Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Líklegt er að flestir fornleifafræðingar hafi haldið á málmleitartæki að minnsta kosti einu sinni, enda leitar fornleifafræðin mjög oft til annarra tækni- og vísindagreina þegar kemur að framþróun.
Fornleifafræði er fjölbreytt fag, enda eru margar hliðar á hinu liðna. Fornleifafræðingar rannsaka allt frá sameindasýnum undir smásjá að samhengi milli bæja á lands- og heimsálfuvísu, og breytingar sem eiga sér stað yfir margar aldir. Fornleifafræðingar skrifa um atburði sem ýmsir aðrir fræðimenn tjá sig um – þá helst sagnfræðingar. En hvað greinir fornleifafræðinga frá öðrum fræðimönnum? Í stuttu máli má segja að rannsóknarviður þeirra sé venjulega einhvers konar efnismenning. Fornleifafræðingar túlka liðna atburði með tilliti til mannvistarleifa. Auðvitað þurfa þessar leifar ekkert endilega að vera fornar – aðferðafræði fornleifafræðinga geta oft sagt margt um nýliðna atburði.
Það er mikilvægt að hafa hugtakið ‘aðferðafræði’ í huga þegar rætt er um fornleifafræði, enda safna fornleifafræðingar gögnum með mjög einkennandi aðferðum. Þá má helst nefna uppgröftinn sjálfan; þó eru til fjölmargar aðrar leiðir til að afla gagna um efnismenningu hins liðna.
Fornleifafræðingar grafa með ýmsum aðferðum, en þær eru allar ítarlegar og kalla á mikla teikni- og skráningarvinnu. Algengasta aðferðin (svokölluð single-context recording) krefst þess að öll jarðlög séu grafin í öfugri tímaröð, frá hinu yngsta til hins elsta. Jarðlög eru aðskilin á þeirri forsendu að hægt sé að útskýra hluta efnis innan uppgraftarsvæðis sem afleiðingu einhvers konar atburðar. Slíkir atburðir geta varað í margar aldir eða nokkur augnablik; fornleifafræðingar reyna sjaldan að tjá sig um það. Mikilvægara er að geta raðað þessum atburðum í tímalinu – atburðarás frá nútímanum að órofnu jarðlagi sem sýnir engin ummerki um mannvist. Fornleifafræðingar reyna að skilja þessa atburðarás með því að fjarlægja hið yngsta fyrst, þar til engin mannvistarummerki eru sjáanleg lengur. Það er því alls ekki markmið fornleifauppgraftar að finna málmgripi sérstaklega – allur jarðvegur innan rannsóknarsvæðis er fjarlægður og skrásettur.
Í stuttu máli er takmarkað gagn af málmleitartæki við fornleifauppgröft, en tækið bíður upp á rannsóknaraðferðir sem geta hæglega aflað gagnlegra upplýsinga um liðna atburði þegar aðstæður leyfa, þá helst við yfirborðsmælingar eða kortlagningu á uppblásnum svæðum.
Málmleitartæki nota segulsvið til að finna málmhluti á stuttu færi, sjaldan lengra en 40 cm. Sum greina einnig á milli ólíkra málma. Venjulega eru slík tæki notuð til að finna málmhluti undir yfirborði. Hvernig gæti slíkt tæki gagnast við fornleifauppgröft? Ef fjarlægja þarf yngstu jarðlög fyrst, þá er lítið gagn af vitneskju um gripi neðar í jarðveginum. Ef gripurinn situr í jarðlagi sem er eldra en hið yngsta óuppgrafna lag, þá er ekki tímabært að grafa hann upp. Ef hann tilheyrir yngsta óuppgrafna jarðlaginu, þá mun hann finnast við uppgröft, enda vanda fornleifafræðingar sig mjög við uppgröftinn. Einnig er vert að hafa í huga að vanalega er einfalt að sjá ummerki um málmhlut, þar sem tæring málms litar og breytir jarðveginum umhverfis málminn. Fyrir þær sakir er ekki algengt að sjá fornleifafræðinga nota málmleitartæki á uppgraftarsvæðum.
