Sólin Sólin Rís 03:46 • sest 23:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:11 • Síðdegis: 18:32 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:13 • Síðdegis: 12:17 í Reykjavík

Hver var Heinrich Schliemann og hvert var hans framlag til fornfræða?

Geir Þ. Þórarinsson

Heinrich Schliemann (1822-1890).

Heinrich Schliemann var þýskur áhugamaður um fornfræði, einkum Hómer, sem gerðist eftir farsælan frama í viðskiptum áhugafornleifafræðingur.

Schliemann fæddist í Þýskalandi árið 1822. Sjálfur sagði hann að þegar hann hafi verið sjö ára hafi faðir hans gefið honum bók með kviðum Hómers en hún hafi kveikt óþrjótandi áhuga á Trójustríðinu hjá Heinrich litla. Margir efast um að sagan sé sönn en Schliemann virðist æði oft hafa farið frjálslega með sannleikann, jafnvel verið sjúklegur lygari. Hann átti skrautlegan feril í viðskiptum, meðal annars í Hollandi, Rússlandi og Norður-Ameríku, en tókst að efnast mjög svo að hann gat tiltölulega ungur hætt vinnu og einbeitt sér að öðru. Þá hafði hann meðal annars tekið þátt í gullleitaræðinu í Kaliforníu og auðgast á bankaviðskiptum, á kaffi-, te- og sykursölu Krímstríðinu og á verslun með baðmull á árum borgarastríðsins í Bandaríkjunum. Árið 1868, þá 46 ára gamall, sneri hann sér að áhugamáli sínu sem átti hug hans allan: að finna Trójuborg.

Á þessum árum var fornleifafræði ekki almennilega orðin til sem vísindaleg fræðigrein. Rústir þekktu menn vitaskuld og forna listmuni og aðrar leifar og höfðu sýnt þessu einhvern áhuga allt frá tíma ítölsku endurreisnarinnar. Sumir telja Þjóðverjann Johann Winckelmann upphafsmann klassískrar fornleifafræði á 18. öld en þótt lærðir menn væru vissulega farnir að sýna fornminjum aukinn áhuga á 17. og 18. öld var nútímafornleifafræði þó enn í startholunum en hafði verið að gerjast frá fyrri hluta 19. aldar. Hún átti einmitt eftir að sækja mikinn innblástur annars vegar til uppgötvana Schliemanns sjálfs og hins vegar til uppgrafta í Pompeii og víðar á Ítalíu en fyrir tíma Schliemanns og raunar Winckelmanns beindist áhuginn síður að Grikklandi en Ítalíu.

Kviður Hómers voru á þessum tíma taldar vera einungis bókmenntaverk, sem þær vissulega eru – þær eru ekki sagnaritun. En bókmenntaverk geta samt haft heimildagildi bæði um samfélag ritunartíma síns og ef til vill að einhverju marki um eldri tíma líka ef einhver munnleg hefð býr að baki þeim (eins og við vitum nú að er tilfellið um kviður Hómers). Schliemann var sannfærður um að að eitthvert sannleikskorn hlyti að leynast í kviðunum þótt fæstir samtímamenn hans tækju undir það; hann var sannfærður um að Trója hlyti að hafa verið til þótt flestir samtímamenn hans teldu hana vera uppspuna Hómers.

Fræg ljósmynd af Sophiu, konu Schliemanns, íklæddri skarti frá Hisarlik.

