóli og deildi við Hjaltasonu. Dóttir Flóka var Þjóðgerður, móðir Koðráns, föður Kárs í Vatnsdal.

Hvergi í Landnámabók, né í öðrum fornritum, segir að þetta hafi verið sami Flókinn Vilgerðarson, en fræðimenn hafa jafnan gert ráð fyrir að svo sé.

Sagan segir að Flóki Vilgerðarson hafi haft vetursetu í Vatnsfirði á Barðaströnd. Hér sést til Vatnsfjarðar af Tröllahálsi.

Fyrri ferð sína til Íslands hefur Flóki átt að fara um eða skömmu fyrir árið 870 samkvæmt Landnámabók. Síðar hefur það ekki verið því í bókinni segir að Ingólfur hafi flust til Íslands árið 874 og Flóki verið á undan honum. Miklu fyrr hefur það ekki verið ef rétt er að sami Flóki hafi numið land norður í Skagafirði. Flóki hefur þá verið uppi á síðari hluta 9. aldar og kannski litlu fyrr og/eða litlu síðar. Varðveittar gerðir Landnámabókar eru skráðar á síðari hluta 13. aldar, og rök eru til að telja að ekki hafi verið sagt frá honum í upphaflegri gerð bókarinnar sem mun hafa verið skráð á fyrri hluta 12. aldar. Flóki er hvergi nefndur í öðrum íslenskum fornritum. Íslendingabók Ara fróða, sem er meira en öld eldri en varðveittar gerðir Landnámu, nefnir hvorki hann né aðra þá norrænu menn sem gistu landið á undan Ingólfi. Hafa því liðið um fjórar aldir milli Flóka og heimilda um hann eða álíka langt og er á milli Tyrkjaránsins og okkar. Það er auðvitað meira en nógu langur tími til að myndast geti alveg tilhæfulausar sögur. Sagan af hröfnunum þremur þykir minna á frásögn Biblíunnar af Nóa sem beitti dúfu til að vísa sér á þurrt land í lok syndaflóðsins. Frásögnina af hirðuleysi Flóka að afla vetrarforða handa búfé sínu má lesa sem kennisögu um að varasamt sé að treysta á sjávarafla sér til framfæris; sá boðskapur var algengur á Íslandi. Ærin rök eru því til að véfengja að Flóki hafi nokkru sinni verið til.

Á hinn bóginn er engin leið að sanna það. Engin alger takmörk eru fyrir því hve lengi sögur af raunverulegu fólki geta varðveist þótt þær séu ekki skráðar. Ari nefnir Flóka ekki, en hann segir að Ingólfur sé sá sem „sannliga er sagt að færi fyrst þaðan [frá Noregi] til Íslands“. Þannig gefur hann í skyn að hann þekki sögur um fyrri ferðir en treysti þeim ekki, enda lítilvægar í þeirri knöppu frásögn sem Ari skrifar af sögu Íslendinga. Þá má nefna að Flóki er nefndur í norskri bók um sögu Noregs frá síðari hluta 12. aldar, sögu á latínu sem er eignuð Theodoricusi munki. Þar segir frá landnámi Ingólfs á Íslandi og bætt við, í íslenskri þýðingu: „Samt sem áður átti áðurnefndur Ingólfur tvo fyrirrennara. Sá fyrri hét Garðar, og landið var fyrst nefnt Garðarshólmur eftir honum. Sá síðari var nefndur Flóki.“ Þetta styttir fjarlægðina milli Flóka og heimilda um hann um hálfa öld og sýnir að saga Flóka var ekki búin til í eitt einasta skipti þegar Landnámabók var endurrituð á 13. öld. Ekkert er heldur því til fyrirstöðu að fleiri en Nói hafi reynt að nota fugla til að vísa sér leið til lands. Sagan af hröfnunum gæti líka verið sprottin af viðurnefni Flóka sem gæti aftur verið af öðrum uppruna. Heyleysissaga Flóka útilokar heldur engan veginn sannleiksgildi sögunnar um landkönnunarferð hans, jafnvel þótt hafi verið hægt að nota hana til að brýna fyrir mönnum að afla nægra heyja. Örnefnin sem eru nefnd í sögunni hvorki sanna neitt né afsanna. Það eina þeirra utan Íslands sem mun þekkt nú er Geirhildarvatn sem menn hafa þóst þekkja í nafninu Loch of Girlsta á Hjaltlandi. En ekkert örnefni er þekkt nú sem virðist líklegt til þess að menn hafi leitt af því nafn Flóka, eins og til dæmis virðist sennilegt að Baugsstaðir í Flóa séu nefndir eftir bug á ströndinni þar sem þeir stóðu fremur en landnámsmanninum Baugi, eins og segir í Landnámu, enda er Baugur annars óþekkt sem mannsnafn.

Stutta svarið við spurningunni er því þetta: Ég veit ekki hvort Hrafna-Flóki var til í alvöru.

Heimildir og mynd:
  • Íslenzk fornrit I. Íslendingabók. Landnámabók. Jakob Benediktsson gaf út. Reykjavík, Fornritafélag, 1968.
  • Jón Jóhannesson: Gerðir Landnámabókar. Reykjavík, Bókmenntafélag, 1941.
  • Theodoricus monachus: Historia de antiquitate regum Norwagiensium. An Account of the Ancient History of the Norwegian Kings. Translated and annotated by David and Ian McDougall, with an Introduction by Peter Foote. London, Viking Society for Northern Research, 1998.
  • Þórhallur Vilmundarson: „Safn til íslenzkrar örnefnabókar I.“ Grímnir I (1980), 57–143.
  • Mynd: Umfar · Breiðaskarð. (Sótt 2. 9. 2013).

...