En hvað ef fornleifafræðingar sjá einfaldlega ekki málmgripinn við uppgröft? Þá endar hann væntanlega í fötu sem tæmd er í moldarhaug. Hér getur málmleitartækið komið að góðum notum, og hefur höfundur þessa svar séð slíkt tæki notað sem hálfgert öryggisnet til að ná málmhlutum sem fóru óvart á hauginn. Þó er slík notkun ekki algeng. Fornleifafræðingar nota frekar sigti til að forðast þetta, en sigtið gagnast að sjálfsögðu einnig til að finna mannvistarleifar sem ekki eru úr málmi, eins og viðar- og beingripi. Einnig bíður sigtið upp á mun ítarlegra öryggisnet en málmleitartækið, enda fer allur jarðvegurinn í gegnum sigtið.
Oft eru aðstæður óhentugar fyrir málmleitartæki. Málmleitartæki nema málmhluti á allt að 40 cm færi, ef stærð hlutarins leyfir.1 Einnig þarf að hafa í huga að málmur í bergi getur truflað tækið. Bergtegundir hafa iðulega eitthvað magn af járni, enda eru bergtegundir flokkaðar meðal annars af járnoxíðhlutfalli (FeO-hlutfall) þeirra. Blágrýti, algengasta bergtegundin á Íslandi, hefur hátt járnoxíðhlutfall.2 Í ljósi þess mætti segja að tækið virki ekki vel nema mannvistarlög séu innan við 40 cm frá yfirborði og bergið dýpra. Þetta er ansi þröngur gluggi.
En málmleitartæki geta þó gagnast fornleifafræðingum við ákveðnar aðstæður. Gefum okkur að fornleifafræðingur vilji rannsaka bardaga þar sem skotvopn voru notuð. Líklegt er að skotárásir hermanna hafi skilið eftir mikið magn af skothylkjum. Hér gæti málmleitartæki komið sér vel til að kortleggja helstu átakasvæði bardagans. Connor & Scott3 telja að slíka notkun megi rekja til ársins 1958, þegar Ron Rickey kortlagði staðsetningu hermanna í bardögunum í Little Bighorn og Big Hole í Montana (sjá ítarefni).
Á Íslandi var notkun málmleitartækja lengi vel bönnuð. Þau voru gerð lögleg með nýjum menningarminjalögum sem tóku gildi 1. janúar 2013 (þó ekki hljóðalaust).4 Nýlega var málmleitartæki notað við rannsókn á mögulegri höfn við Vatnsfjörð í Ísafjarðardjúpi, og ekki kæmi á óvart þó tækið skjóti oftar upp kollinum hér á landi.
Í stuttu máli er takmarkað gagn af málmleitartæki við fornleifauppgröft, en tækið bíður upp á rannsóknaraðferðir sem geta hæglega aflað gagnlegra upplýsinga um liðna atburði þegar aðstæður leyfa, þá helst við yfirborðsmælingar eða kortlagningu á uppblásnum svæðum. Þó slík tæki hafi verið bönnuð lengi á Íslandi eru þau nú lögleg, og eiga sennilega eftir að verða frekar notuð við fornleifarannsóknir.
Ítarefni:
Thomas, S. & Stone, P. (Ritstj.). (2009). Metal Detecting and Archaeology. Woodbridge: Boydell Press.
Connor, M. & Scott, D. (1998). “Metal Detector Use in Archaeology: An Introduction”. Historical Archaeology 32 (4), bls 76-85.
Gísli Pálsson. „Nota fornleifafræðingar á Íslandi málmleitartæki?“ Vísindavefurinn, 20. nóvember 2013, sótt 11. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=65813.
Gísli Pálsson. (2013, 20. nóvember). Nota fornleifafræðingar á Íslandi málmleitartæki? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=65813
Gísli Pálsson. „Nota fornleifafræðingar á Íslandi málmleitartæki?“ Vísindavefurinn. 20. nóv. 2013. Vefsíða. 11. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=65813>.