Schliemann kynntist breska áhugafornleifafræðingnum Frank Calvert í Tyrklandi en Calvert hafði leitað að Tróju í við norðvesturströnd Tyrklands, skammt frá Hellusundi. Hann lagði til að Schliemann leitaði á svæði sem heitir Hisarlik en Charles Maclaren hafði fyrst árið 1822 giskað á að þær væri hin forna Trója. Schliemann fór fjóra leiðangra til Hisarlik á árunum 1871 til 1890 (en var þó byrjaður að grafa án leyfis árið 1870) og fann þar merkar fornminjar. Í maí 1873 fann hann miklar gersemar sem hann taldi vera fjársjóð Príamosar konungs. Fræg ljósmynd er til af konu hans Sophiu íklæddri skartinu. Þannig var Schliemann alltaf duglegur að vekja mikla eftirtekt. Hann gróf upp Mýkenuborg á Pelópsskaga á árunum 1874–1876 og þóttist þá hafa fundið helgrímu Agamemnons. Hann boðaði til blaðamannafundar en áður en blaðamenn komu á staðinn fann hann tignarlegri grímu til að sýna þeim og kynnti þeim þá grímu í stað hinnar sem helgrímu Agamemnons. Árið 1884 tókst honum einnig að finna borgina Tiryns.

Uppgötvanir Schliemanns voru afar merkilegar og ollu þær straumhvörfum í bronsaldarrannsóknum á Eyjahafssvæðinu. Í kjölfarið á uppgötvunum hans var strax hafist handa við að grafa í Ólympíu, Aþenu, Kórinþu, Delfí, Delos og víðar. Fyrir aldamótin var klassísk fornleifafræði eiginlega orðin til. Um og eftir aldamótin stýrði Bretinn sir Arthur John Evans svo uppgrefti á Knossos á Krít þar sem fyrstu minjar höfðu fundist rúmum tveimur áratugum áður. Þar uppgötvaði hann hallarmenningu Mínóanna svonefndu en þeir byggðu Grikkland áður en grískumælandi menn komu. Blómaskeið mínóísku menningarinnar er talið vera frá um 3000 f.Kr. til um 1450 f.Kr. og eru endalok þess oft talin tengjast náttúruhamförum í kjölfarið á eldgosi í eyjunni Þera (Santorini). Bæði í Knossos og á meginlandinu í borgunum Mýkenu, Tiryns, Pýlos og víðar fundust töflur með illskiljanlegri skrift sem kölluð hefur verið línuletur B. Um miðja 20. öld tókst Michael Ventris að ráða línuletur B og reyndist það vera ævaforn grísk mállýska, nefnd mýkenska eftir Mýkenumenningunni svonefndu sem var ríkjandi á svæðinu á síðbronsöld frá um 1600 til 1100 f.Kr. Enn eldra letur, línuletur A, hefur enn ekki verið ráðið þótt ýmsar tilgátur séu til en ekki er útlit fyrir að það takist nema fleiri töflur finnist því úrtakið er of lítið. Ein afleiðingin af uppgötvunum Schliemanns og Evans er þá tilurð mýkenufræða, það er rannsókna á Grikklandi bronsaldar. Þær rannsóknir hafa lagt heilmikið til heildarmyndar okkar af Grikklandi hinu forna. Svo dæmi sé tekið vitum við vegna línuleturs B að guðinn Díonýsos var dýrkaður í Grikklandi mun fyrr en áður var talið. Á klassískum tíma töldu Grikkir sjálfir að hann hefði komið til þeirra fyrir erlend áhrif en nafn hans kemur fyrir í línuletur B-töflum og virðist hann því hafa verið dýrkaður í Grikklandi í síðbronsöld. Þekking okkar á Grikklandi hinu forna teygir sig nú aftur til síðbronsaldar og við vitum líka um mínóíska menningu. Án fornleifarannsókna, sem Schliemann var innblástur fyrir, væri þessi þekking ekki til.

