Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Stutta svarið er já, tíð höfuðhögg í æsku geta haft afleiðingar síðar á lífsleiðinni.
Höfuðhögg er algengasta orsök heilahristings og alvarlegri heilaáverka. Heilahristingur, með einkennum svo sem tímabundinni ógleði og svima, er vægasta form heilaáverka. Það að rotast og muna ekki það sem gerðist eru vísbendingar um alvarlegri heilaáverka. Að öðru jöfnu virðast börn þola verr höfuðhögg og heilaáverka en fullorðnir.
Jafnvel létt höfuðhögg getur breytt lögun heilans, en sem betur fer þolir heilinn höfuðhögg að ákveðnu marki. Þyngri höfuðhögg valda meira álagi á heilafrumur og heilavef og tognun og snúningi á taugasímum og taugabrautum. Höfuðhögg sem valda heilahristingi og endurtekin léttari höfuðhögg á stuttu tímabili koma af stað röð sjúklegra efnafræðilegra og lífeðlisfræðilegra breytinga í taugafrumum, taugasímum og taugaendum heilans. Þegar heilaáverkinn er vægur og einstaklingurinn gætir þess að ofreyna sig ekki eftir áverka, er batinn oft góður og einstaklingurinn virðist ná sér að fullu á nokkrum dögum eða vikum. Þegar höggið er þyngra eða endurtekið eru auknar líkur til þess að sjúklegar breytingar á heilavef og taugasímum leiði til varanlegs skaða og þrálátra einkenna. Íslensk rannsókn hefur gefið til kynna að þyngd höfuðhöggs og fjöldi höfuðhögga hafi mesta forspá um batahorfur.1
Höfuðhögg í æsku geta haft afleiðingar síðar á lífsleiðinni.
Ef höfuðhögg leiðir til varanlegra sjúklegra breytinga í heila og þrálátra einkenna í æsku má búast við því að afleiðingar skaðans fylgi einstaklingnum alla ævi. Einkennin geta hins vegar tekið breytingum með aldri og með þeim kröfum sem einstaklingurinn mætir. Stundum virðast einkennin ekki taka miklum breytingum með aldri. Í öðrum tilvikum kann einstaklingurinn að vaxa inn í aukinn vanda með aldri og auknum kröfum umhverfisins og í enn öðrum tilvikum kann svo að virðast sem einkennin nánast hverfi. Það ber þó að hafa í huga að heili sem hefur orðið fyrir skaða af völdum höfuðhöggs kann að eiga erfiðara með að takast á við önnur áföll eða aldurstengdar breytingar síðar á ævinni.
Vísbendingar eru um að tíð höfuðhögg á ungum aldri, til dæmis í hnefaleikum, geti aukið líkur á eða flýtt aldurstengdri hrörnun heilans eða hrörnunarsjúkdómum síðar á ævinni.
Langtímaafleiðingar höfuðhögga geta verið líkamlegar (til dæmis höfuðverkur, þreyta og svimi), hugrænar (til dæmis minnis- og einbeitingarerfiðleikar) og snert líðan (til dæmis kvíði, depurð eða reiði) og atferli og aðlögun (til dæmis pirringur eða hvatvísi).
Af þessu sést að mikilvægt er að draga úr líkum á höfuðhöggum meðal barna og unglinga. Þegar heilahristingur eða heilaáverki verður er mikilvægt að bregðast rétt við og forða meiri skaða. Heili sem er í bataferli er viðkvæmur fyrir of miklu áreiti og álagi. Endurtekin höfuðhögg, heilahristingur og aðrir heilaáverkar eru ógn við hugræna heilsu fólks á öllum aldri.
Tilvísun: 1 Jónas G. Halldórsson, 2013. Heilaáverkar á íslenskum börnum, unglingum og ungu fólki á fullorðinsaldri. Nýgengi, algengi, lang tímaafleiðingar og batahorfur. Ritgerð til doktorsgráðu.
Myndir:
Jónas G. Halldórsson. „Geta afleiðingar tíðra höfuðhögga í æsku komið fram seinna á lífsleiðinni?“ Vísindavefurinn, 20. febrúar 2014, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=66194.
Jónas G. Halldórsson. (2014, 20. febrúar). Geta afleiðingar tíðra höfuðhögga í æsku komið fram seinna á lífsleiðinni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=66194
Jónas G. Halldórsson. „Geta afleiðingar tíðra höfuðhögga í æsku komið fram seinna á lífsleiðinni?“ Vísindavefurinn. 20. feb. 2014. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=66194>.