Þótt uppgötvanir Schliemanns hafi verið mikill innblástur hafa aðferðir hans samt ekki þótt til eftirbreytni. Hann hefur verið gagnrýndur fyrir óvísindalegar aðferðir og hreint út sagt vafasama starfshætti. Schliemann taldi að Trója Príamosar konungs hlyti að vera neðsta lagið undir Hisarlik. Hann gróf strax eins djúpt og hann gat, skeytti ekkert um yngri leifar og olli jafnvel einhverjum skemmdum. Ákafinn var meiri en vandvirknin enda var áhugi hans á efninu kannski ekki beint vísindalegur. Schliemann vildi öðru fremur komast í snertingu við heim Hómerskviða með einhverjum hætti. Hann vildi finna gersemar, fjársjóði sjálfra Príamosar og Agamemnons, frekar en að öðlast fræðilegan skilning á öllum hliðum hinnar fornu menningu. Þess vegna hafði Schliemann minni áhuga á sumum minjum en öðrum enda þótt þær væru fræðunum ef til vill gríðarlega mikilvægar. Þegar Schliemann tókst að finna forna skartgripi blandaði hann þeim saman til að fjársjóðurinn virtist stærri og tignarlegri. En munirnir komu úr ólíkum stöðum á svæðinu og voru misgamlir, alla vega þúsund árum eldri en mannvistarleifarnar sem hann leitaði að (sumt af því sem hann skemmdi tilheyrði einmitt þeim tíma sem hann vildi rannsaka). Svo nam hann á brott gersemarnar sem hann fann, sendi þær fyrst til Grikklands, svo til Þýskalands. Þar voru þær lengi á Berlínarsafni en hurfu í lok heimsstyrjaldarinnar síðari. Eftir fall Sovétríkjanna kom í ljós að þær hafa verið frá stríðslokum á Pushkinsafninu í Moskvu.

Skömmu eftir andlát Schliemanns árið 1890 stundaði Wilhelm Dörpfeld uppgröft í Hisarlik og einni kynslóð síðar eða á 4. áratug 20. aldar stýrði Carl Blegen frá Cincinnati-háskóla þar uppgrefti. Nú var orðið ljóst að borgarstæðin á svæðinu voru alls níu og elstu minjar frá um 3000 f.Kr. Níunda og yngsta borgin var rómversk og stóð frá 1. öld f.Kr. til loka fornaldar um 500 e.Kr. Trója VIII var grísk borg sem stóð frá um 700-85 f.Kr. Sú Trója sem tilheyrir sögutíma Hómers er annaðhvort sú sjötta eða sjöunda talin að neðan, oftast álitin vera Trója VIIa (því sjöunda laginu er skipt í tvennt). Trója VI virðist hafa farist í jarðskjálfta um 1250 f.Kr. en Trója VIIa virðist hafa verið umsetin einhvern tímann um 1230-1180 f.Kr. eða um það bil þegar Trójustríð Hómers á að hafa átt sér stað. Árið 1988 hófst enn einn uppgröfturinn undir stjórn Manfreds Korfmann. Þá uppgötvuðust ytri varnargarðar – borgin var sem sagt allt að fimmtán sinnum stærri en áður hafði verið talið og einungis háborgin grafin upp fram að þessu – auk neðanjarðarganga, sem gefa til kynna að Trója og Hittítaborgin Wilusa hafi verið sama borgin, og vísbendingar fundust um að borgin hafi verið umsetin, til dæmis örvaoddar úr bronsi, brunarústir og fleira. Segja má að allir þessir uppgreftir, öll þessi þekking sem af þeim leiddi, sé óbeint framlag Schliemanns til fræðanna. Sjálfur samdi hann bók um Tróju sem kom út árið 1881, Ilios: borg og land Trójumanna. Fræðilegt gildi hennar er nánast ekkert.

Heimildir og ítarefni:
  • Cline, Eric H. The Trojan War: A Very Short Introduction (Oxford University Press, 2013).
  • Dyson, Stephen L. In Pursuit of Ancient Pasts: A History of Classical Archaeology in the Nineteenth and Twentieth Centuries (Yale University Press, 2006).
  • Pomeroy, Sarah B. o.fl. A Brief History of Ancient Greece: Politics, Society and Culture 2. útg. (Oxford University Press, 2009 [2004]).
  • Shanks, Michael. Classical Archaeology of Greece: Experiences of the Discipline (Routledge, 1996).

Myndir:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

7.11.2013

Spyrjandi

Tinna Reynisdóttir, Ásgerður Snævarr

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hver var Heinrich Schliemann og hvert var hans framlag til fornfræða?“ Vísindavefurinn, 7. nóvember 2013. Sótt 23. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=66143.

Geir Þ. Þórarinsson. (2013, 7. nóvember). Hver var Heinrich Schliemann og hvert var hans framlag til fornfræða? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=66143

Geir Þ. Þórarinsson. „Hver var Heinrich Schliemann og hvert var hans framlag til fornfræða?“ Vísindavefurinn. 7. nóv. 2013. Vefsíða. 23. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=66143>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Heinrich Schliemann og hvert var hans framlag til fornfræða?

Heinrich Schliemann (1822-1890).

Heinrich Schliemann var þýskur áhugamaður um fornfræði, einkum Hómer, sem gerðist eftir farsælan frama í viðskiptum áhugafornleifafræðingur.

Schliemann fæddist í Þýskalandi árið 1822. Sjálfur sagði hann að þegar hann hafi verið sjö ára hafi faðir hans gefið honum bók með kviðum Hómers en hún hafi kveikt óþrjótandi áhuga á Trójustríðinu hjá Heinrich litla. Margir efast um að sagan sé sönn en Schliemann virðist æði oft hafa farið frjálslega með sannleikann, jafnvel verið sjúklegur lygari. Hann átti skrautlegan feril í viðskiptum, meðal annars í Hollandi, Rússlandi og Norður-Ameríku, en tókst að efnast mjög svo að hann gat tiltölulega ungur hætt vinnu og einbeitt sér að öðru. Þá hafði hann meðal annars tekið þátt í gullleitaræðinu í Kaliforníu og auðgast á bankaviðskiptum, á kaffi-, te- og sykursölu Krímstríðinu og á verslun með baðmull á árum borgarastríðsins í Bandaríkjunum. Árið 1868, þá 46 ára gamall, sneri hann sér að áhugamáli sínu sem átti hug hans allan: að finna Trójuborg.

Á þessum árum var fornleifafræði ekki almennilega orðin til sem vísindaleg fræðigrein. Rústir þekktu menn vitaskuld og forna listmuni og aðrar leifar og höfðu sýnt þessu einhvern áhuga allt frá tíma ítölsku endurreisnarinnar. Sumir telja Þjóðverjann Johann Winckelmann upphafsmann klassískrar fornleifafræði á 18. öld en þótt lærðir menn væru vissulega farnir að sýna fornminjum aukinn áhuga á 17. og 18. öld var nútímafornleifafræði þó enn í startholunum en hafði verið að gerjast frá fyrri hluta 19. aldar. Hún átti einmitt eftir að sækja mikinn innblástur annars vegar til uppgötvana Schliemanns sjálfs og hins vegar til uppgrafta í Pompeii og víðar á Ítalíu en fyrir tíma Schliemanns og raunar Winckelmanns beindist áhuginn síður að Grikklandi en Ítalíu.

Kviður Hómers voru á þessum tíma taldar vera einungis bókmenntaverk, sem þær vissulega eru – þær eru ekki sagnaritun. En bókmenntaverk geta samt haft heimildagildi bæði um samfélag ritunartíma síns og ef til vill að einhverju marki um eldri tíma líka ef einhver munnleg hefð býr að baki þeim (eins og við vitum nú að er tilfellið um kviður Hómers). Schliemann var sannfærður um að að eitthvert sannleikskorn hlyti að leynast í kviðunum þótt fæstir samtímamenn hans tækju undir það; hann var sannfærður um að Trója hlyti að hafa verið til þótt flestir samtímamenn hans teldu hana vera uppspuna Hómers.

Fræg ljósmynd af Sophiu, konu Schliemanns, íklæddri skarti frá Hisarlik.

Schliemann kynntist breska áhugafornleifafræðingnum Frank Calvert í Tyrklandi en Calvert hafði leitað að Tróju í við norðvesturströnd Tyrklands, skammt frá Hellusundi. Hann lagði til að Schliemann leitaði á svæði sem heitir Hisarlik en Charles Maclaren hafði fyrst árið 1822 giskað á að þær væri hin forna Trója. Schliemann fór fjóra leiðangra til Hisarlik á árunum 1871 til 1890 (en var þó byrjaður að grafa án leyfis árið 1870) og fann þar merkar fornminjar. Í maí 1873 fann hann miklar gersemar sem hann taldi vera fjársjóð Príamosar konungs. Fræg ljósmynd er til af konu hans Sophiu íklæddri skartinu. Þannig var Schliemann alltaf duglegur að vekja mikla eftirtekt. Hann gróf upp Mýkenuborg á Pelópsskaga á árunum 1874–1876 og þóttist þá hafa fundið helgrímu Agamemnons. Hann boðaði til blaðamannafundar en áður en blaðamenn komu á staðinn fann hann tignarlegri grímu til að sýna þeim og kynnti þeim þá grímu í stað hinnar sem helgrímu Agamemnons. Árið 1884 tókst honum einnig að finna borgina Tiryns.

Uppgötvanir Schliemanns voru afar merkilegar og ollu þær straumhvörfum í bronsaldarrannsóknum á Eyjahafssvæðinu. Í kjölfarið á uppgötvunum hans var strax hafist handa við að grafa í Ólympíu, Aþenu, Kórinþu, Delfí, Delos og víðar. Fyrir aldamótin var klassísk fornleifafræði eiginlega orðin til. Um og eftir aldamótin stýrði Bretinn sir Arthur John Evans svo uppgrefti á Knossos á Krít þar sem fyrstu minjar höfðu fundist rúmum tveimur áratugum áður. Þar uppgötvaði hann hallarmenningu Mínóanna svonefndu en þeir byggðu Grikkland áður en grískumælandi menn komu. Blómaskeið mínóísku menningarinnar er talið vera frá um 3000 f.Kr. til um 1450 f.Kr. og eru endalok þess oft talin tengjast náttúruhamförum í kjölfarið á eldgosi í eyjunni Þera (Santorini). Bæði í Knossos og á meginlandinu í borgunum Mýkenu, Tiryns, Pýlos og víðar fundust töflur með illskiljanlegri skrift sem kölluð hefur verið línuletur B. Um miðja 20. öld tókst Michael Ventris að ráða línuletur B og reyndist það vera ævaforn grísk mállýska, nefnd mýkenska eftir Mýkenumenningunni svonefndu sem var ríkjandi á svæðinu á síðbronsöld frá um 1600 til 1100 f.Kr. Enn eldra letur, línuletur A, hefur enn ekki verið ráðið þótt ýmsar tilgátur séu til en ekki er útlit fyrir að það takist nema fleiri töflur finnist því úrtakið er of lítið. Ein afleiðingin af uppgötvunum Schliemanns og Evans er þá tilurð mýkenufræða, það er rannsókna á Grikklandi bronsaldar. Þær rannsóknir hafa lagt heilmikið til heildarmyndar okkar af Grikklandi hinu forna. Svo dæmi sé tekið vitum við vegna línuleturs B að guðinn Díonýsos var dýrkaður í Grikklandi mun fyrr en áður var talið. Á klassískum tíma töldu Grikkir sjálfir að hann hefði komið til þeirra fyrir erlend áhrif en nafn hans kemur fyrir í línuletur B-töflum og virðist hann því hafa verið dýrkaður í Grikklandi í síðbronsöld. Þekking okkar á Grikklandi hinu forna teygir sig nú aftur til síðbronsaldar og við vitum líka um mínóíska menningu. Án fornleifarannsókna, sem Schliemann var innblástur fyrir, væri þessi þekking ekki til.

Þótt uppgötvanir Schliemanns hafi verið mikill innblástur hafa aðferðir hans samt ekki þótt til eftirbreytni. Hann hefur verið gagnrýndur fyrir óvísindalegar aðferðir og hreint út sagt vafasama starfshætti. Schliemann taldi að Trója Príamosar konungs hlyti að vera neðsta lagið undir Hisarlik. Hann gróf strax eins djúpt og hann gat, skeytti ekkert um yngri leifar og olli jafnvel einhverjum skemmdum. Ákafinn var meiri en vandvirknin enda var áhugi hans á efninu kannski ekki beint vísindalegur. Schliemann vildi öðru fremur komast í snertingu við heim Hómerskviða með einhverjum hætti. Hann vildi finna gersemar, fjársjóði sjálfra Príamosar og Agamemnons, frekar en að öðlast fræðilegan skilning á öllum hliðum hinnar fornu menningu. Þess vegna hafði Schliemann minni áhuga á sumum minjum en öðrum enda þótt þær væru fræðunum ef til vill gríðarlega mikilvægar. Þegar Schliemann tókst að finna forna skartgripi blandaði hann þeim saman til að fjársjóðurinn virtist stærri og tignarlegri. En munirnir komu úr ólíkum stöðum á svæðinu og voru misgamlir, alla vega þúsund árum eldri en mannvistarleifarnar sem hann leitaði að (sumt af því sem hann skemmdi tilheyrði einmitt þeim tíma sem hann vildi rannsaka). Svo nam hann á brott gersemarnar sem hann fann, sendi þær fyrst til Grikklands, svo til Þýskalands. Þar voru þær lengi á Berlínarsafni en hurfu í lok heimsstyrjaldarinnar síðari. Eftir fall Sovétríkjanna kom í ljós að þær hafa verið frá stríðslokum á Pushkinsafninu í Moskvu.

Skömmu eftir andlát Schliemanns árið 1890 stundaði Wilhelm Dörpfeld uppgröft í Hisarlik og einni kynslóð síðar eða á 4. áratug 20. aldar stýrði Carl Blegen frá Cincinnati-háskóla þar uppgrefti. Nú var orðið ljóst að borgarstæðin á svæðinu voru alls níu og elstu minjar frá um 3000 f.Kr. Níunda og yngsta borgin var rómversk og stóð frá 1. öld f.Kr. til loka fornaldar um 500 e.Kr. Trója VIII var grísk borg sem stóð frá um 700-85 f.Kr. Sú Trója sem tilheyrir sögutíma Hómers er annaðhvort sú sjötta eða sjöunda talin að neðan, oftast álitin vera Trója VIIa (því sjöunda laginu er skipt í tvennt). Trója VI virðist hafa farist í jarðskjálfta um 1250 f.Kr. en Trója VIIa virðist hafa verið umsetin einhvern tímann um 1230-1180 f.Kr. eða um það bil þegar Trójustríð Hómers á að hafa átt sér stað. Árið 1988 hófst enn einn uppgröfturinn undir stjórn Manfreds Korfmann. Þá uppgötvuðust ytri varnargarðar – borgin var sem sagt allt að fimmtán sinnum stærri en áður hafði verið talið og einungis háborgin grafin upp fram að þessu – auk neðanjarðarganga, sem gefa til kynna að Trója og Hittítaborgin Wilusa hafi verið sama borgin, og vísbendingar fundust um að borgin hafi verið umsetin, til dæmis örvaoddar úr bronsi, brunarústir og fleira. Segja má að allir þessir uppgreftir, öll þessi þekking sem af þeim leiddi, sé óbeint framlag Schliemanns til fræðanna. Sjálfur samdi hann bók um Tróju sem kom út árið 1881, Ilios: borg og land Trójumanna. Fræðilegt gildi hennar er nánast ekkert.

Heimildir og ítarefni:
  • Cline, Eric H. The Trojan War: A Very Short Introduction (Oxford University Press, 2013).
  • Dyson, Stephen L. In Pursuit of Ancient Pasts: A History of Classical Archaeology in the Nineteenth and Twentieth Centuries (Yale University Press, 2006).
  • Pomeroy, Sarah B. o.fl. A Brief History of Ancient Greece: Politics, Society and Culture 2. útg. (Oxford University Press, 2009 [2004]).
  • Shanks, Michael. Classical Archaeology of Greece: Experiences of the Discipline (Routledge, 1996).

Myndir:

...